Æviágrip
Hermann Stefánsson fæddist í Reykjavík þann 25. júlí 1968. Hann lauk B.A. námi í almennri bókmenntafræði og íslensku frá Háskóla Íslands árið 1994 og M.A. gráðu í almennri bókmenntafræði við sama skóla 2001. Hluta námsins tók hann á Spáni en Hermann hefur dvalið þar og í Galisíu með hléum um árabil.
Hermann hefur verið sjálfstætt starfandi fræðimaður og þýðandi við ReykjavíkurAkademíuna, ritstjóri vefritsins Kistunnar, gagnrýnandi hjá Morgunblaðinu og skrifað fjölda pistla og greina fyrir Lesbók blaðsins, Ríkisútvarpið, Kistuna og fleiri, auk fræðigreina og smásagna í ýmis rit. Þá hefur hann unnið við stundakennslu í Háskóla Íslands, verið yfirlesari hjá Hávallaútgáfunni og Bjarti og stundað margs konar önnur störf. Hermann er einnig tónlistarmaður, hann hefur samið bæði lög og texta og gefið út plötur, bæði sjálfur, með hljómsveit sinni 5tu herdeildinni og bróður sínum, Jóni Halli Stefánssyni.
Fyrsta bók Hermanns er Sjónhverfingar sem Bjartur gaf út 2003, en henni er lýst sem skáldfræðiriti. Smásagnasafnið Níu þjófalyklar kom svo út ári síðar. Þá hefur Hermann sent frá sér skáldsögur, smásögur og ljóðabækur og skrifað útvarpsleikrit. Hermann hefur einnig þýtt verk erlendra höfunda, meðal annars Juan José Millás, Manuel Rivas, José Carlos Somoza og Zizou Corder. Þá hefur hann þýtt ljóð úr íslensku á galisísku sem birtust í bókinni Auroras Boreais. Escolma de poesía Islandesa.
Um höfund
Stolið og stælt
Í formála að fyrstu bók sinni Sjónhverfingar: Fjarvistarsannanir fyrir íslenskan veruleika (2003), sem inniheldur greinar af ýmsum toga um bókmenntir og fræði, segir Hermann Stefánsson: „Í þessari bók er fjallað frá ýmsum hliðum og með einum eða öðrum hætti um fjarveru. Þessar fjarverur eru einkum þrenns konar: fjarvera endanlegrar merkingar, fjarvera raunveruleika og fjarvera óvefengjanlegs sannleika“ (bls. 8). Það er ekki fráleitt að þetta megi einnig heimfæra uppá skáldskap Hermanns, þar má segja að fjarvera, merking, raunveruleiki og sannleiki og sambandið þarna á milli sé kannað aftur og aftur eftir ýmsum leiðum. Öll verk hans birta hugleiðingar að einhverju tagi um sjálf sig, um tengsl bókmennta við veruleikann og þá ekki síður tengsl bóka við aðrar bækur og önnur skrif. Og stundum er eins og verkin leitist við að bæta fyrir fjarveru endanlegrar merkingar, raunveruleika og óvefengjanlegs sannleika með fyrrgreindum hugleiðingum, með notkun ljósmynda og ýmiss konar annarra bragða til að lokka lesandann til fylgilags við sig.
Fyrsta skáldverk Hermanns, Níu þjófalyklar, kom út árið 2004. Lesandi hallast í upphafi að því að kalla verkið smásagnasafn, en smám saman kemur í ljós að sögurnar eru allar samhangandi og mætti segja að þetta sé skáldsaga í dulargervi. Rauði þráðurinn í verkinu, eins og titillinn ber með sér, er pæling um áhrif frá öðrum höfundum í skrifum, um vísanir, ritstuld og fleira í þeim dúr. Við fylgjumst með tilburðum rithöfundarins Guðjóns til að skrifa og viðbrögðum konu hans Helenu, en þau eiga eftir að koma við sögu í fleiri skáldsögum Hermanns. Nokkrir höfundar ganga ljósum logum í verkinu og ásækja Guðjón með því að troða sér inn í bókina sem hann skrifar svo það virðist sem hann sé að kikna undan annarra manna textum í skrifum sínum – má þar nefna fremsta í flokki Ólaf Jóhann Ólafsson (eins og auðséð er af titlinum) og Davíð Oddsson, en fleiri höfundar koma við sögu, allt frá Franz Kafka til Enid Blyton. Helena er lesandinn sem gagnrýnir, spyr út úr og hefur miklar áhyggjur af öllum þessum draugum sem virðast hrannast inn í verkið. Níu þjófalyklar hefur mörg einkenni svokallaðra sjálfsagna (e. metafiction), þ.e.a.s. verka sem fjalla stöðugt um sjálf sig. Kannski má segja að eitt einkenni slíkra verka sé að þau geri starf greinandans nánast óþarft þar sem þau kafa stöðugt ofan í sjálf sig – veita okkur jafnvel ‚lykla‘ að verkinu, en eins og hér er augljóst eru það þjófalyklar. Lesandinn flækist inn í sérkennilegan heim bókmennta, höfunda og vísana, og sér tæpast leið út, um leið og hann gerir sér smám saman grein fyrir því að varasamt er að treysta nokkru. Hér er einmitt lesandanum talin trú um að hann fylgist með höfundi verksins að skrifum, en auðvitað erum við göbbuð – tengslin við ytri veruleika eru ímynduð, Guðjón er ekki höfundurinn og höfundurinn er ekki Guðjón.
