Æviágrip
Sigrún Eldjárn er fædd 3. maí 1954 í Reykjavík. Hún lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík 1974 og fór að því loknu í Myndlistar- og Handíðaskóla Íslands og útskrifaðist þaðan úr grafíkdeild 1977. Árið 1978 dvaldi hún um tíma í Póllandi sem gestanemandi við Listaakademíurnar í Varsjá og Kraká. Sigrún hefur starfað sem myndlistarmaður frá 1978. Hún hefur haldið einkasýningar og tekið þátt í mörgum samsýningum bæði hérlendis og erlendis, s.s. á Norðurlöndunum, í Póllandi, Þýskalandi, Bandaríkjunum, S-Kóreu, Taiwan og Japan. Verk hennar eru í eigu fjölmargra opinberra safna og stofnana.
Sigrún hefur sent frá sér fjölda bóka fyrir börn, en fyrsta bók hennar, Allt í plati, kom út árið 1980. Sigrún myndskreytir allar sínar bækur sjálf en hún hefur auk þess myndskreytt fjölda bóka annarra höfunda. Má þar nefna verk eftir Guðrúnu Helgadóttur, Magneu frá Kleifum og Þórarinn Eldjárn. Sigrún hefur einnig skrifað sjónvarpshandrit fyrir RÚV.
Sigrún hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir ritstörf sín, m.a. Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar í þrígang, Menningarverðlaun VISA, Sögustein - barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi og verið tilnefnd til H.C. Andersen verðlaunanna og Norrænu barnabókaverðlaunanna. Sigrún hlaut tilnefningu til Íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki barnabóka árið 2011 fyrir Strokubörnin á Skuggaskeri og svo ásamt Þórarni Eldjárn árið 2014 fyrir bókina Fuglaþrugl og naflakrafl og svo verðlaunin sjálf árið 2018 fyrir Silfurlykilinn. Fyrir Silfurlykilinn fékk Sigrún ennfremur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2019. Ári síðar deildi hún heiðursverðlaunum Sagna - verðlaunahátíðar barnanna með bróður sínum og samstarfsmanni, Þórarni Eldjárn.
Sigrún Eldjárn býr í Reykjavík.
Forlag: Mál og menning.
Ritþing um Sigrúnu Eldjárn í Gerðubergi 24. nóvember 2007
Frá höfundi
Frá Sigrúnu Eldjárn
Í rúm tuttugu ár hef ég skrifað og teiknað bækur fyrir börn. Einstaka sinnum velti ég því fyrir mér af hverju ég geri það en oftast er ég ekkert að pæla í því en held bara ótrauð áfram. Sjálfri finnst mér að ég hafi kannski aldrei orðið alveg fullorðin og er ég reyndar afskaplega ánægð með það. Ég finn mjög vel fyrir krakkanum sem spriklar þarna inni í höfðinu á mér og saman skemmtum við okkur við að gera þessar bækur.
Börn eru upp til hópa mjög góðir og þakklátir lesendur og eiga skilið að þeim sé séð fyrir úrvalsefni. Verst er hins vegar hvað það er erfitt að vinna fyrir sér með barnabókaskrifum. Ég held að það sé ekki auðvelt að finna störf sem eru verr borguð.
En hvað um það, áfram höldum vér og skrifum fleiri og fleiri og helst betri og betri bækur.
Af því að það er svo gaman.
Sigrún Eldjárn, 2002
Um höfund
Hér að neðan eru tvær greinar um Sigrúnu Eldjárn, sú fyrri er eftir Úlfhildi Dagsdóttur og sú seinni eftir Rósu Maríu Hjörvar sem finna má hér að neðan.
Ævintýrin gerast enn : um verk Sigrúnar Eldjárn
Í sögunni af Málfríði og tölvuskrýmslinu hefur Málfríður – sem er hagleikskona mikil, komin vel yfir miðjan aldur – búið til tölvu. Móður hennar hugnast gripurinn afarvel og leikur sér að því að teikna skrýmsli á skjáinn. Málfríður og drengurinn Kuggur hjálpa svo mömmu gömlu við að gera skrýmslið enn ófrýnilegra og svo stendur til að prenta herlegheitin út til þess að vígja nýja prentarann sem er líka sköpunaverk Málfríðar. Nema svo merkilega vill til að einhverju hafði slegið saman við hönnun prentarans og skrýmslið sprettur alskapað út úr honum, í þrívídd, lifandi og sprækt og alls laust við að vera niðurnjörfað á blaði. Upphefst nú mikill eltingaleikur, fyrst ógnar skrýmslið þeim þremenningum, móðirin endar uppi í ljósakrónu en Málfríður stekkur upp á skáp, en Kuggur skríður bakvið sófa. Þegar skrýmslið sleppur út hlaupa Málfríður og Kuggur á eftir og ætla sér að ná skrýmslinu áður en það veldur usla meðal almennings, þrátt fyrir að þau viti ekki vel hvernig höndum skal komið yfir það. Í ljós kemur að skrýmslið er sólgið í kökur og þannig tekst þeim að lempa það heim – bara til að uppgötva að allt í einu hefur pappírsörkin fangað það eins og upphaflega var til ætlast. Niðurstaðan er þessi: „Þetta eru tímabundin áhrif. Það sem prentað er út er bara lifandi í stuttan tíma, síðan verður það að venjulegri mynd á blaði!“ Og mamma Málfríðar sér strax leik á borði: nú ætlar hún að teikna allskonar kvikindi og prenta þau út, enda er hún með sæg af góðum hugmyndum. Kuggur hinsvegar flýtir sér heim, og líst varlega á að hitta fleiri skrýmsl.
