Æviágrip
Gylfi Gröndal fæddist í Reykjavík 17. apríl 1936. Að loknu stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1957 lagði hann stund á íslensku við Háskóla Íslands, en hóf störf sem blaðamaður að því loknu. Hann starfaði sem blaðamaður í meira en þrjátíu ár og ritstýrði Fálkanum, Alþýðublaðinu, Vikunni og Samvinnunni. Hann gerði auk þess heimildaþætti um mörg skáld tuttugustu aldar fyrir Ríkisútvarpið.
Á síðari árum voru ritstörf hans aðalstarf. Gylfi Gröndal fékkst við ljóðagerð frá unga aldri. Árið 1954, eða þegar hann var átján ára birtust valin ljóð eftir hann í Ljóðum ungra skálda sem Magnús Ásgeirsson tók saman og árið 1956 birtust ljóð eftir hann í Árbók skálda, valin af Kristjáni Karlssyni. Gylfi gaf út nokkrar ljóðabækur og ljóð eftir hann hafa verið valin í kvæðasöfn jafnt hérlendis sem erlendis. Hann er þó þekktastur fyrir viðtalsbækur sínar og ævisögur sem eru hátt í 30 talsins. Hann ritaði til að mynda sögur fyrstu þriggja forseta Íslands. Margar af bókum hans fjalla um ævi kvenna, sérstaklega þeirra sem voru á undan sinni samtíð í jafnréttismálum. Fyrra bindi hans um Stein Steinarr sem út kom árið 2000 var tilnefnt til Íslensku bókmenntaverðlaunanna sama ár. Síðara bindið kom út ári síðar. Gylfi sendi frá sér ljóðabókina Eitt vor enn 2005.
Gylfi Gröndal lést 29. október 2006.
Frá höfundi
Frá Gylfa Gröndal
Hið fyrsta, sem mér flaug í hug, þegar ég var beðinn um að segja frá starfi mínu sem rithöfundur, var hve lánsamur ég hef verið í lífinu að þurfa aldrei að velkjast í vafa um hvað ég ætti að taka mér fyrir hendur.
Ég byrjaði að fást við skriftir og skáldskap barn að aldri; eignaðist gamla svarta Erica-ritvél, fjölfaldaði litlar bækur og blöð með kalkipappír og seldi heimilisfólkinu.
En ég komst fljótt að raun um að sú ákvörðun mín að verða rithöfundur og skáld vakti lítinn fögnuð í fjölskyldu minni.
Amma mín í móðurætt, Rannveig Hálfdanardóttir, kom stundum í heimsókn á bernskuheimili mitt; stórskorin kona að vestan, frá Flateyri við Önundarfjörð, hávær í tali og fyrirferðarmikil. Mér dauðbrá, þegar hún skellti þéttingsfast á lær sér, hló og hristi sig svo að skúfurinn á skotthúfunni sveiflaðist til og frá.
„Mér er sagt að þig langi til að verða skáld, ljúfur,“ sagði hún eitt sinn við mig. „En meinið er að það fylgir því svo hardneskjuleg ógæfa, elskan mín.“
Síðan stundi hún þungan og bætti við:
„Æ, þú hefur þetta úr föðurættinni, góurinn. Svona grillur eru ekki til í minni ætt.“
Á góðglöðum stundum vilja allir Íslendingar vera skáld; og skáldgáfu er að finna í býsna mörgum ættum hér á landi. En það var rétt hjá ömmu minni að skáldagrillur hafa verið óvenju þrálátar í föðurætt minni. Ég mun vera sjötti ættliðurinn sem gefur út kvæði á bók er mér sagt. Og þótt þrír hinir fyrstu hafi talist til þjóðskálda en þrír hinir síðustu séu hins vegar í hópi hinna smærri spámanna, þá er ástríðan söm og álögin sem henni fylgja.
Þótt við Íslendingar tökum kurteislega ofan fyrir skáldum, ef þau eru löngu dauð eða hafa hlotið verðlaun erlendis, þá eimir enn eftir af viðhorfi ömmu minnar. Vinur minn Björn á Löngumýri sagði eitt sinn við mig og hefur eflaust verið að stríða mér, eins og hann gerði oft:
„Það er ekki mikill vandi að vera skáld. Þau setjast við skrifborð, munda penna og ljúga svo bara og ljúga eins miklu og þeim sýnist. Og svo ætlast þau til að fólk hafi gaman af að lesa þetta andskotans kjaftæði. Flest skáld eru ónytjungar; þau vilja láta ríkið sjá fyrir sér; þetta eru afætur.“
Þrátt fyrir hrakspár og efasemdir hélt ég ótrauður áfram, og lifði mína sælustu tíð í Menntaskólanum í Reykjavík, þar sem bókmenntir voru í hávegum hafðar og skólaskáld þóttu ómissandi.
Þrír úr mínum árgangi reyndu að helga líf sitt bókmenntum eins og aðstæður frekast leyfðu; auk mín Ólafur Jónsson gagnrýnandi og Dagur Sigurðarson skáld. Þeir eru nú báðir látnir langt um aldur fram, og í ljósi þess er einkennilegt og ekki sársaukalaust að minnast þessara löngu liðnu daga.
