Æviágrip
Þórarinn Eldjárn fæddist í Reykjavík 22. ágúst 1949. Hann nam bókmenntir og heimspeki við Háskólann í Lundi í Svíþjóð frá 1969-1972, íslensku við Háskóla Íslands 1972-1973, bókmenntir í Lundi 1973-1975 og lauk þaðan fil kand prófi vorið 1975. Þórarinn var búsettur í Stokkhólmi á árunum 1975-1979 og dvaldist rúmt ár í Kantaraborg 1988-1989. Frá árinu 1975 hefur hann starfað sem rithöfundur og þýðandi.
Þórarinn hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka, smásagnasafna og skáldsagna og auk þess þýtt bókmenntaverk fyrir fullorðna og börn úr Norðurlandamálum og ensku. Þórarinn hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka fyrir börn í samstarfi við systur sína, myndlistarkonuna Sigrúnu Eldjárn, og hafa þær hlotið fjölmargar viðurkenningar. Verk eftir Þórarin hafa verið þýdd á Norðurlandamál og skáldsaga hans, Brotahöfuð á fleiri mál, en hún var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 1999.
Meðal viðurkenninga sem Þórarinn hefur hlotið má nefna Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur fyrir Óðfluga (1992), Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir Halastjörnu (1998), Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur fyrir þýðingu á Greppikló eftir Axel Scheffler (2004), Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs fyrir þýðinguna Veiða vind eftir Rakel Helmsdal, Janus á Húsagarði og Kára Bæk (2014) Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar fyrir þýðinguna Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson (2020).
Þórarinn var borgarlistamaður Reykjavíkur árið 2008 og hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu árið 1998. Auk þessa hafa bækur hans hlotið Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. Árið 2013 hlaut hann Viðurkenningu Sænsku akademíunnar fyrir kynningu á sænskri menningu erlendis.
Frá höfundi
Höfundurinn um höfundinn
Þetta hljómar eins og stamhenda eða byrjun á beygingardæmi, karlkyns nafnorð með greini: Höfundurinn um höfundinn... En meiningin er víst að ég útskýri hvers vegna ég skrifa. Og að venju finnst mér umsvifalaust eins og ég þurfi að afsaka eitthvað. Svara til saka. Verja mig. Færa fram málsbætur sem helst þurfa að fela í sér eitthvað óumræðilega djúpt og einstakt og hátíðlegt. Það er gjarnan þannig þegar spurt er um listræn störf: Köllun, innri þörf, einstæð sýn, sannfæring, tjáning og þjáning, ég var að springa utan af einhverju sem enginn annar hafði fram að færa...
Réttast væri líklega að velja eitthvað af þessu til að leggja út af...
Þá birtist af öllum mönnum Jóhannes Kjarval sem frelsandi engill: Úr útvarpinu hljómar gamalt viðtal. Vilhjálmur Þ. Gíslason er að prófa glænýtt plötuskurðartæki og ræðir við Kjarval fimmtugan og spyr hann innvirðulega hvers vegna hann máli. Og Kjarval svarar djúpum rómi úr fortíðinni gegnum urgið og surgið:
- Það er afskaplega mikill ábyrgðarhluti að mála, EN MAÐUR MÁLAR NÚ SAMT AF ÞVÍ MAÐUR ER MÁLARI.
Bætir síðan við eftir nokkra umhugsun:
- En kannski hefði maður eins átt að vera eitthvað annað...
Ég er kannski enginn Kjarval, en ég er rúmlega fimmtugur og því finnst mér ég hafa fullt leyfi til að orða þetta eins og hann: Ég skrifa af því ég er rithöfundur. Svo einfalt er það. Kannski hefði maður líka eins átt að vera eitthvað annað. En það sem ræður valinu í þessu starfi sem öðrum er líkast til alltaf einhvers konar blanda af áhuga, tilviljun, upplagi, hæfileikum, innstillingu, heppni, óheppni, hégómaskap, metnaði. Hending, bending,
vending, þrautalending...
Svo fátt eitt sé nefnt.
Leyfist mér að bæta við sköpunargleði og áráttu?
Þórarinn Eldjárn, 2001
Um höfund
Hér á bókmenntavefnum eru birtar tvær greinar um höfundarverk Þórarins Eldjárns.
Þá fyrri ritar Eysteinn Þorvaldsson árið 2000 og hún nefnist Að miðla lífinu til okkar. Þá síðari ritar Þorgreir Tryggvason árið 2021 og hún nefnist Listin að bjarga verðmætum.
Síðari greinin birtist hér fyrir neðan í beinu framhaldi af þeirri fyrri, og hér má smella til þess að fara beint í síðari greinina: Listin að bjarga verðmætum.
Að miðla Lífinu til okkar: Um skáldverk Þórarins Eldjárns
Skáldskaparhæfileikar Þórarins Eldjárns komu í ljós þegar á menntaskólaárunum. Ásamt tveimur skólabræðrum sínum sá hann þá um vinsælan útvarpsþátt, „Útvarp Matthildi“, þar sem skoplegu ljósi var brugðið á ýmis samtíðarmálefni. Síðan hafa þeir Matthildar-félagar látið að sér kveða hver á sínu sviði, en hinir voru Davíð Oddsson og Hrafn Gunnlaugsson. Arfur frá Matthildar-skeiðinu er leikritið „Ég vil auðga mitt land“ sem þremenningarnir sömdu undir dulnefninu Þórður Breiðfjörð og frumsýnt var í Þjóðleikhúsinu 1974.
Þórarinn hefur eingöngu stundað ritstörf síðan hann kom heim frá námi í Svíþjóð árið 1975 og verið afkastamikill rithöfundur. Hafa margar bækur frá honum komið; hann hefur ort ljóð, samið smásögur, skáldsögur og leikrit og þýtt mörg skáldverk.
Ljóð
Fyrstu bók sína, Kvæði, gaf Þórarinn út 1974. Kvæðin urðu strax geysivinsæl og var bókin prentuð nokkrum sinnum vegna mikillar sölu. Kvæðin eru öll háttbundin og epísk, það er með ljóðstöfum og rími eins og í hefðbundnum kveðskap en slíkur kveðskaparmáti var næstum einsdæmi meðal ungra skálda. Margir, sem höfðu horn í síðu óbundinna ljóða, fögnuðu þessu og töldu von um afturhvarf til fyrri hátta. En vinsældirnar áttu kvæðin ekki síst að þakka sérkennilegri kímni sem komið er á framfæri með óvenjulegu málsniði en orðfærið er auðskilið. Blandað er saman hefðbundnu skáldamáli, ýmsum gömlum orðum, hversdagsmáli samtíðarinnar og slanguryrðum og orðaleikjum: „Hann græddi sár hins tyfta tötramanns / á tá og fingri“ („Drottinn drottinn“). Stundum notar hann nútímamál um gamalkunnugt efni eða gamalt skáldamál um nútímann. Hann stefnir líka saman gömlu efni og nýju og vísanir eru algengar. Gamalkunnar persónur birtast í óvæntu ljósi, til dæmis Grettir og Tarsan, Hans og Gréta og Sveinbjörn Egilsson, og stundum verður túlkun þeirra íronísk. Þetta er gamalkunnug skáldskaparaðferð, „burlesque“, sem felst í því að gera alvörumál skopleg eða öfugt og bregða á leik með hverskonar misræmi í efni og stíl.
Þessari aðferð hefur Þórarinn oft beitt síðan, ekki síst í annarri bók sinni Disneyrímum 1978 en þær geyma ádeiluháð um bandaríska teiknimyndaframleiðandann Walt Disney. Í rímunum notar Þórarinn nokkra bragarhætti hins gamla rímnaforms utan um efni úr fjöldamenningu og neysluframleiðslu nútímans. Þetta eru sex rímur alls og flestar um það bil 60 vísur hver. Kímni þessa skoplega söguljóðs magnast við það að rímnaformið er ekki notað á hefðbundinn hátt til að mæra hetju eða afrek, heldur til að sýna óprúttinn viðskiptajöfur sem einskis svífst til að sópa að sér gróða, meðal annars á kostnað samstarfsmanna sinna, eftir að hinn ameríski draumur hans varð að veruleika. 38. vísan í sjöttu rímu hljóðar svo:
Nemur löndin Andrés önd,
argvítugur steggur.
Dauða hönd á dal og strönd
disneyvélin leggur.
Þriðja ljóðabókin Erindi minnir um flest á Kvæði. Í þessari bók er líka allnokkur mannsöfnuður nafnkenndra persóna frá ýmsum tímum. Mörg kvæðin eru epísk og sum þeirra eru löng og útleitin. Alloft bregður fyrir óvæntum vísunum sem geta orðið góð skemmtun í nýju umhverfi, til dæmis í kvæðinu um Ara fróða: „- Það sem sannara reynist það höfum við heldur / ef hvorugt er satt.“ Einnig eru kvæði sem geyma hugleiðingar og athuganir um mannlífið, gjarnan með meinlegu ádeiluskopi og orðaleikjum, til dæmis í „Minnimáttarerindi“:
Hafin yfir allan grun
er þín fræga klausa.
Ég hef eðlisávísun
innistæðulausa.
