Beint í efni

Lakkrísgerðin

Lakkrísgerðin
Höfundur
Óskar Árni Óskarsson
Útgefandi
Bjartur
Staður
Reykjavík
Ár
2001
Flokkur
Örsögur


Úr Lakkrísgerðinni:

Ferðalög

Hans helsta ástríða var að liggja yfir gömlum kortum og láta hugann framkalla ímynduð ferðalög. Hann hafði sankað að sér landabréfum, gulnuðum götukortum og löngu úreltum ferðaáætlunum, og á kvöldin dró hann með blýanti leiðina sem hann fór hverju sinni. Hann sá fugla lyfta sér upp af skrælnuðum akri, skýjaðan himin yfir höfninni í Marseille, stúlku halla sér út um glugga í Granada, bláklæddan þjón veifa hestvagni í Vínarborg, dagsbrún rísa yfir fjarlægu landi.

Þegar hann fygldi elstu kortunum fór hann gangandi eftir rykugum vegum, gisti á sveitakrám eða lagðist í heystakk úti á túni og góndi upp í stjörnuskarann. Hann átti sér eftirlætisstaði sem hann heimsótti aftur og aftur: litla tóbaksbúð í hliðargötu í Prag, hafnarbæ í Cornwall, járnbrautarstöð í Zürich.

Eitt sinn þegar hann lá yfir gömlu Parísarkorti og var á gangi meðfram Signu, kom hann auga á konu sem sat á bekk niðri við ána. Hún er að lesa í bók, annað slagið lýtur hún upp og horfir fram fyrir sig. Eitthvað snerti hjarta hans og honum fannst hann yrði að kynnast þessari konu, en hikaði og missti af henni. Frá þeirri stundu fór hann ósjálfrátt að leita að andliti hennar hvar sem hann fór; í lestinni á leiðinni til Moskvu, á götumörkuðum í Istanbul, í sótugu tunglsljósinu á Tempsárbökkum. Stundum þóttist hann sjá andliti hennar bregða fyrir í fólksmergð borganna eða á brautarpalli í afskekktu þorpi.

En dag einn þegar hann var að snuðra í gömlum kortum í fornbókaverslun á Vesturgötunni tók hann eftir konu sem honum fannst hann kannast eitthvað við. Þetta var konan á bekknum.

Hún þekkti hann augljóslega ekki og virtist ekki veita honum neina eftirtekt. Hann sá að hún var að skoða gamalt götukort af Dublin, samskonar kort og hann átti sjálfur heima hjá sér. Hann hinkraði inni í búðinni þangað til hann var búinn að fullvissa sig um að hún mundi kaupa kortið. Í kvöld ætlaði hann að fara í göngutúr meðfram Liffeyánni. Hún kæmi gangandi á móti honum. Hann mundi ávarpa hana!

(s. 26-27)

Fleira eftir sama höfund

Poesia e spiritualità. Anno II n. 4

Lesa meira

Ljóð í Neue Lyrik aus Island

Lesa meira

Kuðungasafnið

Lesa meira

Það sem við tölum um þegar við tölum um ást

Lesa meira

Das Glitzern der Heringsschuppe in der Stirnlocke. Ein isländisches Familienporträt.

Lesa meira

Einnar stjörnu nótt

Lesa meira

Nokkrar línur um ljóðlist

Lesa meira

Kæra Greta Garbo og aðrar sögur

Lesa meira

Kötturinn og kölski

Lesa meira