Æviágrip
Guðrún Eva Mínervudóttir fæddist í Reykjavík 17. mars 1976. Hún stundaði nám í ýmsum framhaldsskólum á árunum 1993 til 1996 og vann jafnframt sem barþjónn og við framreiðslu á veitingahúsum. Hún hóf nám í heimspeki við Háskóla Íslands 1997 og stundaði það með hléum þar til hún lauk prófi 2007. Hún var blaðamaður í lausamennsku hjá Helgarpóstinum 1996 - 1997 en sinnir nú ritstörfum eingöngu.
Fyrsta bók Guðrúnar Evu, Sóley sólufegri, kom út í mjög takmörkuðu upplagi árið 1998 en sama ár gaf Bjartur út eftir hana smásagnasafnið Á meðan hann horfir á þig ertu María mey og vakti það mikla athygli. Síðan hafa fleiri skáldsögur bæst í hópinn, auk ljóðabókar og heimspekilegra smásagna fyrir börn sem Námsgagnastofnun gaf út. Guðrún Eva hefur einnig þýtt verk eftir erlenda höfunda.
Guðrún Eva hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2011 fyrir skáldsöguna Allt með kossi vekur. Hún hefur einnig verið tilnefnd fyrir skáldsögurnar Fyrirlestur um hamingjuna árið 2000, Skaparann (2008) og Skegg Raspútíns 2016. Sagan af sjóreknu píanóunum var tilnefnd til Menningarverðlauna DV í bókmenntum 2002 og Guðrún Eva hlaut verðlaunin árið 2005 fyrir skáldsögu sína, Yosoy. Fyrir Ástin Texas hlaut Guðrún Eva Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna, árið 2019.
Mynd af höfundi: Elene Torre (CC BY-SA 2.0)
Frá höfundi
Frá Guðrúni Evu Mínervudóttur
Ég geri ráð fyrir að þeir sem skrifa sögur geri það af því að þeir fá hugmynd og geta ekki hætt að hugsa um hana og verða æstir og friðlausir þar til þeir setja söguna á blað. Þeim liggur eitthvað á hjarta og freista þess að koma því til skila.
Þegar ég var á áttunda ári skrifaði ég boðskapsþrungnar smásögur, meðal annars um hænuunga sem skreið úr egginu og ákvað samstundis að hann væri fallegastur allra, hélt út í heim til að sýna sig, en álpaðist inn á hænsnabú og hitti fyrir óteljandi litla unga sem líktust honum og þar með lærði hann auðmýkt og köttur útí mýri. Önnur fjallaði um ljón sem gat ekki öskrað en lagði sig í alla heimsins lífshættu til að endurheimta öskrið sitt. Og fleira í þessum dúr.
Sögurnar mínar vöktu mikil viðbrögð. Aðallega hlátur. Ég fæ ennþá skammarsting í hjartað þegar ég rifja upp hvernig heilu fjölskylduboðin gögguðu og góluðu af hlátri yfir sögunum mínum sem áttu alls ekki að vera fyndnar. Þær voru grafalvarleg heimsádeila. Dæmisögur til að leiðbeina fólki um króka og kima lífsins. Fólk hló ekki að Esóp, eða gerði fólk það?
Ég er ekki lengur sömu skoðunar og þegar ég var í átta ára bekk og fannst að góð saga ætti að standa fyrir einhverja visku sem hægt væri að þjappa saman í eina fleyga setningu. Hvaða kosti finnst mér þá að góð saga eigi að hafa til að bera? Hún á helst að vera nógu lifandi til að okkur finnist við á einhvern hátt hafa upplifað hana sjálf, vera einskonar aukalíf, viðbót við aðra reynslu. Góð saga er ekki aðeins vel til þess fallin að drepa tímann heldur er hún eitthvað sem við tileinkum okkur og náum í eins og bók úr hillu þegar við þurfum á að halda. Hún lifir með okkur eins og sjálfstæður heimur og gerir okkar innra líf ríkara, og hennar vegna, og systra hennar, líður okkur betur í eigin félagsskap.
Samkvæmt ofansögðu hlýtur sagnagerð að vera frekar göfug starfsgrein. Samt gengur mér illa að losna við þá slítandi tilfinningu að ég hafi ekki unnið ærlegt handtak síðan ég raðaði böggum og mokaði skít í sveitinni í gamla daga. Ég hef unnið við að selja brennivín og mér hefur verið seldur allskyns vísdómur í skóla og síðan hef ég gengið í óábyrgan barndóm og þegið laun úr svonefndum rithöfundasjóði fyrir að skrifa um ljón sem fara heimshorna á milli í leit að týndu öskri, og annað í þeim dúr. Stærsti munurinn á gömlu sögunum og þeim nýju er sá að nú verð ég ekki miður mín ef einhver hlær að því sem ég skrifa heldur gleðst innilega, enda hef ég í heiðri orð spekingsins sem ritaði: Miklir velgjörðarmenn mannskynsins eru þeir sem færa því fegurð, enn meiri þeir sem færa því speki og mestir þeir sem færa því hlátur.
Guðrún Eva Mínervudóttir, 2001
Um höfund
Hér að neðan má lesa greinar Báru Magnúsdóttur og Þorgeirs Tryggvasonar um bækur Guðrúnar Evu.
Skemmtanagildi minnisins
Inngangur
Guðrún Eva Mínervudóttir er einn þeirra nýju rithöfunda sem hvað mesta athygli hafa vakið undanfarin ár. Hún kom fram á sjónarsviðið með smásagnasafninu Á meðan hann horfir á þig ertu María mey (1998), síðan kom skáldsagan Ljúlí ljúlí (1999), og í kjölfarið Fyrirlestur um hamingjuna(2000). Þá kom út hin tvískipta ljóðabók Á brún alls fagnaðar (2000), og er hluti Guðrúnar Evu ástarljóð til Hrafns Jökulssonar sem er höfundur þess hluta bókarinnar sem nefnist Stiginn til himna. (Áhugasömum tilvonandi lesendum er bent á að Á brún alls fagnaðar er raðað undir nafni Hrafns í bókasafninu og flokkast því sem Hra Sti). Tvær bækur eftir Guðrúnu Evu komu út árið 2002 og heita þær Albúm og Sagan af sjóreknu píanóunum. Fyrsta bók höfundar var raunar Sóley Sólufegri (1998), en ekki verður fjallað um hana hér, þar sem hún kom aðeins út í tíu eintökum og er því ekki aðgengileg hinum almenna lesanda.
Ljúlí Ljúlí
Ljúlí ljúlí segir frá Sögu, stúlku um tvítugt sem býr hjá pabba sínum á Karlagötunni. Hjá honum dveljast einnig langdvölum vinir hans fjórir, þeir Karl, Örn, Marteinn og Vésteinn. Nafn götunnar sem þau búa við er því engin tilviljun, því þarna er sannkallað karlaveldi.
Fjöldi karlanna getur ruglað lesandann í byrjun, en smám saman áttar hann sig á hver er hvað og hvaða hlutverki hver karl gegnir í lífi Sögu og fyrir framgang sögunnar.
Mamma þín kemur í heimsókn í næstu viku, sagði pabbinn.
Sagðirðu henni virkilega að hún mætti búa hér? spurði Karl.
Maður segir ekki nei við þessa konu, sagði Örn og svaraði fyrir hönd pabbans.
Heldurðu að það verði ekki í lagi, Saga mín? spurði pabbinn.
Á ég þá að setja slaufu í hárið á mér og æfa mig að vera góð og falleg?
Til dæmis, sagði Vésteinn og spratt á fætur. – Það er eiginlega stórkostleg hugmynd. Komum strax út í búð að kaupa slaufu. Ég skal hjálpa þér að velja litinn.
Ég kem með, tilkynnti Marteinn. – Vésteinn er svo smekklaus. Honum er ekki treystandi fyrir svona löguðu.
(s. 104)
Saman mynda þeir varnarmúr um Sögu og reynist henni erfitt að rjúfa hann. Samband stúlkunnar við karlmenn skilgreinir hana. Hún festist því hlutverki og þegar hún kynist annari stelpu lætur hún hana líka skilgreina sig.
Smám saman kemur í ljós að karlarnir eiga hver sína tilveru utan Karlagötunnar og Sögu verður ljóst að henni er einnig heimilt að vera einstaklingur utan hópsins. En það fer um þau eins og kommúnistana, sameinuð standa þau en sundruð falla þau. Þegar Saga fer að halda við einn þeirra riðlast skipulagið og einingin leysist upp.
Stórtíðindin ríða ekki við einteyming á þessu heimili, sagði pabbinn.
Til dæmis er Marteinn að fara að flytja til Ameríku með einhverri vinkonu sinni sem hann þverneitar að kynna fyrir okkur.
(s. 103)
Í ljós koma ýmis leyndarmál sem höfðu verið bæld niður með stöðugri nærveru alls hópsins. Í seinni hluta sögunnar tekst Sögu að eignast vinkonu og flytur að heiman, sem verður aftur til þesa að hópurinn sameinast á ný.
