Beint í efni

Hulda

Hulda
Höfundur
Ragnar Jónasson
Útgefandi
Veröld
Staður
Reykjavík
Ár
2024
Flokkur
Skáldsögur

Um bókina

Kvöld eitt í nóvember árið 1980 fær lögreglukonan Hulda Hermannsdóttir símtal frá yfirmanni sínum. Í veiðihúsi hefur fundist bangsi sem kann að varpa ljósi á tuttugu ára gamalt barnshvarf sem aldrei upplýstist. Hulda tekst þegar í stað á hendur ferðalag norður í Blöndudal, í fámenna sveit þar sem henni er misjafnlega tekið.

Hulda er forspil að þríleik Ragnars Jónassonar um Huldu Hermannsdóttur, Dimma, Drungi og Mistur. Haustið 2024 var frumsýnd sjónvarpsþáttaröð eftir fyrstu bókinni í leikstjórn Lasse Hallström þar sem Lena Olin fer með aðalhlutverkið.

Úr bókinni

  Jörð hafði verið frosin og engin greinileg fótspor, en það var ljóst af öllu saman að einhver hafði farið inn um ólæstar dyr, læst á eftir sér og farið svo aftur út um bakdyrnar, út í kvöldið og eilífðina, og tuttugu árum síðar hafði ekkert spurst til barnsins. Hulda reyndi að rifja upp hvernig Dimma hafði verið á þessum aldri, tæplega eins árs? Hefði einhver getað brotist inn og rænt henni úr vöggunni, sofandi? Hefði hún ekki rumskað? Ekki endilega ... Þetta var svo ósvífið, óhugsanlegt, ólýsanlega átakanlegt.

  Vitni fannst að því að Atli hefði reynt að komast inn í húsið, með nokkrum látum, en viðkomandi - nágranni úr næsta húsi - hafði ekki gert neitt í málinu. Hann þekkti Atla í sjón og vildi ekki kalla lögregluna út á aðfangadagskvöld, gerði einfaldlega ráð fyrir að þau hjón hefðu verið að rífast og hún læst hann úti. Af skýrslunni að dæma hafði það slegið vitnið gjörsamlega út af laginu að frétta hverjar aðstæður höfðu verið í raun og veru. 

  Og rannsóknin virtist hafa verið ítarleg, vel unnin og hverjum steini velt við, en barnið hafði horfið sporlaust. Hulda vonaði að Álfrúnu tækist að finna helstu fréttir frá dögunum og vikunum eftir atburðinn, því þetta mál hlaut að hafa vakið verulega athygli.

  Það vakti sérstaka athygli Huldu að Atli hélt því fram að hann hefði séð einhverja hreyfingu í garðinum þegar hann kom fyrst inní húsið, án þess þó að átta sig á hvað um væri að ræða. Hann hafði ekki tekið eftir því að svaladyrnar væru opnar, því þeim hafði verið hallað aftur. Það var ekki fyrr en í ljós kom að drengurinn var horfinn, sagði Atli, að hann fór að leggja saman tvo og tvo. Hann virtist hafa verið sannfærður um að hann hefði séð ódæðismanninum bregða fyrir. Og eina lýsingin sem hann hafði, því miður, var að viðkomandi hefði verið ljósklæddur, jafnvel hvítklæddur, annars hefði hann varla séð neitt í myrkrinu utandyra. Bakdyrnar höfðu verið opnaðar innanfrá, annað var ekki hægt, engin merki um innbrot. Einhver hafði einfaldlega gengið inn í ólæst hús, eins og ekkert væri eðlilegra, og haft með sér sofandi barn.

(s.42-44)

 

Fleira eftir sama höfund

Morð í þremur þáttum

Lesa meira

Morð um borð

Lesa meira

Ráðgátan um jólabúðinginn og fleiri sögur

Lesa meira

Sígaunajörðin

Lesa meira

Spilin á borðið

Lesa meira

Lávarður deyr

Lesa meira

Á síðustu stundu

Lesa meira

Brögð í tafli

Lesa meira

Dauðinn á Níl

Lesa meira