Um bókina
Vár og vinir hennar hittast á furðusagnahátíð í útlöndum til að sjá átrúnaðargoðið sitt, Björn Kráksson, hinn dularfulla höfund bókaflokksins um Dísu. En Björn veldur þeim vonbrigðum og hverfur síðan sporlaust. Eftir það er engu líkara en að sögusvið bókaflokksins, með skrímslum sínum og furðum, sé byrjað að renna saman við raunveruleikann …
Drauma-Dísa er þriðja bók Gunnars Theodórs Eggertssonar um stelpuna sem eitt sinn var venjulegur unglingur í Reykjavík, gufaði svo upp eftir ævintýralegan bardaga í fjarlægu landi en lifir í gegnum bækur Björns, vinar síns úr fortíðinni.
Úr bókinni
Skjaldmærin lá kyrr í sandinum stundarkorn og beið þess að sjá hreyfingu í náttmyrkrinu. Eitthvað hafði komið aftan að henni, ofurhratt, þögult og risavaxið, en hún sýndi leifturviðbrögð, henti sér yfir sandölduna og komst í öruggt skjól. Hún stökk umsvifalaust aftur á fætur með báðar axir á lofti, reiðubúin að glíma við hvern þann djöful sem myrkrið kunni að geyma, en greip í tómt.
Hafði hún ímyndað sér árásina?
Varla gat annað verið, því engin þeirra ófreskja sem enn drógu andann á deyjandi plánetunni gat komið skjaldmeynni að óvörum. Og þó, kannski var um óþekkta ógn að ræða og þá skipti öllu máli að kynnast henni, svo hægt væri að hafa hemil á henni, yfirbuga hana og að lokum búta niður. Hún ákveð að skoða sig nánar um, leita að vegsummerkjum, þótt ekki væri nema til að fullvissa sjálfa sig um að hún væri ekki farin að sjá grýlur. Langur dagur var að baki, axirnar höfðu gleypt heilmikið Dermítablóð á ferðalaginu og hetjan var þreytt eftir erfiða göngu heim til hallarinnar. En þótt líkaminn væri illa haldinn og þörf væri á góðri hvíld í hallarkerjunum hafði hugurinn aldrei brugðist henni.
Unga konan steig varlega upp á sandölduna, dustaði skítinn af beinabrynjunni og virti eyðimörkina vökul fyrir sér. Tunglið brann á biksvörtum himninum og djúprauðir geislar rísandi sólar brutust brotakenndir í gegnum sótugt loftið. Mærin dró smágerðan kyndil úr stáli upp úr bakpoka sínum og nuddaði hvítan kristal á toppi hans. Bláleitur bjarmi kviknaði og hrakti myrkrið hæfilega langt frá svo hún gat virt umhverfið betur fyrir sér og ákallað innri kraft til að leita eftir lífi á annars líflausu landinu. Og viti menn, eitthvað dró andann steinsnar í austurátt.
(s. 55-56)