Fjórða ljóðabókin er Ydd 1984 og þar hefur skáldið brugðið á það ráð að yrkja óbundið. Ljóðin eru flest knappari en í fyrri bókum, persónulegri, tilfinningameiri og með nánari úrvinnslu hugsana og veruleika. Stíllinn er fágaðri en áður enda ekki þörf á orðum til að fylla takt eða þjóna rími. Kímnin er hinsvegar söm við sig og kaldhæðnar áminningar algengar. Ljóðin sýna að Þórarni lætur vel að tjá sig í þessu formi ekki síður en háttbundnu. Í bókinni eru einnig nokkur prósaljóð og í þeim ríkir hugmyndaflug og innhverf tjáning meir en í öðrum ljóðum hans.
Sjö ár liðu þar til næsta ljóðabók Þórarins kom út. Hún heitir Hin háfleyga moldvarpa, ljóðin eru að mestu óbundin eins og í Yddi, ennþá myndrænni og enn ríkari að orðleikni og kímni, til dæmis í ljóði sem heitir „Tillaga um handhægt ferðasett handa póetískum flóttamönnum“. Þar eru vísanir í Ingólf Arnarson (pólitískan flóttamann) en í ljóðinu verða súlurnar „meðaldræg hugskeyti sem æða / á vit hins óþekkta / í von um að finna sér furðuströnd“. Sama ár, 1991, kom út sjötta ljóðabókin Ort og þar eru eingöngu háttbundin ljóð, meðal annars níu sonnettur.
Í ljóðum sínum bregður Þórarinn upp myndum af mannlífi og umhverfi frá öllum tímum, oft í óvæntri sýn, stundum skoplegri en gjarnan áhrifamikilli. Honum tekst oft að sameina myndvísi og frumlega málnotkun með snjallri fléttu. „Jafnvel englum / virðast mislagðir vængir /um margt“ segir í ljóðinu „För“ um þann sem villtist af vegi dyggðanna, kompásinn er ónýtur enda búið að drekka af honum spírann og „Nálin bendir í hörðustu átt / en þaðan komstu“ (Moldvarpan). Ljóðin teygjast um vítt svið í tíma og rúmi og stundum er gamalt og nýtt tengt saman með vísunum í menningararfinn. Í kvæðinu „Staðarskáli er Ísland“ (Ort) er þessum kunna áningarstað lýst og lýkur því svo:
Hér vil ég una ævi minnar daga
innst í skoti bíða veitinganna
átekta og halla mímishöfði
hógvær undir flatt og nema allt þetta.
En ljóðin eru ekki öll epísk, hugarfar og þenkingar eru líka yrkisefni sem þó er oftast tjáð með myndum, stundum kímilegum. Tvö eru þau yrkisefni sem hvað fyrirferðarmest hafa verið hjá skáldum á öllum tímum en eru afar fátíð í ljóðum Þórarins: ástin og náttúran. „Ljóðabréf úr sveitinni“ geymir þó skýlausa ástarjátningu þótt hvorki sé hún hjartnæm né henni komið á framfæri með ástúðlegu líkingamáli. Síðustu tvö erindin eru þessi:
Æ skal ég vera þér
lóðbolti í tin
þér diskur í drif
deig þér í skál.Ég vil leka því til þín
hvað ég elska þig
og kinoka mér við
að kynoka þig
Umhverfislýsingar eru margar sérstæðar og eftirminnilegar, einkum vettvangur borgarinnar, en ljóðin hafa ekki auga fyrir eða hug á að miðla náttúrumyndum, enda kannski nóg framboð á slíku úr öðrum áttum. Nokkur ljóð með sérkennilegum myndum yrkir Þórarinn um veðurfar, birtubrigði og himintungl, en öll skynjun hinna náttúrulegu fyrirbæra er bundin tilvist og sjónarhorni borgarbúans.
Þrjár hinar seinni ljóðabækur Þórarins taka hinum fyrri fram um margt. Ljóðin eru markvissari bæði að hugsun og byggingu, hugðarefnin eru einlægari, ljóðmálið fágaðra, myndvísin meiri og samþjöppun efnis og forms styrkir formgerðina.
Þórarinn hefur samið allmörg ljóð sem ætluð eru börnum sérstaklega og hafa þau birst í ljóðabókunum: Óðfluga 1991, Heimskringla 1992, Litarím 1992 og Halastjarna 1997, allar eru bækurnar myndskreyttar af Sigrúnu Eldjárn. Þórarinn er eina núlifandi skáldið sem hefur sinnt þessu sviði ljóðagerðar sem varla nokkurt annað skáld hefur litið við síðan Stefán Jónsson leið. Hafa þessi barnaljóð hlotið ágætar viðtökur; þau eru bráðskemmtileg og hafa reynst vel til að örva málþroska barna. Ljóðin eru ekki ort á neinu barnamáli eða einfaldri tæpitungu, en eigi að síður ná orðin eyrum barna vegna þess að málnotkunin er skýr og efnið er gert áhugavert með kímni og orðaskemmtun. Myndirnar eiga líka drjúgan hlut í að laða athyglina að textanum. Sum kvæðin eru byggð á algengum orðatiltækjum sem skýrast og fá nýtt líf með því að flétta um þau dálitla frásögn. Allur þessi kveðskapur er háttbundinn og rímleikir hvergi sparaðir en slíkur stíll hentar vel ungum börnum, einkum þeim sem ekki eru orðin læs og hlýða á lesturinn. Aðferð Þórarins í barnaljóðunum felst meðal annars í því að persónugera bæði dýr og hluti og tungumálið sjálft. Þetta færir hann á gamansaman hátt inn í skynheim barna sem ekki hafa víðtæka veruleikareynslu. „Frakkinn“ heitir eitt smákvæðið:
Frakkinn minn er fótalaus,
fótalaus með engan haus.
Hann kemst ekki heim til sín,
hann kemst ekki neitt án mín.
Þó er hann á þönum út um bæinn,
en þykir best að hanga allan daginn.
Smásögur
Sögur Þórarins, bæði smásögur og skáldsögur, bera skýr höfundareinkenni og minna á ljóð hans í stíl og efnistökum. Mörg sagnaminnin eru úr fornum sögum en verða hluti af veruleika nútímans og tengjast honum náið. Orðfæri er yfirleitt vandað og skýrt og stíllinn sérkennileg blanda af fornum orðum og nútímamáli. Vísanir eru tíðar, jafnt í fornar bókmenntir og nýjar. Frásagnarhátturinn er oftast raunsæilegur, sögumaður læst gjarnan vera hlutlaus athugandi, persónur eru skýrt mótaðar í daglegu amstri. Sumar smásögurnar gerast í Reykjavík og í þeim eru kennileiti tilgreind með réttum nöfnum, svo sem götur, fyrirtæki og stofnanir. Frásagnarhátturinn er hinn sami þótt sagt sé frá atvikum og persónum sem eru handan raunveruleikans. Flestar sögurnar miðla miklu efni í knöppu formi; frásögnin er hröð og stundum stiklað á stóru, söguþráðurinn skýr og gróteskur í senn og oft drepfyndinn. Kímni og íronía eru megineinkenni stílsins og fá gjarnan óvænta áherslu í sögulok.
Fjögur smásagnasöfn hafa komið út frá hendi Þórarins, hið fyrsta, Ofsögum sagt, árið 1981. Sumar smásögurnar eru spunnar utan um fjarstæðukennda hugmynd sem gerir sig þó heimakomna og næsta eðlilega í veröld frásagnarinnar en verður jafnframt kröftugur spennugjafi. Í slíkum sögum verða gömul minni úr fornsögum, þjóðtrú og þjóðsögum og trúarbrögðum ákjósanlegur efniviður sem Þórarinn notfærir sér af góðri leikni, til dæmis í sögunum Tilbury, Mál er að mæla, Lúlli og leiðarhnoðað, Keflvíkingasaga, Arnsúgur, Lifað og Eftir spennufallið. Fjarstæðusögur bjóða heim þeirri hættu að fáránleikinn sleppi úr böndunum og verði yfirborðslegur, missi kynngikraftinn, en slíkt kemur afar sjaldan fyrir í sögum Þórarins.
Allmargar sögur geyma kaldhæðna ádeilu á hvimleið fyrirbæri í samtímanum, svo sem græðgi, snobb, hégómaskap, sérdrægni og athyglissýki. Háðið kristallast í meitlaðri persónusköpun og hlálegum afdrifum persónanna, til dæmis í sögunum Lagerinn og allt, Opinskánandi, Í draumi sérhvers manns, Síðasta rannsóknaræfingin og Saga Svefnflokksins.
Margar sögur fjalla um daglegt líf og amstur og endurminningar frá bernsku og unglingsárum. Sögur af því tagi minna á ýmislegt í fyrstu kvæðabókum Þórarins. Sumar þeirra segja frá sérkennilegum hrakföllum í hversdagslífi fólks þar sem ýmislegt verður með ólíkindum og ýmsum óvæntum uppákomum bregður fyrir, stundum með gráglettinni skemmtan, til dæmis Dundi, Áhrínið, Klámhundurinn, Eigandinn, Tvær litlar konur, Í svip, Ókvæða við, Töskumálin og Níðstöng.
Sagan Önsa er lýsandi dæmi um þá tilhneigingu sagnanna að opna ný sjónarsvið, vekja efasemdir um réttmæti ríkjandi skoðana, ýta við vanahugsun, gera alvarleg mál skopleg og skopmál alvarleg. Erindreki landnámsjarðarverkefnisins, sem á að safna örnefnum og fá bændur til að fjarlægja rusl, kemst að raun um að ekki er allt sem sýnist. Hann hættir við verkefnin og gerist frumkvöðull í því ferðamannaprójekti að „varðveita hið klassíska íslenska draslarabýli“. Ástir takast með honum og heimasætunni í Hlíð í Ódal, Önsu Önundardóttur. Sagan tengist skáldsögunni Skuggaboxi en þar segir einmitt frá þessari landnámsjörð og frá Önundi brauðfæti (túnfæti) landnámsmanni og afkomendum hans. Fleiri smásögur Þórarins tengjast þessari skáldsögu og margar af smásögunum tengjast hver annarri og einnig sumum kvæða hans með ýmsum hætti, sérstaklega með mannanöfnum, persónum og staðanöfnum.