Það voru erfiðir tímar í íslenskri ljóðagerð á þessum árum. Deilan um atómskáldin var í algleymingi, einhver hatrammasta bókmenntadeila sem háð hefur verið hér á landi. Sem ungir og djarfir menn hlutum við þremenningarnir að taka afstöðu með atómskáldunum; annað kom ekki til greina. En það var ekki auðvelt, því að þau áttu sér formælendur fáa og máttu þola bæði níð og háð eins og verða vill um brautryðjendur.
Ég man enn greinilega þá undrun og eftirvæntingu sem greip mig, þegar ég las tvær nýjar ljóðabækur, sem faðir minn hafði keypt af ungum atómskáldum á Hressingarskálunum. Þetta var Dymbilvaka eftir Hannes Sigfússon og Svartálfadans eftir Stefán Hörð Grímsson, sem komu út 1949 og 1951, en ég var þá þrettán og fimmtán ára gamall.
Síðar las ég Þorpið eftir Jón úr Vör, sem kom út 1946, Mitt andlit og þitt eftir Jón Óskar 1953, Eitt kvöld í júní, óbundnar impressjónir eftir Einar Braga 1950 og fyrstu ljóðabók Sigfúsar Daðasonar, Ljóð 1947-1953. Ólafur Jónsson hafði ekki efni á að kaupa sér ljóðabók Sigfúsar en áhuginn var svo mikil að hann fór á Landsbókasafnið og skrifaði alla bókina upp.
Þessar bækur áttu sinn þátt í að kaflaskipti urðu í íslenskri ljóðagerð og eru metnar að verðleikum nú dögum sem brautryðjendaverk. En þær voru gefnar út í afar litlum upplögum, oftast af höfundum sjálfur, lesnar af fáum fyrst í stað og lengi eftir það.
Og svo kom Hannes Pétursson til sögunnar, eins og frelsandi engill; sameinaði gamalt og nýtt og hlaut strax hylli almennings. Síst af öllu vil ég kasta rýrð á Hannes Pétursson; hann er eitt fremsta ljóðskáld okkar tíma; en velgengni hans í upphafi var mjög á kostnað atómskáldanna.
Meðan deilurnar um atómskáldin stóðu sem hæst, var haldinn um þær sérstakur málfundur í Gagnfræðaskóla Austurbæjar, líklega á útmánuðum 1951. Þá steig Dagur Sigurðarson í pontu, eða öllu heldur Dagur Thoroddsen eins og hann hét þá; klæddur duggarapeysu og að auki með trefil um hálsinn, í uppháum og alltof stórum stígvélum, glotti við tönn og hóf ræðu sína með þessum orðum:
„Sumir halda að þeir geti orðið skáld ef þeir hætta að skera hár sitt og láta sér vaxa skegg. Þetta er að sjálfsögðu mikill misskilningur. Auðvitað verða þeir að hætta að þvo sér líka!“
Þarna var Dagur lifandi kominn og sú kaldhæðni og hrekkvísi sem síðar einkenndi kveðskap hans.
Hinar fáránlegu og illvígu deilur um rímuð ljóð og órímuð hafa ef til vill verið óumflýjanlegar. Fullyrða má að formbyltingin svokallaða hafi auðgað íslenska ljóðagerð og orðið henni til góðs. Ef til vill hefur aldrei verið betur ort á Íslandi en einmitt á síðari hluta tuttugustu aldar. Skemmtilegast finnst mér persónulega hve ljóð eru fjölbreytt nú á dögum: torræð tákn og margslungnar myndhverfingar, einföld frásagnarljóð um hin hversdagslegustu efni – og allt þar á milli.
En að einu leyti, og harla mikilvægu, skaðaði deilan um atómskáldskapinn íslenska ljóðagerð; hún sleit hana úr tengslum við almenning þannig að hvað útbreiðslu varðar hefur hún ekki borið sitt barr síðan.
En skyndilega voru hin áhyggjulausu og skáldlegu skólaár liðin og við blasti blákaldur veruleikinn. Samhliða námi í norrænudeild Háskólans gerðist ég blaðamaður til þess að geta að minnsta kosti setið við ritvél og fengist við einhvers konar skriftir. Og ég sá ekki eftir því. Blaðamennska er eitthvert allra skemmtilegasta starf fyrir ungan og forvitinn mann sem hægt er að hugsa sér. Ekki spillti það heldur fyrir að á þessum tíma, í kringum 1960, var uppgangur í blaðaheiminum svo að gullin og freistandi tækifæri blöstu hvarvetna við. Ég varð ritstjóri Fálkans, sem var gamalt og virðulegt vikublað, aðeins 24 ára gamall, og 28 ára gamall var ég orðinn ritstjóri Alþýðublaðsins sem var eitt af dagblöðum höfuðstaðarins.