Hinn lítt hugdjarfi Kuggur hefur áður birst í bókunum Kuggur og fleiri fyrirbæri (1987), Kuggur til sjávar og sveita (1988), Kuggur, Mosi og mæðgurnar (1989) og Skordýraþjónusta Málfríðar (1995). Hann er fremur dæmigerður fyrir heim Sigrúnar Eldjárn, þarsem ungir piltar eru fremur hlédrægir og lítt gefnir fyrir óvenjuleg ævintýri, öfugt við stelpurnar/konurnar sem eru hinar sprækustu, og alltaf til í að hella sér út í hið óþekkta. Undantekningin á þessu er kannski helst Teitur, sem er sú karlkynspersóna bóka Sigrúnar sem er ævintýragjarnastur, en þá í félagi við stelpu. Þetta gefur höfundarverki Sigrúnar skemmtilegan andblæ kynjafræðilegrar sýnar, án þess þó að nokkurntíma birtist áróðurskennd umræða um kynhlutverk. Kynjafræði er í dag orð sem notað er um fræði þau sem fjalla um kynhlutverk og jafnrétti og vísar orðið til þeirrar hugmyndar að hafna einföldum andstæðum kynjanna tveggja og opna fyrir sveigjanlegri umræðu um kyn, kyngerfi og kynhlutverk sem mögulega er miklu fjölbreytilegra en hefðbundin tvískipting gefur til kynna. En kynjafræði er skemmtilega lifandi orð að því leyti að þar er gamalt orð tekið og notað á nýjan hátt, en forskeytið kynja- vísar til einhvers undarlegs og skemmtilegs, kynjadýra og –vera. Sem slíkt er það einnig ákaflega viðeigandi lýsing um verk Sigrúnar sem einmitt eru mönnuð – dýruð – veruð af kynjaverum ýmiskonar og má því vel hugsa sér að það sé Sigrún sjálf sem bregði sér í spor mömmu Málfríðar og teikni og skapi kynjadýr og kvikindi í massavís og prenti út úr tölvu sinni, og líkt og mömmuna skortir ekki hugmyndir virðist hugarflug Sigrúnar ákaflega líflegt.
Vísindafantasía og fantasía yfirleitt hefur ekki verið ríkur þáttur í íslenskum bókmenntum, þrátt fyrir að báðar hafi skotið upp kollinum við og við. Þó má glöggt sjá að á síðustu tveimur áratugum hefur fantasíunni vaxið fiskur um hrygg (sem er mjög viðeigandi máltæki hér, því það dregur upp mynd af kynjadýri með fisk sem vex upp úr hryggnum) og nægir þar að nefna höfunda eins og Sjón, Vigdísi Grímsdóttur, Kristínu Ómarsdóttur og nú síðast Andra Snæ Magnason, en hann hefur leikið sér með formið í barnabók sinni og verkum fyrir fullorðna. Andri Snær nýtir sér fantasíuna fyrst og fremst sem áróðurstæki, enda hefur það verið eitt af hlutverkum formsins frá upphafi, að virka sem einskonar viðbragð við samtíma sínum. Þrátt fyrir að verk Sigrúnar beri flest samtíma sínum merki á einhvern hátt þá tekst henni, eins og áður er sagt, að forðast alla einfalda ádeilu eða áróðurstón. Í stað þess leyfir hún ímyndunaraflinu að leika lausum hala og fantasían verður því óheft og lifandi.
Þetta kemur skemmtilega í ljós í fyrstu bókum hennar tveimur, Allt í plati (1980) og Eins og í sögu (1981) sem segir frá ævintýrum Eyvindar og Höllu. Ævintýri þessi gerast neðanjarðar, nánar tiltekið í skólplögnum Reykjavíkurborgar, en þar búa kynjaverur sem nefnast Krókófílar og eru einskonar blanda af krókódílum og fílum. Þarna vísar Sigrún skemmtilega í margar áttir, Eyvindur og Halla tilheyra sögu og þjóðsagnaheimi Íslands, meðan flökkusögurnar um krókódíla í skólplögnum er dæmi um borgar-þjóðsögu, sem er ákaflega bandarísk. Þessar flökkusögur ganga út á það að þegar krókódílarnir eru nýskriðnir úr eggjunum eru þeir agalega litlir og sætir og vinsælir sem gæludýr. Hinsvegar stækka þeir ört og þá er vinsælt sport að sturta þeim niður í klósettið. Síðan dafna þeir og stækka í lögnunum þartil þeir breytast í ægileg skrýmsl sem herja á borgarbúa. (Reyndar hitti ég einmitt smávaxinn krókódíl í búri í dýragarðinum í Central Park í New York, en sá hafði fundist á vappi og var ekki betur séð en örlög hans hefðu einmitt verið þau sem flökkusagan segir, utan að hann var ólíklegur til að herja á einn né neinn vegna erfðaefnis síns sem fyrirskipar að hann sé einskonar dvergkrókódíll, svona eins og íslenski hesturinn miðað við þann arabíska.) Á ferð sinni um undirheima Reykjavíkur hitta börnin fyrir aldagamla konu sem í árdaga þekkti Gunnar og Njál og viðheldur sínu eilífa lífi með eilífðarsteini sem hún geymir í handarkrikanum og þegar börnin lenda upp á kant við síðskeggjaðan og illskeyttan kirkjuvörð Hallgrímskirkju og vin hans sem er dreki þá nota þau sér sömuleiðs hulinshjálmssteina til að sleppa. Á þennan hátt fléttar Sigrún inn Íslendingasögur og íslenskar þjóðsögur, en til gamans má geta að bæði fyrirbærin, steinninn sem gefur eiganda sínum eilíft líf og hulinshjálmur eru sívinsæl fantasíueinkenni, og birtust nú síðast í Harry Potter bókunum.
Í þessum bókum er einnig að finna hvað mestan leik Sigrúnar með form, en nemandi minn í myndasögunámskeiði í Listaháskólanum skrifaði mjög áhugavekjandi ritgerð þarsem hún benti á að þessar bækur Sigrúnar nýta sér form myndasögunnar að hluta til. Þannig hefjast báðar bækurnar á því að hugsanir barnanna, sem birtast í hugsanablöðrum að hætti myndasagna, taka á sig líf. Á sama hátt er hluti textans einungis í hugsana- og talblöðrum, sem spilar saman við megnitextann sem er á hefðbundnari hátt utan myndanna.
