Beint í efni

Drauga-Dísa

Drauga-Dísa
Höfundur
Gunnar Theodór Eggertsson
Útgefandi
Vaka-Helgafell
Staður
Reykjavík
Ár
2015
Flokkur
Unglingabækur

Um bókina

Þegar allt fer í háaloft á milli Dísu og vinsældaklíkunnar í níunda bekk flýr hún upp í sveit með foreldrum sínum. Þrjú hundruð árum fyrr situr strákur í sama dal og bíður þess að ófreskja skríði úr eggi. Hvorugt þeirra veit að brátt munu þau hittast og setja af stað atburðarás sem slær við öllum skrímslasögum sem heimurinn hefur þekkt til þessa.

Gunnar Theodór Eggertsson spinnur ævintýralega sögu sem sækir efnivið jafnt í þjóðararfinn og erlendar hrollvekjur.

Úr bókinni

Dagbækur Dísu voru blanda af raunveruleika og skáldskap. Hún skrifaði niður það sem gerðist í raun og veru á hverjum degi en skrásetti líka ýmislegt sem hefði getað gerst en gerðist ekki. Hún hafði skrifað tíu ólík samtöl á milli sín og Emilíu og tíu ólíkar útkomur af átökunum. Í einni þeirri var Dísa líka með hníf og þær börðust með látum um alla skólalóðina, í annarri réðst Bjarki hlandhaus á krakkana fyrir að uppnefna sig, í þriðju greip Dísa hnífinn úr hendinni á Emilíu, felldi hana í götuna og tæmdi úr ruslafötunni yfir höfuðið á henni. Og svo framvegis. Dísu leið best þegar hún gat hugsað og skrifað í rólegheitum. Í herberginu hennar heima var heil bókahilla full af stílabókum með alls kyns sögum og teikningum sem Dísa hafði búið til, alveg síðan hún lærði fyrst að lesa og skrifa. Þar mátti meðal annars finna sögu um trjámanninn ógurlega sem frændur hennar höfðu hrætt hana með. Hún fjallaði um litla stelpu sem sá manninn birtast á glugganum sínum á hverri nóttu og var svo hrædd að hún var farin að sofa undir rúminu. Svo komst hún að því að þetta var bara trjágrein utan úr garði sem slóst við gluggann hennar í vinindum. Pabbi hennar sagaði greinina niður og þá hætti stelpan að vera hrædd og gat lokst sofið vært á ný. Dísa skrifaði þessa sögu þegar hún var sjö ára gömul, en þremur árum síðar skrifaði hún framhald þar sem trjámaðurinn sneri aftur og réðst á stelpuna í svefni. Morguninn eftir komu foreldrarnir að spýtustelpu í rúmina. Þeim tókst ekki að breyta henni til baka og stilltu henni upp í stofunni sinni þar sem hún stóð hreyfingarlaus það sem eftir var, gestum til mikillar furðu, og endaði loks sem fatahengi.
   Foreldrar Dísu höfðu engan sérstakan áhuga á sögunum hennar og vildu frekar hvetja hana til að hugsa um námið og önnur hagnýt mál. Sagnagleðin hlaut að hafa stokkið yfir eina kynslóð því Dísa hafði fengið áhugann beint frá ömmu sinni og afa. Þau voru nú bæði dáin en höfðu sagt henni svo margar sögur að Dísa þurfti bara rétt að rifja eina þeirra upp til að finna fyrir hlýrri nærveru þeirra beggja, eins og hún sæti enn í fanginu á þeim og hlustaði spennt á hvert einasta orð.