Skáldsögur
Fyrsta skáldsaga Þórarins heitir Kyrr kjör; hún kom út 1983 og fjallar um ævi Guðmundar Bergþórssonar rímnaskálds sem uppi var á 17. öld; hann var fatlaður og bjó við dapurleg kjör en skáldskapargáfan veitti honum styrk til að verða sjálfstæður einstaklingur, einskonar atvinnu-rithöfundur, í þjóðfélagi örbirgðar, menntunarleysis og valdhroka. Hinu fatlaða skáldi tekst á sinn hátt að sigrast á öllu þessu með skáldskapariðkun sinni, með bragðvísi og með því að notfæra sér veikleika valdsmanna. Þjóðsögur og þjóðtrú koma hér mjög við sögu. Sjálfur er Guðmundur þjóðsagnapersóna; í kröm sinni á hann vopn sem mörgum stendur ógn af en það er skáldskapurinn sjálfur: hann er kraftaskáld auk þess sem hann kann að gera mönnum skráveifu með galdrabrögðum. En hann þráir að verða heill og frjáls og þykist vita að dvergurinn Pálmi Purkólín eigi þau smyrsl sem dugi. Ekki tekst að höndla þau en í sögunni eykst þó ferðafrelsi Guðmundar því að hann nýtur heljarmennisins Þórodds sem er brennimerktur þjófur en gerist burðarmaður Guðmundar sem í staðinn verndar hann fyrir sýslumanni. Vinur Guðmundar, Silungabjörn, er líka úr þjóðsagnaheiminum þar sem hann var meðal annars þekktur fyrir samneyti sitt við álfa. Þessar sagnir og ýmsa þjóðtrú nýtir Þórarinn í verk sitt og þessir þrír eru kjarnapersónur í sögunni. Í samanburði og í samskiptum við þessa þremenninga verða valdsmenn, veraldlegir og kirkjulegir, sem og kaupmaðurinn bæði hégómlegir og skoplegir.
Af skáldsögum Þórarins er Skuggabox (1988) lengst frá hefðbundinni sagnagerð. Hún sver sig í ætt við módernisma með margslungnum söguþræði og brotakenndri frásögn, rofinni tímarás, óljósri afmörkun persóna og fjörmiklu hugmyndaflugi. Sjónarhornið er breytilegt, frásögnin ýmist í þriðju eða fyrstu persónu. Sagan er nútímaleg en samt tryggilega bundin fornum, þjóðlegum sagnaarfi. Hún hefst á ættaróðalinu Hlíð í Ódal þar sem brauðdrengur fæðist með yfirnáttúrlegum hætti svo að ættin getur haldið áfram að dafna. Síðan tekur einn af hinni kunnu Kjögx-ætt að segja sína sögu en fólki af þeirri ætt bregður fyrir í fleiri sögum Þórarins. Kort Kjögx er sonur Braga Kjögx, seinheppins skálds sem er aðalpersónan í smásögunni „Ókvæða við“. Í móðurætt er hann af Nepp-ættinni; einkenni hennar er óstöðvandi hlátur þegar fólkið reiðist. Frekari vísbendingar benda til Þorleifs Repp, hins kunna málfræðings, menntamanns og sérvitrings á fyrra hluta nítjándu aldar. Til dæmis minna skammaryrðin sem dynja á Kort í martraðardraumi hans: „Abeat scurra!“ á brottvísun Þorleifs úr magistersprófi í Kaupmannahöfn 1826. Kort fer til náms í Svíþjóð og hyggst verða „málatferlisfræðingur“ Safnar hann heimildum í lokaritgerðina en skrifar hana aldrei; hann er haldinn uppgötvunar-áráttu sem öll beinist í átt til fáránleikans. Brottför Korts frá Svíþjóð og heimferðin til Íslands eru skoptilbrigði við þjóðsögnurnar um Sæmund fróða þegar hann slapp úr Svartaskóla og sat á selsbaki yfir hafið. Kort rotaði selinn í flæðarmálinu með harða diskinum úr tölvunni. Seinni hluti skáldsögunnar segir frá þessum misheppnaða lærdómsmanni eftir að hann kom til Íslands. Hann erfir hús eftir frænda sinn, hittir ættfólk sitt og málvini, heldur áfram fánýtum uppfinningum og atferlisrannsóknum, lendir á ættarmóti Kjögx-ættarinnar. Öllu þessu fylgja sögur og uppákomur, sumar furðulegar og þjóðsagnakenndar og oft eru þær meinlegt skop um ýmis áhugamál landans, til dæmis ættfræðigrúsk.
Þriðja skáldsaga Þórarins Brotahöfuð (1996) fjallar um sannsögulegar persónur eins og Kyrr kjör og styðst við nokkra sannsögulega þætti. Þetta er saga um hinn furðulega æviferil Guðmundar Andréssonar frá Bjargi í Miðfirði sem uppi var á 17. öld; hann var fátækrar ættar en komst til náms með tilstuðlan nágranna síns Arngríms lærða. Guðmundur reyndist ötull og skarpur námsmaður og lauk námi með sóma í Hólaskóla og skáldsagan greinir meðal annars frá skólavist hans og frá skólahaldi á Hólum. Þegar sagan hefst er Guðmundur orðinn fangi í hinni illræmdu dýflissu Dana, Bláturni í Kaupmannahöfn, en þangað var hann fluttur fyrir að mótmæla Stóradómi. Í fangelsinu rifjar hann upp liðna ævi og reynir að átta sig á örlögum sínum. Hann hefur haft með sér í fangelsið eina bók; Gullna asnann eða Metamorfósur eftir Lucius Apulejus, og smám saman rekur hann hamskipti og raunir söguhetjunnar saman við hliðstæður í eigin lífi. Lesandinn fær að vita að Guðmundur hafi strax á skólaárunum mætt óvild höfðingjastéttarinnar, Þorláks Skúlasonar biskups og sumra skólabræðranna sem voru synir stórbænda og embættismanna. Að loknum glæstum námsferli í Hólaskóla verður Guðmundur djákn á Reynistað í skjóli vinar síns séra Einars Arnfinnssonar sem hafði verið skólabróðir hans á Hólum. Í sögunni segir margt frá vináttu og skemmtanalífi þeirra félaga. Einar hrökklast úr embætti sökum skírlífisbrots; er Guðmundur þá látinn fjúka líka. Eftir það var útilokað að hann fengi prestsembætti, óvildarmenn hans fengu því ráðið. Guðmundur bjó yfir fjölbreyttum hæfileikum og fékkst við margt, meðal annars kaupmennsku; hann var prýðilega ritfær, hagorður og mælskur. Stríðlyndur var hann, tjáði skoðanir sínar refjalaust, lét ekki hlut sinn fyrir neinum og gat verið meinyrtur og níðskældinn. Fékk margur að kenna á því, meðal annars Þorlákur biskup. Eftir brottvikninguna frá Reynistað gerðist hann drykkfelldur og var það orsök þess að öfundarmenn hans komust yfir andmælaskrif hans gegn Stóradómi. Dirfska hans var ekki látin refsingarlaus enda biðu óvildarmenn hans eftir tækifæri til að hnekkja á honum. Hann var handtekinn án dóms og laga og fluttur umsvifalaust í Bláturn.
Þessi skáldsaga er athyglisverð lýsing á aldarfari og þjóðfélagi á 17. öld. Persónusköpun Guðmundar er skýr og eftirminnileg. Þessi uppreisnarmaður verður ljóslifandi og nærkominn lesandanum sem fylgist með óvenjulegum æfiferli þessa manns sem ekki sættir sig þegjandi við kúgun og ofbeldi. Höfundi tekst að tengja líf og starf Guðmundar ýmsum þekktum samtíðarmönnum, svo sem Birni á Skarðsá, Jóni lærða, Jóni Indíafara, Þorleifi Kortssyni og Hallgrími Péturssyni en við alla þessa menn hafði hann nokkur samskipti. Sannsögulegt er það furðulega atriði sögunnar að Guðmundur féll niður úr Bláturni en flýði þó hvergi. Að lokum losnaði hann þó úr þessu illræmda fangelsi með hjálp Ole Worms og fyrir tilstuðlan hans hófst nýr lífsþáttur hans í Kaupmannahöfn. Hann komst þá loks í þær aðstæður sem hæfðu honum: gerðist fræðimaður og sýndi að hann átti hæfileika vísindamanns. Þessi skáldsaga Þórarins var tilnefnd til evrópsku Aristeion-bókmenntaverðlaunanna 1998 og valin ein af fimm bestu bókunum það árið. Brotahöfuð er eina íslenska bókmenntaverkið sem hefur öðlast þann heiður. Allar skáldsögur Þórarins eru settar saman af leiftrandi frásagnargleði og góðri kímni þótt alvara búi jafnan undir niðri.
