Um bókina
Kvikmyndagerðarmaðurinn Ásbjörn Axel tekur að sér að hafa uppi á íslenskri baráttukonu fyrir réttindum dýra sem ekkert hefur spurst til síðan hún sat í fangelsi í Hollandi fyrir skemmdarverk. Leitin leiðir hann á vafasamar slóðir í litríkum félagsskap dýraréttindasinna í Evrópu og smám saman missir hann tökin bæði á verkefninu og sjálfum sér.
Sláturtíð er ferðasaga sem veltir jafnframt upp ýmsum hliðum á brýnu samfélagsmálefni.
Gunnar Theodór Eggertsson hefur hlotið verðlaun og viðurkenningar fyrir barna-og unglingabækur sínar Steindýrin og Drauga- Dísu en nú er komið að því að hann bjóði fullorðnum lesendum í óvenjulega ævintýra-ferð. Gunnar skrifaði doktorsritgerð sína um bókmenntir og dýrasiðfræði.
Úr bókinni
Hvað vissi Ásbjörn um ketti? var líklega betri spurning, smærri í sniðum og viðráðanlegri. Ásbjörn hafði búið með köttum síðan hann mundi eftir sér og að hluta til skilgreint sjálfan sig út frá því samlífi. Þannig var hann kattamaður en ekki hundamaður, nokkuð sem verðugt var að stæra sig af. Ásbjörn skynjaði hunda sem ósjálfbjarga og undirgefin gæludýr sem þurfti að hafa fyrir eins og litlum börnum á meðan kettir voru meira eins og unglingar, þeir þóttust vera sínir eigin herrar en komu á endanum heim til að éta og sofa. Kettirnir sem Ásbjörn hafði kynnst um ævina voru af öllum stærðum og gerðum og streittust gegn yfirgripsmiklum skilgreiningum en sumt þorði hann þó að alhæfa um. Kettir voru langflestir loðnir. Kettir eru oftast með fjóra fætur og skott. Veiðihár og beittar klær. Þeir fara eigin leiðir, eru næturdýr, fíla að veiða flugur og fugla. Og ef maður kennir ketti að pissa í sandkassa innandyra þá mun hann eflaust pissa í sandkassa úti líka.
En eru gæludýr dýr? Eru húsdýr dýr? Hvað þýðir að vera dýr? Hvers vegna elskum við þessi en ekki hin? Hversvegna notum við hin en ekki þessi? Hver er munurinn á köttum og öðrum loðdýrum? Á vitsmunalífi hunda og svína? Sálarlífi andarunga og kjúklinga? Ásbjörn hafði hingað til álitið sig dýravin vegna þess að hann hafði átti gæludýr - en nei, hann mátti víst ekki segjas "eiga" gæludýr, jafnvel þótt það endurspeglaði lagalega stöðu dýrsins gagnvart samfélaginu. Hann hafði öllu heldur búið með ketti, haft kött sem félaga, átt í ferfættu samlífi. Var það ekki betur orðað?
(s. 17)