Fífa Finnsdóttir myndskreytti
Um bókina
Nornaseiður er fyrsta bókin í splunkunýrri ævintýraseríu fyrir börn og unglinga.
Íma er ósátt við lífið. Öll leiðinlegustu skyldustörfin á eyjunni lenda á henni á meðan systir hennar fær að nema galdur hjá nornunum! Andreas lærir járnsmíðar af pabba sínum á meginlandinu en dreymir um að verða riddari og vinna hetjudáðir. En örlögin hafa ætlað þeim báðum annað og brátt verða óvæntir og skelfilegir atburðir sem setja tilveru þeirra gjörsamlega í uppnám.
Úr bókinni
Hlutverk nornanna voru af ýmsu tagi, en störf þeirra fóru mestmegnis fram á bak við tjöldin. Þær sáu til dæmis um að viðhalda verndarveggnum úti á hafi og hlúa að gróðrinum hátt uppi í fjalli. Þær sáu um útfarir þegar álfar dóu (á þessum tíma hafði ég aldrei þekkt neinn sem dó), pössuðu upp á að friður ríkti á milli fjarða og að lífríkið blómstraði í fjallinu. En það fóru líka dularfullar sögur af nornunum. Börnin hvísluðu sín á milli að þær væru hamhleypur sem gætu breytt óþekktarungum í skorkvikindi og að leiðtogi þeirra, sjálf Æðstanornin, nærðist stundum á álfakjöti til að yngja sig upp. Þær áttu heima undir eða innan í fjallinu og gátu ferðast um neðanjarðar eftir leynigöngum sem voru okkur óbreyttu álfunum hulin. Við hvern fjörð mátti hinsvegar finna Nornastein sem var einhvers konar vegvísir inn í veröld þeirra, fyrir þá sem kunnu að lesa úr slíku.
Það kunni ég allavega ekki, því sama hvernig ég reyndi að leika eftir galdurinn hennar Súlu bar það engan árangur. Kannski ekki skrítið, ég hafði verið svo langt í burtu að ég sá hvorki hvernig stein hún notaði né heyrði hvort hún fór með nokkra töfraþulu á meðan. Ég ákvað að fylgja henni aftur næsta dag og leggja þá nánar við hlustir.
Það sem eftir var dagsins hékk ég í frostinu niðri í flæðarmáli, taldi þrettán sækýr og fyllti þrjá poka af hrúðurkörlum. Hvers vegna þurfti amma endilega vona marga? Við áttum ábyggilega nóg smyrsli til að endast árum saman. Ég sneri örþreytt heim í kvöldkyrrðina, var hvíldinni dauðfegin og steinsofnuð áður en Súla kom heim.
(s. 28-29)