Æviágrip
Ragnheiður Gestsdóttir fæddist í Reykjavík þann 1. maí 1953. Hún lauk kennaraprófi frá Kennaraskóla Íslands 1973 og prófi í listasögu frá háskólanum í Árósum 1979. Ragnheiður stundaði einnig nám við Myndlista- og handíðaskóla Íslands og í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.
Ragnheiður starfaði sem kennari í nokkrum skólum á höfuðborgarsvæðinu um árabil og var ritstjóri hjá Námsgagnastofnun frá 1990 – 1996. Hún hefur bæði myndskreytt og skrifað bækur fyrir börn og unglinga, en fyrsta bók hennar, Ljósin lifna, kom út árið 1985. Ragnheiður hefur endursagt og myndskreytt þekkt íslensk ævintýri, meðal annars Söguna af Hlina konungssyni. Unglingasögur hennar hafa vakið mikla athygli og hlaut Ragnheiður Norrænu barnabókaverðlaunin árið 2005 fyrir Sverðberann. Sama bók hlaut Barnabókaverðlaun Menntaráðs Reykjavíkur árið 2004 en Ragnheiður fékk einnig sömu verðlaun fyrir unglingabókina 40 vikur árið 2001 og Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Leik á borði árið 2000. Þá heiðraði IBBY á Íslandi hana fyrir ritstörf með Vorvindum félagsins árið 2005.
Ragnheiður hefur einnig skrifað bækur fyrir fullorðna og hlaut hún Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir skáldsöguna Farangur árið 2022.
Ragnheiður Gestsdóttir býr í Hafnarfirði. Hún er gift og á fjögur uppkomin börn.
Útgefandi: Mál og menning.
Um höfund
Um verk Ragnheiðar Gestsdóttur
Fyrsta skáldsaga Ragnheiðar Gestsdóttur er Leikur á borði (2000) en hún vann til íslensku barnabókaverðlaunanna árið 2000. Bókin fjallar um Sóleyju sem býr ásamt móður sinni í gömlu og notalegu húsi en faðir hennar er búsettur erlendis í upphafi bókar. Móðir Sóleyjar er hljóðfæraleikari og lifir og hrærist í list sinni. Sóleyju finnst hún ekki aðeins bera ábyrgð á sér og móður sinni, sem á það til að vera svolítið utan við sig, heldur heimilislífinu öllu. Sóley er afbragðsnemandi en á enga vini í skólanum og er lögð í einelti, en eins og fram kemur í sögunni þarf ekki mikið til að verða fyrir barðinu á því. Sóley skilur sig frá hinum krökkunum að því leytinu til að hún hefur ríka ábyrgðartilfinningu, er róleg og yfirveguð, en er fyrir vikið álitin kennarasleikja og það virðist vera nóg til að koma af stað illkvittni og leiðindum í hennar garð.
Líf Sóleyjar tekur töluverðum breytingum þegar ný stelpa kemur í bekkinn. Nýja stelpan, Linda, tekur að vísu ekki við sem fórnarlamb bekkjarfélaganna, en verður þó til þess að athygli krakkanna beinist að öðru um stundarsakir. Linda er töffari og lætur fátt á sig fá en á milli hennar og Sóleyjar myndast djúpur skilningur þó hvorug þeirra kunni að koma orðum að honum eða skilji hann einu sinni sjálfar. Linda ver Sóleyju fyrir árásum bekkjarfélagana en er þó fálát í samskiptum við Sóleyju sem á erfitt með að átta sig á henni. Með tímanum þróast þó með þeim vinátta og Sóley áttar sig á því að Linda þarf, eins og hún sjálf, að bera mikla ábyrgð á heimili sínu. Hún hefur umsjón með yngri systkinum sínum og finnst hún sjálf bera ábyrgð á fjármálum heimilisins til jafns við foreldra sína.