Myndir eru auðvitað stór þáttur í verkum Sigrúnar, enda er hún myndlistakona. Hún myndskreytir bækur sínar sjálf og er í því sambandi ástæða til að taka upp orðið myndlýsingar sem hefur verið notað til að leggja áherslu á hlut mynda í bókum, sem oft á tíðum er ekki minni en hlutur textans. Myndir Sigrúnar spanna allan skalann, frá því að vera fremur hefðbundnar myndskreytingar við sögur eins og af Teiti og leynifélaginu Beinagrindinni, yfir í að vera lykilatriði í upplifun bókarinnar eins og í sögunum af Höllu og Eyvindi, Kuggi og mæðgunum, Hróa og Hörpu, svo ekki sé talað um þær bækur sem Þórarinn Eldjárn ‘ljóðlýsir’, Gleymmérei (1981), Stafrófskver (1993) og Talnakver (1994), en þær eru beinlínis knúnar áfram af myndum eins og hlutverk Þórarins gefur til kynna.
Sögurnar af Teiti og Beinagrindinni eru greinilega ætlaðar aðeins eldri börnum, enda eru þær lengri og textinn er meiri um sig. Sögurnar af Beinagrindinni (Beinagrindin 1993, Syngjandi Beinagrind 1994 og Beinagrind með gúmmíhanska 1996) sverja sig í ætt við breskar barnabækur sem segja frá börnum og unglingum sem stofna með sér leynifélag og eru upptekin af því að leika einskonar rannsóknarleiki. Samsetning hópsins er næsta undarleg, en hann telur tvo 9-10 ára krakka, Birnu og Ásgeir, einn ungling sem er pönkari, Kolbeinn kallaður Beini, og litlu systur hans Gusu sem er ekki nema fimm ára í fyrstu bókinni. Eins og vera ber í slíkum sögum lenda krakkarnir iðulega í þeirri aðstöðu að koma upp um hina ýmsustu glæpi. Í annarri bókinni enda krakkarnir á að setja upp rokkóperu sem er spunnin uppúr atburðum bókarinnar í bland við sögu um brjálaðan vísindamann, en hann dregst inn í málið að kröfu Birnu (sem á einmitt dálítið utangátta vísindamann að föður).
Brjálaður vísindamaður er síðan mikilvæg persóna í bókunum um Teit, en fyrsta bókin, Teitur tímaflakkari (1998), segir frá því að Teitur býr einn með móður sinni því faðir hans hvarf sporlaust fyrir tveimur árum. Í ljós kemur að hann hafði verið sendur í tímaferðalag af brjálaða vísindamanninum Tímóteusi sem er ákaflega illur maður og upptekinn af því að ná valdi á tímanum og þarmeð heimsyfirráðum. Tímóteus nær tangarhaldi á Teiti og sendir hann inn í framtíðina til að njósna. En Tímóteus gleymir sér í æsingnum og lætur Teit ekki vita hvernig hann á að koma til baka. En sem betur fer lendir skjaldbakan Gloría með í tímavélinni og bjargar öllu, en hún er óvenjulegt dýr eins og reyndar önnur dýr vísindamannsins sem gerir stöðugar tilraunir á þeim. Á þessu tímaferðalagi hittir Teitur framtíðarstelpuna Stellu og fortíðarstrákinn Narfa, og þau þrjú eiga svo eftir að hittast í næstu tveimur bókum, Teitur í heimi gulu dýranna (1999) og Geimeðlueggjunum (2001).
Fyrir utan sögurnar um Teit flokkast sögurnar af Bétveimur (Bétveir-Bétveir 1986 og Axlabönd og bláberjasaft 1990) og Stjörnustráknum (1991) einnig undir vísindafantasíur, en í þeim segir frá heimsóknum geimvera og samskiptum þeirra við jarðarbörn.
En Geimeðlueggin er ekki bara vísindafantasía, hún sver sig líka í ætt við hrollvekjur í anda vísindahrollvekja einsog Alien (1979). Sagan segir frá því að Teitur, Stella og Narfi finna öll, hvert á sínu tímaskeiði, dularfull rauð egg. Egg Teits klekst út og afkvæmið reynist vera geimeðla nokkur illskeytt, sem líkt og Tímóteus áður stefnir að heimsyfirráðum, helsta fæðutegundin er mannakjöt og jörðin ákjósanlegur bústaður, enda á mannkynið hana ekki skilið svo illa fer það með auðlindir hennar. Eins og áður segir minnir þessi geimeðla ekki lítið á geimveruna í Alien-myndunum, en sú tegund stefndi einmitt að heimsyfirráðum, og lagði það í vana sinn að skilja egg sín eftir í von um að þau myndu klekjast með hjálp manna sem notaðir eru sem hýslar. Geimeðlurnar eru frumlegar í hönnun Sigrúnar, en þær eru lausar í sér og eru útlimirnir ekki endilega fastir við búkinn. Í virkilega hrollvekjandi senu ná þær taki á systur Narfa og borða hana; þegar krakkarnir koma að eru þær að stanga úr tönnunum! En sagan er ekki búin og býður uppá allavega tvennskonar óvænt endalok, mjög í anda hrollvekja.