Viðtöl voru í tísku á þessum árum og hafa verið fyrirferðamikil í íslenskum blöðum æ síðar. Valtýr Stefánsson ritstjóri Morgunblaðsins og Vilhjálmur S. Vilhjálmsson á Alþýðublaðinu teljast brautryðjendur viðtalsformsins hér á landi, en fyrstu viðtalsbókina skrifaði Matthías Johannessen, skáld og ritstjóri Morgunblaðsins; Í kompaníi við allífið hét hún og hafði að geyma fjörug viðtöl við meistara Þórberg.
Ég fetaði í fótspor Matthíasar og skrifaði viðtalsbók við dr. Kristin Guðmundsson, utanríkisráðherra og ambassador. Dr. Kristinn var sérdeilis skemmtilegur maður; ævinlega í góðu skapi, kátur og kímnin óbrigðul. Hann var menntaður heimsborgari, og fyndni hans oftast fáguð og leyndi á sér.
Bókinni var afar vel tekið; hún seldist mikið og fékk góða dóma. Þar með var skriðan fallin. Síðan hef ég skrifað bók svo að segja á hverju hausti, ýmist viðtalsbækur eða ævisögur – og laumað einu og einu ljóðakveri inn á milli.
Með tilkomu viðtalsbókanna hefst í rauninni ný ritmennska í landinu. Sumir halda að það sé nú ekki mikill vandi að skrifa viðtalsbók; menn taki viðtölin upp á segulband og skrifi síðan upp af bandinu. En svona einfalt er málið aldeilis ekki. Munur á talmáli og ritmáli er svo mikill að munnleg frásögn stenst ekki á bók hversu góður sem sögumaðurinn er. Þá kemur til kasta rithöfundarins að orðfæra frásagnargleðina; búa hana í búning máls og stíls þannig að hún njóti sín á prenti. Við það verk þarf hann að feta vandratað einstigi á milli talmáls og ritmáls; það er nefnilega snöggtum erfiðara að skrifa einfaldan, hnitmiðaðan og munntaman texta – en hrúga upp skrautyrðum í viðhafnarstíl.
Ég stundaði blaðamennsku í þrjátíu ár, en skrifaði bækur í tómstundum. Síðasta áratuginn var ég ritstjóri Samvinnunnar og vann jafnframt á fræðsludeild Sambands íslenskra samvinnufélaga. Þegar Sambandið hrundi eins og spilaborg og margur mætur maðurinn stóð uppi atvinnulaus, sögðu flestir við mig – mér til óblandinnar ánægju:
„Þú þarft ekki að hafa áhyggjur. Þú gerir tómstundastarfið að aðalstarfi og helgar þig alfarið ritstörfunum.“
Alla, sem fást við skriftir og skáldskap í stopulum tómstundum, dreymir um að geta haft ritstörf að atvinnu og lifað af list sinni. En það er nú svo með drauma manns að þeir mega helst ekki rætast. Ekki hefði það hvarflað að mér að gerast atvinnurithöfundur á sínum tíma, ef ég hefði vitað hve erfitt það er, hve einmanalegt það er – og hve stopul afkoman er. Viðbrigðin eru sannarlega mikil fyrir mann, sem alla ævi hefur fengið laun sín mánaðarlega og notið margvíslegra fríðinda, að fá nú allt í einu engar greiðslur í lífeyrissjóð, ekkert sumarfrí, enga veikindadaga og bókstaflega ekkert af því sem launþegahreyfingin hefur fengið framgengt með langri og strangri baráttu sinni. Samt hafa bækur mínar oft selst vel og verið á metsölulistum. En þær seljast ekki alltaf vel; sala þeirra sveiflast frá 700 eintökum og upp í 7000, og einu laun höfundar eru prósentur af sölunni svo að hann er að öllu leyti háður hinu miskunnarlausa markaðslögmáli.
Og burtséð frá óvissunni og áhættunni hef ég verið svo óheppinn að bókaútgáfan í landinu hefur átt í verulegum erfiðleikum undanfarin ár. Þetta hafa verið mögur ár, enda hafa margir gamalgrónir og djarfir útgefendur orðið gjaldþrota.
En barlómur er leiðinlegur. Bókin mun blífa; hún verður ekki sjónmenntum og myndmáli að bráð eins og margir spá. Og enn er hægt að selja bækur, ef þær eru nógu góðar og ef þær eru nógu skemmtilegar. Og sumir detta í þann lukkupott að fá starfslaun í sex mánuði eða jafnvel þrjú ár. Svo að ég held áfram að fást við ljóðagerð og ævisagnaritun – þökk sé vestfirsku þrjóskunni.
Ég hef oft verið að því spurður með samblandi af undrun og hneysklan hvernig ég geti setið lon og don yfir körlum og kerlingum sem komin séu á grafarbakkann. Svarið er einfalt: Ég hef gaman af því. Auk þess hef ég þá trú að viðtalsbækur og ævisögur hafi heimildargildi og verði vel þegnar í framtíðinni. Þær geyma líf forfeðra okkar, dýrmætar frásagnir af tíma sem er liðinn og kemur aldrei aftur.
Ég reyni að velja mér góða sögumenn; sterka persónuleika; fólk sem er einarðlegt í framgöngu, kjarkmikið og hnarreist; fólk sem aldrei hefur látið lífsstríðið smækka sig; konur á borð við Helgu M. Níelsdóttur ljósmóður, Jóhönnu Egilsdóttur verkalýðsforingja eða Mömmugöggu hans Þórbergs; og karla eins Eirík skipherra eða Björn minn á Löngumýri.