Á sama tíma og vinátta Sóleyjar og Lindu þróast hægt áfram flytur pabbi Sóleyjar til Íslands ásamt nýrri eiginkonu sinni. Sóley á erfitt með að sætta sig við þessa skyndilegu breytingu á högum föður síns og það að hún þurfi nú að deila honum með annari manneskju, en eins og títt er um skilnaðarbörn býr sú von ávallt innra með henni að foreldrarnir taki saman að nýju, þó hún viti einnig innst inni að það muni ekki gerast. Af þeim sökum er töluvert rót á hugsunum og tilfinningum Sóleyjar en steininn tekur úr þegar bekkjarfélagar hennar ráðast á hana einn daginn í skólanum. Þau misþyrma Sóleyju illa og hún er lengi að ná sér, fremur þó andlega en líkamlega. Við þessa fólskulegu árás vakna foreldrar Sóleyjar til vitundar um það hversu mikið dóttir þeirra hefur tekið á sig og hvernig hún hefur hlíft sínum nánustu fyrir vandamálum sínum.
Linda og Sóley hjálpa hvorri annarri í gegnum erfiða tíma í lífi þeirra beggja og hjálpast að við að leysa vandamál sem hvorug þeirra getur glímt við óstudd. Þrátt fyrir að fjalla um einelti og stelpu sem eignast vinkonu sem bjargar henni að vissu leyti undan eineltinu er bókin algerlega laus við klisjur og væmni og tekið er á málunum á alvarlegan og yfirvegaðan hátt. Ástandið er á engan hátt fegrað en samtímis skín í gegn hvers virði það er að eiga vin í raun og hversu mikilvægu hlutverki foreldrarnir gegna í lífi barna sinna því vandamálin sem þær vinkonur glíma við spretta að vissu marki af samskiptaleysi við foreldrana.
Titill bókarinnar Leikur á borði vísar til þess að Sóley og afi hennar tefla gjarnan eina skák eða svo þegar Sóley heimsækir ömmu sína og afa en þau veita henni mikilvæga fótfestu í lífinu. Titillinn vísar einnig til þess hversu hverfult lífið er og hvernig einn leikur á borði getur breytt öllu.
Næsta bók Ragnheiðar, 40 vikur (2001) vakti mikla og verðskuldaða athygli þegar hún kom út. Bókin fjallar um Sunnu sem er í upphafi bókar að ljúka vorprófunum í tíunda bekk. Eftir prófin hittir hún, ásamt bestu vinkonu sinni, fleiri krakka úr bekknum en þar á meðal er aðalsjarmörinn, Biggi. Í fyrsta sinn er Sunna ekki lokuð og feimin heldur upplifir sig sem sæta, hressa og opna stelpu, eða öllu heldur unga konu. Sunna og Biggi enda kvöldið saman, bæði undir áhrifum áfengis en þó nokkurn veginn með fullri rænu.
Eftir þessa fyrstu reynslu Sunnu af ástinni kemur fljótlega í ljós að ekki er allt eins og það á að vera og hin mikla talning hefst. Dagarnir frá síðustu blæðingum eru reiknaðir fram og aftur og brátt áttar Sunna sig á því að hún er ólétt. Hún fær grun sinn staðfestan eftir að hafa haft sig í að kaupa sér óléttuprufu og í huga hennar taka við sálarangist, vonleysi og ringulreið. Þegar hún hefur loksins safnað nægum kjarki til að segja mömmu sinni frá þunguninni vill móðirin senda hana í fóstureyðingu en í ljós kemur að það er orðið of seint og Sunna ákveður, að vissu leyti tilneydd, að ganga með barnið og eiga það.
Út á við heldur líf Sunnu áfram óbreytt á meðan á meðgöngunni stendur, hún fer í framhaldsskóla, hittir vini sína og fer á kóræfingar, en innra með henni á hún enn í miklu sálarstríði. Biggi er ekki inni í myndinni lengur og tilhugsunin um að ala upp og annast barn ein virðist henni nánast ókleift fjall. Framtíð hennar sem virtist áður bein og breið og var öll löngu ákveðin, á allt í einu ekki lengur við og draumarnir sem hún hafði byggt upp um skólagöngu og frama virðast allt í einu óraunsæjir og fjarstæðukenndir.