Hrollvekjan svífur einnig yfir vötnum í sögunum af Hörpu og Hróa, en þau virðast ævinlega vera á flakki í dularfullum skógi sem skýtur Hróa mjög skelk í bringu, en hann er ákaflega hugdaufur öfugt við hina afar-sérstöku Hörpu. Í fyrstu bókinni, Kynlegur kvistur á grænni grein (1997), segir frá því að þau eru á gangi í skóginum og hitta þar fyrir titilpersónu bókarinnar, en hann er í leit að systur sinni Greinaflækju sem er ákaflega stríðin og hefur líklega lent í klónum á Slímuga trénu sem er illskeytt planta með afbrigðum, og á líklega rætur sínar að rekja til hrollvekjuplantna á borð við þá í Litlu hryllingsbúðinni. Harpa og Hrói ná að bjarga Greinaflækju, þrátt fyrir að Hrói skjálfi á beinunum. Í næstu bók, Drekastappan (2000), leggja krakkarnir upp í leit að leið til að gleðja afa Hróa og í þriðju sögunni, Draugasúpunni (2002) eru þau enn á ferð í skóginum, að þessu sinni á leið til frænku Hörpu með köku og vín... Flestir munu hafa áttað sig á að hér er Sigrún enn að leika sér með samspil milli texta eða textatengsl og spilar hér við stefið um Rauðhettu og úlfinn. Enda hitta krakkarnir úlf sem Hróa líst afarilla á, en Harpa tekur fagnandi. Hún finnur pott og ákveður að sjóða í honum draugasúpu og byrjar að tína jurtir og orma í pottinn til að krydda súpuna (en Harpa er mjög frumleg í matargerð og alltaf að finna nýjar uppskriftir einsog ‘drekastappan’ ber með sér). Í förina slást svo utan við úlfinn, beinagrind, engill og draugur – sem þó sleppur við súpuna, því Hrollfríður frænka úrskurðar að jurtirnar séu fullt eins nægilegar í súpu.
En það eru fleiri félagar í för sem aldrei eru nefndir á nafn, því það er í þessum bókum sem myndlýsingar Sigrúnar eru hvað líflegastar og sjálfstæðastar. Banani með fætur, lítill hyrndur púki, leðurblaka, ormar, draugar og snákar eru á sífelldu flakki kringum börnin, og í fyrri bókunum er álíka samsafn furðulegra smávera sem fylgja Hörpu við hvert fótmál. Í sumum tilfellum leika þessi dýr sjálfstætt hlutverk, eins og draugurinn í Draugasúpunni og drekinn í Drekastöppunni, sem hefur fylgt á eftir Hörpu, að því er virðist grunlaus um yfirvofandi afdrif sín, en þrátt fyrir að hann hafi aldrei verið nefndur á nafn grípur hann inn í söguna í lokin, bankar uppá og kveðst einmana. Og líkt og draugurinn sleppur hann við að verða étinn.
Hið ævintýralega andrúmsloft sem umlykur Hörpu tengist líka kynþætti hennar, en hún er dökk á hörund sem undirstrikar þann leik með tíma og sögusvið sem einkennir þessa syrpu, en þessar sögur er síst íslenskar af bókum Sigrúnar. Í annari sögu, Sól skín á krakka (1992) segir frá því þegar tvö börn búa um tíma í afríku með foreldrum sínum sem eru þar á vegum Rauða krossins. Þannig er Sigrún ljóslega að vinna gegn fordómum og skapa fjölmenningarlegt sögusvið, sem endurspeglast svo í samskiptum Áka og Ísafoldar við geimverurnar Bétvo og stjörnustrák. Á sama hátt stefnir hún saman ólíkum aldurshópum, en eins og áður sagði leikur Kuggur sér helst með öldruðum mæðgum, leynifélagið Beinagrindin spannar ólíka aldurshópa og í sögunum af Langafa segir frá samskiptum og vinskap Önnu litlu og langafa sem er blindur, en er bæði prakkari og drullumallari (Langafi drullumallar 1983 og Langafi prakkari 1984).
Þannig skapar Sigrún í bókum sínum heim þarsem allt getur gerst, og þarsem ævintýrin gerast enn.
© Úlfhildur Dagsdóttir, 2003.
Háskaleikur, hættuför og hamingja
Ævintýri og spennusögur Sigrúnar Eldjárn 2003 - 2019
Sigrún Eldjárn er einn vinsælasti íslenski barnabókahöfundur samtímans og hefur skrifað fjöldann allan af barnabókum. Hér að neðan verða árin 2003 – 2019 tekin til umfjöllunar. Margar bókanna eru hentugar fyrir yngstu lesendurna sem eru að feta sig inn á braut bókmennta undir leiðsögn foreldra eða forráðamanna auk verka fyrir aðeins eldri krakka en allar henta þær vel sem fjölskyldulesning.
Týndu augun (2003) var valin besta barnabókin það árið af starfsfólki bókabúða og er einmitt saga fyrir eldri börnin. Í bókinni kynnumst við Stínu sem er 12 ára stúlka og hefur verið send í sveit til Valgerðar frænku sinnar ásamt Jonna bróður sínum sem er ekki orðinn sex ára. Sveitabærinn er alltaf hulinn þoku og eftir tvo mánuði án þess að hafa heyrt neitt í föður sínum fá krakkarnir nóg og stinga af. Móðir þeirra er nýlátin og Stína notar dagbókina sína til þess að „skrifa“ mömmu sinni og leita ráða hjá henni þegar mikið bjátar á. Dagbókarfærslurnar brjóta upp texta verksins og veita okkur innsýn í hugarrástand Stínu þegar hún er að leita að hjálp. Og ekki veitir af, því að flóttinn úr sveitinni er algjör hryllingsför. Fyrst þurfa þau að rata í gegnum galdraskóg þar sem leiðin bak við þau lokast jafnóðum, svo lenda þau á dularfullri eyju þar sem leynast ýmsar hættur. Þar á meðal brjálaður prestur, sem stofnað hefur hauskúpusöfnuð og mannað hann með blindu fólki sem hann heldur föngnum neðanjarðar í einhverskonar námu. Stína og Jonni þurfa að kljást við prestinn til þess að frelsa fólkið sem misst hefur augun vegna álaga álfadrottningar, en allt rekur þetta upphaf sitt til dularfulla sveitabæjarins (sem krakkarnir dvöldu á í upphafi bókar). Hér blandar Sigrún saman nokkrum klassískum gerðum af barnabókum; ráðgátu, ævintýrum og hrollvekju og tekst ágætlega upp. Eins og oft áður eru stelpur og konur í lykilhlutverki en Jonni litli fær líka að njóta sín og sýnir fram á að þrátt fyrir ungan aldur sé honum alveg treystandi til þess að takast á við þessa hættuför.