Ég hef lagt mig eftir að skrifa um konur sem voru á undan samtíð sinni í jafnréttismálum, Ástu málara til dæmis, en hún var fyrsta konan sem tók próf í handiðn, Huldu Jakosdóttur, fyrstu konuna sem varð bæjarstjóri, að ógleymdri Helgu M. Níelsdóttur ljósmóður. Helga var fyrsta konan sem fékk úthlutað lóð í Reykjavík; það var þegar hún byggði Fæðingarheimilið en síðar reisti hún einnig stórt íbúðarhús við Miklubraut. Hún tók á móti 3800 börnum í Reykjavík og til þess að vera nógu fljót í förum fékk hún sér mótorhjól og þeysti um bæinn.
Það var líka lífsreynsla sem ekki gleymist að sitja hjá Jóhönnu Egilsdóttur fjörgamalli og hlusta á hana segja frá baráttuárum verkalýðsins þegar íslensk alþýða reis upp og krafðist réttar síns.
En ef til vill er Mammagagga kröftugust og eftirminnilegust allra kvenna sem ég hef skrifað um. Eftir að bókin um hana kom út settist herskár bókmenntafræðingur úr hópi kvenna í dómarasæti og leit niður á okkur bæði eins og aumustu sakamenn. Af því tilefni sagði Mammagagga við mig:
„Mér er sagt að hún sé frek, þessi stelpa. En þú getur skilað til hennar frá mér að ég sé þúsund sinnum frekari en hún. Auk þess sé ég líka göldrótt, svo að hún skuli bara vara sig!“
Á þeirri stundu varð mér ljóst betur en áður hve ómetanlegt það var fyrir Þórberg að hafa slíkan herforingja við hlið sér – á þeim vígvelli óbilgirni og öfundar sem íslenskt bókmenntalíf getur stundum verið.
Þegar á heildina er litið tel ég það forréttindi mér til handa af hálfu forsjónarinnar að fá að kynnast náið svo mörgu og ólíku fólki, kjörum þess og ytri aðstæðum, viðhorfi þess til lífsins, æviferli og örlögum.
En ánægðastur er ég yfir því að mér skyldi takast seint og um síðir að ljúka við ævisögu Steins Steinars – og sameina þar með uppreisnargirni og fyrirheit æskunnar og borgaralegt starf fullorðinsáranna.
Það gladdi mitt gamla hró.
Gylfi Gröndal, 2003.
Um höfund
Að yrkja um tilfinningu: um ljóðskáldið Gylfa Gröndal
Aðeins um skáldið
Þegar litið er til ferils Gylfa Gröndals (1936-) sem ljóðskálds er eftirtektarvert hve seint á lífsleiðinni hans fyrsta ljóðabók, Náttfiðrildi (1975), lítur dagsins ljós. Það er athyglisvert í ljósi þess að Gylfi þótti efnilegt ljóðskáld á sínum yngri árum og fékk til að mynda birt eftir sig kvæði í Ljóðum ungra skálda 1954 og í Árbók skálda 1956. Að auki birtust svo reglulega eftir hann ljóð í skólablöðum og bókmenntatímaritum. Þannig hefði verið viðbúið að hann myndi alfarið hella sér út í skáldskapinn líkt og vinur hans frá menntaskólaárunum, Dagur Sigurðarson (1937-1994), gerði.
Á vissan hátt varð það þó raunin. Ekki í skáldskaparlegum skilningu heldur þeim að stærstum hluta ævi sinnar hefir Gylfi helgað ritstörfum. Fyrst ber að nefna að hann starfaði í rúm þrjátíu ár sem blaðamaður og ritstjóri blaða og tímarita á borð við Fálkann, Alþýðublaðið, Vikuna og Samvinnuna. Ásamt því hefir hann verið eina ötulastur rithöfunda við skrif ævisagna og viðtalsbóka. Hefir hann sent frá sér meira en þrjátíu slíkar.
Ljóðagerð hefir ekki verið áberandi þáttur útgefinna verka Gylfa og má fyrst og fremst titla hann sem höfund ævisagna og viðtalsbóka. En frá 1986, er tímaritið Samvinnan sem Gylfi ritstýrði var lagt niður, hefir hann eingöngu helgað sig rithöfundarstörfum. Síðan þá hefir hann verið ötull á útgáfusviðinu og látið frá sér fjölda verka. Þar á meðal tvær ljóðabækur. Eilíft andartak (1986) og Undir hælinn lagt (1996). Einnig þýddi Gylfi, eða túlkaði eins og hann sjálfur vill meina (sjá Þröstur Helgason: “Ljósið það er til.”Mbl. 23. janúar 1998), úrval af ljóðum sænska skáldsins Bo Setterlinds. Birtust þau 1997, í bókinni Stjörnubjart.
Auk áðurnefndra bóka hefir Gylfi svo látið frá sér fara ljóðabækurnar Draumljóð um vetur (1978), Döggslóð (1979) og Hernámsljóð (1983).