Meiri hluti bókarinnar er þriðju persónu frásögn en aðrir kaflar eru dagsettir og þeir eru dagbókarskrif Sögu. Dagbókarfærslurnar eru dagsettar og hefst og lýkur með árs millibili.
27. ágúst 1997
Ég vil byrja á að trúa þér fyrir því að ég er einmana. Ég er samt ekki ein og það er ekki þögnin sem þjakar mig því Vésteinn og Marteinn og pabbi og þeir standa vörð um þögnina, að hún nái ekki til mín. Þeir mega eiga mig og ég má eiga svolítið í þeim líka. Það heitir ekki að vera einn. Hláturinn býr líka með okkur og ástin, býst ég við, þótt hún feli sig vandlega á bak við öll litlu rifrildin og þessa eilífu fyndni.
(s. 29)
Eftir því sem Saga er ringlaðri eða ástfangnari fjölgar færslunum, en engar færslur eru í desember, janúar eða febrúar. Svo dregur aftur til tíðinda og færslur verða algengari á nýjan leik.
2. ágúst 1998
Ég byrjaði að halda dagbók til að sýna fram á að víst væri heiðarleikinn á boðstólum. Það eina sem mér tókst að sýna fram á er að ég get ekki einu sinni verið heiðarleg við sjálfa mig þegar enginn sér til. Þessi tilraun mín til að nefna hlutina sínum réttu nöfnum kolféll af því að þegar ég horfi til baka sé ég ekki það sama og fyllir blaðsíðurnar í þessari bók. Ég hef mengað atburðina og afskræmt alla sem koma við sögu. Ég hef ritstýrt lífi mínu eins og versti harðstjóri. Mig langaði að höndla sannleikann en ég vissi ekki að um leið og ég snerti á einhverju er ég að hagræða því og búa til lygi.
(s. 229)
Örn les dagbókina hennar og spyr hana hvort hún sé ætluð til útgáfu, Saga neitar því.
- Þá þarftu ekki að láta eins og þú sért að skrifa einhverja ástarsögu sem á að komast á metsölulista og náttborð hverrar einustu kerlingar. Þú ættir að velja þeir sjónarhorn sem er ekki svona einlitt. Veldu rödd sem er styrk og karlmannleg, blátt áfram, jafnvel svolítið köld eða í það minnsta tignarleg og alls ekki væmin.
(s. 235)
Hér talar fulltrúi karlkynsins. Hann segir henni að vera ekki væmin heldur styrk og karlmannleg. Þetta helst í hendur við skoðanir karla á skrifum kvenna yfirleitt og kenningar Hélène Cixous um kvenlega skrift („l’écriture féminine“). Cixous segir að yfirráð karla yfir líkama kvenna brjótist út í því að konur skrifi. Saga er umkringd körlum sem þykjast vera að skapa myndlist en í raun er það hún sem skapar með dagbókarskrifum sínum. Hún brýtur líka upp fjölskylduböndin sem þeir hafa skapað. Allt í gegnum söguna reyna karlarnir að stjórna Sögu, rétt eins og þeir hafa stjórnað sögunni og sagnarituninni. Þeim hugnast ekki frelsi kvenna eða þeirra skoðanir á atburðum og fólki, hvað þá tilfinningasemi þeirra. Það kemur ekki á óvart að karlarnir á Karlagötunni eru svona margir. Þeir eru margar hliðar feðraveldisins, og hver um sig hegðar sér sem væri hann faðirinn, nema helst sá sem er af sögumanni ávallt kallaður Pabbinn.
Fyrirlestur um hamingjuna
Fyrirlestur um hamingjuna er fjölskyldusaga. Sagan er fyrst sögð frá sjónarhóli Haraldar, lítils drengs sem elst upp hjá konu sem heitir Margrét (og er ekki manneskja málamiðlana). Pabbi hans (Jónas) hafði stokkið uppí lest og farið í ferðalag og það var ekki fyrr en hann var orðinn peningalaus að hann hringdi í barnsmóður sína og tilkynnti um heimkomu sína. Haraldur þverneitar að flytja til að búa hjá Jónasi föður sínum í útlöndum, því fer svo að hann verður eftir hjá Margréti. Eiginmaður Margrétar hafði líka yfirgefið hana og aldrei snúið aftur frekar en pabbi Haraldar.
Hjónarúmið var úr furu með rennda fætur og útskorna gafla. Margrét svaf þeim megin sem náttborðið var og leslampinn en Haraldur svaf upp við vegginn í bóli mannsins sem hvarf og sem eitt sinn var eiginmaður Margrétar. Hann fór í vinnuna eins og vant var einn kaldan vetrarmorgun, en um kvöldið, þegar maturinn var kominn á borð og maðurinn ókominn heim, hringdi Margrét til að vita hvort hann tefðist mikið lengur. Þá kom í ljós að enginn hafði séð hann, hvorki þann dag né daginn áður. En síðan voru liðin fimmtán ár og allir hættir að velta sér upp úr þessu.
(s. 18)
Surtsey rís úr sæ á afmælisdegi Haraldar, og hefur þannig mikil áhrif á framtíð hans – hann verður jarðfræðingur. Hann leigir síðan íbúð við hliðina á íbúð Margrétar en fer yfir til hennar „á hverju kvöldi klukkan sjö að þiggja manneskjulegan kvöldverð.“ (s. 43) Hún sér líka um þvotta fyrir hann, enda ekki hægt að ætlast til þess að háskólastúdentar hafi tíma til að stússa í slíku. Óvæntir atburðir verða til þess að hann flytur um stundarsakir til Guðmundar frænda síns og unnustu hans. Þau eru á sama aldri og hann og svo fer að hann og unnusta frændans, Ástrós fara að draga sig saman. Þar sem þetta gerist á tímum kommúna og frjálsra ásta, skipta þeir frændur pent um herbergi og eftir það er það Guðmundur sem sefur í gestaherberginu en Haraldur í hjónaherberginu. Þau flytja svo saman aftur í íbúðina við hlið Margrétar, Haraldur og Ástrós, og eignast þar dótturina Margréti litlu. Og nú byrjar „plottið“ fyrir alvöru, því eftir þetta heita persónurnar hver eftir annarri og bera um leið með sér ýmis persónueinkenni þeirra sem þær heita eftir.
Haraldur verður sannfærður um að Margrét yngri sé snillingur – heimspekingur sem hafi „innsýn í þjáningar mannanna og vilji helst af öllu lyfta byrðinni af herðum þeirra“ (s. 97), hún hafi leiðtogahæfileika, hagi sér eins og heilög manneskja og hann vill „ekki standa í vegi fyrir þroska hennar og enn síður [...] ýta undir þá sérvisku hennar sem síðar gæti leitt til sturlunar ...“ (s. 99). Á sama hátt hafði Margrét eldri sagt við hann að hann hlyti að vera „efni í vísindamann“ (s. 10) – sem hann og varð. Haraldur er því ósjálfrátt að reyna að hafa áhrif á framtíð Margrétar yngri, gera hana að snillingi.
Margrét yngri eignast vin sem heitir Jónas – eins og afi hennar í útlöndum. Vináttan helst fram á fullorðinsár, þrátt fyrir að hann búi með konu og barni í „einhverskonar hjákátlegum fjölskylduleik“ (s.104).
Skynsemin og stoltið fylgja Margrétarnafninu. „Margrét var ekki meðlimur í hinni útbreiddu hefði-átt-að reglu“ (s. 151). Margrét eignast svo son, með Jónasi, sem hún skírir Harald sem verður „fluglæs fjögurra ára fyrir tilstilli Haraldar afa“ (s. 146).
Og þá beinir sagan sjónum sínum að Haraldi Jónassyni yngri, því yngsta fjölskyldumeðlimurinn er ávallt aðalsöguhetjan og þau sem áður voru í brennidepli verða í bakgrunni. Sagan endurtekur sig. Hverri og einni söguhetjunni finnst hún vera sérstök en er að vissu leyti endurtekning á einhverri annari persónu, nafni hennar, uppreisn, lífstíl eða viðhorfum.
Á brún alls fagnaðar
Þessi ljóðabók er sameiginlegt verkefni Guðrúnar Evu og þáverandi eiginmanns hennar, Hrafns Jökulssonar. Helmingur bókarinnar (29 síður) er skrifaður af henni og hinn helmingurinn, sem er nákvæmlega jafn langur, er skrifaður af honum. Hér verða ljóð Hrafns ekki til umfjöllunar enda verið að fjalla um höfundarverk Guðrúnar Evu. Ljóð beggja eru ástarljóð til hins og eru ljóð hennar berorð og full ástar.