Í næst síðustu sögunni „Skugginn og hendingin“ hefur Ólafur Jóhann ekki einungis troðið sér inn í texta Guðjóns, heldur hefur hann smogið inn í líf hans og kvænst Helenu. Þau Ólafur og Helena ganga um spænsku borgina Santiago de Compostela og ræða skáldskapinn, hendingar, skynjun og sýnir. Helena segir: „Sjónhverfingar eru í raun leikur með sýnd – eitthvað gerist sem ekki á að geta gerst, eitthvað virðist hverfa en hefur svo ef til vill aldrei verið til staðar“ (99). Það er ekki frá því að þetta sé einmitt tilfinning lesandans, því að á meðan á samtali þeirra stendur horfa þau á skrítinn skugga sem varpast á dómkirkjuna og Ólafur Jóhann reynir að taka af honum mynd – og svo fylgir ljósmynd af skugga í upphafi sögunnar sem gæti einmitt verið sá hinn sami. Aftur er lesandanum gert að hlaupa á milli laga veruleika og skáldskapar. Í því lagi verksins sem Guðjón rithöfundur skrifar sögur sínar, skammar Helena Guðjón fyrir að hafa gift sig Ólafi og segir hann verða að komast yfir þessa þráhyggju sína gagnvart Ólafi Jóhanni. Í lokasögunni heimsækir svo Guðjón loks Ólaf Jóhann sem deyr í lok sögunnar í einhvers konar bókmenntalegri raungerð á hugmyndum Harolds Bloom um áhrifaóttann (Anxiety of Influence) þar sem segir að hver ‚stór‘ höfundur verði að ‚myrða‘ áhrifavald sinn, ‚stóra‘ höfundinn sem stendur í vegi fyrir honum.
Í grein um Roland Barthes í áðurnefndum Sjónhverfingum segir Hermann: „Umferðin er gott dæmi um „skáldskap menningarinnar“ – táknkerfi. Umferðarskilti, ljós, umferðarreglur, stefnuljós, þetta eru allt tákn sem við lesum daglega. En öfugt við margræðnina í mörgum öðrum skáldskap menningarinnar eru tákn þessi fastar stærðir sem gera kröfu til þess að standa í beinu og náttúrulegu sambandi við táknmið sín. Stoppskilti merkir einfaldlega að maður á að nema staðar. Það er ekki um neitt val að ræða, enga túlkun, táknið á ekki að fara á skrið“ (27). Í næstu skáldsögu Hermanns, Stefnuljós (2005), virðist það þó einmitt liggja undir, táknið fer ekki bara á skrið, heldur á blússandi fart. Bókin hefst á þessum samræðum Guðjóns og Helenu, sem hér birtast aftur sem aðalpersónur verksins, í eins konar forspjalli á undan hinum eiginlega fyrsta hluta, sem full ástæða er til að birta í heild sinni:
Hún: „Gefðu út stefnuljós.“
Ég: „Ha?“
Hún: „Ég sagði: Gefðu út stefnuljós, fólk les ekki hugsanir þínar í umferðinni, það getur ekki vitað hvert þú ætlar að fara …“
Ég: „Ég … er að gefa stefnuljós; núna er ég að beygja, nú gef ég stefnuljós.“
Hún: „Það er of seint núna, þú áttir að gefa út stefnuljós áðan, áður en þú beygðir. Hugsunin með stefnuljósum er að aðrir ökumenn vita hvað þú hyggst gera, þeir sjá sjálfir hvað þú ert að gera.“
Ég: „Þú meinar að þau séu eins konar forspár …?“
Hún: „Nei, auðvitað ekki. Þau eru tilkynning um ætlun. Með stefnuljósum er fólk að segja hvað það ætlar sér að gera.“
Ég: „Heyrðu, annars. Maður gefur ekki út stefnuljós. Það er rangt að tala um að gefa út stefnuljós. Maður gefur út bækur, ekki stefnuljós.“
Hún: „En stefnuljósið er gefið út, út frá bílnum, út í aðra hvora áttina. Ég ætla að halda áfram að gefa út stefnuljós.“
Ég: „Það er bara rangt.“