Þrátt fyrir að ekki hafi mikið borið á ljóðagerð Gylfa má ljóst vera að hann hefir hana í hávegum. Enda segir hann í viðtali við Súsönnu Svavarsdóttur frá árinu 1990 að ljóðasköpun sé honum „ólæknandi ástríða“ og þótt hann hafi ekki gefið út ljóðabók fyrr en á þrítugasta og níunda aldursári hafi hann alla tíð samið ljóð. („Kannski er það kostur að draumar manns rætist ekki.“ Viðtal Súsönnu Svavarsdóttur við Gylfa Gröndal. Lesbók Morgunblaðsins, 26. maí 1990.)
Sem ungur maður hreifst Gylfi af atómskáldunum svonefndu og leit upp til manna eins og Hannesar Sigfússonar, Stefáns Harðar Grímssonar, Jóns úr vör, Einars Braga og Jóns Óskars, að ógleymdum Hannesi Péturssyni, og Steini Steinarr. Gylfi skrifaði og ævisögu þess síðarnefnda, Leit að ævi skálds, sem kom út í tveimur bindum árin 2000 og 2001 og var hann tilnefndur til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir fyrra bindið. Með því verki vill Gylfi meina að honum hafi tekist að „sameina [...] uppreisnargirni og fyrirheit æskunnar og borgaralegt starf fullorðinsáranna“ eins og hann segir í pistli sínum hér á vefnum.
Þegar Gylfi byrjaði að gefa út ljóðbækur var ekki sami uppreisnarandi í loftinu og er hann var ungur. Ekki er heldur hægt að segja að í ljóðum hans felist nýjungagirni eða uppreisn. Og þótt Gylfi sé um margt sporgöngumaður viðtalsbóka og ævisagnaritunar, auk þess að hafa skrifað þar um margan kynlegan kvistinn, er ekki hægt að segja að hefðarrof einkenni verk hans. Hann er því á algerlega öndverðum meiði við skáldbróður sinn og skólafélaga Dag Sigurðarson sem gerði í því að ganga gegn hinu almenna og samþykkta líkt og Gylfi túlkar í minningarljóðinu „Auðlegð“ (Undir hælinn lagt).
Hrakningsárin
eru loks liðin
hin langa útlegð
á götum smáborgarannaæskan ríkir ein
með auðlegð sína
og staðfestuhlutabréf í sólarlaginu
miljónaævintýrið
kokhreysti á kaffihúsum
og stráksleg ögrunþína skál, ó minning
sem starir á mig.
En hvað er það þá sem einkennir skáldskap Gylfa?
Aðeins um skáldskapinn
Ef lýsa ætti ljóðum hans í stuttu, heildrænu og samþjöppuðu máli lægi beinast við að kalla þau innhverf. Innhverf að því leytinu til að þau miðla tilfinningum er hrærast með skáldinu eða ljóðmælanda. Slík lýsing ein og sér er auðvitað harla lítils virði þar sem hún gæti átt við hvaða skáld sem er, þótt hún geri að vísu greinarmun á samfélagslega þenkjandi skáldi og því sem reynir að miðla sínum persónulegu tilfinningum. Til að ganga lengra og fjalla um hvað hugsanlega greinir Gylfa frá öðrum skáldum er best að byrja á grunnatriði sem Gylfi tilgreinir sjálfur sem einkenni á ljóðum sínum: minningu um tilfinningu. (Sjá fyrrnefnt viðtal Súsönnu Svavarsdóttur)
Til að útlista betur hvað minning um tilfinningu táknar er vert að vísa aftur til orða Gylfa þar sem hann segir að ljóð sín byggi á lífsreynslu. En þar sem nafnorðið lífsreynsla er víðfeðmt er vert að þrengja skilgreininguna. Hér er ekki verið að miðla einhverju stóru í dramatískum skilningi þess orðs heldur þvert á móti einhverju smáu, einhverju sem oftast er ekki gefin gaumur, einhverju sem er hversdagslegt, einhverju sem allajafna skilur ekki eftir sig stór spor í sálarlífinu en er samt hluti af lífsreynslunni. Það er tilfinningahlutinn. Minningarhlutinn felur í sér eitthvað sem er minnst. Og minnið reynist oft skeikult. Þannig að þegar minni og tilfinning fara saman verður úr því órætt svið sem byggir á einhverju er flestir ganga í gegnum án þess að staldra þar við. Þar staldrar Gylfi við.
„Minning“
Daglega kveiki ég
á myndbandi hugans
og sé þig ljóslifandi.Allt birtist mér
á skjánum í einni sjónhendingu:andartakið
sem þú dvaldir hérog eilífðin
síðan þú kvaddir.