HÁR
miðað við allt púðrið
sem fer í að unna einu hári
verða vopnabirgðir heimsins
hreinlega hlægilegar
get ekki gert upp á milli
bráhára sem sveigja sig
svo þokkafullt daðrandi
kitla brjóst mín og kinnar
eða hinna sem hringa sig
um punginn og reyna jafnvel
að komast að leyndardómum
nafladjúpsins, nei!
það er stríða höfuðhárið
með silfurskreytingunni
sem hrærir mig oftast
syrgi samt á hverjum degi
þegar
vaskurinn
gleypir
broddana
Þarna er farið í lítið ferðalag um líkama viðfangsins frá höfuðhári niður til punghára en samt er umheimurinn með vopnabirgðum heimsins nálægur og má jafnvel búast við að vopnaskakið hræri ekki síður ljóðmælandann en raksturinn sem hemur hárvöxtinn.
Ljóðin eru margvísleg að formi. Höfundur hefur greinilega allgott vald á ýmsum bragformum og leikur sér að þeim í bókinni. Hún notar átthendu (hér að ofan), ferskeytlu, og ýmiskonar óhefðbundinn ljóðstíl. Ferskeytla sem gefið er í skyn að sé vondur skáldskapur og því kallað leirburður af höfundi er tileinkað Hrafni og ber því titillinn „Leir fyrir H“
ó, hamingju minnar hálendi
með hæðum nýjum og nýjum
upp mig hífðir styrkri hendi
úr helvítis leiðinda dýjum.
Ljóðin lýsa einskærri hamingju og mikilli ást. Sjaldgæft er að lesendur viti til hvers er ort – hvað þá að þeir geti jafnóðum lesið ljóð hins á móti.
Á meðan hann horfir á þig ertu María mey
Segja má að Guðrún Eva endurnýti texta sína að hluta og rekst lesandi því á texta eða brot úr texta í fleiri en einni bók. Þannig á „Ljóðið sem ég samdi til þín áður en ég vissi almennilega að þú varst til“ úr Á brún alls fagnaðar sér hliðstæðu í smásagnasafninu Á meðan hann horfir á þig ertu María mey (sem er fyrsta bók Guðrúnar Evu sem kom fyrir almenningssjónir, samhengisins vegna er fjallað um hana hér en ekki í réttri útgáfuröð). Þar hefur það tvö erindi, en í ljóðabókinni aðeins eitt. Seinna erindið, sem er í báðum bókunum er þetta:
þú olíufursti skáksófans
bættu mér í búrið og ég skal dansa
fyrir þig magadans
þú ert bestur af öllum
palestínuaröbum sem ég þekki
bíttu mig í búrinu
í bítibúrinu
það væri ekkert fútt í lífinu án þín.
(Á brún alls fagnaðar, s. 5 og Á meðan hann horfir á þig ertu María mey, s. 91)
, s. 88). Þar segir frá manni sem kemur heim frá Akureyri, nánast niðurbrotinn. Stúlkan sem er sögumaður reynir að kæta hann með ýmsum ráðum. „Ég hoppaði á öðrum fæti upp allar tröppurnar, alla leið upp á fjórðu hæð þar sem ég bjó, en hann kættist ekkert. Rogaðist bara og rogaðist með töskuna sína þótt hún væri ekkert þung.“ (s. 89) Hann gerir úlfalda úr mýflugu, er með kökk yfir einhverju sem ekkert er, rogast með tösku sem er ekkert þung. Hann er dramadrottning sem hún er að reyna að dekstra. Konur í sögum Guðrúnar Evu dekstra karlmenn þó yfirleitt ekki, þær eru sjálfum sér nægar og lifa mest í eigin hugarheimi.
Albúm
Í bókinni Albúm, sem er sú fyrri af tveimur bókum sem komu út árið 2002, eru endurminningarnar í formi myndaalbúms sem flett er. Framan af eru minningarbrotin mjög stutt og tengjast frumbernsku sögumanns, en eftir því sem á líður verða minningarnar hlaðnar smáatriðum og aukapersónum, því sögumaðurinn man betur eftir sér og verður heilsteyptari persóna.
Ég átti að pissa í kopp. Það var ekki mjög vandasamt, ég hafði gert það áður, en að þessu sinni hafði líkaminn enga þörf fyrir að losa sig við eitt eða neitt svo að ég þurfti að sitja á þessum plast-óskapnaði úti á miðju stofugólfi þar til hnén voru orðin stirð eins og hurðin á gömlu kortínunni hennar ömmu. Amma, má ég fá vatn? sagði ég. Hún flýtti sér að ná í bolla með vatni og ég sötraði svolítið úr honum þar til hún sneri sér undan, þá hellti ég úr bollanum milli læranna á mér og sagðist vera búin. Amma var góð og brosandi og stakk upp í mig súkkulaðikúlu. Síðan sá hún hvað pissið var glært og þröngvaði puttunum upp í munninn á mér og náði í súkkulaðikúluna.
(s. 9)
(s. 91)
Henni væri sama þó þau héldu að hún væri heimsk, bara ef þau halda að hún sé dugleg. Persónur bóka Guðrúnar Evu eru þó langt í frá heimskar. Yfirleitt eru þær yfirvegaðar og skoða mannlífið í kringum sig með vísindalegum áhuga. Þó er hægt að koma þeim í uppnám, eins og söguhetjunni í Albúmi, en þar bregst hún ókvæða við þegar krakkarnir í skólanum tala illa um mömmu hennar. Þá lýsir hún einum stráknum sem „fjósafýlukvikindi“ (s. 71).
Ég trúði vart því sem ég heyrði, þetta var sama tónlistin og ég hafði heyrt í höfðinu á mér þegar ég var lítið barn og hélt að öllu lífi hefði verið útrýmt af jörðinni, nema það hefði gleymst að útrýma mér. Auðvitað fékk það ekki staðist, þetta var ekki sama tónlistin, en svona getur minnið gert úr manni fífl og skáldsagnahetju og allt þar á milli.
(s. 110)
Þetta er nákvæmlega það sem Albúm gerir úr söguhöfundinum Guðrúnu Evu, gerir hana að skáldsagnahetju í eigin sögu. Lesandinn getur ekki annað en velt fyrir sér hvort minningarnar séu byggðar á ævi höfundarins. Móðirin í bókinni heitir jú Mínerva, eins og móðir söguhöfundarins, ætli hún sé tónlistarkennari og skyldi hún þá í alvöru hafa leikið í leikriti á Kirkjubæjarklaustri? Og er stelpan Guðrún Eva? Hún leigir líka herbergi með óþéttum gluggum eins og söguhetjan í Ljúlí ljúlí, er þá sú bók líka um hana? Eða notar höfundurinn búta úr eigin lífi (og annarra) til að semja sögur? Þetta er sennilega séríslenskst fyrirbæri, að lesa skáldsögur sem ævisögur, vitandi þó að ævisögur eru jafnvel meira skáldaðar en skáldsögur.
Sagan af sjóreknu píanóunum
Munið þið eftir samkvæmisleiknum sem felst í því að lítilli sögu er hvíslað í eyra eins þátttakenda sem svo hvíslar henni í eyra þess næsta og svo koll af kolli? Sá sem síðastur heyrir söguna verður að segja hana upphátt og þá er hún orðin, öllum til ómældrar kátínu, svo gersamlega allt öðruvísi að hún minnir í engu á upphaflegu söguna. Sagan af sjóreknu píanóunum er svoleiðis saga. Upprunlega sagan er löngu orðin brengluð en hún hefst á því að maður ætlaði að græða á tónlistarkennslu dóttur sinnar með því að selja nemendum hennar píanó. Hann hafði svo ekki efni á að leysa þau úr tolli og komust þau því aldrei í hendur eigenda sinna sem höfðu greitt þau fyrirfram. Niðurlag sögunnar er hinsvegar á ýmsa lund þar sem þau eru ýmist sjórekin, veðurbarin eða sokkin.
Að einhverju leyti heldur Guðrún Eva áfram með minnispælingarnar úr Albúmi, bæði með því að önnur aðalsöguhetjan, Sólveig, segir hinni aðalsöguhetjunni, Kolbeini, sögu sína og ættarinnar, en líka með því að Kolbeinn les hugleiðingar og endurminningar afa síns.
Ég mun reyna eftir megni að segja frá öllu eins og það kom mér sannlega fyrir sjónir, en sá fyrirvari skal þó hafður, að það sem gamall maður telur sig muna, er ekki endilega í samræmi við bókhald Guðs og ég bið lesandann að trúa því, að jafnvel þótt eitthvað sem hér er sagt frá stangist á við aðrar heimildir um atburðina, þá rita ég af strangasta heiðarleik eftir því sem mér er framast unnt.
(Sagan af sjóreknu píanóunum, s. 79)
Gamla mannininum er sannarlega í mun að hafa rétt eftir, kannski er það vegna þess að sögur um innflutning hans á píanóunum eru orðnar fjölmargar og engin eins. Hann veltir því fyrir sér hverju orði til að varast rangfærslur.
