Úr Einnar stjörnu nótt:
Sýnir næturvarðarins
Ég hef séð sólina koma upp og daginn lengja
heyrt raddir barnanna í garðinum og hlustað
á kurr dúfunnar í þakrennunni séð kvöldið
setjast á húsþökin og tunglið dreyma um
bjartar nætur ég hef séð morgninum blæða út
í göturæsinu skýjunum kastað á himininn
eins og krumpuðu laki og dagana slædda
uppúr mórauðu síki hlustað á nóttina lemja
blautum greinum utaní dauðadæmd hús séð
tunglið hanga í gráum gálga dögunar
og svartklæddar verur skjótast undir öxinni
sem reidd er yfir borgina séð skugga af
tárum á saklausum marmarakinnum englanna
og horft ofaní botnlausa gröf undir klofinni
eik allt þetta hef ég séð og ég heyri sífellt
eins og einhver sé að skrúfa hurðirnar fastar
meðan ég sef