Frosnu tærnar (2004) Steinhjartað (2005) eru sjálfstætt framhald af Týndu augunum og þar er spennan líka í fyrirrúmi. Á meðan Týndu augun tekur til umfjöllunnar trúarofstæki og græðgi þá fjalla þessar annarsvegar um siðleysi og græðgi í vísindum og hinsvegar stríðsrekstur og græðgi. Umfjöllunarefnin eru þannig í þyngri kantinum og sögurnar ansi svæsnar á köflum. Stína og Jonni, ásamt Skafta sem þau frelsuðu úr námunni í fyrstu bókinni, þurfa bæði að snúa niður brjálaðan erfðafræðing sem hyggst splæsa saman tegundum að vild og leggja dvergaaher að velli sem ætlar sér að útrýma mannkyninu. En þrátt fyrir þessi átök eru bækurnar stútfullar af kímni og gleði og þá sérstaklega þegar Jonni litli og hrekkjusvínið hans koma við sögu. Sigrún Eldjárn var tilnefnd til Norrænu barnabókaverðlaunanna 2004 fyrir Frosnu tærnar með hliðsjón af höfundarverki hennar.
Það eru líka stóru álitamálin sem eru uppi á teningnum í bókunum Eyja gullormsins (2006), Eyja glerfisksins (2007) og Eyja sólfuglsins (2008) en þar kynnumst við hinni frökku Sunnu Maríu. Hún er ásamt Tuma litla í pössun í sumarfríinu hjá unglingunum Gunnu og Ými. Aftur er um að ræða órætt ævintýralandslag þar sem krakkarnir þurfa að fóta sig sjálf. Í öllum þremur bókum eru krakkarnir teymdir/leiddir áfram af örlögunum út á eyju og geta ekki snúið aftur heim til sín fyrr en þau hafa leyst þann vanda sem eyjaskeggjar glíma við. En brjálaði gullsmiðurinn hefur rænt börnum þeirra og notar þau sem aðstoðarmenn við gullgerð sína. Í þessum bókum sést greinilega hversu meðvitað Sigrún vinnur með að skapa heilstæðar sögupersónur, stelpur og stráka, sem ekki eru niðurnjörfuð í hefðbundnar hugmyndir um kyn og kynhegðun. Eins og í fyrri bókunum er margt sem minnir á ráðgátu og ævintýrabækur fyrri tíma, en höfundur leggur mikið upp úr því að nútímavæða barnabókaformið. Sunna María er þannig ekki eins og forverar hennar í barnabókmenntum hrædd lítil stúlka sem hellir upp á te og lætur drengina kljást við hætturnar. Hún birtist þvert á móti lesanda sem alvöru krakki, full af sjálfstrausti og ævintýraþrá og hefur lítinn sem engan áhuga á Tuma litla sem henni finnst vera óttalegt smábarn. Þema bókanna er græðgi, og hvernig græðgi getur takmarkað lífsgæði og spillt samfélögum. Eins og t.d. í Eyju gullormsins þar sem græðgi gullsmiðsins hefur rænt íbúa eyjunnar allri gleði og öryggi. Það verður barnanna að leysa úr þessu og sameina eyjurnar þrjár með aðstoð systranna Mónu, Bínu og Trínu. Þannig fangar þessi ævintýraþríleikur það andrúmsloft sem ríkti í samfélaginu fyrir og eftir hrun. Áhersla er lögð á sameiningu fjölskyldna, ábyrgan lífsstíl og vináttu í andstöðu við peningaauð og valdníðslu.
Þannig er Sigrún Eldjárn óhrædd við að vinna á gagnrýninn hátt úr samtíma sínum í ævintýrabókunum eins og sést líka vel í Skuggaskers-bókunum. Strokubörn á Skuggaskeri (2013) Draugagangur á Skuggaskeri (2014), Leyniturninn á Skuggaskeri (2015). Þar kynnumst við börnunum í Fagradal sem þurft hafa að búa við stríðsástand árum saman. Það uppgötvaðist dýr eðalmálmur á svæðinu, mitt á milli austurs og vesturs og leiddi sú uppgötun til stríðsátaka á milli svæðanna. Foreldrar barnanna eru svo uppteknir af stríðinu að þau hafa engan tíma fyrir krakkana og þar sem allt er í rúst og stöðugar árástir á víxl hafa börnin ekkert við að vera. Þeim er því nóg boðið og við fylgjumst með því hvernig systkinin Hringur og Lína flýja út á Skuggasker sem er í flóanum mitt á milli stríðandi fylkinga. Krakkarnir ætla ekki að sætta sig við þessi leiðindi, og ákveða að stinga af, þó ekki án litlu systra sinna. Þannig gerist það að börnin fjögur enda á Skuggaskeri eftir erfiðan flótta í litlum báti í ólgusjó.