Ofan á þessar hugsanir Sunnu bætast veikindi á meðgöngunni, en þegar Sunna óttast um að hafa misst fóstrið myndast allt í einu tengsl milli hennar og barnsins sem hún hafði áður átt erfitt með að sætta sig við. Þegar þessir erfiðleikar steðja að ákveður Sunna að takast á við hvað sem kann að verða og viðhorfsbreyting hennar og þroskastökk eru mjög greinileg. Hún er ekki lengur áttavillt unglingsstelpa heldur ábyrgðarfull verðandi móðir. Þegar dóttir Sunnu fæðist í lok bókar er Sunna gjörbreytt manneskja sem veit hvað hún vill og berst fyrir því sem er henni mikilvægt.
Þroskinn sem Sunna tekur út í sögunni er afar trúverðugur og vekur lesandann til umhugsunar um hvernig er hægt að takast á við ófyrirséða atburði á jákvæðan og uppbyggilegan hátt. Lesandinn fær mikla samúð með Sunnu enda heilsteypt og vönduð persóna og eru lýsingarnar á upplifun hennar bæði á meðgöngunni og fæðingunni bæði sársaukafullar og afar fallegar.
Nýjasta bók Ragnheiðar er Sverðberinn (2004) og fjallar hún að vissu leyti um það að þroskast og læra að takast á við lífið þó það sé gert á töluvert annan hátt en í fyrri unglingabókum hennar. Sverðberinn fjallar um unglingsstúlkuna Signýju sem notar hlutverkaleiki til að flýja vandamál heimafyrir, ósætti milli foreldranna og eldri bróður sem er í neyslu. Einhvers staðar í fortíð fjölskyldunnar býr einnig alvarlegt slys sem bróðirinn átti þátt í og hefur sundrað fjölskyldunni.
Hlutverkaleikurinn gengur þannig fyrir sig að þau safnast nokkur saman, ágætis vinir, og búa sér til annan heim, ævintýraheim sem lýtur öðrum lögmálum en okkar venjulegi hversdagslegi heimur. Krakkarnir sem taka þátt í leiknum búa sér til persónur sem þau leika í leiknum, en leikurinn er spilaður meira eins og borðspil, frekar en að vera leikinn eins og leikrit.
Í upphafi bókar heldur Signý á fund með félögum sínum úr hlutverkaleiknum, en það sama kvöld uppgötva hún og Hlynur, sem er einn strákanna úr hópnum, að þau eru að verða ástfangin hvort af öðru. Kvöldið endar þó með ósköpum þar sem hópurinn lendir í alvarlegu bílslysi en Signý og Hlynur eru þau sem slasast mest. Signýju er haldið sofandi í öndunarvél fyrst um sinn en eftir einhvern tíma er öndunarvélin fjarlægð og þess beðið að Signý vakni. Slysið hefur þau áhrif á fjölskyldu Signýjar að foreldrar og systkini færast nær hverju öðru, vandamálin og gamlar syndir eru dregnar upp á yfirborðið og fjölskyldan fær loksins tækifæri til að vinna almennilega úr atburðum sem hafa verið bældir niður, svo sem sektarkennd foreldranna yfir örlögum bróður Signýjar.
Dásvefn Signýjar varir lengur en eðlilegt er og veldur læknum töluverðum áhyggjum en fyrir honum er ástæða sem þá og fjölskyldu Signýja órar ekki fyrir. Signý hefur horfið inn í heim ævintýrisins, heiminn sem hún og félagar hennar hafa skapað í hlutverkaleiknum. Þar verður hún að takast á við þunga þraut sem fyrir hana er lögð, en sér til aðstoðar hefur hún eftirmyndir eða speglanir á persónunum sem félagar hennar hafa skapað sér í leiknum.