Þórarinn Eldjárn hefur ritað fleiri bækur en skáldverk, til dæmis bókina Ég man sem geymir svipleiftur endurminninga og Veðurdaga, fróðleik og skáldskap um veðrið,sem hann samdi ásamt eiginkonu sinni, Unni Ólafsdóttur. Þá hefur Þórarinn verið afkastamikill þýðandi. Hann hefur þýtt mörg skáldverk, einkum eftir Norðurlandahöfunda eins og skráin hér á eftir ber með sér, meðal annars þrjár af skáldsögum Görans Tunström og Inferno eftir August Strindberg. Hann hefur einnig þýtt ljóð og ennfremur söngtexta fyrir leikrit og önnur leikhúsverk. Þá hefur hann endursagt Völuspá á nútímalegt mál en í endursögninni heldur hann hinum forna bragarhætti frumtextans.
Þórarinn hefur annast útgáfu á tveimur verkum föður síns, Kristjáns Eldjárns eftir að hann lést. Það eru bækurnar Arngrímur málari (1983) og Kuml og haugfé (2000).
Lífið í skáldskapnum
Smásagan Forvarsla í Ofsögum sagt greinir frá samræðum fólks sem statt er á verkstæði Sigfúsar Guðmundssonar, Forhúð h/f. Hann gerir við bækur, málverk, blöð, leikföng og hannyrðir. Í skáldsögunni Skuggaboxi snarast Kort Kjögx inn um dyrnar á Forhúð eftir að selurinn ber hann til Íslands og þar er Fúsi (hann heitir raunar Vigfús í skáldsögunni) enn að gera við brúðuna Lillý eins og í smásögunni. Þarna á verkstæðinu hittast málvinir úr ýmsum áttum, ræða lífsgátuna og segja sögur. Jafnframt er þetta einskonar sagnasmiðja eða suðupottur fyrir skáldskap Þórarins Eldjárns. Sérkennilegar persónur, furðuleg reynsla, einkennilegar lífsraunir, ævintýraleg atvik eiga sér samastað á verkstæði forvarðarins sem sjálfur er sípuðandi í forvörslunni en jafnframt vitur umræðumaður. Og þarna opinberast líka hinn mannlegi breyskleiki í sinni margvíslegu mynd; við sjáum hégómleika og vandræðaskap okkar sjálfra og samborgaranna og þjóðfélagsins í kímilegri upphafningu en stundum sorglegri; allt í einu blasa söguleg fyrirbæri við frá nýju sjónarhorni og allt þetta blómstrar í skáldskap Þórarins í hvaða formi sem er. Á þessum stað segir Jón læknir Árnason söguna um það þegar hann lenti á álfadansleik á nýársnótt. Það er líka þarna sem Kort Kjögx boðar samdráttarkenningu sína sem Kolli mix skýrir með vígorðunum „Lífið er gormur“. Hinsvegar er ágreiningur um það hvort menn ferðist frá ysta enda gormsins til hins innsta eða öfugt. Fúsi forvörður rífur gamlan Mogga í tætlur vegna þess hve fréttamiðlunin er ómerkileg. Hann segir að lífið fari alltaf framhjá slíkum miðlum. Þeir sýni okkur ekki „raunverulega lífið, þetta með stóra ellinu“ segir hann.
Það er auðvitað hlutverk skáldskaparins að miðla Lífinu til okkar.
Eysteinn Þorvaldsson
...
Listin að bjarga verðmætum
Höfundaverki Þórarins Eldjárns mætti lýsa sem skáldæð sem rennur í nokkrum vel skilgreindum kvíslum. Formin skilgreina bakkana, og efnisinnihald straumanna og að einhverju leyti efnistök skáldsins eru talsvert ólík frá einni til annarrar. Skáldsögurnar hafa önnur erindi en smásögurnar, ljóðin fara sínu fram, og það er sérstakt skoðunarefni hvað er líkt og hvað ólíkt með því sem Þórarinn yrkir fyrir fullorðna ljóðkera og svo börnin, sem hann hefur sinnt öllum íslenskum skáldum best og lengst, eða frá því Óðfluga kom út 1991. Það er viðeigandi að byrja í þeirri einstöku kvísl.
Barnaljóð
Beittur orðabeitari,
besti samanskeytari.
Algjör yfirfleitari,
ekki á skeri steytari.
Orðaþrautaþreytari,
þjálfari og spreytari. …(“Rímleitarinn”, Fuglaþrugl og naflakrafl)
Frá aldamótum hafa komið út einar tólf bækur í bundnu máli Þórarins ætlaðar börnum. Þar af sjö í „meginstrauminum“, ef svo mætti kalla bækurnar sem hann hefur unnið með Sigrúnu systur sinni: Grannmeti og átvextir (2001), Tíu litlir kenjakrakkar og Gælur, Fælur og þvælur (2007), Árstíðirnar (2010), Fuglaþrugl og naflakrafl (2014), Ljóðpundari (2018) og Rím og roms (2021).
Við þetta bætist Á dýrabaki (2006), lítil bók sem Þórarinn „ljóðskreytti“, en Brian Pilkinton samdi og teiknaði, og tvö lítil kver með vatnslitamyndum Eddu Heiðrúnar Backman og vísum Þórarins, Ása og Erla og Vaknaðu, Sölvi (2012). Þá eru ónefnd endurort Hávamál (2011) með myndlýsingum Kristínar Rögnu Gunnarsdóttur, sem kallast á við barnaútgáfu Völuspár sem kom fyrst út 1994. Einnig Karnival dýranna (2010), þar sem Þórarinn yrkir vísur í bók með myndum Kristínar Maríu Ingimarsdóttur byggðum á samnefndu tónverki Camille Saint-Saëns.
Þannig líða sjaldnast meira en ein þrjú ár milli bóka af þessu tagi hjá Þórarni. Fyrir vikið eru barnaljóðin smám saman orðinn einn viðamesti hluti höfundarverks hans, nokkuð sem óvíst er að hafi hvarflað að honum þegar Óðfluga fór í prentsmiðjuna.
Efnistök, stíll og yrkisefni hafa líka haldist í svipuðum dúr allar götur frá Óðflugu. Ljóðin eru jafnan stutt, eitt til fjögur erindi velflest. Vel mætti hugsa sér lengri bálka af barnaefni, jafnvel í anda Disneyrímna. Stærri sögur í ljóðformi, þjóðsögur eða annað, gætu verið áhugavert tilbrigði í barnaljóðaflóruna. Einnig mætti hugsa sér bækur með sterkari þemabindingu. Sú eina þeirra sem lýtur þannig aga er Árstíðirnar, en hún sker sig merkilega lítið frá öðrum bókum að innihaldi, þó ljóðunum sé raðað eftir tengslum sínum við vetur, sumar, vor og haust. Eina dæmið um slíkan bálk eru Tíu litlir kenjakrakkar, sem ætlað var að leysa af hólmi Tíu litla negrastráka, sem eðlilega þykir óviðeigandi í nútímanum.
Þess má að geta að á þessum tíma hefur Þórarinn íslenskað þrjár erlendar ljóðsögur fyrir börn, Greppikló (The Gruffalo, 2003) og Greppibarnið (The Gruffalo’s Child, 2004) eftir Juliu Donaldson og Örleifur og hvalurinn (Pan Maluskiewicz i wieloryb, 2014) eftir Julian Tuwim. Smáritin sem Þórarinn vann með Eddu Heiðrúnu og Brian Pilkinton eru vissulega samfelldar smásögur en vel hægt að ímynda sér viðameiri verk frumort eða lengri sögur í ljóðbúningi.
Það væri líka áhugavert að sjá Þórarinn gera tilraunir með að yrkja ljóð fyrir börn í óbundnu formi, eða allavega lausara en raunin hefur orðið. Eftir því sem hefur liðið á feril hans á sviði „fullorðinsljóða“ hafa skilin milli háttbindingar og frjálsari efnistaka orðið óskýrari og merkilegt hvað það hefur lítið smitast inn í barnaefnið. Er þó leikur að orðum og rannsókn á merkingu þeirra ekki síður mikilvæg þar en í fullorðinsefninu, þar sem losaralegra form virðist ekki hentar síður við orðaleikina en bragarhættirnir gömlu.
Yfirlýst erindi Þórarins við börnin er vissulega ekki síst að kynna þau fyrir íslenskri kveðskaparhefð og þeim reglum ríms, hrynjandi og ljóðstafa sem þar gilda. Að því leyti eru bækurnar nokkurs konar dæmasafn, sem spannar allt frá dróttkvæðum hætti til sonnettu með viðkomu í algengum rímnaháttum.
Sú bókanna sem rekur þetta erindi skilmerkilegast er Gælur, fælur og þvælur, sem er nokkurskonar háttatal, með nöfn bragarháttanna fyrir neðan heiti kvæðanna. Þessar þröngu skorður virðast hafa hentað Þórarni vel, því þetta er albest heppnaða bókin hvað innihald snertir. Sem dæmi má nefna þessa sérlega skýru, einföldu en þó heimspekilegu lýsingu á skjaldböku (undir langhenduhætti):
Hún Baka Skjaldar er bráðvel gefin,
betur en sumt mannfólkið.
Kann að stíga stuttu skrefin,
stefnir alltaf fram á við.Baka kvartar engu yfir,
áfram gengur hægt og vel.
Ríku innra lífi lifir
læst – og frjáls – í sinni skel.
Þess má geta í framhjáhlaupi að þónokkur tónskáld hafa spreytt sig á að tónsetja barnaljóð Þórarins. Einhver albest heppnaða atlagan er einmitt hljómdiskurinn Gælur, fælur og þvælur, þar sem Ragnheiður Gröndal syngur lög Jóhanns Helgasonar við ljóð úr samnefndri bók auk nokkurra annarra. Lögin eru dýrðleg í einfaldleika sínum og vinna frábærlega með ljóðunum.