Strokubörn á Skuggaskeri er fyrsta bókin í þessum bókaflokki og kom út 2013, flóttamannaárið mikla. En það ár markar vitundarvakningu almennings á Vesturlöndum um aðstæður og för flóttamanna frá löndum fyrir botni Miðjarðarhafs. Árið hófst á því að Sameinuðu þjóðirnar vöruðu við því að það stefndi í að flóttamannavandinn yrði versta krísa sem heimurinn hefði staðið frammi fyrir í áratugi og í lok árs fór allt á versta veg þegar að minnsta kosti 515 manns drukknuðu við eyjuna Lampedusa í Miðjarðarhafi. Það er því í anda þessara umræðu að Sigrún byrjar bók sína á bátsför barnanna þar sem þau flýja ömurlegar aðstæður í landi og lenda í hættulegri sjávarför. Verkið er eins og önnur verk Sigrúnar staðsett í heimi sem minnir á íslenskan veruleika og ætti að virka kunnuglegur á íslensk börn, en er engu að síður hvergi - nöfn og staðarhættir það almennir að þetta gæti verið hvar sem er í heiminum. Börnin þurfa að byrja alveg upp á nýtt og byggja lítið samfélag á skerinu, ásamt vinum sínum sem hafa flúið hinu megin úr dalnum og dreng sem hefur dvalið einn á skerinu. Þeim áskotnast sá auður sem foreldrarnir berjast um og þurfa að verja hann frá utanaðkomandi. En efst í þeirra huga er að skapa lífvænlegt samfélag. Það tekur foreldrana dágóða stund að uppgötva hvarf barnanna og þegar það loksins gerist eru þau fljót að kenna þeim hinumegin í Fagradal um það. En hægt og rólega þarf fullorðna fólkið að horfast í augu við að börnin hafi yfirgefið þau vegna þess hversu ömurlegt líf þeim var gert að lifa við hlið foreldra í eilífum stríðsrekstri. Og það er ekki mikið varið í allan auðinn þegar börnin eru farin. Foreldrarnir lofa bót og betrun en krakkarnir, sem eru reynslunni ríkari, vilja fá staðfestingu og neita að snúa heim fyrr en foreldrarnir hafa sýnt vilja í verki og gert þeim vistvænlegt heimili. Aftur gerir Sigrún börnunum hátt undir höfði, leyfir viljastyrk og sjálfstæðisþörf að blómstra og lætur þessa úrræðagóðu krakka njóta sín í sögunum. Alvarleiki umfjöllunarefnisins er reglulega brotinn upp af gamansemi og vitleysisgangi í litlu stelpunum Önnu og Betu sem eru tvíburar og yngri systur Hrings og Línu. Þær lifa, eins og fjögurra ára börnum er tamt, í sínum eigin ævintýraheimi sem eru uppfullur af górillum og öðru skemmtilegu. Bækurnar eru þó óvenju raunsæjar, og meira í ætt við vísindaskáldsögu en þá töfra og galdra sem birtast í öðrum verkum Sigrúnar.
Galdrar og galdraskepnur ráða hinsvegar ríkjum í safnabókunum, Forngripasafnið (2010), Náttúrugripasafnið (2011) og Listasafnið (2012). Þar kynnumst við Rúnari sem flytur ásamt föður sínum í lítið þorp út á landi. Faðir hans hefur verið ráðinn safnstjóri í safni sem ekki hefur verið starfrækt svo árum skiptir. Bækurnar hverfast um tilraun föðurins til þess að flokka þennan mikla safnkost í forngripa-, náttúrugripa- og listasafn. Hér vinnur Sigrún á skemmtilegan hátt með margan þann vanda sem tengist safnkosti, en hugvísindin hafa ásamt hinum skapandi greinum beint athygli sinni af þessum efnum undanfarin ár; það er að segja: hvernig flokkar maður heiminn og hver ákveður hvernig hann er flokkaður. Í fyrstu bókinni kynnist Rúnar systkinunum Möggu og Lilla, sem eru ættleidd frá Indlandi. Krakkarnir þurfa að takast á við ýmsar ráðgátur, og kynnast meðal annars drauginum Gunnhildi sem er stúlka sem lést á landnámsöld. Í seinni verkum kynnast þau dvergum og svo erlendum gjörningalistamönnum – sem eru kannski furðulegustu verurnar í verkunum. Þegar upp er staðið tekst að búa til fjölbreytt og ríkt safn í þorpinu með fjársjóðum og indverskum töfraplöntum, en stór hluti safnkostsins tekur virkan þátt í rekstri og viðhaldi á því. Þannig er draugurinn Gunnhildur einskonar næturvörður, dvergarnir sjá um kaffihúsið og plönturnar um öryggisgæslu. Þessar sögur gerast í íslenskri sveit, með smá afleggjara til Indlands og New York, og fjalla öðrum þræði um það að aðlagast nýjum aðstæðum og eignast nýja vini. Móðir Rúnars er ekki til staðar fyrr en í síðustu bókinni og jafnvel þá er hún svo niðursokkin í vinnu sína að hún tekur ekki raunverulegan þátt í lífi sonar síns. Þó að faðir Rúnars búi með honum og sé þannig til staðar, þarf hann einnig að sinna vinnu og lendir oft í löngum ferðum þar sem Rúnar getur ekki náð í hann. Það er því undir Rúnari komið að glíma við glæpamenn og dverga og eignast bandamenn í þeirri baráttu.
Silfurlykillinn (2018) er einskonar distópía, Aftur sést glöggt tilraun Sigrúnar til þess að miðla straumum og stefnum líðandi stundar til yngri hópsins, en distópíur hafa rutt sér til rúms aftur á sviði bókmennta og kvikmynda undanfarin ár. Sú þróun er oft tengd við þá loftlagsvá sem að okkur steðjar. Það er líka umfjöllunarefnið hjá Sigrúnu í þessu verki, mannkynið hefur farið fram úr sér í neyslu og orkunotkun og eftir stendur brotið samfélag þar sem hnignunin er allsráðandi. Sumarliði og Sóldís búa ásamt föður sínum í gömlum strætisvagni og trúa því mátulega að húsið þeirra hafi einhvern tímann keyrt um götur bæjarins. Þeim finnst það í raun jafn líklegt og allt hitt úr fortíðinni sem faðir þeirra segir þeim frá, símar, bækur og tölvur. Við erum stödd í heimi þar sem fæstir lesa og þar sem hápunktur hinar stafrænu menningar er kominn og farinn, eftir stendur samfélag gegnsýrt af vantrausti og vanþekkingu. En krakkarnir ráða bót þar á eins og krakkar í ævintýrabókum gera. Þessi bók er meira i ætt við raunsæi en hin verk Sigrúnar en auðvita koma einhverjir galdrar líka við sögu. Mesti galdurinn er þó að kunna að lesa og að eiga bækur. Þegar krakkarnir, ásamt dullarfullri vinkonu sinni komast yfir bókasafn, eru þeim allir vegir færir. Eins og alltaf er fjölskyldan líka í fyrirrúmi hjá Sigrúnu, sameining og samstaða í andstöðu við græðgi og sundrung.