Yfir ævintýraheim hlutverkaleiksins hvílir þungur skuggi, álfadrottningin sem þar ríkir og hefur gert lengi vel hefur snúist til myrkursins og beitir þegna sína valdi og kúgun. Hlutverk Signýjar er að sigrast á ísdrottningunni eins og hún er kölluð og færa íbúum heimsins aftur gleði, hlýju og hamingju. Þrautirnar sem hún þarf að þreyja til þess að takast þetta eru afar þungar og kallast á við þrautirnar sem líkami hennar þarf að ganga í gegnum í venjulega heiminum til að sigrast á meiðslunum eftir slysið.
Þegar Signý hefur leyst álfadrottninguna úr fjötrum myrkursins og illskunnar og fært þegnum hennar aftur hamingjuna þarf Signý að velja í hvorum heiminum hún vill vera. Hún getur haldið áfram að búa í ævintýraheiminum, þar sem hún hefur eignast góða vini og unnið mikla hetjudáð, eða snúið aftur til hins hversdagslega heims þar sem hún á bæði fjölskyldu og vini en man þó ekkert eftir á meðan hún dvelst í heimi hlutverkaleiksins.
Samhliða frásögninni af þrautum Signýjar í heimi hlutverkaleiksins er sagt frá samskiptum fjölskyldu hennar og vina. Hlynur, sem er lamaður að hluta eftir slysið, heimsækir hana reglulega, og eins bróðir hennar sem ekkert samband hefur haft við fjölskylduna í mörg ár. Eins situr amma hennar hjá henni og segir henni ævintýri eins og þegar hún var barn en á stundum virðist ömmuna gruna hvað það er sem Signý er að takast á við í dásvefninum.
Sverðberinn er listavel skrifuð, persónusköpunin er heilsteypt og sannfærandi og sömuleiðis heimurinn sem Signý hverfur til eftir slysið. Með þessari bók sýnir Ragnheiður að það er ekki aðeins á sviði raunsæis og hversdagsleika sem hæfileikar hennar liggja heldur getur hún líka gert trúverðugan hliðarheim þar sem fantasían og þjóðsögur ráða ríkjum í bland.
Viðbrögð fjölskyldu Signýjar við slysinu eru einnig mjög trúverðug, en það veit sá sem reynt hefur að slysin og sorgin færa fjölskyldur saman og ýmsir hlutir sem hafa verið grafnir niður um langt skeið skjóta upp kollinum og verður að takast á við og vinna úr til þess að hægt sé að öðlast sálarfrið.
Í heild eru skáldsögur Ragnheiðar afar vandaðar raunsæisskáldsögur, sem eru algerlega lausar við tilgerð eða ýkta tilfinningasemi en hafa þó ekki yfirbragð fræðsluefnis eða vandlætingar eins og oft vill verða um raunsæisskáldsögur fyrir unglinga. Lesandinn getur auðveldlega sett sig í spor persónanna og hefur fulla samúð með þeim frá upphafi til enda. Augljóst er að höfundur ber mikla virðingu bæði fyrir persónum sínum og lesendum, enda er aldrei talað niður til lesanda og aldrei gert lítið úr persónunum eða tilfinningum þeirra. Vandamálin eru tekin fyrir, skoðuð frá sjónarhorni sem lesandinn skilur, og svo leyst á farsælan hátt án einfaldanna eða skyndilausna.
Fyrir utan skáldsögurnar hefur Ragnheiður unnið ýmis konar fræðsluefni fyrir börn svo sem léttlestrarbækur og Sögustein sem er fræðslu og lestrarbók. Að auki hefur hún endursagt og myndskreytt þekkt íslensk ævintýri svo sem Söguna af Hlina konungssyni og Líneik og Laufeyju. Hún hefur einnig endursagt ævintýrið Karlssonur, Lítill, Trítill og fuglarnir en þá sögu prýða myndir eftir Önnu Cynthiu Leplar.
© María Bjarkadóttir, 2005.
Greinar
Almenn umfjöllun
Kristín Birgisdóttir: „Stormasöm sambúð en langlíf.“ Viðtal við Ragnheiði.
