Fífa Finnsdóttir myndskreytti
Um bókina
Álfastúlkan Íma situr fangin ofan í gömlum hallarrústum þegar hvítur köttur birtist skyndilega og leiðir hana djúpt inn í iður fjallsins. Andreasi er rænt af álfunum en verra er þó að erkióvinur hans, prinsinn, hefur fundið Hulinseyju og hyggur á hefndir. Framtíð eyjunnar er því í höndum Ímu og Andreasar, sem þurfa að ljúka upp leyndardómum fjallsins og sameina íbúana gegn óvinunum.
Úr bókinni
Ég treysti rauðu augunum. Ég get ekki beinlínis útskýrt hversvegna, það var bara eitthvað hughreistandi við þau. Ég leyfði þeim að leiða mig í gegnum myrkrið, djúpt undir fjallið. Ég heyrði grjótið muldra í kringum mig, eins og það væri ekki ánægt með gestaganginn. Hvenær ætli nokkur hafi síðast stigið fæti hér? Þessi göng voru allt öðruvísi en nornagöngin sem ég var vön að þræða. Þau voru ávöl og mjúk á alla kanta, við gátum gengið þar um berfættar án þess að skráma iljar eða tær, en hér mátti ég hafa mig alla við að hrasa ekki um grjótmulning og hnullunga sem lágu dreifðir úti um allt. Þegar ég lenti í ógöngum hinkruðu rauðu augun eftir mér í myrkrinu framundan. Um leið og ég var komin nógu nærri skottuðust þau áfram og leiddu mig á eftir sér. Ég náði augunum aldrei, því eigandinn var mun liprari en ég. Kötturinn skaust yfir steina, stökk á milli veggja, með stefnuna inn í endalaust myrkur.
(s. 37-38)