Um bókina
Þótt Dísa líti út fyrir að vera ósköp venjulegur menntaskólanemi er það fjarri sanni – hún er rammgöldrótt, hefur barist við skrímsli og sent öflugasta galdramann Íslandssögunnar aftur til fjarlægrar fortíðar. Núna notar hún galdramáttinn næstum bara til gamans en í gáleysi vekur hún ókunn öfl sem senda hana af stað í lífshættulegt ferðalag.
Úr bókinni
Púkinn ásótti Dísu í draumum alla nóttina. Atvikið í tónleikasalnum hafði djúp áhrif á ungu konuna og henni leið einhvern veginn eins og hún hefði óvart kallað djöfulinn til sín, meðvitað eða ómeðvitað. Ef þetta var þá djöfull. Hún hafði samt oft galdrað svona áður án þess að nokkuð undarlegt ætti sér stað. Hvers vegna hafði þessi óþverri birst núna? Hafði hún óvart opnað einhverja nýja gátt? Eða hafði hún einhvern veginn komið sér og sínum töfrum í ójafnvægi? Hún var heldur ekki vön að verða svona þreytt eftir einfaldan galdur. Næsta morgun dröslaðist hún kraftlaus á fætur eftir truflaðan og martraðarkenndan svefn, líkamlega þreytt eins og eftir næturlanga glímu við sjálfan Lúsífer.
"Allir hafa víst sinn djöful að draga," hugsaði hún með sér yfir morgunmatnum, "og ég hef aragrúa." Helst hefði hana langað til að sofa yfir sig í fyrsta tíma en skólinn var þó skárri en vondu draumarnir sem plöguðu hana.
Hún var annars að mestu leyti sátt við menntaskólann. Hún gat mestmegnis valið að læra það sem henni þótti áhugavert en því miður var ekkert almennilegt kukl á kennsluskránni. Þótt Dísa ætti vissulega skilið að kallast fjölkunnug var engu að síður margt sem hún skildi ekki um eðli galdra. Verst var að hún gat ekki skráð sig til Kölska í Svartaskóla, sest á bekk með Harry og félögum í Hogwarts eða lært hjá galdrameisturunum á Rók-eyju, því hún saknaði Þóru, gamla kennarans síns, og hefði gjarnan viljað læra meira um sinn eigin töframátt.
Skólinn hennar var kannski afskaplega hefðbundinn, venjulegur og óspennandi en þar var að minnsta kosti engin Emilía. Hún endaði í öðrum menntaskóla og Dísa sá hana næstum aldrei lengur. Því miður hafði Sandra líka farið í annan skóla og þær sáust allt of sjaldan. En ákveðnir kostir fylgdu því að hefja nýtt líf í nýjum félagsskap. Hér var hún eins og hver annar nemandi, eða svona næstum því. Undarlegur orðstírinn var aldrei fjarri og sögurnar úr Fergjudagl leyndust alltaf handan við hornið.
(s. 37-38)