(s. 29-30)

Fleira eftir sama höfund

Köttum til varnar

Lesa meira

Sláturtíð

Kvikmyndagerðarmaðurinn Ásbjörn Axel tekur að sér að hafa uppi á íslenskri baráttukonu fyrir réttindum dýra sem ekkert hefur spurst til síðan hún sat í fangelsi í Hollandi fyrir skemmdarverk. Leitin leiðir hann á vafasamar slóðir í litríkum félagsskap dýraréttindasinna í Evrópu og smám saman missir hann tökin bæði á verkefninu og sjálfum sér.. .  
Lesa meira

Steindýrin

Hvernig getur hundur breyst í styttu? Það er eitthvað meira en lítið dularfullt. En þannig byrjar þessi saga. Hringur, hundurinn hans Úlfs gamla, breyttist í styttu og um leið lét allt fullorðna fólkið í þorpinu okkar eins og hann hefði aldrei verið til. . .  
Lesa meira

Steinskrípin: hryllingsævintýri

Daginn sem Bergur vaknar skyndilega til lífsins skín gamalkunnug sólin hátt á lofti en annað er framandi. Veröldin er grá og líflaus og þar ráða steinskrípin ríkjum – hrikalegar ófreskjur með slímuga arma og flugbeittar klær. Bergur er þó ekki einn í heiminum.. .  
Lesa meira
vatnið brennur kápa

Vatnið brennur

Raftónlistarkonan og ólíkindatólið Gríma er komin austur í Neskaupstað til að spila á Eistnaflugi, þótt hún eigi litla samleið með málmhausum og láti flest sem viðkemur hátíðinni fara í taugarnar á sér. En ferðin reynist vendipunktur í lífi Grímu því þar kemst hún í kynni við gamla, sænska þjóðlagaplötu sem tengist dularfullu og ógeðfelldu morðmáli snemma á áttunda áratugnum. Og fyrr en varir hefur ævaforn lagstúfur náð yfirnáttúrulegum tökum á tónlistarkonunni.
Lesa meira
furðufjall : nornaseiður kápa

Furðufjall : Nornaseiður

Nornaseiður er fyrsta bókin í splunkunýrriævintýraseríu fyrir börn og unglinga. Sagan er ríkulega myndskreytt.. . Íma er ósátt við lífið. Öll leiðinlegustu skyldustörfin á eyjunni lenda á henni á meðan systir hennar fær að nema galdur hjá nornunum! Andreas lærir járnsmíðar af pabba sínum á meginlandinu en dreymir um að verða riddari og vinna hetjudáðir. En örlögin hafa ætlað þeim báðum annað og brátt verða óvæntir og skelfilegir atburðir sem setja tilveru þeirra gjörsamlega í uppnám.. .  
Lesa meira
drauma-dísa kápa

Drauma-Dísa

Drauma-Dísa er þriðja bók Gunnars Theodórs Eggertssonar um stelpuna sem eitt sinn var venjulegur unglingur í Reykjavík, gufaði svo upp eftir ævintýralegan bardaga í fjarlægu landi en lifir í gegnum bækur Björns, vinar síns úr fortíðinni. 
Lesa meira
furðufjall : næturfrost kápa

Furðufjall : Næturfrost

Næturfrost er önnur bókin í ríkulega myndskreyttri ævintýraseríu fyrir börn og unglinga. Þetta bindi hefst á því að Andreas og föruneyti hans hafa numið land á Hulinseyju. Álfarnir taka vel á móti þeim þótt þeir haldi þó ákveðinni fjarlægð. Íma glímir við nornanámið og kemst á snoðir um hræðilegt leyndarmál sem falið er í fjallinu. En skuggahliðar eyjunnar koma þó fyrst í ljós þegar nóttin skellur á.
Lesa meira
furðufjall : stjörnuljós

Furðufjall : Stjörnuljós

Álfastúlkan Íma situr fangin ofan í gömlum hallarrústum þegar hvítur köttur birtist skyndilega og leiðir hana djúpt inn í iður fjallsins. Andreasi er rænt af álfunum en verra er þó að erkióvinur hans, prinsinn, hefur fundið Hulinseyju og hyggur á hefndir. Framtíð eyjunnar er því í höndum Ímu og Andreasar, sem þurfa að ljúka upp leyndardómum fjallsins og sameina íbúana gegn óvinunum.
Lesa meira