Kuggur er ein ástsælasta persónan úr höfundarverki Sigrúnar Eldjárn, þessi góði drengur sem ásamt Málfríði og mömmu hennar þarf að takast á við allt sem tengist barnæskunni. Kuggur er strákur og Málríður er vinkona hans sem býr með mömmu sinni. Kuggur er samviskusamur og varfærin, en Málfríður æðir áfram enda er hann oft furðulostin yfir uppátækjum hennar. Eins og þegar Málfríður fær sér jarðknúin bíl eða þegar hún finnur leið til þess að láta grænmetið spretta hraðar með þeim afleiðingum að það vex og vex.
Gula sendibréfið (2006) fjallar um Nóa og Jóhannes Loga sem er ósýnilegur vinur hans. Þeir rekast á sendibréf sem verður upphafið að mikilli hættuför Á kápu bókarinnar stendur að hún henti fyrir 3 – 103 ára lesendur. Aftur brýtur Sigrún blað í barnabókmenntum með því að skapa persónuna Nóa sem er hreyfihamlaður og alltaf teiknaður í hjólastól, þetta er hinsvegar aldrei sérstaklega tekið fyrir í bókinni og virkar þannig sem hinn eðlilegasti hlutur. Finnur finnur rúsínu (2009) fjallar um Finn sem er í heimsókn hjá ömmu í sveitinni. Honum leiðist einn daginn eftir að hafa ákveðið að ekki sé æskilegt að leika sér við litlu lömbin eða grísina. Maður má jú ekki leika sér að matnum. Hann þvælist upp á fjall og lendir í litlu ævintýri ásamt Rúsínu. Bókin er fyrir yngsta aldurshópinn.
Sigrún Eldjárn er ekki bara höfundur heldur líka myndskreytir og myndskreytir bækurnar sínar sjálf. Stíllinn er litríkur og uppátækjasamur , mikið um húmor og smáatriði sem lesandi tekur ekki eftir við fyrstu sýn.
Rósa María Hjörvar, 2019.
Greinar
Almenn umfjöllun
Haukur Þorgeirsson: „Þórarinn Eldjárn (texti) og Sigrún Eldjárn (myndir). Ljóðpundari“
Són, 2018; 16: s. 180-181
Magnea J. Matthíasdóttir: „Saman í blíðu og stríðu : en þó hvort í sínu lagi“ (viðtal við Sigrúnu og Þórarin Eldjárn)
Börn og menning, 2018; 33 (2): s. 4-11
Anna Þorbjörg Ingólfsdóttir: „Fyrir austan sól og vestan mána. Stafrófskver. Himinninn er allsstaðar. Beinagrindin“
Vera; tímarit um konur og kvenfrelsi, 13. árg. ; 4. tbl., 1994, s. 46
Margrét Tryggvadóttir: „Heimur Sigrúnar. Af krókófílum, geimverum, tímaflakki og hugsanablöðrum.“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 68-77.
Hill, Frida : Lokaritgerð um þýðingar ásamt þýðingum af íslensku á sænsku úr bókinni Teitur í heimi gulu dýranna.
Lokaritgerð við Háskóla Íslands 2001
Jón Proppé : „Listamaður mánaðarins“ (viðtal)
Læknablaðið, 87. árg. ; 4. tbl., apríl, 2001, s. 277
Jónína Margrét Arnórsdóttir : „Má ég sjá myndina aftur?“ : myndskreytingar í barnabókum
B.Ed. – ritgerð við Kennaraháskóla Íslands, 1999
Sigrún Eldjárn: „Úr smiðju höfundar.“
Börn og menning, 18. árg., 2. tbl. 2003, s. 30-31.
Sonja Hulth: „Tre islandske tecknare.“
Stokkhólmur: Opsis kalopsis, 2000 (1), s. 23-29.
Svala Sigurleifsdóttir : „Það er svo mikilvægt að trúa á sjálfan sig“ (viðtal við myndlistarmenn)
19. júni, 28. árg., 1978, s. 37-40
Um einstök verk
Axlabönd og bláberjasaft
Sigurrós Erlingsdóttir: „Staðfesta, vilji, ást og trú.“
Vera, 10. árg., 3. tbl. 1991, s. 3
Beinargrind með gúmmíhanska
Ragna Steinarsdóttir : „Beinagrind með gúmmíhanska“
Vera, 15. árg. ; 6. tbl., 1996, s. 40-41
Draugagangur á Skuggaskeri
María Bjarkadóttir: „Náttúrubörn í fjársjóðsleit“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Eyja gullormsins
Kristín Viðarsdóttir: „Ævintýri í tjarnarhólma“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Eyja sólfuglsins
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Eyjasögur Sigrúnar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Forngripasafnið
Sigurður Ólafsson: „Heimsviðburðir í litlu þorpi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Frosnu tærnar
Anna Heiða Pálsdóttir: „Að skrifa inn í aldagamla hefð: ævintýraminni í Sverðberanum og Frosnu tánum“
Börn og menning, 20. árg., 1. tbl. 2005, s. 42-47
Gula sendibréfið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Á ferð og flugi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Langafi prakkari
Helga Margrét Ferdinandsdóttir: „Langafi prakkari gengur aftur í Möguleikhúsinu“ (leikdómur)
Börn og menning 2014, 29. árg., 2. tbl. bls. 30-1.
