Um bókina
Þegar allt fer í háaloft á milli Dísu og vinsældaklíkunnar í níunda bekk flýr hún upp í sveit með foreldrum sínum. Þrjú hundruð árum fyrr situr strákur í sama dal og bíður þess að ófreskja skríði úr eggi. Hvorugt þeirra veit að brátt munu þau hittast og setja af stað atburðarás sem slær við öllum skrímslasögum sem heimurinn hefur þekkt til þessa.
Gunnar Theodór Eggertsson spinnur ævintýralega sögu sem sækir efnivið jafnt í þjóðararfinn og erlendar hrollvekjur.
Úr bókinni
Dagbækur Dísu voru blanda af raunveruleika og skáldskap. Hún skrifaði niður það sem gerðist í raun og veru á hverjum degi en skrásetti líka ýmislegt sem hefði getað gerst en gerðist ekki. Hún hafði skrifað tíu ólík samtöl á milli sín og Emilíu og tíu ólíkar útkomur af átökunum. Í einni þeirri var Dísa líka með hníf og þær börðust með látum um alla skólalóðina, í annarri réðst Bjarki hlandhaus á krakkana fyrir að uppnefna sig, í þriðju greip Dísa hnífinn úr hendinni á Emilíu, felldi hana í götuna og tæmdi úr ruslafötunni yfir höfuðið á henni. Og svo framvegis. Dísu leið best þegar hún gat hugsað og skrifað í rólegheitum. Í herberginu hennar heima var heil bókahilla full af stílabókum með alls kyns sögum og teikningum sem Dísa hafði búið til, alveg síðan hún lærði fyrst að lesa og skrifa. Þar mátti meðal annars finna sögu um trjámanninn ógurlega sem frændur hennar höfðu hrætt hana með. Hún fjallaði um litla stelpu sem sá manninn birtast á glugganum sínum á hverri nóttu og var svo hrædd að hún var farin að sofa undir rúminu. Svo komst hún að því að þetta var bara trjágrein utan úr garði sem slóst við gluggann hennar í vinindum. Pabbi hennar sagaði greinina niður og þá hætti stelpan að vera hrædd og gat lokst sofið vært á ný. Dísa skrifaði þessa sögu þegar hún var sjö ára gömul, en þremur árum síðar skrifaði hún framhald þar sem trjámaðurinn sneri aftur og réðst á stelpuna í svefni. Morguninn eftir komu foreldrarnir að spýtustelpu í rúmina. Þeim tókst ekki að breyta henni til baka og stilltu henni upp í stofunni sinni þar sem hún stóð hreyfingarlaus það sem eftir var, gestum til mikillar furðu, og endaði loks sem fatahengi.
Foreldrar Dísu höfðu engan sérstakan áhuga á sögunum hennar og vildu frekar hvetja hana til að hugsa um námið og önnur hagnýt mál. Sagnagleðin hlaut að hafa stokkið yfir eina kynslóð því Dísa hafði fengið áhugann beint frá ömmu sinni og afa. Þau voru nú bæði dáin en höfðu sagt henni svo margar sögur að Dísa þurfti bara rétt að rifja eina þeirra upp til að finna fyrir hlýrri nærveru þeirra beggja, eins og hún sæti enn í fanginu á þeim og hlustaði spennt á hvert einasta orð.
(s. 29-30)