Hún: „Að gefa út stefnuljós? Nehei! Það kemur í veg fyrir slys!“
Ég: „Láttu ekki svona, síðan hvenær koma málvillur í veg fyrir slys? Ég er að hugsa um að gefa út bók sem heitir Stefnuljós til að leysa þetta í eitt skipti fyrir öll. Eftir það ætla ég að segjast vera búinn að gefa út stefnuljós alltaf þegar þú segir mér að gera það, ég mun segja að þau hafi fengið frábæra dóma.“
Hún: „Ekki held ég að stefnuljósin þín fengju neitt sérstaklega góða dóma í umferðinni, þá sjaldan og seint og illa að þú gefur þau út.“
Ég: „Sem ég gef þau, áttu við …? En bækur segja líka til um hvert maður stefnir …“
Hún: „Nei, auðvitað gera þær það ekki. Hvað væri það eiginlega, ef bækur væru bara yfirlýsing höfundarins um hvert hann stefndi sjálfur? Gefðu út stefnuljós. Hleyptu mér bara út hérna á horninu.“
Þau eru mætt aftur og strax eru þau farin að þrasa um merkingu og tilgang. Hin stöðugu tákn sem fyrr voru nefnd, umferðarmerkin, reynast allt annað en stöðug. Það er ekki nóg með að merking stefnuljóssins sé langt frá því að vera skýr og óbreytanleg – orðalagið getur líka breytt merkingu þess, stefnuljós sem gefið er út breytist í skáldsögu – væntanlega þá sem við höfum í höndunum, sem þó er alls óljóst því höfundur þeirrar sögu heitir ekki Guðjón... og svona mætti áfram halda.
Guðjón situr í vinnuherbergi sínu þegar hann fær símtal frá systur sinni sem hrindir af stað atburðarásinni (ef atburðarás skyldi kalla), því hún segir honum frá grunsemdum sínum um að eiginkona Guðjóns og eiginmaður hennar eigi í leynilegu sambandi. Eins og í Níu þjófalyklum flækjast fjölmargir aðrir textar, höfundar og sögur inn í verkið. Textinn flakkar víða um Höll Kafka, enda fer Guðjón á rithöfundaþing í Tékklandi. Portúgölsk sjálfshjálparbók um sjálfsfróun truflar Guðjón aftur og aftur og grunurinn um svik Helenu litar öll hans orð og gjörðir. Eins og Ingi Björn Guðnason bendir á í ritdómi um bókina annars staðar á þessum vef: „Það mætti vel hugsa sér að lýsa skáldsögunni Stefnuljósi með hugtökum sem Hermann hefur sjálfur fjallað um í „Orðabók ríkjandi viðhorfa“ sem birtist í Sjónhverfingum, þ.e. að sagan sé; „margræð“ og „smjúgi undan þröngum skilgreiningum“, „ef svo má að orði komast.“ Í sögunni er sífellt skipt um sjónarhorn, úr fyrstu persónu frásögn Guðjóns í þriðju persónu frásögn sögumanns, þar sem Guðjón er aðalpersóna, yfir í fyrstu persónu frásögn Helenu, í þriðju persónu frásögn sem virðist eiga sér stað í hugskotum Guðjóns, þar sem Helena og Jósef eru sögupersónur, og í þriðju persónu frásögn í verki sem er innan verksins. Lesandinn þarf því að hafa talsvert fyrir því að átta sig á hver talar og hvaða viðhorf birtist í hvert skipti. Innan sögunnar eru auk þess „sjálfstæð“ verk. Þeirra fyrirferðarmest er skáldsaga sem Guðjón vinnur að en einnig má finna predikun eftir séra Pétur, fyrrum eiginmann Línu, blaðagrein eftir Jósef og/eða Guðjón og formála að greinasafni Jósefs.“ Eins og þessi lýsing ber með sér er þetta ekki einfalt verk í byggingu, en lesandinn er leiddur ótrúlega fimlega í gegnum þessar mörgu hálu brautir og fyllist þeirri ánægju (eins og áhorfandi hjá töframanni) sem því fylgir að láta blekkja sig og leiða á ýmsar villigötur.