(Gylfi Gröndal 1986:19)
Til að kalla grunninn fram notar Gylfi vissulega margvíslegar aðferðir. Þó eru nokkrir þættir sem eru ráðandi og birtast aftur og aftur í ljóðum hans. Einn þeirra er náttúran. Allt frá upphafi hefir hún verið stór hluti ljóða hans. Oftast notar hann náttúruna til að endurspegla einhverja kennd. Einhverja er lykilorð í þessu samhengi þar sem tíðast er kenndin óræð; eitthvað sem ekki er fyllilega hægt að fanga; ekki ósvipað og upplifun fólks af náttúrufegurð kann að vera. Ágætt dæmi um samspil náttúru og kennda er að finna í ljóðinu „Lögberg“, sem birtist í Árbók skálda árið 1956:
Ég stóð einn. Þungt regn
og þaut í vindi
á fornri slóð.
En kennd: björt, hrein og helg
um hugann streymdi-Ég stóð þar einn. Og þá
var sem ég fyndi
í fjarska, nið
orð
ljóðljóðið um það sem Jónas forðum dreymdi.
( Gylfi Gröndal 1956: 66)
Hér vekur náttúran bókstaflega upp kennd og það er sem ljóðmælandi finni fyrir einhverju án þess að geta útskýrt það nánar en með að því að það sé „ljóðið sem Jónas forðum dreymdi“. Ljóðið á enda að miðla óhöndlanleika. Í þessu ljóði er einnig vísir að öðru einkenni á ljóðum Gylfa er kalla mætti forgarð eða limbó ljóða...
Mikill fjöldi ljóða hans tekur á erfiðleikunum við það að yrkja án þess að ljóð verði til; ljóð um ljóð sem ekki verður til eða eins konar limbó. Slíkur vísir í „Lögberg“ felst í því að þar er talað um ljóð án þess að fara nánar út í þá sálma, þótt það sé að vísu ljóð sem Jónas dreymdi. Besta dæmið um limbó ljóð er þó ef til vill að finna í ljóðinu „Ekki er ort“ (Undir hælinn lagt):
Gömlu gráu heilasellur
hvað líður ljóðinu dýra
eftir langa ævi
og iðkun málssvala klakar við glugga
og ekki ert ortum orðin berjast
blíðmæli og eldtungaekki er ort
og höfuð mitt að veðienn er þó von bjargvættar
að bægja frá hamhleypuhvítir vængir
og náhljóð
í næturkyrrð.(Gylfi Gröndal 1996:80)
Þótt ljóð Gylfa vísi fyrst og fremst til hins innra er eitt einkenni sem vísar til ytri þátta. Til að finna því heiti væri vert að kalla það ljóðmyndaalbúm eða ljóðminningaalbúm. Ljóðmyndaalbúmið felst í því að dregin er upp mynd af ákveðnum stað (t.d. New York, Miami, París, Rhódos og fleiri) og honum lýst með samspili staðhátta og þeirra tilfinninga er hann vekur í brjósti ljóðmælanda.
„Dagljóð frá Rhódos“
1
Ljóð vitja mín
með strengleik
orðvana laglínurhve hlýtt er
mitt kulvísa hjartahér er stundartöf
og staðleysatilfinning
einkennileg.(Gylfi Gröndal 1996:29)
Innan albúmsins mætti einnig fella minningaljóð Gylfa. Í þeim flokki er til dæmis ljóðið „Hernámsljóð“, sem er í þrettán hlutum í samnefndri bók og segir frá upplifun barns af hernámsárunum þar sem „Bílar hersins“ eru „brúnir drekar/ með vígtennur á hjólum“(46), „Amma kemur að vestan/í vetrarbyrjun/til að deyja“(51), „hermenn leiða/dætur Íslands í dans“(48) og „Þjóðin verður frjáls [...]/með stríðsgróða í hjörtum“(58). Fleiri ljóð falla einnig undir þessa skilgreiningu án þess að vera minningaljóð. Til að mynda fellur kaflinn „Við hirð konungs“ (Döggslóð), þar sem fjallað er um atburði og persónur í Íslendingasögunum, ágætlega að henni. Þessi ljóð eru á vissan hátt áþreifanlegri en önnur ljóð Gylfa samanber fyrsta hluta „Hernámsljóða“: „Hús með rauðu þaki / [...] /skjannahvítt á hvanngrænu túni“. (Gylfi Gröndal 1983:39)
Að lokum, í upptalningu höfundareinkenna, ber að nefna það sem kallast gæti Upphafnar hversdagsmyndir. Í því felst að hinu hversdagslega er gefið aukið vægi með tengingu við eitthvað órætt eða með því að sjá það í nýju ljósi; framandgera það. Þetta getur bæði átt við almennt hversdagslega hluti sem og hversdagslega hluti ljóðmælanda: heimleið, það að keyra, að yrkja og horfa á náttúruna eða byggingar. Í ljóðinu „Í stofunni“ (Eilíft andartak) er þannig hversdagslegt athæfi á borð við að horfa á sjónvarp lagt að jöfnu við það að „lifa og lifa/og lifa þó ekki“ (Gylfi Gröndal 1983:33) (láta sjónvarpið lifa fyrir sig). Það er sem sagt dregin upp öðruvísi mynd af því að horfa á sjónvarpið.