Yrkisefni barnaljóðanna eru – vitaskuld – gjarnan úr heimi barnsins. Nútímalegum hversdagsheimi, en ekki síður úr heimi sveitar og náttúru sem fæst börn hafa beina reynslu af í dag. Þjóðsögur og eru teknar nýjum tökum. Nefna má sem dæmi, bæði úr Grannmeti og ávöxtum, hana Gilitrutt sem allir vita núna hvað heitir („engin persónuvernd“) og hefur því misst máttinn, og Nykurinn í samnefndri tjörn fyrir norðan, sem hefur bætt ráð sitt og kominn í ferðaþjónustu, og ekki lengur við hæfi að hæðast að hófunum hans á okkar siðvöndu tímum.
En fyrst og síðast er það tungumálið sjálft sem er viðfangsefni skáldsins. Það á ekki síður við um barnaljóðin en þau sem ort fyrir þau sem eldri eru. Oft virðist kveikjan vera ný hlið á gömlu orði, sjaldséðir möguleikar á rími, óvænt samhengi. Þannig er það með Robba rafmagnsmann (Rím og roms) sem á sér þá æðstu þrá að „efla stuð“ og er „kannski spennufíkill“. Í Fuglaþrugli og naflakrafli rekumst við á afa að iðka forna lestrarkennsluaðferð:
Hann er bráðum búið spil
en býsna seigur enn:
Með bandprjónsaðferð býr hann til
bókstafstrúarmenn.
Í sömu bók er orðið „jólastress“ sett í nýtt og dramatískt samhengi af miklum glæsibrag:
Rjúpan fer í fötin senn,
fína hvíta dressið.
Bráðum koma byssumenn,
byrjar jólastressið.
Leikur að málinu er gegnumgangandi í ljóðabókunum, en mögulega mest áberandi í tilraunagleðinni í Grannmeti og átvöxtum. Titilljóðið er t.d. langur bálkur af upptalningu orða sem hljóma eins og möguleg ávaxtaheiti (sviðaldin, sæfíkjur, nöldrur) og nöfn á óþekktum grænmetistegundum (sauðlaukar, kviðkur, átómatar). Í öðru ljóði, Klarinetttitttré, safnar Þórarinn saman öllum hugsanlegum, og nokkrum illhugsanlegum, orðum þar sem sömu stafir koma þrisvar fyrir í röð.
Í sömu bók er líka sonnettan “Fugl þar sem var lauf”, þar sem skáldið notar einungis einsatkvæðisorð af mikilli íþrótt, sem efast má um að sé alveg við barna hæfi. Lokalínurnar eru svohljóðandi:
En þar sem lauf hékk sest nú fugl við fugl
er fyllt í skarð? Nei, æpt og skríkt tómt rugl.
Einsatkvæðissonnettann birtist fyrst í Yrkju, afmælisriti til Vigdísar Finnbogadóttur (1990), sem undirstrikar hve óljós mörkin milli barnaljóðanna og hinna sem ætluð eru fullþroskuðum ljóðaunnendum geta verið í skáldskap Þórarins.
Skyld hugsun kviknar við lestur útgáfu Þórarins á Hávamálum. Þar vekur athygli hve skammt hann gengur í raun við að enduryrkja þetta forna og torskilda kvæði. Bæði hvað varðar orðfæri, en líka í að gera siðaboðskapinn „boðlegan“ í okkar pena nútímasamfélagi:
Ef annan þú átt
sem þú illa treystir
en vilt samt hafa gott af honum
skaltu fagurt við hann mæla
en flátt hyggja
og launa fals með lygi.
Alltaf er eitthvað sem gleður í barnaljóðum Þórarins Eldjárns. Óvænt rím, ófyrirséður endahnykkur, ný vending orðanna. Þá verður líka að minnast á hlut Sigrúnar Eldjárn, sem vitaskuld er einnig afkastamikill og merkur höfundur sjálf. Sá heimur sem Sigrún hefur skapað í myndum sínum, bæði í ljóðabókunum sem hún vinnur með bróður sínum og í hennar eigin verkum, er ótrúlega heildstæður og skemmtilegur. Nánast eins og annað Ísland; litríkt, raunsætt, ævintýralegt, þjóðlegt og sérviturt.
Segja má að það sama gildi um barnakveðskap Þórarins.
Fullorðinsljóð
Ég uni mér við íþrótt
í ólgandi kyrrð
tengi orð við orð
færi orð af orðum
færi orð í orð
ýmist blíð eða stríð
berskömmótt eða launheitSú er sífelldlega
og sannlega vammi firrð(“Vammfirðing”, úr samnefndri bók)
Fyrstu óbundnu ljóð Þórarins birtust í fjórðu ljóðabók hans, Yddi (1984), og þóttu nokkur tíðindi, enda sérstaða hans sem ungt skáld að vinna innan strangrar hefðar fyrri alda hans helsta og þekktasta einkenni. Enda reyndist Þórarinn síður en svo hættur að lúta þeim aga og allar götur síðan hafa þessar tvær hefðir lifað saman í ljóðlist hans fyrir fullorðna. Barnaljóðagerðin hefur alfarið verið helguð rími og ljóðstöfum, enda tilgangur hennar öðrum þræði að þjálfa brageyra yngstu kynslóðarinnar.
Ekki er laust við að það sé samhljómur á stundum milli bundna málsins í barnabókunum og hinum sem ort eru fyrir fullorðna. Sem verður að telja til marks um hversu mikið skáldið leggur af sjálfu sér í barnakveðskapinn, til viðbótar við fræðslu- og þjálfunargildið.
Frá aldamótum hefur Þórarinn sent frá sér sex frumortar ljóðabækur sem ekki eru beinlínis ætlaðar börnum. Hættir og mörk (2005), Fjöllin verða að duga (2007), Vísnafýsn (2010), Tautar og raular (2014), Vammfirring (2018) og Til í að vera til (2019). Athygli vekur að milli Hátta og marka og næstu ljóðabókar á undan líða fjórtán ár, langlengsta tímabil án fullorðinsljóðabókar á ferlinum. Á þeim tíma koma tvær viðamestu skáldsögur Þórarins út: Brotahöfuð (1996) og Baróninn (2004), tvö smásagnasöfn og nokkrar barnabækur, auk smáprósakversins Ég man (1994). En frá því ljóðagerðin sneri aftur á verkefnaskrá skáldins hafa bækurnar birst með nokkuð reglulegu millibili.
Margt af því sem þegar hefur verið sagt um Þórarinn sem barnaljóðskáld á jafn vel við um hitt sem hann yrkir fyrir „jafningja“ sína. Sérstaklega gildir það um viðhorfin til tungumálsins sjálfs og fyrirferð þess í skáldskapnum : Hvernig það er bæði verkfæri og eitt helsta viðfangsefni skáldsins, leit að hinu óvænta í orðunum, eiginleikum sem dagleg notkun þeirra dylur. Jafnvel alveg niður í greinamerki, eins og í prósaljóðinu “Pláss” í Fjöllin verða duga, þar sem spurningamerki eru kölluð „eyru textans“.
Þessi glíma og dans við tungumálið er hreint ekki alltaf stiginn sérlega hátíðlega. Þvert á móti. Orðaleikir, ekki allir rándýrir, virðast oft vera bæði kveikja og helsta erindi kvæðanna.
Ég leita svo mikið í lágkúru
– að launum ég hlýt marga ákúru –.
Þetta’er aldeilis hreint
ekki af áhuga beint
heldur af andúð á hákúru.(“Kúrur”, Vísnafýsn)
Og mikið er gaman þegar frumleg hugsun og snjöll mynd rúmast í fullkominni ferskeytlu. Þannig lagað gera fáir betur en Þórarinn:
Bruna hratt með barðahví
bílar svartan dregil.
Kókett Esjan kíkir í
Kollafjarðarspegil(“Sætt landslag”, Tautar og raular)
Í síðari ljóðabókunum (og smásagnasöfnunum örlítið líka) ber dálítið á óþoli gagnvart ýmsum eiginleikum nútímans. Það ræðst síðan af afstöðu lesandans til hvers viðfangsefnis hvað virkar hnittið og hvað ekki:
Framförum ég flíka
og fagna ef ég get.
Allt sem var áður klíka
er orðið tengslanet.(“Framfarir”, Til í að vera til)
Hressandi „gamaldags“ heimsósómi sést líka, eins og í bálkinum um Húsavíkur-Jón í Vammfirringu. Eða í hinu snjalla ljóði “Höfðatorg” í Tautar og raular, sem byrjar á línunum „Til hvers þennan turn / við torgið, mér er spurn.“ og lýkur á „Peningapúkar á bita / pyngju vildu fita / ekki sést ljós frá innsiglingarvita.“ Eftirsjá eftir gömlum tíma og veröld sem var birtist hér og hvar. Til dæmis í lokaorðum “Bundins slitlags” í Háttum og mörkum, þar sem „þeyst er um sveitir / ýmist í einskisnýtri sprettu / eða tilgangslausum þurrki.“
Þórarinn er ekki tilfinningalega nærgöngult skáld, þó honum liggi ýmislegt á hjarta. Sjaldan fær lesandinn á tilfinningunna að hann horfi inn í kviku höfundar. Í Vammfirringu er einn bókarhluti helgaður minningarljóðum og þar má sjá skáldið opna sig varfærnislega:
EHB
Krían er komin
kennir trega í gargi
saknar síns vinar
hvergi pensill í munni
að performera fyrir.Ekkert slær hún samt af
leikur listir sínar ótrauð
hefur fordæmi fyrir því
að sýningin blívur.Að við yfirgefum ekki sviðið þó við hverfum af sviði.
