Beint í efni

Reykjavík

Reykjavík
Höfundar
Ragnar Jónasson,
 Katrín Jakobsdóttir
Útgefandi
Bjartur-Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2022
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Í ágúst 1956 hverfur ung stúlka, Lára Marteinsdóttir, úr vist í Viðey og eftir það spyrst ekkert til hennar. Áratugum saman hvílir mál Láru þungt á íslensku þjóðinni og engin skýring kemur fram á hvarfi hennar. Í ágúst 1986 fer ungur blaðamaður að grafast fyrir um þetta dularfulla mannshvarf – með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.

Hér bjóða Ragnar Jónasson og Katrín Jakobsdóttir lesendum í ferðalag á vit sumarsins þegar Reykjavík átti 200 ára afmæli, Bylgjan og Stöð 2 voru að fara í loftið og leiðtogafundur Reagans og Gorbatsjovs stóð fyrir dyrum. Og þetta sumar komu líka fram óvæntar vísbendingar um afdrif Láru Marteinsdóttur.

Úr bókinni

  Óttar var ættaður að austan, af sjómannsættum, þótt hann hefði búið í Reykjavík mestalla tíð. Pabbi hans hafði sótt sjóinn og verið fjarverandi löngum stundum, og stöku sinnum hvarflaði að Ólöfu að Óttar hefði verið rangfeðraður. Hann var svo ólíkur systkinum sínum. 

  Óttar hafði verið elstur, passað litlu bræður sína og mömmu því að pabba hans var stundum laus höndin. Þessar sögur hafði hann sagt Ólöfu.

  Þau höfðu kynnst í gagnfræðaskóla og allt leikið í lyndi fyrstu árin. Hún hafði stutt hann í  öllu sem hann vildi gera, með fjölskyldu sína sem bakhjarl, staðið með honum í gegnum súrt og sætt. Sjálf átti hún ekki mörg áhugamál, og enn færri vini. Þessa dagana hafði hún tekið upp á því að mæta á miðilsfundi, handanheimurinn heillaði hana meira en þessi.

  Þau hjónin borðuðu ein í borðstofunni, börnin löngu flogin úr hreiðrinu.

  „Kjúklingurinn er seigur.“

  „Hvað segirðu! Ég var með hann í ofninum nákvæmlega þann tíma sem var gefinn upp í uppskriftinni.“

   „Já, þetta er ofeldað. Og líka hrísgrjónin.“

  „Fyrirgefðu, mér þykir það óskaplega leitt,“ sagði Ólöf. Hún saknaði þess að hafa börnin við borðið. Þau komu gjarnan í læri á sunnudögum og voru það bestu stundir Ólafar. Þá gafst andrými til að spjalla saman og leika við barnabörnin. Og þá faldi Óttar pirringinn - lét eins og allt væri í góðu lagi.

  En hún vissi að svo var ekki. Hún sá það enn skýrara eftir að hafa kynnst þessum konum á miðilsfundunum í Garðabænum sem töluðu um karla og konur og samskipti þeirra. Einhver þeirra hafði talað um ofbeldismenn - og það sat í Ólöfu. 

  Hún hugsaði um þetta orð, og horfði á Óttar skófla kjúklingnum reiðilega upp í sig. 

  Stundum urðu menn auðvitað þreyttir og stundum bjátaði ýmislegt á. Þá var stuttur í þeim þráðurinn. Það var samt ekki í lagi að berja konuna sína.

  Hún gaut augunum aftur á Óttar.

  Hann var að klára af disknum sínum. Hún velti því fyrir sér hvort hann væri orðinn reiður. Stundum var eins og reiðin magnaðist upp í honum og hann réði ekki við sig. En alltaf bað hann hana afsökunar á eftir, sá eftir því hvað hann hafði verið reiður.

  Óttar rumdi takk fyir matinn og stóð hranalega upp frá borðum. Hann rakst í glasið sitt sem valt út af borðinu og brotnaði. Ólöf spratt á fætur til að sópa upp glerbrotunum.

  „Af hverju þurftirðu endilega að vera með þessi glös núna?“ hreytti Óttar út úr sér.  „Þau eru allt of fín til að nota svona hversdags, sérðu bara hvað þetta hefur haft upp á sig!“ Og þar sem Ólöf kom hlaupandi til að tína upp glerbrotin fann hún lófann smella á andlitinu. Tárin spruttu fram og hún bar hendurnar ósjálfrátt fyrir sig.

(s.80-81)

Fleira eftir sama höfund

Vetrarmein

Lesa meira

Hvítidauði

Lesa meira

the island

Lesa meira

Fuori dal mondo

Lesa meira

La sombra del miedo

Lesa meira

Snezna slepota

Lesa meira

Zamracenje

Lesa meira