Varðandi formleg einkenni er vert að benda á að mörg hver ljóða Gylfa eru, að segja má, á mörkum stuðlasetningar og höfuðstafa. Hann notast við slíkt form upp að vissu marki til að kalla fram hrynjandi og lýrík. Kallast slík aðferð á við ljóð Hannesar Péturssonar, en Hannes er talinn fyrstur til að sameina gamla formið, með tilheyrandi stuðlun og höfuðstöfum, og atómskáldskapinn. Einnig má benda á að Gylfi notar oft tiltölulega hefðbundnar náttúrumyndir (sumar: frjósemi andans og vetur: hið andstæða).
Hér hafa ákveðin einkenni eða þemu á skáldskap Gylfa verið dregin upp. Það er þó algengara en hitt að þeim sé blandað saman. Að sjálfsögðu má svo endalaust finna nýja fleti og nálgunarleiðir. Ekki er heldur hægt með góðu móti að fella öll ljóð Gylfa að þessari skilgreiningu. Hún dregur engu að síður upp ramma við greiningu ljóða hans sem vinna má innan.
Aðeins um ljóðabækur Gylfa
Eins og fram hefir komið kom fyrsta bók Gylfa, Náttfiðrildi, út þegar hann var þrjátíu og níu ára gamall. Þá hafði hann ekki sent frá sér ljóð til útgáfu í langan tíma. Er því viðeigandi að fyrsta ljóð bókarinnar beri nafnið „Af stað“ sem einhvers konar tákn fyrir nýtt upphaf. Náttfiðrildi bera með sér öll þau einkenni er upp voru talinn hér á undan og í raun er hún kannski best til þess fallinn að skoða kveðskap Gylfa með það í huga. Þar má lesa ljóð er sýna fram á samsömun tilfinninga og náttúru þar sem hún er til að mynda notuð til að lýsa þeim erfiðleikunum er fylgja því að yrkja sem og því að sýna hvunndagslegt umhverfið á nýjan hátt.
Í Draumljóðum um vetur eru ljóðin orðin sérhæfðari með gegnumgangandi þema sem fólginn er í titli bókarinnar. Í stuttu máli snýst þemað um þann dvala er felst í vetrinum með von um andans flug er vora fer. Vinna ljóðin sig síðan smátt og smátt frá kulda að meiri þýðu eða að því „þegar sól rís yfir hljóða hversdagsbyggð.“ (Gylfi Gröndal 1978:77)
Með Döggslóð verða ljóð hans áþreifanlegri með ljóðum um persónur Íslendingasagnanna og kveðna staði eins og Arnarfell, Írland og Þingvelli.
Einnig er vert að minnast á kaflann „Hljómsveit götunnar“ þar sem almennu mannlífi er lýst á því sem næst upphafin hátt eða dregið úr sinni hversdagslegu skynjun eins og í ljóðinu
„Á götunni“ þar sem hælum sem „skella á hellum gangstétta“ er líkt við hljóðfæri „í hljómsveit götunnar“. (Gylfi Gröndal 1979:31)
Í Hernámsljóðum er, að mati undirritaðs, að finna sumt af því besta sem Gylfi hefir skrifað. Á það einkum við um ljóðið samnefnt bókinni þar sem fullorðinn ljóðmælandi rifjar upp æsku sína á hernámsárunum og minnist þess að „[e]inu sinni var hér/veröld barns/[...] [sem] lifir og stækkar/í litlu hugskoti/Áfram áfram“. (Gylfi Gröndal 1983:60-61) Heldur Gylfi þar einnig áfram með hið svokallaða ljóðmyndaalbúm og dregur upp myndir af fleiri stöðum eins og sjá má í „Grænlandsljóðum“: „Ísborg á Eiríksfirði/krítarhvít í fjarska/þegar siglt er nær/reynast jakarnir/blátærir/í björtu sólskini“. (Gylfi Gröndal 1983:29)
Eilíft andartak tekur meira á hinum svokallaða forgarði en í bókunum á undan og óskar ljóðmælandi til dæmis eftir hugskeyti, í samnefndu ljóði, frá hinum mikla sendanda þar sem hugur hans „er/hvítt blað/“ er bíður hans. (Gylfi Gröndal 1986:11) Einnig er hér að finna þýðingar hans á ljóðum annarra norræna skálda eins og Olav H, Hauge, Anders Apelqvist, Solveig von Schoultz og Bo Setterlinds. En finna má talsverðan samhljóm með ljóðum Gylfa og þeirra. Sérstaklega svipar ljóðum Setterlinds og hans saman í náttúrulegum einfaldleika og lýrík.
Bókin Undir hælinn lagt var gefin út í tilefni sextugsafmælis Gylfa. Hér heldur hann áfram að vinna með sömu þemu og áður, en nær, líkt og raunin er með fólk er leggur metnað í það sem það gerir, meiri og meiri færni. Að auki eru hér þýðingar Gylfa á ljóðum nokkurra skálda. Meðal annars Bo Setterlinds og nóbelsverðlaunaskáldsins Oktavio Paz.
