Beint í efni

Brynhildur Þórarinsdóttir

Æviágrip

Brynhildur Þórarinsdóttir er fædd í Reykjavík 27. ágúst 1970. Hún lauk stúdentsprófi frá M.R. 1990, B.A. prófi í íslensku frá Háskóla Íslands 1995 og M.A. prófi í íslenskum bókmenntum frá sama skóla 2004. Ári síðar lauk hún kennsluréttindanámi við Háskólann á Akureyri. Milli prófa starfaði Brynhildur sem blaðamaður og pistlahöfundur, bæði fyrir útvarp og prentmiðla. Hún var einn umsjónarmanna Þjóðbrautarinnar á Bylgjunni og ritstýrði meðal annars Vinnunni, tímariti Alþýðusambands Íslands, og Tímariti Máls og menningar. Brynhildur hefur einnig fengist við kennslu meðfram ritstörfunum og er núna lektor í íslensku við Kennaradeild Háskólans á Akureyri.

Brynhildur vann til fyrstu verðlauna í smásagnasamkeppni Samtaka móðurmálskennara 1997 fyrir söguna Áfram Óli. Sagan kom út í samnefndu smásagnasafni 1998. Síðan hefur Brynhildur sent frá sér endursagnir fyrir börn á Íslendingasögum og einnig aðrar barnabækur. Fyrir eina þeirra, Leyndardómur ljónsins, fékk hún Íslensku barnabókaverðlaunin 2004. Brynhildur hlaut Norrænu barnabókaverðlaunin 2007 fyrir endursagnir sínar á Íslendingasögunum Njálu, Eglu og Laxdælu.