Endalausar vangaveltur um hvort þetta og hitt hafi raunverulega verið eins og höfundurinn minntist þess gerðu að verkum að allar frásagnir urðu mun trúverðugri en ella. Varfærnin undirstrikaði hversu höfundinum var í mun að segja satt og rétt frá.
(s. 80)
Þessi varfærni er auðvitað í hróplegri mótsögn við flestar æviminningar og ævisögur þar sem mottóið „hafa skal það sem hljómar betur“ ríkir allajafna. Varfærnin kemur þó að litlu gagni, því sögurnar um sjóreknu píánóin hafa fyrir löngu öðlast sjálfstætt líf.
Þegar Sólveig fer loksins að segja Kolbeini ættarsögu sína, finnst henni nánast að hún megi ljúga að honum þó hún stilli sig reyndar um það. Henni finnst nefnilega sagnalistin tengjast skáldskapnum fremur en sannleikanum og á að það reyndar sameiginlegt með mörgum þeirra sem segja sögu sína „opinskátt og draga ekkert undan.“
En frá minni og minningum til eins af þemum sögunnar. Tónverk Jórunnar Viðar, ballettinn Ólafur liljurós, hljómar í heyrnartólum smápönkarans Kolbeins og í stofu Sólveigar. Amma Sólveigar útskýrir söguna um Ólaf liljurós fyrir henni, sem veit ekki að síðar mun hún sjálf kynnast Ólafi og verða vitni að því er hann streitist við að ganga inn í heim huldufólksins.
Kolbeinn flækist nefnilega inn í undarlega veröld Anarkista sem neita að taka þátt í þjóðfélaginu. Þeir þurfa þó tengilið við það og Kolbeinn sem upprennandi lögfræðingur verður fyrir valinu. Kolbeinn lifir þannig á mörkum álfa og manna, hann vinnur fyrir Anarkista sem neita að taka þátt í samfélagi mannanna. Hann nær þó að halda sér í hæfilegri fjarlægð án þess að hafna þeim og sleppur því bæði lifandi og án þess að vera tekinn inn í samfélagið (ganga í björg). Anarkistarnir líta þó gjarnan á hann sem einn af þeim enda fær hann gull og græna skóga nútímans frá Anarkistunum (vinnu og frítt húsnæði). Hann tilkynnir þeim þó að hann telji sig ekki vera einn af þeim. Þannig kemur hann sér út úr samfélagi álfanna en sleppur lifandi, öfugt við Ólaf liljurós.
Sagan af sjóreknu píanóunum er hlaðin pælingum en um leið bæði fyndin og spennandi. Og þó þetta sé ekki ástarsaga er kemur ástin oft við sögu
Þetta er ekki ástarsaga. Það er ást í sögunni en hún er of sjálfsögð og átakalaus til að eiga heima í ástarsögu, og þótt hún sé að þvælast hér innan um söguþræðina er henni ekki ætlað að gleypa þá með haus og hala og hefur enga burði til þess heldur.
(Sagan af sjóreknu píanóunum, s. 273)
Lokaorð
Bækur Guðrúnar Evu gerast oftast í Reykjavík (með örfáa smástaði á landsbyggðinni sem undantekningu) og fjalla um einsemd og leitina að innri friði og staðsetningu í þjóðfélaginu. Persónur hennar eru hæglátar og íhugandi, í örlítilli uppreisn gegn samfélaginu. Póstmódernískar og heimspekilegar vangaveltur um minnið og áhrif þess eru áberandi í tveimur síðustu bókunum sem einnig eru skemmtilegar og þægilegar aflestrar.
© Bára Magnúsdóttir, 2003.
___________________________________
Mörk, hamingja, upphafning
Yosoy
„Upplýsingarnar sem hægt var að afla utan frá líktust í engum aðalatriðum reynslunni eins og hún fannst innan frá. Við vitum ekki hvernig tilfinning það er að vera einn af þessum elegans-ormum sem synda í takt, hugsaði Ólafur. Við vitum ekki einu sinni hvernig tilfinning það er að vera fegurðardrottning eða sigra í kappakstri og samt er alltaf verið að spyrja fólk að þessu.“ (Bls. 366)
Það kann ekki alltaf góðri lukku að stýra þegar höfundar seilast í verkfærakistil afþreyingarbókmenntanna, án þess að ganga þeim formum og formúlum á hönd í alvöru og með þeirri þjálfuðu sérhæfingu sem slíkar bókmenntir, og ekki síst unnendur þeirra, krefjast. Oft gætir töluverðs kæruleysis í meðferð efnisins og stundum fær lesandinn á tilfinninguna að höfundi finnist það fyrir neðan sína virðingu að hnýta lausa enda eða jafnvel að leiða söguna til lykta á sannfærandi og fullnægjandi hátt.
Þetta er ekki raunin með Yosoy. Í henni leggur Guðrún Eva upp með viðamikla sögufléttu sem fangar athygli lesandans og drífur hann áfram í eftirvæntingafullri bið eftir svörum við spurningum og lausn á leyndardómum sem varpað er fram í upphafi. Þegar uppi er staðið hafa allir meginþræðir verið leiddir til lykta. Guðrún Eva styrkir tilfinninguna fyrir „reyfaraætterni“ Yosoy með skemmtilega gamaldags kaflaheitum sem útlista meginefni textans sem framundan er. Þannig ber fyrsti kaflinn nafnið „Madame fer á sársaukaráðstefnu og ákveður að einn fyrirlesaranna sé fjandanum álitlegri til að geta uppfyllt draum hennar“. Um miðbik bókarinnar er kaflinn „Jói kemur fram á sinni fyrstu sýningu og býður sér í egg og beikon hjá Kristjáni“. Undirtitillinn „Af líkamslistum og hugarvíli í hryllingsleikhúsinu við Álafoss“ gefur einnig til kynna einhverja léttúð, eins og hér sé á ferðinni skemmtisaga fyrst og fremst. Það er hún, en eins og í hryllingssirkusnum þá er ekki allt sem sýnist.
Grunneiningar fléttunnar eru tvær: Annars vegar hryllingssirkusinn í Mosfellsbæ sem sagan dregur nafn sitt af. Þar er leikið með þolmörk líkamans í anda Grand-Guignol leikhússins og þangað ratar drengurinn Jói sem fæddist án sársaukaskyns og verður því hratt og örugglega að stjörnu og helsta aðdráttarafli sirkussins. Hinsvegar er það alþjóðlegt leynifélag sem hverfist um dularfullan leik sem lesandinn fær smátt og smátt skýrari mynd af um hvað snýst. Einn keppandinn, Madame Louise, hefur einmitt ákveðið að nýta sér Yosoy-sirkusinn í baráttunni um sigurlaunin. Hver þau eru er síðan enn ein gátan sem heldur lesandanum við efnið.
Tenging Yosoy-sirkussins og leiksins er í gegnum lækninn Ólaf Benediktsson, virtan sérfræðing í sársauka, sem Madame tekst með klækjum að fá til að hætta störfum, flytja heim til Íslands og fylgjast með starfsemi sirkussins. Að sjálfsögðu vekur Jói talsverðan áhuga Ólafs en ekki síður Elín, stúlka í næsta húsi, sem býr við nánast stöðugan en óútskýrðan sársauka. Hin dularfulla Sif, helsta stjarna sirkussins fyrir tíma Jóa, myndar jafnframt sterk en flókin tengsl við Ólaf.
En vitaskuld er þessi flétta fyrst og fremst í þjónustuhlutverki í sögunni. Guðrúnu Evu liggur meira á hjarta en að halda lesandanum spenntum, örvuðum og flettandi fram á rauða nótt. Það fer aldrei á milli mála að sirkusinn og „listafólkið“, leynifélagið og keppendurnir, eru þarna til að hjálpa okkur að skoða eðli og hlutverk sársaukans annars vegar og sköpunarinnar hins vegar og tengsl þessara grunnþátta í mannlífinu. Þriðja meginviðfangsefnið, það sem vegur kannski þyngst, eru síðan okkar eigin mörk. Leitin að þeim, baráttan við þau, kostnaðurinn við að virða þau ekki og verðlaunin sem bjóðast þeim sem yfirstíga þau.
Sársaukarannsóknin fer fram með hjálp Jóa og Elínar, sköpunarglíman birtist okkur einna skýrast í viðleitni leynifélagsfólks við að stýra viðföngum sínum í mannlífinu eins og taflmönnum eða leikpersónum og síðan í undraverðum og milliliðalausum tökum Sifjar á skynjun og ímyndunarafli áhorfenda sinna. Leitin að mörkum er það sem allar helstu persónur eiga sameiginlega. Jói augljóslega, en líka kynóralistakonan Ásta og ekki síst dr. Ólafur, maðurinn sem við upplifun söguna að mestu í gegnum.