Útgangspunktur þessarar greinar eru hin skýru mörk milli verka Þórarins Eldjárns í ólíkum greinum, en ljóðagerð hans ögrar þeirri „kenningu“ nokkuð. Það er óneitanlega talsverður samgangur milli ljóða fyrir börn og fullorðna eins og við höfum séð. Eins hafa veggir milli bundins og óbundins máls riðlast og sigið með árunum. Það mætti jafnvel segja að örsögutilraunirnar í Margsögu (1985) hafi flutt sig um set og sest að sem prósaljóð í síðari ljóðabókunum.
Ó- og líttbundnu ljóðin, háttbundnu kvæðin og barnavísurnar eru þegar að er gáð sama marki brenndar. Af helstu einkennum mætti nefna nákvæmni, hófstilltan húmor og smekkvísi, sem þó fær aldrei að standa í vegi fyrir góðri skrítlu. Einnig nett, og mögulega vaxandi, óþol í garð sumra einkenna nútímans, og meðfylgjandi ljúfsár eftirsjá eftir veröld sem er að hvefa. Fyrst og síðast birtast í ljóðunum viðhorf hins leitandi og fróða orðkera til tungumálsins. Þórarinn er skáld orðnautnarinnar og hugmyndanna sem rannsókn á máli okkar laðar fram.
Þegar best lætur fellur þetta allt saman, eins og í þessu ljóði í Háttum og mörkum. Eitursnjallt og óvænt rím, skörp og vingjarnlega háðsleg sýn á nútímann og trylling hans. Ekkert sem bendir til annars en þetta sé fyrst og fremst skemmtikvæði, sem gæti þessvegna átt heima í einhverri barnabókanna. Og svo lokahnykkur sem mætti segja að leysti gamla gátu. Einarðlega nútímalegt ljóð bundið í eldfornan rímnahátt.
La Gioconda
Um píramídann inn og áfram oní gljúfrið.
Flaumurinn af fólkinu
sem fyllir Lúvrið.Það hirðir ekki hót um fleiri hundruð sali
sannarlega samtaka
í sínu vali.Það fossar inn að festa ÞIG á filmur sínar
opinmynnt af áhuga
sem aldrei dvínar.Til að eignast augnsvip þinn og endurskap’ann
Í Delhi, Maine og Mýrarsýslu
en mest í Japan.Dularfulla daufbrosandi dána kona.
Þú vissir trúlega alltaf að þetta
yrði svona.
Smásögur
Frá árþúsundamótum hefur Þórarinn sent frá sér fjögur smásagnasöfn, til viðbótar við þau þrjú sem áður voru komin út: Eins og vax (2002), Alltaf sama sagan (2009), Þættir af séra Þórarinum og fleirum (2016) og Umfjöllun (2021). Ljóst er að smásögur eru veigamikill hluti af höfundarverki Þórarins. Margar þeirra einstaklega snjallar og nokkrar hljóta að teljast með því markverðasta og lífseigasta sem skrifað hefur verið í smásöguformi á íslensku. Óneitanlega ber þar hæst sögur úr eldri söfnum, en efnistök Þórarins hafa ekki breyst meira en svo þessa fjóra áratugi sem smásagnaútgáfan spannar að þau sem nutu þess að lesa Ofsögum sagt og Margsögu finna í hverri bók eitthvað í svipuðum dúr. Í öllum safnanna er eitthvað bitastætt á gamalkunnan hátt, en þó með nýjum keim.
Smásögur notar Þórarinn, með nokkrum markverðum undantekningum, til annarra hluta en skáldsagnaformið. Söguleg viðfangsefni eru fáséð, Þórarinn leitar í smásögum sínum langoftast fanga í nútíma eða nálægri fortíð. Gamansemi er í forgrunni fremur en túlkun tilfinninga, sköpun spennu eða glímu við formið. Þriðju persónu frásögn langalgengust, en oftast þegar fyrsta persóna fær orðið fer ekki milli mála að þar er höfundur sjálfur að segja frá einhverju markverðu úr eigin lífi og minni, eða í það minnsta á efnið rót sína þar. Þannig er titilsagan í Eins og vax upprifjun á sögu vaxmyndasafns Óskars Halldórssonar, minningum höfundar um safnið í Þjóðminjasafninu og sögur af föður hans sem tengjast vaxmyndunum. Og lokasagan í Þáttum af séra Þórarinum er enn persónulegri og nærgöngulli. Þar kemur alveg nýr Þórarinn til sögunnar í lokin. Einlægur og rétt nær að halda yfirvegun sinni og ró í vanmáttugri reiði yfir óvægni örlaganna.
Aðrar sögur er erfiðara að tengja beint við persónulega reynslu, en sækja seið sinn frekar í tíðaranda sem fleiri hafa aðgang að og minningar um. Ein af bitastæðustu sögum þessa tímabils er Úr sögu Bobbsambandsins (Umfjöllun), þar sem þetta hálfgleymda spil er hluti af nokkuð víðfðemri þroskasögu. Þar kemur einnig fyrir skáldið Arnþór Christiansen sem skýtur upp kollinum hér og þar í smásagnaheimi Þórarins, en öðrum þræði er saga Bobbsambandsins upprunasaga skáldsins.
Önnur eftirminnileg saga þar sem Arnþór kemur við sögu er “Ólán klárað” (Þættir af séra Þórarinum), sem er þó varla réttnefnd smásaga. Þar er að finna tíu atlögur skáldsins dularfulla til að klára sérkennilegt og endasleppt kvæði Jónasar Hallgrímssonar úr Annesjum og eyjum, smásagnalistin komin inn í landhelgi ljóðsins með góðum árangri.
Hér verður að minnast á þá skemmtilegu sérvisku skáldsins að nota nafnið Rósa á sem flestar af meira aðlaðandi kvenkynspersónum sínum. Nokkuð sem gleður þá lesendur sem sökkva sér í þennan sagnasjóð þó erfitt sé að geta sér til um tilefni þess eða merkingu.
Margar sagnanna eru nokkurskonar tilraunir með orð og kringumstæður. Þórarinn lýsir þessum tilraunum í sögunni “Hvaðefsaga” (Alltaf sama sagan). Hvernig sögur geta kviknað við það að láta sér detta í hug einhverjar aðstæður sem lúta þessari formúlu: Hvað ef…? Hvað ef fjöllin væru hol að innan? (Hvaðefsaga). Hvað ef menn væru ráðnir í vinnu í ferðaþjónustunni við að leika flökkumenn? (“Flökkusaga”, Alltaf sama sagan). Hvað ef við töluðum öll okkar eigin tungumál? (“Orðanna hljóðan”, Eins og vax.) Hvað ef þú vaknar upp einn daginn og er orðinn helgur maður? (“Hans heilagleiki”, Þættir af séra Þórarinum).
Í öðrum sögum er útgangspunkturinn ekki stærri en sérkennilegt orð. Þau geta verið algeng, eða í það minnsta þekkt orð sem fanga athygli höfundar. “Kauði” (Alltaf sama sagan) er dæmi um slíka sögu, þar sem tilraun er gerð til að lýsa manni sem orðið virðist eiga vel við. En svo eru líka sögur þar sem orðið er „heimasmíðað“. “Hlendi” (Eins og vax) er slík saga, sem er þá fyrst og fremst rannsókn á því sem slíkt orð gæti nýst til að lýsa. Eðli máls samkvæmt eru þessar sögur gjarnan nokkuð endasleppar og sverja sig að sumu leyti frekar í ætt við rannsóknir á orðum og orðatiltækjum sem einkenna ljóðagerð Þórarins, bæði fyrir börn og fullorðna.
Í þessum síðari söfnum sjást líka dæmi um sögur sem minna meira á viðfangsefni og efnistök sögulegu skáldsagnanna. Titilsagan í Þáttum af séra Þórarinum og fleirum er gott dæmi, sem og “Hringur á fingri”, frásögn lítillar stúlku af aðdraganda og eftirmálum þess þegar Eggert Ólafsson ferst „í brúðarörmum“ á leið yfir Breiðafjörð (Umfjöllun). Bitastæðasta sagan af þessu tagi, og jafnframt sú sem auðveldast er að sjá fyrir sér sem „fullgilda“ skáldssögu, er “Bróðir Jóns á Krossum” (Eins og vax) þar sem sálarstríð sögumanns kallast á við örlög bróður hans, Jóns Rögnvaldsonar, sem fyrstur var brenndur fyrir galdra á Íslandi.
Smásagnaheimur Þórarins Eldjárns er þannig ákaflega fjölskrúðugur, þó heildarsvipur sé einnig sterkur. Glöggur og sæmilega vel lesinn smásagnaunnandi myndi ekki vera lengi að geta sér til um höfundinn, verði einhver þessara sagna fyrir honum án höfundanafns.