Eins og margir hafa bent á hefur ljósmyndin í okkar augum mjög sérstakt samband við veruleikann. Einhvern veginn finnst okkur birting veruleikans í ljósmyndum ómengaðri en í mörgum öðrum miðlum, og virðast falsanir og fótósjopp litlu breyta í þeim skilningi. Það er því ekki algengt að birtar séu ljósmyndir af skáldsagnapersónum eins og sögumaður bendir á í Stefnuljósi, en þó eru til ýmsar undantekningar, eins og t.d. í verkum Michael Ondaatjes og W.G. Sebalds (sjá grein mína um efnið í Ritinu 3:2004). Hermann segir í grein um Jean Baudrillard í Sjónhverfingum: „Liggur ekki einhver gífurlegur þorsti eftir veruleika í tíðarandanum?“ (bls. 30) Það má segja að Hermann reyni að slökkva þennan þorsta með því að nota ljósmyndir víða í verkum sínum. Áður var nefnd ljósmyndin í Níu þjófalyklum og í Stefnuljósi er birt mynd af þeim hjónum Guðjóni og Helenu og í textanum segir: „Myndin af Guðjóni og Helenu hér á næstu síðu gæti borið yfirskriftina „Guðjón og Helena meðan allt lék í lyndi“ [...] Textinn ber með sér að einhver ógæfa hafi dunið yfir annað hvort þeirra eða bæði, hann bendir raunar til þess að myndin sýni ekki það sem greinin fjallar um heldur andstæðu þess. Fjarvera ógæfunnar á myndinni er höfuðatriðið“ (bls. 28). Myndin sýnir karl og konu sitja við borð, þau eru brosandi, vínglas er á borðinu, og konan virðist vera með kórónu gerða úr blöðrum. Það leikur greinilega allt í lyndi, ógæfan hvergi nærri – enda alls óljóst hvort ógæfan er raunveruleg eður ei og kannski ekki úr vegi að vitna hér aftur í orð Helenu úr Níu þjófalyklum: „Sjónhverfingar eru í raun leikur með sýnd – eitthvað gerist sem ekki á að geta gerst, eitthvað virðist hverfa en hefur svo ef til vill aldrei verið til staðar“ (99). Ljósmyndin er hér einhvers konar sjónhverfing – blekking um ytri veruleika sem ekki er til – þótt vissulega sé fólkið á myndinni til og gæti borið nöfnin Guðjón og Helena.
Ljósmyndir leika mikilvægt hlutverk í ljóðabókinni Borg í þoku (2006), því bókin er samflétta ljósmynda og ljóða. Móskulegar myndirnar, jafnvel þokukenndar, eiga vel við textana og Guðjón og Helena virðast víðsfjarri, þó segir í aðfaraorðum: „Þessi bók er skrifuð – af einhverjum sem er ekki ég – á gönguferðum um borgina Santiago de Compostela í Galisíu á norð-vestur Spáni. Borgin er úr steini, þar er oft þoka og hún er stundum kölluð höfuðborg rigningarinnar.“ Borgin er þá upplagður bakgrunnur og/eða yrkisefni í ljóðabók – nóg af klisjum við höndina, sem höfundur vekur athygli á strax í fyrsta ljóðinu sem lýkur á þessum hvatningarorðum til skálda:
helstu rímorð tungunnar eru:
regn, einsemdskáld, beitið þeim, nú er lag.
Eitt viðfangsefni höfundarins, skáldskapur og veruleiki, fær nýja vídd í ljóðinu „Líkt og móðir huggar barn“ þar sem segir:
ég stend í horninu milli svaladyranna og skrifborðsins
líkast til hef ég skrifað mig þangað
tæpast staddur þar í raun og veru.