Þótt Yosoy sé tímamótabók á ferli Guðrúnar Evu, bæði frá sjónarhóli efnistaka og áhrifamáttar, er hugmynda- og efnistengsl við bæði fyrri og síðari verk hennar víða að finna. Sterkir einfarar í losaralegum tengslum við fjölskyldu og samfélag sem þrá, og tekst merkilega oft, að lifa lífinu á eigin forsendum, eru áberandi hér sem annarsstaðar í höfundaverkinu. Frumlegt innsæi í tilfinningalíf og samskipti er annað sem einkennir þennan texta til jafns við lausbeislaðri og „jarðbundnari“ verkin sem á undan koma. Og ef við lesum Yosoy með síðari verk Guðrúnar Evu í huga stöldrum við auðvitað við þessar hugrenningar Ólafs þegar hann sér Sif í fyrsta sinn:
„Hún virtist öll svo mild og mjúk en augun í henni voru eins og maður myndi ímynda sér augun í Raspútín þegar hann sagði klerkunum að hann hefði hitt Maríu mey og þegar hann horfði á litla, dauðveika ríkisarfann austur í Rússlandi í fyrsta sinn.“ (Bls. 108)
Skaparinn
„Öll heimsins framvinda var knúin áfram af tilviljunum. Sumt fólk sagðist ekki trúa á þær en sjálfur trúði hann ekki á örlög, aðeins tilviljanirnar sem færðu fólk milli staða af misjöfnu offorsi eins og peð á taflborði. Nei, ekki eins og peð á taflborði, það var of útreiknað. Meira eins og rusl í vindi.“ (Bls. 168)
Titlar geta villt um fyrir lesanda. Þótt orðið „hryllingsleikhús“ komi fyrir í undirtitli Yosoy og þar fari mikið fyrir harkalegri umgengni við líkamann þá er næsta bók, sem ber hinn upplyftandi titil Skaparinn, mun myrkari og líklega myrkasta skáldsaga Guðrúnar Evu.
Ýmislegt eiga þær sameiginlegt. Í báðum er einn drifkraftur atburðarásarinnar óvenjulegt og lífshættulegt ástand einnar persónunnar; skortur Jóa á sársaukaskyni í Yosoy, lystarstol Margrétar í Skaparanum. Báðar hverfast þær um fólk sem fæst við list eða sköpun á jaðri þess að teljast með í því virðulega mengi. Álafosssirkusinn dansar á markalínu listar og kláms. Hvar nákvæmlega á að staðsetja jaðartilvik á borð við auglýsingarnar sem Lóa býr til og kynlífsdúkkur hins listmenntaða Sveins er eilíft deiluefni í stórum flokki álitamála sem lúta að því að negla niður í eitt skipti fyrir öll hvað sé list og hvað ekki.
Annað sem tengir Yosoy og Skaparann er söguflétta að hætti afþreyingarbókmennta. Hér bryddar Guðrún Eva upp á tveimur gátum: hver ofsækir Svenna brúðugerðarmann með ofbeldishótunum og hvað varð af hinni fársjúku Margréti sem lætur sig hverfa úr skólanum um miðbik sögunnar? Sú síðarnefnda leysist farsællega og á fullnægjandi óvæntan en rökvísan hátt í sögulok. En hvorki Sveinn né lesandinn fá að vita með vissu hver stendur á bak við hótanirnar, þótt böndin berist að ættingjum svarfdælska einbúans sem svipti sig lífi eftir að hafa eignast dúkku úr smiðju Sveins. Sá þráður er í algjöru lykilhlutverki við að stýra meginefni sögunnar; samskiptum Sveins og Lóu eftir að hún vaknar eftir áfengisdauða í stofunni hjá honum og rænir einni af dúkkunum í örvæntingarfullri og órökvísri von um að hún geti hjálpað Margréti. Sveinn leitar Lóu uppi og verður síðan innlyksa á heimili þeirra mæðgna, sannfærður um að Lóa standi á bak við hótanirnar sem honum berast í símann. Notkun höfundar á þessum misskilningi minnir á köflum á farsakennda „sit-com“ sjónvarpsþætti og henni tekst lygilega lengi að halda honum lifandi þótt áhrifin verði aldrei neitt sérlega fyndin og eigi líklega ekki að vera það. Önnur áhugaverðari tæknibrella er hvernig stutt tímaskeið í samskiptum aðalpersónanna eru stundum endurtekin frá nýju sjónarhorni. Samtöl Sveins og Lóu eru fyrst rakin eins og þau koma öðru þeirra fyrir sjónir, en síðan er sama atriði endurtekið frá sjónarhóli hins.
Að öðru leyti er tímaás sögunnar línulegur, tímaramminn þröngur og samfelldur: meginsagan gerist á einni viku og kaflaheitin gefa til kynna hvaða dagur er. Þrengsli og höft einkenna líka sögusviðið og ástand persónanna. Í upphafi Skaparans er Sveinn við það að hníga niður af þreytu og næringarskorti eftir hrottalega vinnutörn. Fljótlega birtist Lóa fyrir utan hjá honum með sprungið dekk og skömmu síðar er hún áfengisdauð í stofunni hjá þessum ókunnuga manni. Síðar víkur sögunni í Vesturbæ Reyjavíkur, inn á heimili Lóu og dætranna Ínu og Margrétar, og ekki líður á löngu þar til Margrét hverfur og Sveinn birtist í leit að brúðunni sem Lóa hafði á brott þegar hún vaknaði úr áfengisrotinu, viðbeinsbrotinn og krambúleraður eftir klaufalegt slys og undir áhrifum sterkra verkjalyfja. Allt hjálpar þetta við að skapa þrúgandi andrúmsloft og magna innilokunarkennd hjá lesandanum.
Það blasir ekki við hvað vakir fyrir höfundi með þessari sögu. Kannski er ekki síður áhugavert að skoða um hvað hún er ekki. Ætli flestir höfundar, sem létu aðalpersónuna sína smíða kynlífsdúkkur, myndu ekki láta söguna hverfast um siðferðileg álitamál þeirrar framleiðslu eða samvisku og réttlætingu „skaparans“ á iðju sinni. Þó slík mál komi vissulega við sögu er athygli sögumanns Skaparans fyrst og fremst á sálarástandi aðalpersónanna og líkamlegri birtingarmynd þess.
Allt með kossi vekur
„Sumir hafa svo fíngert sálarlíf að það minnir á blúndu úr sykri sem molnar við minnstu snertingu. Þannig var Jón, þótt stórskorið útlit hans byði upp á þann misskilning að hann væri grófur og einfaldur í hugsun og því óbrjótandi. Svona eins og einfaldur vélbúnaður sem bilar aldrei. [...] Smám saman hafði hún skilið hvernig líf hans gekk út á stillingu. Hann notaði skynsemina til að hafa hemil á sér en undir niðri ólmaðist hin eldfima tilfinningavera í hlekkjum eins og hvert annað kjallaragimpi.“ (Bls. 123)
Eftir þrengslin, einsemdina og óhamingjuna í Skaparanum er töluverður léttir að opna Allt með kossi vekur. Ekki einungis vegna þess að hún hefst á fallega teiknaðri myndasögu, en Sunna Sigurðardóttir á heiðurinn af áhrifaríkum og viðeigandi myndheimi bókarinnar. Sögusviðið er breiðara bæði í rúmi og tíma, og rífur auk þess stundum göt á skilin milli raunheims og annarrar tilveru. Hér er trúarleg vídd í forgrunni frá fyrstu síðu, þar sem tilbrigði við syndafallssögu Gamla testamentisins og hugsanlegur eftirleikur hennar er rakið. Og hið dularfulla afl kossa Elísabetar felst í því að leysa úr læðingi einhverskonar yfirskilvitlegt afl innra með þeim sem kossinn þiggja, afl sem vel má kalla guðmóð. Lýsingarnar á áhrifum kossins minna á afleiðingar heilaskurðaðgerðarinnar sem sigurvegarar leiksins sem sagt er frá í Yosoy gangast undir, og kallast líka á við upplifun Ölmu í lok Englaryks og lýsingar Guðrúnar Evu á Raspútín í bókinni sem við hann er kennd.
Framvindan í Allt með kossi vekur einkennist af flóknu sambandi heimilda og minninga og þótt það sé kannski fullmikið að kalla Davíð óáreiðanlegan sögumann þá er hann í öllu falli alls ekki hlutlaus. Hann efast til dæmis stórlega um hvers eðlis sá kraftur er sem hrindir meginatburðum sögunnar af stað. Er eiginlega alveg viss um að máttur kossins sem Elísabet fósturmóðir hans býr yfir sé ekki raunverulegur, á sama tíma og hann rekur skilmerkilega, og að því er virðist tiltölulega „hlutlaust“, umbreytinguna sem verður á hinum vansæla Jóni við að þiggja koss Elísabetar. Davíð er trúr heimildum sínum sem eru af ýmsum toga; frásagnir ólíkindatólsins móður hans, hans eigin minningar, skissubækur teiknimyndasöguhöfundarins Láka, sambýlismanns Elísabetar, og síðast en ekki síst eftirlátin skrif Jóns og Indíar, en endurnýjuð kynni Elísabetar við sína gömlu skólavinkonu er það sem hrindir meginatburðum sögunnar af stað. Máttur kossins reynist nefnilega ekki vera einber hamingja, heldur magnar hann upp þau öfl sem búa innra með þiggjandanum og í tilfelli Jóns eru þau í bland myrk og „dýónísk“ og á endanum dugar ekkert minna en að Indí fórni lífi sínu til að stöðva hann.