Börn og menning, 2001 (1), s. 12-15
Guðrún Dís Jónatansdóttir: „Gildi myndskreytinga í barnabókum. Viðtal við Ragnheiði Gestsdóttur rithöfund og myndlistarkonu.“
Uppeldi, 9. árg., 3. tbl. 1996, s. 55-57
Ragnheiður Gestsdóttir: „Vorspírur. Úr smiðju höfundar.“ Ragnheiður segir frá ritstörfum sínum.
Börn og menning, 2005 (1), s. 52-53
Ragnheiður Gestsdóttir: „Áhrif máls og mynda á sjálfsmynd barna.“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 1. tbl. 1992, s. 26-33
Ragnheiður Gestsdóttir: „Myndskreyting barnabóka.“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 4. tbl. 1984, s. 369-375
Um einstök verk
40 vikur
Katrín Jakobsdóttir: „Tvær raunsæisbækur undir smásjánni“
Börn og menning, 2002 (2), s. 20-22
Gegnum glervegginn
Brynja Baldursdóttir: „Gegnum glervegginn“ (ritdómur)
Börn og menning 2012, 27. árg., 2. tbl. bls. 25-6.
María Bjarkadóttir: „Gegnum glervegginn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hjartsláttur
Margrét Tryggvadóttir: „Barnabækur eftir hrun“
Tímarit Máls og menningar, 71. árg., 2. tbl. 2010, s. 80-86
Líneik og Laufey
Iðunn Steinsdóttir: „Líneik og Laufey“
Börn og menning, 2004 (2), s. 21
Myndin í speglinum
Helga Birgisdóttir: „Fullkomin“
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 21-2.
Sverðberinn
Anna Heiða Pálsdóttir: „Að skrifa inn í aldagamla hefð. Ævintýraminni í Sverðberanum og Frosnu tánum“
Börn og menning, 2005 (1), s. 42-47
Verðlaun
2022 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Farangur
2009 - Dimmalimm, íslensku myndskreytiverðlaunin: Ef væri ég söngvari
2005 – Norrænu barnabókaverðlaunin: Sverðberinn
2005 – Vorvindar IBBY: Fyrir ritstörf
2004 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Sverðberinn
2001 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: 40 vikur
2000 – Íslensku barnabókaverðlaunin: Leikur á borði
Tilnefningar
2024 - Blóðdropinn, hin íslensku glæpasagnaverðlaun: Týndur
2012 - Fjöruverðlaunin: Gegnum glervegginn
Týndur
Lesa meiraHvernig getur sjö ára barn horfið sporlaust á leiðinni heim úr skóla? Einhver hlýtur að vita hvað af honum varð. En hverjir segja satt og hverjir ljúga? Lögreglukonan Hanna María þarf á öllu sínu innsæi og reynslu að halda til að greina þar á milli. Tíminn er naumur, það er komið haust og næturnar orðnar kaldar.Steinninn
Lesa meiraHún horfir lengi áður en hún skilur hvað það er sem stendur fyrir framan hana á grasflötinni. Og þegar hún loks skilur það, þá vill hún ekki skilja. Brosið deyr hægum dauðdaga. - Sigfús. Þetta er steinn. Þetta er legsteinn.Ljósaserían: Jólaljós
Lesa meiraJólaljósin lýsa upp skammdegið og stytta biðina eftir jólunum. En af hverju eru ekki komin upp nein ljós á númer 12? Og af hverju er Þormóður á efstu hæðinni alltaf í fúlu skapi? Blær og Fatíma ákveða að gera eitthvað í málunum því stundum þurfa krakkar bara að láta til sín taka.Blinda
Lesa meiraBlinda er þriðja glæpasaga Ragnheiðar Gestsdóttur. Fyrri bækur hennar eru Úr myrkrinu og Farangur sem hlaut Blóðdropann árið 2021 og er tilnefnd til Glerlykilsins 2023Farangur
Lesa meiraÚr myrkrinu
Lesa meiraÉg hlakka til / Mig langar
Lesa meiraMyndin í speglinum
Lesa meiraGegnum glervegginn
Lesa meira