Ljósmyndir eru á nær öllum síðum, borgarmyndir af regnvotum strætum, kirkjubyggingum, þröngum götum, þakufsum (með erlendu regni) og gluggum. Skugginn úr Níu þjófalyklum er hér líka mættur aftur. Myndirnar umlykja ljóðin, eru ekki innrammaðar, ef svo má segja, heldur flæða margar yfir síður. Þar með verða ljóð og mynd óaðskiljanleg og samspil þeirra merkingaraukandi eins og til dæmis er áberandi í ljóðinu „Drengur á fugli“ þar sem í síðustu línu segir: „hann fylgdi mér niður Ruelustrætið“ og á myndinni sem fylgir sést þröng gata sem augað ósjálfrátt fylgir til enda. Myndirnar eru mannlausar með tveimur undantekningum – fólk gengur eftir götu í einni og á annarri stendur fólk úti í glugga. Það er hins vegar fólk í ljóðunum – ljóðmælandi hittir Maríu, þjóna, afgreiðslustúlku, vinkonur hennar o.fl. Þetta er ferðasaga, ljóðmælandi er útlendingur, aðkomumaður, utangátta. Hér er þó lítið um klisjukennda sjálfskoðun ferðalangsins, enda segir í lokaljóðinu „Borgarvillur“: „Enginn finnur sig í borg eins og þessari“ og síðar í ljóðinu „þetta er borg til að týna sér í / ekki finna sig“. Myndin með ljóðinu er af útidyrum, gluggalausum og lokuðum, með steinumgerð, þar sem fyrir ofan stendur ‚Archivo‘ eða safn. Ljóðmælandi segir:
ég sá mér bregða fyrir á götuhorni
eins og ég væri
hefði ég verið uppi á öðrum tíma
ég fylgdi mér eftir
uns ég kom að stórri byggingu
hlaðinni úr steini
þar hvarf ég inn eins og ég ætti leynilegt stefnumótþetta er borg til að týna sér í
ekki finna sig
ég lét kyrrt liggja og hélt áfram göngunni
Mögulega er þá önnur útgáfa til af honum í safninu. Hann opnar þó ekki þær dyr, en heldur áfram göngunni. Það er ekki frá því að hér finnist manni lofað framhaldi og bíði eftir fleiri ljóðmyndum af annarri gönguferð.
Í næstu skáldsögu Hermanns er einmitt fjallað um heima sem gætu geymt aðrar útgáfur af sjálfum manni. Algleymi (2008) er þriðja bókin um hjónin Guðjón og Helenu og stendur á kápu að þetta sé ‚hugmyndatryllir‘ – sem má reyndar skilja ýmsum skilningi. Þetta er auðvitað rétt í þeim skilningi að hér er fjallað um ‚trylltar‘ hugmyndir, eins og skammtafræði hljómar fyrir óinnvígða: strengjafræði, ormagöng, svarthol o.s.frv. Og eins og í tryllum af öðru tagi er lesandinn áfjáður í að komast að því hvað gerðist, en það er þó nokkrum erfiðleikum bundið. Aftur er hér leikið með væntingar lesandans og tengslin við veruleikann, enda virðist Guðjón við það að missa tökin á sínum veruleika.
‚Hugmyndatryllir‘ gæti líka verið annað orð yfir vísindaskáldsögur, sem Algleymi á ýmislegt sameiginlegt með. Þær byggja oft á hugmyndum sem þykja góðar og gildar í vísindum en hljóma í annarra eyrum sem skáldskapur. Hér er tímaflakk og brjálaðir vísindamenn og ýmislegt fleira gott sem tilheyrir þeim heimi. Þá minnir skáldsagan óneitanlega á kvikmyndir á borð við Memento, Being John Malkovich og fleiri sem snúast um gleymsku og vitundir sem tapa sér.
Guðjón Ólafsson rithöfundur vaknar í orðasúpu – minnið er farið og með því tök hans á tungumálinu. Hann reynir að pússla vitund sinni og fortíð saman með óljósum árangri. Hann hefur lent í slysi eða jafnvel árás. Pabbi hans reynir að hjálpa honum, kærastan gefst upp, en lendir svo í sömu súpu sjálf og þau þurfa að takast á við dularfullar persónur, lækna og brjálaða vísindamenn. Þau gleymnu eru á eilífu vitundarflakki sem gerir það að verkum að þau eiga í mjög sérkennilegu sambandi við fortíðina og brjálaði vísindamaðurinn reynir að virkja þetta flakk í sína þágu.