Meginefnið, kjarninn, er eins og svo oft hjá Guðrúnu Evu leit að hamingju eða tilfinningalegum samastað í heiminum. Fyrir vikið verður Elísabet sú af aðalpersónunum sem minnstum sögum fer af, þótt flókið og erfitt samband Davíðs við hana sé það sem hrindir honum út á ritbrautina. Hún er einfaldlega sátt, og því lítil ferðasaga sem af henni fer, þótt Davíð láti stundum eins og lýsing hennar sé aðalerindi sitt á ritvöllinn. Elísabetu er lýst sem fyrirferðarmiklu ólíkindatóli, einhverskonar náttúruafli, næstum ofurhetju. En upprunasaga ofurkrafta hennar er ekki sögð hér og því fer í raun merkilega litlum sögum af Elísabetu: hún er sátt í sínu skinni og sínu lífi, hvort sem það snýst um taumlaust djamm eða rónalíf á götum borgarinnar. Utan frá séð er hún ekki gæfusöm, þrátt fyrir að búa yfir mætti kossins sem kemur þeim sem hann þiggja í samband við guðmóðinn í sjálfum sér, en kannski er hún það engu að síður þótt Davíð þrjóskist við að viðurkenna það og sættast við hana. Eins virðist Láki vera nokkuð sæll með sitt hlutskipti sem „kysstur maður“ og það er hann sem „selur“ Jóni þá hugmynd að þiggja koss Elísabetar, en afleiðingar þess eru meginhreyfiafl sögunnar, kjarni hennar, þótt sviðið sé vissulega breitt og fleiri örlögum og efnum gerð skil.
Eitt þeirra er hin sérkennilega, þráhyggjukennda og árangurslausa hamingjuleit Indíar í gegnum kaupsýki og botnlausa og leynilega aukavinnu sem og undarlegar heimsóknir hennar í einhverskonar ævintýralegan draum- eða handanheim. Þar er hún sem ung stúlka sem hrekst að heiman og lendir í slagtogi við hóp ungra anarkista sem minnir á að fólk sem lifir þannig utan við lög og rétt kom líka fyrir í Sögu af sjóreknu píanóunum.
Og yfir öllu þessu vakir Katla og hin rámu regindjúp. Í bakgrunni sögunnar er Kötlugos sem setur svip sinn á allt umhverfi og stundum á mannlífið líka. Undir lokin, þegar sögusviðið færist í Mýrdalinn og áfram austur yfir sandana, fær frásögnin á sig heimsslitablæ. Yfirgefnir bæir, eldglæringar og þykkt öskulag, ófært öðrum en vel búnum bílum. Þar ráðast örlög þeirra Jóns og Indíar. Þau eru meginefnið í þessari margslungnu og metnaðarfullu skáldsögu.
Englaryk
„Hún horfði út um gluggann og vissi fyrir víst að allt var eins og það átti að vera. Allir voru óhultir. Allir voru þar sem þeir áttu heima. Ræturnar sem uxu niður úr iljum fólks náðu djúpt en ferðuðust með manni, sama þótt maður væri í bíl á hundrað kílómetra hraða á klukkustund. Þær smugu malbikið og liðu gegnum hraunið eða klöppina undir því og þegar fólk var jarðað ófu ræturnar sig utan um kistuna, sprengdu hana að lokum og mynduðu hjúp utan um manneskjuna til að hún gæti verið í friði á meðan hún bjó sig undir eilíft líf.“ (Bls. 255)
Guðdómurinn er sjaldnast langt undan í höfundaverki Guðrúnar Evu. Í Yosoy og Allt með kossi vekur gegnir löngun í að upplifa yfirnáttúrulegt ástand mikilvægu fléttuhlutverki. Það sama á við um Englaryk, en þar er trúarþátturinn jafnvel enn fyrirferðarmeiri og auk þess bókstaflegri ef svo mætti segja, frá sjónarhóli vestrænnar og íslenskrar menningar.
Í Stykkishólmi býr fimm manna fjölskylda. Hjónin Jórunn og Pétur, með börnum sínum Ölmu og Antoni, og Sigurbjarti, syni Jórunnar úr fyrra sambandi. Jórunn er handavinnukennari en Pétur rekur gistiheimili og veitingastað. Þau njóta starfa sinna og komast þokkalega af þótt reksturinn sé í járnum.
Fjölskyldan er samhent og samheldin. Kannski er tilfinningaspennustigið hærra en í meðallagi, sem staðalmyndirnar í kolli lesandans (og vísbendingar í textanum), rekja til hins hálffranska blóðs Péturs. Kannski orsakast spennustigið vegna þess að hann fór blindfullur af þorrablóti nokkru áður en sagan gerist og átti kynlífsfund með ókunnugri konu. Þó að sárin sem þetta atvik skilur eftir sig séu ekki gróin virðist manni grunnurinn í sambandinu og fjölskyldulífinu traustur. Og Pétur er vissulega ekki sá eini í þessu hjónabandi með skap sem stundum hleypur með hann í gönur
Börnin sækja líka skjól hvert til annars og til heimilisins. Anton litli er viðkvæmur og á pínu erfitt með að staðsetja sig í jafnaldrahópnum, fellur milli skips og bryggju í virðingarstiga bekkjarins, en kann að standa með sjálfum sér þótt það kosti sitt. Sigurbjartur á til gáfnahroka og er svolítill einfari, ekki síst þar sem hann er að búa sig undir stökkið út í heiminn sem hann er meðvitaður um að er endanlegt. Hann á samt líka til skjól fyrir yngri krakkana.
En svo breytist allt. Í sumarleyfisferð til Spánar verður Alma viðskila við fjölskyldu sína og hittir Krist þar í hliðargötu og eftir heimkomuna velur hún að feta í fótspor hans, meðal annars með því að sofa hjá einum af sínum minnstu skólabræðrum, hinu illa þefjandi og samskiptahefta eineltisfórnarlambi Jóni Stefáni, og tilkynna um meydómsmissinn á samskiptasíðu skólans, að því er virðist til að lyfta honum upp í virðingarstiga unglingasamfélagsins með fórnfýsi sinni. Í framhaldinu er ákveðið að Alma þurfi að ræða málin við sálfræðing og er keyrð reglulega til Reykjavíkur á fund Snæfríðar sem sjálf hefur dulin fjölskyldutengsl við fjölskyldu Ölmu.
Árekstrar Ölmu, í krafti nýfenginnar trúarvissu og viðhorfa sem henni fylgja, við vini, fjölskyldumeðlimi, sóknarprestinn og annað fólk í bænum, er þungamiðja Englaryks, þó án þess að taka söguna yfir. Lesandinn fær góðan tíma með öllum helstu persónum og þótt sagan sé lágstemmd og að mestu laus við ævintýraleg viðburðatilþrif undanfarinna bóka þá sjáum við persónurnar glíma við þær aðstæður sem þau eru komin í og tilfinningalegum áhrifum þess (sem gerist) er lýst af mikill næmni. Nefna má glímur Ölmu við prestinn, en það er skemmtileg þverstæða að bein trúarreynsla safnaðarmeðlima fellur ekki vel að verkefnum opinberra túlkenda guðdómsins. Minnisstæð er lýsingin á Sigurbjarti að opna jólapakkann frá föður sínum í einrúmi og kjörkuð afstaða Antons gegn félögum sínum á jólatrésskemmtuninni. Og einmitt vegna þess hve atvikin eru raunsæisleg og hversdagsleg verður sérstæð list Guðrúnar Evu við að lýsa tilfinningum og upplifunum augljósari en í sögunum þar sem sjálf atburðarrásin fangar athygli lesandans.
Hér er Alma með Antoni:
Anton lauk við eggin og tómatsósuna. Takk fyrir mig, sagði hann, svo feimnislega að Alma fann sjaldgæfa ástina til hans smjúga eins og geislasverð í gegnum hjartað. (Bls. 144)
Hér er Pétur hjá Snæfríði:
Viðmót hans var ekki annað en gisin gaddavírsgirðing utan um heilt tún af tilfinningasemi (Bls. 8)
Alma með Sigurbjarti:
Sárindin og vonleysið þrengdu að öndunarvegi hennar innan frá, eins og hálsbólga. (Bls. 73)
Og Sigurbjartur sjálfur:
Það fauk í hann en það gerðist svo sjaldan að hann vissi varla hvaða tilfinning það var; þessi málmkenndi, storknandi hiti sem vall um brjóst og höfuð. (Bls. 114)
Þessi líkamlega, manni liggur við að segja lífeðlisfræðilega, nálgun á tilfinningalíf persónanna færir lesandann inn til þeirra, inn í þær. Þá skiptir engu þótt þær séu svona venjulegar, svona ágætt fólk, jafnvel á mörkum þess að vera í frásögu færandi. Það er í krafti þessarar nándar sem þessi látlausa hversdagssaga með yfirnáttúrulegum yfirtónum neitar að yfirgefa huga lesandans.
