Um bókina
Daginn sem Bergur vaknar skyndilega til lífsins skín gamalkunnug sólin hátt á lofti en annað er framandi. Veröldin er grá og líflaus og þar ráða steinskrípin ríkjum – hrikalegar ófreskjur með slímuga arma og flugbeittar klær. Bergur er þó ekki einn í heiminum.
Dularfull, skikkjuklædd stúlka fylgir honum hvert fótmál. Hún er fædd í þessari steingerðu veröld og hefur aldrei þekkt annað en ófreskjur og erfiðleika. Saman halda þau í háskaför með dýrmætan grip í bakpoka – mögulega einu von mannkynsins til að sigrast á skrípunum og endurheimta Jörðina.
Steinskrípin er sjálfstætt framhald verðlaunabókarinnar Steindýrin.
Úr bókinni
"Pabbi sagði mér oft söguna af því þegar Erla mamma hans, amma mín, og vinir hennar ferðuðust hálfa leið yfir hnöttinn til að frelsa ævafornt skrímsli úr prísund svo það bæti stöðvað álög sem voru að breyta öllu í stein. Þau hleyptu skrímslinu út og það breytti álögunum og þau héldu að allt væri í lagi. Þetta var þegar amma var ung stúlka, bara aðeins eldri en ég. Hún og Haukur bróðir hennar fóru aftur heim til sín og vissu ekki betur en að skrímslið hefði farið niður á hafsbotn, þar sem það myndi sofa í þúsund ár og aldrei trufla mannfólkið aftuar. En það var ekki rétt. Skrímslið sem amma hleypti út var eldgamalt skrípi og þegar það kom aftur ofan í sjóinn fann það öll hin skrípin og vakti þau, eitt af öðru. Árin liðu og amma var orðin gömul kona þegar álögin tóku aftur að gera vart við sig, nema í þetta sinn voru þau margfalt sterkari."
"Amma og vinir hennar voru svo heppin að þekkja fólk sem bjó ofan í jörðinni og þetta fólk - pabbi kallaði það alltaf huldufólk - vissi hvað var í vændum. Hún og Haukur bróðir hennar reyndu að vara alla við og sannfæra fólkið um að hræðilegt stórslys væri yfirvofandi en það trúði þeim næstum enginn. Allir héldu að þau væru bara gömul og vitlaus. Að lokum flúðu þau með fjölskyldur sínar, meðal annars pabba minn og systur hans, og mörgu öðru fólki ofan í jörðina til huldufólksins, rétt í tæka tíð áður en skrípin sendu höggbylgju yfir Jörðina sem breytti öllu í stein. Eina fólkið sem lifði af var það sem leitaði skjóls neðanjarðar. Pabbi hefur oft sagt mér þessa sögu en ég hef aldrei hitti ömmu mína. Ég veit ekki einu sinni hvort hún er á lífi."
Bergur hlustaði dolfallinn á hvert einasta orð. Höfðu þá allir sem hann þekkti breyst í stein? Mamma hans og pabbi og litla systir líka?
(s. 42-43)