Nýjasta safnið, Umfjöllun, hefur að geyma drjúgan skammt af vel heppnuðum sögum. Hér hafa verið nefndar “Úr sögu Bobbsambandsins” og “Hringur á fingri”. Upphafssagan, “Þegar strengurinn brast”, er sömuleiðis áhrifarík saga á mörkum skops og harms, líkt og Tsékhov-leikritin sem þar eru í bakgrunni. Gleðiríkt kynlíf er ekki algengt viðfangsefni í sagnaheimi Þórarins, en birtist óvænt í Árbæjarsafninu í “Toffí og Þjolla” og er til marks um það að allir höfundar geta komið jafnvel dyggustu lesendum sínum á óvart.
Skáldsögur
Eftir Þórarinn liggja fimm skáldsögur, þar af tvær útgefnar eftir árþúsundamót. Baróninn (2004) og Hér liggur skáld (2012). Fimm til átta ár líða að jafnaði milli skáldsagnanna.
Á sviði lausamálsskáldskapar „í fullri lengd“ er Þórarinn Eldjárn fyrst og fremst úrvinnslumaður sögulegs efnis. Meira að segja hið sérkennilega og einarðlega nútímalega Suggabox (1988) er stútfullt af vísunum í þjóðtrúarefni og sögulega atburði. Aðrar skáldsögur Þórarins eru allar byggðar á grunni heimilda, og segja má að þróunin sé í þá átt að leyfa þeim að tala sem beinast við lesandann, með sem minnstri truflun af erindi skrásetjarans.
Raunar má segja að þessarar þróunar sjái stað innan texta Barónsins, þar sem sviðsetningar og „skálduð“ samtöl og hugsanir aðalpersónurnar í upphafi bókarinnar víkja þegar á líður og endursagnir heimilda og beinar tilvitnanir í blaðagreinar taka stöðugt meira rými.
Í Hér liggur skáld virðist sem komið sé að endastöð í þeim efnistökum. Engu er líkara en höfundur hafi ákveðið að létta nútímalesendum lífið með að endursegja og þjappa saman efni Svarfdæla sögu og Þorleifs þáttar jarlaskálds, nokkurn vegin óbreytt að innihaldi, án þess að leggja mikið til málanna sjálfur með nútímalegum túlkunum eða óvæntum sjónarhornum. Sagan er lipurlega sögð og spennandi – auðveldara að fylgja þræðinum en í hinni illa varðveittu Svarfdælu. Málfarið er frábærlega útfært hjá Þórarni – tengslin við fornmálið eru skýr en allt er samt munntamt og auðlæsilegt.
Um svipað leyti og þessi síðasta skáldsaga kom út hefur þórarinn trúlega verið að vinna að seinni endursagnarbók sinni upp úr Eddukvæðum, Hávamálum fyrir börn, þar sem einmitt má dást að þvi hvernig tekst að halda málblænum, einfalda og „nútímavæða“ aldrei um of. Lesendur skáldsagna fyrir fullorðna gera á hinn bóginn gjarnan ráð fyrir að fleira hangi á spýtunni hjá höfundum en hrein endursögn.
Þannig er því að sjálfsögðu ekki farið með Baróninn, enda ekkert grundvallarrit fyrir hendi til að endursegja, þó ritaðar heimildir séu plássfrekar í texta Þórarins, og þá gjarnan óbreyttar þegar líður á. Engu að síður sver sagan sig greinilega í ætt við sögulegar skáldsögur eins og algengast er að skilja það hugtak. Höfundurinn hefur sjálfdæmi um að hvað miklu leyti heimildirnar ráða för og er frjálst að sviðsetja atburði og semja frá eigin brjósti samtöl og hugrenningar sem þétta vefinn og varpa ljósi skáldskaparins á það sem rás tímans hefur falið. Á sama tíma er alveg ljóst að verið er að segja sögu manns sem sannarlega var til og samferðamanna hans. Allir koma fram undir sínum réttu nöfnum og tilfinningin er sú að Þórarinn láti heimildirnar ráða för svo langt sem þær ná.
Það er ljóst af ritdómum um bókina að flestir líta á tilgang þess að rannsaka og rita um ævi barónsins á Hvítárvöllum, Charles Gauldrée-Boilleau, og feril hans á Íslandi sérstaklega sé fyrst og fremst að skýra, eða allavega setja fram kenningu um, hvað hann hugðist fyrir með veru sinni og umsvifum á Íslandi. Gjarnan er fundið að því að Þórarinn svari ekki, reyni jafnvel ekki að svara, þessari spurningu. Það er kannski ekki allskostar rétt, þó svörin séu kannski svo einföld og augljós í Baróninum að auðvelt sé að sjást yfir þau: djúpstæð þörf með rætur í fjölskyldusögunni til að gera sig fjárhagslega gildandi í veröldinni, og svo sálarlífsveila sem í dag væri sennilega kölluð geðhvarfasýki sem knýr Gauldrée-Boilleau til að setja af stað djörf og jafnvel óraunhæf verkefni en sviptir hann möguleikanum á að fylgja þeim eftir eða breyta um stefnu þegar á þarf að halda.
Í eðli sínu eru skáldsögur auðvitað óáreiðanlegar heimildir, en engu að síður skilur Baróninn lesandann eftir með þá tilfinningu að hann hafi nokkuð góða mynd af manninum, sögu hans og ættarinnar, og auðvitað athafnasemi á Íslandi, sem enn sjást merki um. Svipmyndirnar í fyrri hlutanum af bæjarlífinu í Reykjavík eru ákaflega sannfærandi og bitastæðar, ekki síst kynni Gauldrée-Boilleau, og þar með lesandans, af Benedikt Gröndal. Það er vitaskuld nokkuð sérkennilegt að láta efnistök breytast og þróast eins og þau gera hér, en hvort það er endilega „galli“ er flóknara og persónubundnara mál.
Lokahnykkurinn er síðan bráðsnjall og birtist þar hin kaldhamraða kímnigáfa sem sést annars helst í smásögum og ljóðum Þórarins fyrir fullorðna.
Þýðingar
Í lokin er rétt að geta þess að á undanförnum árum hefur Þórarinn bæst í hóp þeirra öndvegishöfunda sem hafa komið verkum William Shakespeare í íslenskan búning. Þýðingarnar hafa flestar ef ekki allar verið unnar að undirlagi Þjóðleikhússins vegna uppfærslu viðkomandi verks, en hafa góðu heilli eignast framhaldslíf í bókarformi. Til þessa eru þetta Lér konungur (2010), Macbeth (2012), Jónsmessunæturdraumur (2019) og Hamlet (2020). Sérstakur fengur er að nýrri þýðingu Draumsins, en þetta lykilverk hefur fram til þessa ekki verið aðgengilegt á íslensku nema í einni þýðingu og tími til kominn að víkka það svið.
Orðfimi og smekkvísi Þórarins í meðferð bundins máls nýtur sín vel við að skila þessum verkum til íslenskra viðtakenda. Hátíðleiki og jafnvel hófleg fyrnska í réttu jafnvægi við leik og skáldlegt fjör. Lýsing sem vel mætti heimfæra á ýmislegt í höfundarverki Þórarins sjálfs, sem oft virðist vera að bjarga verðmætum og koma þeim áfram til þeirra sem eiga að erfa þau og ávaxta með sínum hætti.
Samband Þórarins við fortíðina: sagnfræðilega, bókmenntalega og persónulega, er greinilega sterkt og birtist í öllum kvíslum skáldskapar hans og tekur á sig fjölbreyttar myndir. Hann yrkir ljóð um UHU-lím og Royalbúðinga, heldur rímnaháttum á lífi í leikskólunum og gleður hagmælskuunnendur á öllum aldri í öllum sínum ljóðabókum. Hann sækir smásagnainnblástur á vaxmyndasafn æsku sinar og grefur eftir viðfangsefnum skáldsagnanna í þjóðarsögunni, oft utan alfaraleiðar.
Heildaráhrifin greina Þórarinn Eldjárn skýrt frá samferðamönnum í íslenskum nútímabókmenntum. Fyrir vikið ber minna á sérkennum einstakra kvísla og meira á því hvernig Þórarinn er sjálfum sér líkur.
Þorgeir Tryggvason, 2021
Greinar
Almenn umfjöllun
Árni Sigurjónsson: „Ég reyni fyrst og fremst að vera húmoristi“
Árni Sigurjónsson ræðir við Þórarin Eldjárn
Tímarit Máls og menningar, 52. árg., 2.h. 1991, s. 34-46
Guðbjörn Sigurmundsson: „...ég vil að það sé tekið alvarlega að vera grínisti„
Viðtal við Þórarin Eldjárn
Mímir, 24. og 25. árg., 1. tbl. apríl 1986, s. 43-54
Kjartan Árnason: „Ung, græn- og yrkja ljóð! Um ljóðagerð ungra skálda á síðasta áratug“
Mímir, 24. og 25. árg., 1. tbl. apríl 1986, s. 6-14
„Samtíðarskáld“
Börn og menning, 15. árg., 1. tbl. 2000, s. 38-39
Valgerður Katrín Jónsdóttir: „Rétt rekin jafnréttisbarátta á að leiða af sér bæði karl- og kvenfrelsi“
segir Þórarinn Eldjárn rithöfundur
19. júní, 36. árg. 1986, s. 6-7, 10-12
Kendra J. Willson: „Þórarinn Eldjárn (1949- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 356-366
Þórarinn Eldjárn. Ritþing 11. mars 2000
Umsjón Andri Snær Magnason.
Reykjavík : Menningarmiðstöðin Gerðuberg, 2000
Um einstök verk
Alltaf sama sagan
Ingvi Þór Kormáksson: „Alltaf sama sagan“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2009, 4. árg., 2. tbl. bls. 170-8.