Skegg Raspútíns
„Hún hefur alltaf verið þarna; þörfin fyrir að sjá dýpra, finna hvar taugarnar liggja, hvernig allt tengist, svaraði ég. En núna er þessi gamli ávani orðinn eins og kapphlaup. Tilfinningin er sú að ef ég sofna á verðinum muni allt hrynja.“ (Bls. 13)
Í Skeggi Raspútíns lýsir Guðrún Eva djúpri kulnunarkrísu sem hún lendir í, samhliða erfiðu bataferli eiginmannsins í stríði hans við alkóhólisma og þunglyndi. Þau hafa nýlega komið sér fyrir í niðurníddu húsi á stórri lóð í útjaðri Hveragerðis, og þar finnur skáldið hjálp í formi Ljúbu, lettneskrar konu af rússneskum ættum, sem fæst við ræktun í gróðurhúsi við sömu götu. Náin vinátta tekst með Evu og Ljúbu, þær spegla sig hvor í annarri, sjá samkenni og andstæður í viðhorfum, aðstæðum og forsögu.
Freistandi er að sjá Skegg Raspútíns sem hluta af sannsagnabylgjunni sem oft er rakin til velgengni norska rithöfundarins Karl Ove Knausgaard. Í íslensku samhengi er kannski réttast að horfa til fordæmis Þórbergs Þórðarsonar. Ári áður en Guðrún Eva sendi frá sér þessa bók hafði Hallgrímur Helgason sent frá sér Sjóveikur í München þar sem hann vinnur á skáldlegan hátt úr námstíma sínum í Þýskalandi og áfalli sem hann varð þar fyrir. Fjórum árum áður vakti bók Auðar Jónsdóttur, Ósjálfrátt, mikla athygli og árið 2014 lauk Sigurður Pálsson við minningasagnaþríleik sinn en allar tilheyra þær sannsagnabylgjunni.
Sjálf hefur Guðrún Eva stundum verið nærgöngul við eigin sögu og minningar í verkum sínum. Það er t.d. erfitt að hugsa sér annað en Albúm frá 2002 eigi sér að minnsta kosti rætur í bernsku hennar sjálfrar. En í Skeggi Raspútíns fer ekki á milli mála að hér er raunveruleikinn sjálfur efniviðurinn, höfundurinn og hennar nánustu. Annað sem greinir verkið frá fyrrnefndum bókum og höfundum er að hér er ekki seilst langt aftur í persónusöguna, og unnið úr hráefni sem minnið hefur fágað eins og hafið steininn, svo vísað sé í enn eina rómaða sjálfssögu, skáldævisögutvíleik Guðbergs Bergssonar frá 1997 og 98. Fram kemur í Skeggi Raspútíns að skáldsagan sem Guðrún Eva hefur í smíðum er Englaryk sem kom út 2014.
Eins og gildir um margar af viðameiri skáldsögum Guðrúnar Evu er bygging Skeggs Raspútíns nokkuð flókin. Auðvelt er að greina fjóra meginþræði: Tvo þeirra má kalla „raunsæislega“: samskiptasögu Evu og Ljúbu og minningar Ljúbu frá uppvextinum í lettneska smáþorpinu Viļānu pagasts, eða Gömlu kirkju. Hinir tveir flytja lesandann öllu lengra aftur í tíma og rúmi, annars vegar til síðustu daga rússneska sjáandans og kraftaverkalæknisins Grígoríj Raspútín og hins vegar í dularfullt ferðalag undir áhrifum múskats þar sem Ljúba leiðir Evu um bæjarhátíð í fantasíuútgáfunni af Hveragerði. Reyndar er gefið í skyn á einum stað að þessi síðastnefndi þáttur sé hin eiginlega saga, enda hefur hann mestan skáldsagnablæ:
„Allt eru þetta útúrdúrar, sem tefja framvinduna en eru henni nauðsynlegir. Það sem gerðist næst, á meðan ég lá sofandi á eldhúsgólfinu, var að við Ljúba gengum í kjölfar bjölludansaranna inn í bæjarkjarnann sem varð stöðugt þéttari og göturnar mjórri“ … (Bls. 170)
Engu að síður eru það „útúrdúrarnir“ sem taka mest pláss og verða að teljast meginefni sögunnar. Hvernig samskiptin við Ljúbu í „raunheimum“, sögurnar sem hún segir og líf þeirra og starf sem fléttast smám saman meira og meira saman, verður til þess að kulnunin og svefnleysið víkja:
„Áhugi minn á Ljúbu var einnig ákaflega persónulegur þótt ég hefði aðeins óljósa hugmynd um hvað laðaði mig að henni. Vissulega hafði hún eitthvað við sig sem kallaði fram forvitni, eins og löngu látin kvikmyndastjarna eða lítt kannaður afkimi mannkynssögunnar. En því meira sem hún sagði mér af sjálfri sér því sannfærðari varð ég um að hún gæti orðið mér skjól, gefið mér frið, kennt mér að sofa. Hugmyndin var svo langsótt og forboðin að hún hlaut að vera rétt.“ (Bls. 38)
Það er í einskismannslandinu milli vöku og draums sem hún hittir fyrir annan rússneskan bjargvætt, hinn dularfulla bóndadurg Raspútín sem keisarafjölskyldan taldi geta bjargað dreyrasjúkum prinsinum. Vafalaust hefur það líka hvarflað að Alexöndru keisaraynju að lækningamáttur þessa svallara væri svo langsóttur og forboðinn að hann hlyti að vera til staðar. En það eru ekki bara sögur Ljúbu sem hjálpa Evu, heldur líka þátttaka þeirrar síðarnefndu í lífi vinkonu sinnar, allt frá vöruskiptum til vinnu í gróðurhúsinu.
„Samningaviðræðurnar um það hversu lengi ég ynni þann daginn voru síðan afar diplómatískar; fullar af reisn og undankomuleiðum.
Hversu marga bakka?
Bara eins og þú hefur tíma til. En ég þarf að minnsta kosti tuttugu og fjóra.“ (Bls. 259)
Skegg Raspútíns mætti því sem jafnvel kalla sögu um deilihagkerfi. Annars vegar deilihagkerfi veraldlega gæða þar sem heimabakað brauð er látið fyrir lúku af baunum eða flösku af tælenskum landa, afnot af kerru eru greidd með sultukrukkum og steypustyrktarjárn fæst fyrir harðviðarkubba í kamínuna, og hinsvegar, og kannski fyrst og fremst, deilihagkerfi tilfinninga. Hér er vitnað um gagnkvæm heilandi áhrif þess að deila sögum og návist. Þar sem vinátta og samlíðan er lofsungin á einstaklega jarðbundinn og hispurslausan hátt, en um leið ævintýralegan og upphafinn.
Ástin Texas
„… ég er komin í smá uppreisn gegn týranníu plottsins sem mér finnst hafa verið við lýði síðustu tuttugu árin. Mér er farið að leiðast þetta svo mikið að allt þurfi að vera svona hel-plottað. Þegar plottið þvælist ekki fyrir er það sem maður getur gert að fara beint inn í stemminguna, beint inn í dýptina.“ (Guðrún Eva Mínervudóttir í viðtali við Guðna Tómasson á RÚV 26. janúar 2019)
Það má heimfæra þessar efasemdir um ofuráherslu á sögufléttu upp á söguefnið í Skeggi Raspútíns en hinu er ekki að neita að orðin eiga enn frekar við smásagnasafnið Ástin Texas. Fyrsta smásagnasafn Guðrúnar Evu í tuttugu ár, eða frá því Þegar hann horfir á þig ertu María Mey kom út 1998, ef frá er talin kennslubókin Valur: heimspekilegar smásögur frá 2001.
