Um bókina
Hvernig getur hundur breyst í styttu? Það er eitthvað meira en lítið dularfullt. En þannig byrjar þessi saga.
Hringur, hundurinn hans Úlfs gamla, breyttist í styttu og um leið lét allt fullorðna fólkið í þorpinu okkar eins og hann hefði aldrei verið til. Og hann var ekki eina dýrið sem hvarf sporlaust og skildi eftir sig steingerða eftirmynd. Við urðum að komast til botns í þessu. Þess vegna fórum við Erla, Haukur og ég inn í Dimmahelli og lögðum upp í ævintýralegri leiðangur en nokkurt okkar hefði getað ímyndað sér.
Gunnar Theodór Eggertsson hlaut Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Steindýrin.
Úr bókinni
"En mannfólkið var gráðugt og eyddi öllum sínum kröftum í að sigla um fljótin. Þorp urðu bæir sem breyttust í borgir. Meiri og meiri vöruskipti áttu sér stað, ný skip voru fundin upp, fljótin urðu skítug, menguð og þreytt. Þá tóku slæmæir hlutir að gera vart við sig. Einhver illska tók sér bólfestu í vatninu. Það byrjaði með lykt - viðbjóðslegri lykt sem dreifði sér um alla hella. Eins og úldinn fiskur, nema mun verri. Slæm orka steig upp úr fljótinu og hafði áhrif á alla sem komu nálægt því. Ferðalangar og kaupmenn urðu veikir. Það byrjaði rólega, með fölum húðlit og þreytu, en breyttist fljótt í hræðileg veikindi. Margir dóu í plágunni. En ógæfan var rétt að byrja. Þegar fólkið hafði yfirgefið fljótin vegna ótta við veikina fóru að heyrast ógurleg hljóð upp um alla hellismunna. Eitthvað ævafornt, eitthvað sem hafði legið í dvala síðan jörðin varð til, var vakið af værum svefni á hafsbotni og hélt leiðar sinnar eftir heimsfljótunum. Ógurlegt skrímsli sem hafði það eina markmið að viðhalda jafnvægi í heiminum stefndi nú gegn mannfólkinu. Með hrikalegum kröftum réðst það gegn hverri hafnarborginni á fætur annarri og breytti öllu í stein."
(s. 39)