Rúnar Helgi Vignisson: „Smáfuglar fagrir : staldrað við nokkrar smásögur frá liðnum árum“
Spássían 2011, 2. árg., vetur, bls. 36-9.
Á dýrabaki
Úlfhildur Dagsdóttir: „Á ferð og flugi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Baróninn
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Útlendingurinn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Brotahöfuð
„Book news“
Iceland review, 37. árg., 2. tbl. 1999, s. 78-79
Ég man
„Í bókahillunni“
Skjöldur, 6. árg. ; 2. tbl. 1997, s. 21-22
Fjöllin verða að duga
Olga Holownia: „Hvað hljómar í hljóði?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Gælur, fælur og þvælur
Guðrún Geirsdóttir: „Bók í hönd og þér halda engin bönd“
Bókasafnið 2010, 34. árg., bls. 54.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Þögn og ró og skrípalæti“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hávamál
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir: „Hávamál“ (ritdómur)
Börn og menning 2012, 27. árg., 1. tbl. bls. 36-7.
Helga Birgisdóttir: „Góð vísa er sjaldan of oft kveðin“ (ritdómur)
Spássían 2011, 2. árg., vetur, bls. 8.
Hér liggur skáld
Gísli Sigurðsson: „Valdsmenn orðsins“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 4. tbl. bls. 130-2.
Hættir og mörk
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Orð, sorg og gleði“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kvæði
Eiríkur frá Bókfelli: „Kvæði“
Eimreiðin, 80. árg. 1974, s. 197-201
Jón Sigurðsson: „Til gamans gert“
Tímarit Máls og menningar, 36. árg., 2.h. 1975, s. 238-240
Kyrr kjör
Guðmundur Andri Thorsson: „Skáldið í fjörunni“
Tímarit Máls og menningar, 45. árg., 4.h. 1984, s. 461-469
Ó fyrir framan
Eiríkur Guðmundsson: „Viðsnúnings hressandi hristingur“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 4.h. 1992, s. 100-105
Óðfluga
Fanney Finnsdóttir: „Um bækur“
Vera, 11. árg., 1. tbl. 1992, s. 32
Silja Aðalsteinsdóttir: „Bók til að borða“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 1.tbl. 1992, s. 110-112
Snorra saga
Björg Sigurðardóttir: „Saga Snorra á nýjum nótum“ (ritdómur)
Netla 2004 (vor), sjá hér
Skipsfregn
Mörður Árnason: „Hvorki rök né rím. Ritdómur um sonnettu“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 2.tbl. 1993, s. 67-71
Þórarinn Eldjárn: „Að ruglast í ríminu. Dómur um dóm“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 3.tbl. 1993, s. 44-47
Skuggabox
Árni Sigurjónsson: „Draugabox“
Tímarit Máls og menningar, 50. árg., 3.tbl. 1989, s. 388-395
Soffía Auður Birgisdóttir: „Skáldaður þjóðlegur nútímalegur fróðleikur ...“
Mímir, 28. árg., 1. tbl. 1989, s. 52-55
Stafrófskver
Margrét Gunnarsdóttir Schram: „Stafrófskver“
Vera, 13. árg., 4. tbl. 1994, s. 46
Tautar og raular
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómar)
Stína 2014, 9. árg., 2. tbl. bls. 122-32.
Vísnafýsn
Úlfhildur Dagsdóttir: „Ferskeytlur á flugi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ydd
Jón Örn Marinósson: „Þórarinn Eldjárn. Ydd“
Skírnir, 159. árg. 1985, s. 337-339
Margrét Eggertsdóttir: „Hálflífs banvæn faðmlög“
Tímarit Máls og menningar, 47. árg., 1.tbl. 1986, s. 120-125
Verðlaun
2020 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar : þýðing á erlendri barnabók: Hver vill hugga krílið? eftir Tove Jansson
2018 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana. Ljóðpundari. Sem besta íslenska barnabókin.
2014 – Barnabókaverðlaun skóla- og frístundaráðs Reykjavíkur: Veiða vind (besta þýdda barnabók ársins)
2013 – Viðurkenning Sænsku akademíunnar fyrir kynningu á sænskri menningu erlendis
2010 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Árstíðirnar (sem besta barnabók ársins)
2008 – Borgarlistamaður Reykjavíkur
2007 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Gælur, fælur og þvælur (sem besta barnabók ársins)
2006 – Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar
2005 – Verðlaun starfsfólks bókaverslana: Hættur og mörk. Sem besta ljóðabók ársins
2004 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Fyrir þýðingu á Greppikló eftir Axel Scheffler
2001 – Vorvindar: Viðurkenning frá Börnum og bókum, Íslandsdeild IBBY
2001 – Lóð á vogarskál íslenskra bókmennta. Veitt af Félagi starfsfólks í bókabúðum
1998 – Barnabókaverðlaun Fræðsluráðs Reykjavíkur: Halastjarna
1998 – Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu
1993 – Viðurkenning frá Íslandsdeild IBBY fyrir framlag til barnamenningar
1992 – Barnabókaverðlaun skólamálaráðs Reykjavíkur: Óðfluga
Tilnefningar
2024 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar : þýðing á Þegar Ída litla vildi gera skammarstrik eftir Astrid Lindgren
2021 - Íslensku þýðingaverðlaunin: Hamlet eftir William Shakespeare
2019 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar: Sigrún Eldjárn: Ljóðpundari, með ljóðum Þórarins Eldjárn
2014 - Íslensku bókmenntaverðlaunin : Fuglaþrugl og naflakrafl (með Sigrúnu Eldjárn)
2010 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Lér konungur eftir William Shakespeare
2001 – International IMPAC Dublin Literary Award: Brotahöfuð
1999 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Brotahöfuð
1998 – Aristeion, evrópsku bókmenntaverðlaunin: Brotahöfuð í 6 bóka úrslit
1997 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Brotahöfuð
100 kvæði
Lesa meiraÞér er kennt um allt sem illa fer, / ef aflinn bregst, ef lömbin eru rýr. / Það kann að virðast skrýtið en það er / ósköp gott að hafa svona dýr.Hlutaveikin
Lesa meiraJólin nálgast. Freysteinn Guðgeirsson verður æ spenntari með hverjum degi sem líður. Á endanum koma þau samt og hann getur loksins, LOKSINS opnað alla jólapakkana. En þá kemur dálítið í ljós sem reynist erfitt viðureignar þó allt fari vel að lokum.Dótarímur
Lesa meiraÞórarinn Eldjárn kveður hér um dót okkar og dótarí allt frá bolta yfir í íslenska tungu og flest þar á milli.Skemmtilegt er myrkrið
Lesa meiraSígilt ævintýri sem flytur alla inn í heillandi heim þjóðsagna og ævintýra. Tónlistin og sagan eru eftir Elínu Gunnlaugsdóttur. Þórarinn Eldjárn skrifar texta lokalags og Heiða Rafnsdóttir myndskreytir söguna. Bókinni fylgir geisladiskur með flutningi á verkinu.Hlustum frekar lágt
Lesa meiraÞrjátíu og tvö áður óbirt háttbundin ljóð. Flest þeirra tvöföld eða þreföld í roðinu, þannig að í raun fylla þau næstum hundraðið. Hér er meðal annars fjallað um grímur og hornsíli, útfjólur og íslensku kerlinguna, fálka í fjósi og trójuhesta, hraðamet snigils og gildi þess að hlusta lágt, hjólbörur með vængi, tímareim sem fer og guð í augnhæðum.Tættir þættir
Lesa meiraMeðal bandarísku bókanna sá ég fyrsta skipti og las bók eftir Philip Roth. Það var skáldsagan Letting Go. Einnig var þar heildarsafn ljóða Walts Whitmans, Leaves of Grass, í útgáfu Everyman's Library. Hana tók ég mér strax til handargagns og hef um ævina átt við hana nokkurt samneyti. Hyggst skila henni fljótlega.Umfjöllun
Lesa meiraRím og Roms
Lesa meiraRím og roms geymir nýjar og skemmtilegar vísur og myndir eftir Þórarin og Sigrúnu Eldjárn – um kaldar og heitar hendur, heilagar kýr, kubba, tröll og margt margt fleira.
Þegar Ída litla vildi gera skammarstrik
Lesa meiraÍ Kattholti bjuggu systkinin Emil og Ída. Hefur þú heyrt um þau? Ef svo er þá veistu að Emil gerði skammarstrik næstum á hverjum degi og pabbi þeirra lét hann dúsa í smíðakofanum til að læra sína lexíu. Það gekk nú eitthvað hægt því Emil kunni ágætlega við sig í smíðakofanum. En aldrei fékk Ída litla að sitja þar því hún gerði sjaldnast neitt af sér. Þar til hún gerði svo svakalegt skammarstrik að meira að segja Emil brá við. En hvað gerði pabbi þá?. . Þegar Ída litla vildi gera skammarstrik eftir Astrid Lindgren, er saga um uppátækjasöm börn og það óréttlæti heimsins sem þau verða stundum fyrir. Hún kemur nú út í nýrri þýðingu Þórarins Eldjárn.Hver vill hugga krílið?
Lesa meiraÆvintýri Lísu í Undralandi
Lesa meiraImagine : Að hugsa sér
Lesa meiraÖrleifur og hvalurinn
Lesa meiraVeiða vind: tónlistarævintýri
Lesa meiraLér konungur
Lesa meiraGreppibarnið
Lesa meiraGreppikló
Lesa meira