Það er vissulega mikil „stemming“ í sögunum fimm í Ástin Texas. Heildarsvipur er líka sterkur. Allar eru sögurnar fyrstu persónu frásagnir og þar hafa konur orðið. Ekki kornungar, en engin eldri en miðaldra. Sú elsta deyjandi. Tvær eru fátækar; einstæða verkakonan Sara í „Þögninni“ og MS-sjúklingurinn Magga í „Húsi hinna deyjandi“. Hinar einhversstaðar á millistéttarrófinu; auglýsingakonan Guðríður í „Hyski“, sálfræðingurinn Hildigunnur í „Glerbúrku“ og hin vel gifta verkfræðingsfrú Jóhanna í „Smiti“ sem getur leyft sér að fara í frönskunám meðan Jónas leigir kvikmyndagerðarfólki dróna. Það væri fráleitt að kalla Guðrúnu Evu samfélagsrýnandi rithöfund, en kannski einmitt vegna þess hve áreynslulaust og blátt áfram hún skrifar um aðstæður fólks „á jaðrinum“ verða áhrifin sláandi eins og í lokasögunni í safninu þar sem hin deyjandi Magga og róninn Sóti ná saman í algleymi ástar, samhygðar, neyslu og kynlífs.
Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar leitað er skýringa á áhrifamætti hinna lítt plottuðu og stundum dálítið endaslepptu sagna í Ástin Texas er hve sterka tilfinningu þær gefa fyrir öllu lífi persónanna. Líkt og það sem sagt er frá sé einungis ágrip eða sýnishorn, þótt vissulega séu á stundum stórtíðindi á ferð; kynni Jóhönnu og nánast sjúkleg tengsl hennar við mann sem engum getur tengst og ást Möggu og Sóta. Í hinum sögunum þremur eru slíkir atburðir rifjaðir upp: þegar Guðríður gleymir tímanum svo rækilega við að klappa hundi vinkonu sinnar að lögreglan er ræst út til að leita hennar. Kynlífssamband Hildigunnar við sjoppueigandann Agnar sem hún hittir síðan aftur óvænt á mormónasamkomu. Hroðaleg misþyrming barnsföður Söru sem bæklar hana fyrir lífstíð.
Það eru ekki síður óvænt og óþörf, út frá sjónarhóli framvindu og plotts, smáatriði og útúrdúrar sem stækka sögurnar, skapa „stemminguna“ og gefa tilfinningu fyrir og óræðan grun um „dýpt“. Dæmi um þetta er kvöldið á veitingahúsinu þegar það rennur upp fyrir Söru að Engilbert er sá ofbeldishrotti sem raun ber vitni. Þar eru þau með vinahjónum Engilberts sem eru miklu eldri en þau Sara og hefur enga þýðingu fyrir gang mála. Plötuspilarinn í sjoppunni hjá Agnari er annað óvænt smáatriði sem litla þýðingu hefur og gerir staðinn óvenjulegan. Eða skammvinnt ástarsamband móður Guðríðar við sér miklu yngri mann, norður-afrískan hælisleitanda sem í höndum einhverra höfunda hefði orðið meginefnið í „Hyski“.
Og svo auðvitað nærvera rauðhærða og íðilfagra mormónatrúboðans Austins, sem hljómar eins og „ástin“, og veit það eftir langa dvöl á landinu og samviskusamt tungumálanám að hætti safnaðar síns. Hann er frá Texas, ekki þó höfuðborg ríkisins, sem hann heitir í höfuðið á, og kemur við sögu í lífi persóna í tveimur sögum. Í „Glerbúrku“, þar sem hann leiðir óafvitandi saman aðalpersónuna og hennar gamla elskuhuga, og í „Húsi hinna deyjandi“, þar sem hann gegnir hlutverki ástarengils eða kannski efnahvata, verður óbeint valdur að því að tengsl Möggu og Sóta umbreytast úr drykkjufélagsskap í sálufélag.
Það er ekkert skematískt við Ástin Texas, samsetning bókarinnar hefur á sér tilviljanakennt yfirbragð lífsins sjálfs. Annars hefði mormóninn ef til vill ráðið örlögum í öllum sögunum, en ekki bara birst í tveimur þeirra. En vegir lífsins eru órannsakanlegir og því ekki annað unnt en að sætta okkur við alla ranghalana, mislægu gatnamótin, hraðahindranirnar og blindgötunnar. Gefum skít í borgarskipulag plottsins og njótum ferðarinnar.
Þorgeir Tryggvason, 2019.
Greinar
Viðtöl
Auður Aðalsteinsdóttir: „Kýlir fólk í magann – dramatík“ (viðtal)
Spássían 2010, 1. árg. (haust), bls. 22.
Friðrika Benónýsdóttir: „Hrein hamingja“
Vera, tímarit um konur og kvenfrelsi, 17. árg., 5. tbl. 1998, s. 16 – 17.
Hrund Hauksdóttir: „Skáldsaga fæðist í vatninu“
19. júní, ársrit Kvenréttindafélags Íslands, 2007, s. 4-6
Kristín Heiða Kristinsdóttir: „Kvenskörungar Heimspekiskólans“
Vera, 17. árg., 6. tbl. 1998, s. 24-25
Um einstök verk
Albúm
Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Sannleikurinn í skáldskapnum.“
Ritið; tímarit Hugvísindastofnunar, 1. tbl. 2003
Allt með kossi vekur
Úlfhildur Dagsdóttir: „Óreiða, eldgos og illska“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 2. tbl. bls. 129-34.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Sköpun og skilningur“
Bókmenntaborgin, umfjöllun um bækur, sjá hér
Englaryk
Hjalti Hugason: „. . .það er eins og sé ekkert pláss fyrir helgi í nútímanum . . .“
Tímarit Máls og menningar, 76. árg., 3. tbl. 2015, s. 18-38
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína, 10. árg., 1. tbl. 2015, s. 137-139
Þorgeir Tryggvason: „Leiðtogi lífsins“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 76. árg., 2. tbl. 2015, s. 135-139
Vera Knútsdóttir: „Öfgar og englaryk í Stykkishólmi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Fyrirlestur um hamingjuna
Roald Viðar Eyvindsson: „Úr sálarfylgsnum hversdagsfólks.“
Vera, tímarit um konur og kvenfrelsi, 19. árg., 5.-6. tbl. 2000, s. 66, 68
Ljúlí, ljúlí
Halla Kjartansdóttir: „Mjallhvít og karlarnir sjö.“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 3. tbl. 2000, s. 109 – 114
Kristín Heiða Kristinsdóttir: „Ljúlí, ljúlí.“
Vera, tímarit um konur og kvenfrelsi, 18. árg., 6. tbl. 1999, s. 57
Sagan af sjóreknu píanóunum
Þorgerður E. Sigurðardóttir: „Sannleikurinn í skáldskapnum.“
Ritið; tímarit Hugvísindastofnunar, 1. tbl. 2003
Bára Magnúsdóttir: „Allra-allra besta sagan af sjóreknu píanóunum“
Vera, 21. árg., 6. tbl., 2002, s. 70
Skaparinn
Auður Aðalsteinsdóttir: „Brúðustrákurinn og lífrænu konurnar“ (ritdómur)
Spássían 2010, 1. árg. (haust), bls. 25.
Björn Þór Vilhjálmsson: „Hylki utan um ekkert“
Tímarit Máls og menningar, 70. árg., 2. tbl. 2009, s. 114-119
Sigrún Margrét Guðmundsdóttir: „Hvít eins og frauðplast : um kynlífsdúkku Guðrúnar Evu Mínervudóttur“
Ritið 2011, 11. árg., 1. tbl. bls. 159-174.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Kvenlíkami fyrir lífið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Valur
Brynhildur Sigurðardóttir: „Heimspeki í lífsleiknikennslu“
Hugur, 16. árg., 2004, s. 296-300
Yosoy
Melkorka Óskarsdóttir: „Sigggrónar sálir“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 2. tbl. 2006, s. 127-130
Ingi Björn Guðnason: „Yosoy“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar og viðtöl við Guðrúnu Evu hafa einnig birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2019 – Fjöruverðlaunin: Ástin, Texas
2014 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Englaryk
2011 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Allt með kossi vekur
2006 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Yosoy
Tilnefningar
2021 - Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Aðferðir til að lifa af
2016 - Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Skegg Raspútíns
2016 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Skegg Raspútíns
2008 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Skaparinn
2000 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Fyrirlestur um hamingjuna
Í skugga trjánna
Lesa meiraLötrandi með skálarnar gegnum miðbæinn og vestur í bæ leit ég út eins og vogin sem guðinn Anubis notaði til að mæla hjörtu nýdáinna forn-Egypta - á annarri vogarskálinni fjöður sem var táknmynd Ma'at, gyðju fegurðar og réttlætis sem bar ábyrgð á að viðhalda jafnvægi í alheiminum.Útsýni
Lesa meiraSigurlilja er ung kona „sem passar ekki inn í normið“, eins og móðir hennar segir, og gædd óvenjulegri gáfu sem einfaldar ekki líf hennar.Aðferðir til að lifa af
Lesa meiraÁstin Texas
Lesa meiraSkegg Raspútíns
Lesa meiraTutto si risveglia con un bacio
Lesa meiraEnglaryk
Lesa meiraAlles beginnt mit einem Kuss
Lesa meiraThe Creator
Lesa meira
Leyndardómur býflugnanna
Lesa meiraLjónadrengurinn
Lesa meira