Listasafnið
Helga Birgisdóttir: „Þriðja bók safnaþríleiksins“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg., 4. tbl. bls. 30-1.
Náttúrugripasafnið
María Bjarkadóttir: „Náttúrugripasafnið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Silfurlykillinn
Marianna Clara Lúthersdóttir: „Lykill að nýjum heimi.“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sól skín á krakka
Vala S. Valdimarsdóttir : „Sól skín á krakka“
Vera; tímarit um konur og kvenfrelsi, 11. árg. ; 6. tbl., 1992, s. 35
Steinhjartað
Úlfhildur Dagsdóttir: „Dularfulla dagbókin og uppreisn dverganna“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Strokubörnin á Skuggaskeri
Brynhildur Heiðar-Ómarsdóttir: „Bræður munu berjast“ (ritdómur)
Börn og menning 2013, 28. árg., 2. tbl. bls. 30-2.
Syngjandi beinagrind
Erla Elíasdóttir: „Syngjandi beinagrind“
Vera, 13. árg., 6. tbl. 1994, s. 36.
Týndu augun
Anna Heiða Pálsdóttir: „Þokan og þögnin.“
Börn og menning, 19. árg., 2. tbl. 2004, s. 28-30.
Dagný Kristjánsdóttir: „Fleira en augað sér: fimm nýjar fantasíur handa börnum og unglingum.“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 4. tbl. 2004, s. 67-75.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Þokugaldrar og höfuðkúpuhellar.“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2020 - Heiðursverðlaun Sagna, verðlaunahátíðar barnanna (ásamt Þórarni Eldjárn)
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Silfurlykillinn
2011 – Íslensku bjartsýnisverðlaun
2008 – Riddarakross hinnar íslensku fálkaorðu: Fyrir framlag til íslenskrar barnamenningar
2007 – Dimmalimm, íslensku myndskreytiverðlaunin: Gælur, þvælur og fælur
2007 – Sögusteinn, barnabókaverðlaun IBBY á Íslandi og Glitnis: Fyrir feril
2006 – Vorvindar IBBY (sem mynd- og rithöfundur)
2004 – Bókaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Frosnu tærnar (sem besta barnabókin)
1999 – Alþjóðlegur heiðurslisti IBBY: Málfríður og tölvuskrímslið
1999 – Menningarverðlaun VISA fyrir myndlist og barnamenningu
1998 – Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur: Halastjarna (ásamt Þórarni Eldjárn)
1996 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1994 – Heiðurslaun Brunabótafélags Íslands
1992 – Barnabókaverðlaun Skólamálaráðs Reykjavíkur: Óðfluga (ásamt Þórarni Eldjárn)
1987 – Barnabókaverðlaun fræðsluráðs Reykjavíkur: Bétveir, bétveir
1989 – Verðlaun fyrir útilistaverk í Laugardal
1988 – Viðurkenning Barnabókaráðs IBBY
Tilnefningar
2021 - Íslensku þýðingaverðlaunin: Öll með tölu eftir norska höfundinn Kristin Roskifte
2019 - Barna- og unglingabókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Silfurlykillinn
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Silfurlykillinn
2013 – Fjöruverðlaunin, bókmenntaverðlaun kvenna: Strokubörnin á Skuggaskeri (í flokki barna- og unglingabóka)
2013 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Strokubörnin á Skuggaskeri (í flokki barna- og unglingabóka)
2005 – Vestnorrænu barnabókaverðlaunin: Frosnu tærnar
2003 – Norrænu barnabókaverðlaunin (fyrir höfundarverk sitt)
1999 – Norrænu barnabókaverðlaunin (fyrir myndskreytingar)
1998 – H.C. Andersen-verðlaunanna (sem rithöfundur og myndlistamaður)
1998 – Norrænu barnabókaverðlaunin (fyrir myndskreytingar)
Fjársjóður í mýrinni
Lesa meiraFjársjóður í mýrinni er þriðja bókin í röðinni um krakkana í Mýrarsveit þau Stellu, Ella og Bellu sem búa með pabba sínum í gráa húsinu, og Móses sem býr með mæðrum sínum þremur í bláa húsinu. Börnin ganga í Mýrarskóla sem er stýrt af hinni orðheppnu Ásu Egg og í mýrinni býr ófreskja sem Móses þykir afar vænt um.. .Fjaðrafok í mýrinni
Lesa meiraÞað er eitthvað undarlegt að gerast langt úti í bullandi og sullandi mýrinni. Hvaða rauðu slettur eru þarna úti um allt? Er það tómatsósa? Jarðaberjasulta? Eða eru þetta kannski BLÓÐSLETTUR?. .Hænsnakofi minninganna
Lesa meiraJóhannes Bergsveinsson segir barnabörnunum sínum litlar sögur frá síðustu öld þegar hann var drengur og dvaldi á sumrin í Hvallátrum á Breiðafirði. Þetta eru sögur um litlu gulu hænuna og ævintýri hennar við að ala upp ungana sína, samskipti við aðrar hænur, hanana tvo og aðra fugla sem villast stundum inn í hænsnakofann, með ófyrirsjáanlegum afleiðingum …. . Sigrún Eldjárn gerir myndir við sögurnar og Þórarinn Eldjárn ritar eftirmála en hann var Jóhannesi innan handar við gerð þessarar bókar, uns Jóhannes lést árið 2021.Ófreskjan í mýrinni
Lesa meiraÍ útjaðri lítils þorps standa tvö hús; annað þeirra er blámálað og umkringt þéttum trjálundi, hitt er bæði grátt og hrörlegt. Handan við húsin er mýrin, víðáttumikil og hættuleg. Einhverjir eru líka að pukrast í mýrinni. Líklega vita þau ekki að þar býr ófreskja!Kopareggið
Lesa meiraSigurfljóð í grænum hvelli
Lesa meiraSilfurlykillinn
Lesa meiraÁfram Sigurfljóð!
Lesa meiraKuggur: afmælisgjöf
Lesa meira