Aðeins í lokin
Ljóð Gylfa eru og flest látlaus, ódramatísk og með mikið af náttúrutilvísunum. Þau eiga og að miðla því hversdagslega sem brýst um í fólki án þess að það finni sér farveg til þess að koma þeirri líðan í orð. Gylfi aftur á móti gerir það, en að auki dregur hann upp sérhæfðari myndir af stöðum og minningum... Ef það er eitthvað sem alveg örugglega má segja um skáldskap hans þá er það að hann yrkir um tilfinning-u/ar af tilfinningu...
© Ólafur Guðsteinn Kristjánsson, 2005.
Heimildir
Gylfi Gröndal. 1956. „Lögberg.“ Árbók skálda. Helgarfell, Reykjavík. Bls. 66.
___________. 1975. Náttfiðrildi. Setberg, Reykjavík.
___________. 1978. Draumljóð um vetur. Skáprent, Reykjavík.
___________. 1979. Döggslóð. Fjölva útgáfa, Reykjavík.
___________. 1983. Hernámsljóð. Setberg, Reykjavík.
___________. 1990. „Kannski er það kostur að draumar manns rætist ekki.“ Viðtal Súsönnu Svavarsdóttur við Gylfa Gröndal. Lesbók Morgunblaðsins, 26. maí. Tekið úr
gagnasafni Morgunblaðsins á www.mbl.is.
___________. 1996. Undir hælinn lagt. Forlagið, Reykjavík.
Þröstur Helgason. 1998. „Ljósið það er til.“ Dómur um Stjörnubjart. Morgunblaðið 23. janúar. Tekið úr gagnasafni Morgunblaðsins á www.mbl.is.
Greinar
Um einstök verk
Á aldarafmæli Jónasar frá Hriflu
Hannes Hólmsteinn Gissurarson: „Hann kunni að kveikja í mönnum“ (ritdómur)
Frelsið 1986, 7. árg., 1. tbl., s. 48-50
Ásgeir Ásgeirsson, ævisaga
Guðmundur Hálfdanarson: „Biskupasögur hinar nýju: um ævisögur fjögurra stjórnmálamanna“ (ritdómur)
Saga 1993, 31. árg., s. 169-90
Ég skrifaði mig í tugthúsið
Hulda Sigurborg Sigtryggsdóttir: „Gylfi Gröndal. Ég skrifaði mig í tugthúsið, Valdimar Jóhannsson bókaútgefandi segir frá“ (ritdómur)
Saga 1996, 34. árg., s. 403-8
Níutíu og níu ár
Ólafur R. Einarsson: „Gylfi Gröndal. Níutíu og níu ár, Jóhanna Egilsdóttir segir frá“ (ritdómur)
Saga 1981, 19. árg., 322-326
Sveinn Björnsson, ævisaga
Gunnar Helgi Kristinsson: „Birgir Thorlacius, Í þjónustu forseta og ráðherra. Gylfi Gröndal, Sveinn Björnsson, Ævisaga. Hannes Jónsson, Sendherra á sagnabekk“ (ritdómur)
Saga 1995, 33. árg., s. 276-9
Við Þórbergur
Helga Kress: „Á Gljúfrasteini, Edda Andrésdóttir ræðir við Auði Sveinsdóttur Laxness. Gylfi Gröndal, Við Þórbergur, Margrét Jónsdóttir ekkja Þórbergs Þórðarsonar segir frá“ (ritdómur)
Saga 1985, 23. árg., s. 205-18
Æviminningar Tómasar Þorvaldssonar útgerðarmanns
Helgi Skúli Kjartansson: „Gylfi Gröndal. Ævidagar Tómasar Þorvaldssonar útgerðarmanns, I. Byggð bernsku minnar; Þórunn Valdimarsdóttir. Af Halamiðum á Hagatorg. Ævisaga Einars Ólafssonar í Lækjarhvammi“ (ritdómur)
Skírnir 1987, 161. árg. (vor), s. 168-171
Karl G. Sigurbergsson: „Gylfi Gröndal. Æviminningar Tómasar Þorvaldssonar útgerðarmanns“ (ritdómur)
Árbók Suðurnesja 1986-87, 4.-5. árg., s. 138-44
Verðlaun
Tilnefningar
2000 - Íslensku bókmenntaverðlaunin, í flokki fræðirita og almenns efnis: Steinn Steinarr: leit að ævi skálds
Á vængjum söngsins: Jóhann Ingimundarson segir frá
Lesa meiraEitt vor enn
Lesa meiraFólk í fjötrum : baráttusaga íslenskrar alþýðu
Lesa meiraSteinn Steinarr: Leit að ævi skálds II
Lesa meiraSteinn Steinarr : Leit að ævi skálds
Lesa meiraSaga athafnaskálds : Þorvaldur Guðmundsson í Síld og fisk
Lesa meiraAð breyta mjólk í mat : Osta- og smjörsalan 40 ára, 1958-1998
Lesa meiraÍslensk veitingasaga II : Þjónusta, matur og menning : Nokkrar svipmyndir af félagsstarfi og fagmennsku matreiðslu- og framreiðslumanna í sjötíu ár
Lesa meiraUndir hælinn lagt
Lesa meira
Stjörnubjart
Lesa meiraKonfekt og kærleikur : Úr sögusafni Alfred Hitchcock
Lesa meiraMiðill í 40 ár
Lesa meira