Eins og fyrr segir er samstuð veruleika og skáldskapar áberandi í fyrri bókum Hermanns um Guðjón og Helenu. Hér á þetta samstuð sér hins vegar stað í vitund persónanna, þ.e. hvað er veruleiki persónanna og hvað ímyndun, skáldskapur, lygi, óminni? Og þá lendir lesandinn í þeirri sérkennilegu klípu að reyna að greina hvað hefur komið fyrir persónurnar ‚í alvöru‘ (en auðvitað bara í höfði höfundar)…. úr verður endalaus speglun og ekkert annað að gera en að kasta sér í dýpið.
Minnistap er heillandi viðfangsefni, því svo mikið af sjálfinu er bundið minninu, þeirri sögu sem við segjum um okkur sjálf. Gleymskan kallar á eilífa óvissu um hver maður er og hverjir aðrir eru, lausnir og svör eru meira og minna ágiskun. Í sögunni er svo þessi gleymska og vitundarbrenglun sett í samhengi við skammtafræði svo úr verður skemmtileg pæling um tímaferðalög, skáldskap, ímyndun, heilaskaða og sérkennilega afkima skammtafræðinnar.
Fjarvera endanlegrar merkingar í skáldskap þarf ekki að bera með sér skort á merkingu – miklu heldur uppsprettu margra mögulegra túlkunarleiða. Hermann Stefánsson er sér meðvitaður um að snúa verður uppá hefðbundnar frásagnaraðferðir til að laða fram nýja hugsun og lesandinn flakkar með honum á milli skáldskapar og veruleika, og skáldaðs veruleika, lætur blekkjast æ ofan í æ, en til þess er væntanlega leikurinn gerður.
© Gunnþórunn Guðmundsdóttir, júní 2009.
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Best geymdur í bílakirkjugarði„ (viðtal)
Spássían 2010, 1. árg., 1. tbl. bls. 32-5.
Um einstök verk
Algleymi
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Algleymi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Atli Bollason: „Þar sem kettir lifa og deyja“
Tímarit Máls og menningar, 70. árg., 2. tbl. 2009, s. 120-123
Bjargræði
Úlfhildur Dagsdóttir: „Hamrar og haf“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Borg í þoku
Ingi Björn Guðnason: „Listileg rigning“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hælið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Lífseigar eldspýtur“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 74. árg., 4. tbl. bls. 120-6.
Högg á vatni
Úlfhildur Dagsdóttir: „Búmm, plask: er einhver að lesa?“
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 4. tbl. bls. 139-45.
Leiðin út í heim
Þorgeir Tryggvason: „Palli Sigsgaard og Páll Hermanns“
Tímarit Máls og menningar, 77. árg, 2. tbl. 2016, s. 139-142
Vera Knútsdóttir: „Barnið og tilvistin“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Morð fyrir luktum dyrum
Úlfhildur Dagsdóttir: „Smáorð um smárit“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sjónhverfingar
Jón Ólafsson: „Sjónhverfingar, syndir og hverfull veruleiki : um bækur Svörtu línunnar“
Ritið 2003, 3. tbl. s. 135-151
Stefnuljós
Davíð Stefánsson: „Manísk meta-krítík“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 67. árg., 3. tbl 2006, s. 133-136
Ingi Björn Guðnason: „’Mikið djöfull er listin mikið runk’“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Laura og Julio (þýðing)
Úlfhildur Dagsdóttir: „And you may ask yourself / How do I work this?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
Tilnefningar
2015 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Leiðin út í heim
2014 - Íslensku þýðingaverðlaunin: Uppfinning Morels
2012 - Íslensku þýðingaverðlaunin: Fásinna
Dyr opnast
Lesa meiraBjargræði
Lesa meiraLeiðin út í heim
Lesa meiraUngbarnasund á Hrafnistu
Lesa meiraSpennustöðin: stílabók
Lesa meiraHælið
Lesa meiraLjóð í leiðinni: skáld um Reykjavík
Lesa meiraUgluturn
Lesa meira
Brjálsemissteinninn brottnuminn
Lesa meiraHeltekin
Lesa meiraLeiðbeiningar um hvernig ganga skal upp stiga
Lesa meiraUppfinning Morels
Lesa meiraFásinna
Lesa meiraÖrsögur eftir Julio Cortázar
Lesa meiraLaura og Julio
Lesa meiraÓsýnilegir glæpir
Lesa meiraLjónadrengurinn: Sannleikurinn
Lesa meira