Beint í efni

Hermann Stefánsson

Æviágrip

Hermann Stefánsson fæddist í Reykjavík þann 25. júlí 1968. Hann lauk B.A. námi í almennri bókmenntafræði og íslensku frá Háskóla Íslands árið 1994 og M.A. gráðu í almennri bókmenntafræði við sama skóla 2001. Hluta námsins tók hann á Spáni en Hermann hefur dvalið þar og í Galisíu með hléum um árabil.

Hermann hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður og þýðandi við ReykjavíkurAkademíuna, ritstjóri vefritsins Kistunnar, gagnrýnandi hjá Morgunblaðinu og skrifað fjölda pistla og greina fyrir Lesbók blaðsins, Ríkisútvarpið, Kistuna og fleiri, auk fræðigreina og smásagna í ýmis rit. Þá hefur hann unnið við stundakennslu í Háskóla Íslands, verið yfirlesari hjá Hávallaútgáfunni og Bjarti og stundað margs konar önnur störf. Hermann er einnig tónlistarmaður, hann hefur samið bæði lög og texta og gefið út plötur, bæði sjálfur, með hljómsveit sinni 5tu herdeildinni og bróður sínum, Jóni Halli Stefánssyni.

Fyrsta bók Hermanns er Sjónhverfingar sem Bjartur gaf út 2003, en henni er lýst sem skáldfræðiriti. Smásagnasafnið Níu þjófalyklar kom svo út ári síðar. Þá hefur Hermann sent frá sér skáldsögur, smásögur og ljóðabækur og skrifað útvarpsleikrit. Hermann hefur einnig þýtt verk erlendra höfunda, meðal annars Juan José Millás, Manuel Rivas, José Carlos Somoza og Zizou Corder. Þá hefur hann þýtt ljóð úr íslensku á galisísku sem birtust í bókinni Auroras Boreais. Escolma de poesía Islandesa.