Fífa Finnsdóttir myndskreytti
Um bókina
Næturfrost er önnur bókin í ríkulega myndskreyttri ævintýraseríu fyrir börn og unglinga. Þetta bindi hefst á því að Andreas og föruneyti hans hafa numið land á Hulinseyju. Álfarnir taka vel á móti þeim þótt þeir haldi þó ákveðinni fjarlægð. Íma glímir við nornanámið og kemst á snoðir um hræðilegt leyndarmál sem falið er í fjallinu. En skuggahliðar eyjunnar koma þó fyrst í ljós þegar nóttin skellur á.
Úr bókinni
Fremsti hermaðurinn kallaði eitthvað yfir hópinn og nú var hestunum hleypt á fulla ferð áfram. Hófarnir þyrluðu upp sandi á ströndinni og skildu eftir sig langt rykský. Ég sá eitthvað bærast á bak við hestana, verur sem ég hafði ekki tekið eftir áður vegna þess að þær riðu ekki heldur gengu tvær og tvær saman í rólegheitum. Fuglarnir úr borginni voru mættir og sveimuðu nú yfir þessum furðuverum. Þær voru svartklæddir blendingar af mannverum og dýrum, með selshöfuð, refshöfuð, rjúpuhöfuð og ein leit út eins og lifandi hauskúpa af dauðum hesti! Mér stóð stuggur af þeim en gat ekki hugsað meira um það vegna þess að nú voru hermennirnir komnir alla leið að björgunum og þeir námu staðar rétt fyrir framan tjaldbúðirnar okkar. Þar stóð Hlóðmar fremstur í flokki en restin af hópnum í hæfilegri fjarlægð. Við hin tróndum yfir öllum eins og foringjar á fremsta bjarginu og ég fylgdist með hálffalinn á milli mömmu og pabba.
Ég taldi tuttugu manns á hestum, átta fótgönguliða og sex dýrslegar furðuverur sem höfðu stillt sér upp aftast. Hestarnir voru öðruvísi en hestarnir heima. Þeir skörtuðu sömu biksvörtu og drungalegu augunum og fuglarnir og voru í öðrum hlutföllum en ég hafði vanist. Leggirnir lengri en á reiðskjótunum í þorpinu okkar, trýnin breiðari og á milli eyrnanna leyndust smágerð og snúin horn. Húðin minnti frekar á sjávardýr heldur en húsdýr og faxið og taglið héngu niður í skrautlegum drönglum. Frostfólkið var með sömu skrítnu augun, djúp og dimm eins og kolamolar í skjannahvítum, nánast glærum ásjónum. Voru þetta kannski afturgöngur þeirra sem eitt sinn byggðu gömlu borgina?
(s. 69-70)