Æviágrip
Sjón (Sigurjón B. Sigurðsson) fæddist í Reykjavík 27. ágúst 1962. Hann hóf rithöfundarferil sinn ungur sem ljóðskáld og kom fyrsta ljóðabók hans, Sýnir, út 1978 en fyrr sama ár gaf hann út einblöðung með þremur ljóðum. Sjón var einn af stofnendum súrrealistahópsins Medúsu og varð snemma áberandi í listalífi Reykvíkinga.
Sjón hefur sent frá sér fjölda ljóðabóka og skáldsagna, hefur skrifað leikrit og gefið út efni fyrir börn. Samhliða rithöfundarferlinum hefur Sjón tekið þátt í myndlistasýningum og tónlistarviðburðum af ýmsum toga. Hann hefur meðal annars starfað með Björk, samið með henni tónlist, texta og tónlistarmyndbönd, þar á meðal texta við tónlist hennar í mynd Lars Von Trier, Dancer in the Dark (2000). Hann bjó og starfaði um skeið í London. Sjón var einn af þeim sem stóðu fyrir fyrstu listasmiðjunum fyrir börn í Menningarmiðstöðinni í Gerðubergi og hefur hann víðar unnið í ritsmiðjum með börnum og unglingum. Hann er einn af stofnendum útgáfufélagsins Smekkleysu.
Sjón hefur hlotið margvíslegar viðurkenningar fyrir verk sín. Hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2005 fyrir skáldsöguna Skugga-Baldur, Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir skáldsöguna Mánastein árið 2013 og svo Menningarverðlaun DV árin 1995 og 2002. Þá var hann sæmdur franskri heiðursorðu lista og bókmennta árið 2021, L'Ordre des Arts et des Lettres, sem er ein æðsta viðurkenning franska ríkisins á sviði lista. Kvikmyndin Dýrið, sem Sjón skrifaði handrit að í samstarfi við leikstjórann Valdimar Jóhannsson hlaut kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2022. Árið 2023 varð Sjón handhafi norrænu verðlauna Sænsku akademíunnar árið 2023, en þau eru veitt höfundi sem þykir hafa lagt sitt af mörkum með markverðum hætti á sínu sviði.
Verk eftir Sjón hafa verið þýdd á fjölda tungumála.
Frá höfundi
Að skrifa er að hlusta á sjálfan sig
Einu sinni heyrði ég á tal tveggja manna. Annar var rauðskeggjaður og hár til hnésins, hinn þvert á móti. Sá reiðilegi hóf upp raust sína svo farþegunum duldist ekki að hann var annað hvort kenndur eða að ná sér af sömu flensunni og helmingur þeirra. Jæja, það sem hann sagði var eitthvað á þessa leið:
Að skrifa er að hlusta á sjálfan sig hlusta á sjálfan sig.
Einu sinni heyrði ég á tal tveggja manna. Annar var rauðskeggjaður og hár til hnésins, hinn þvert á móti. Þetta gerðist í strætisvagni á leiðinni ofan úr Breiðholti og niður í bæ, en þess höfðuð þið að sjálfsögðu getið ykkur, og snjónum kyngdi niður allt í kringum hann á ljósunum í Mjóddinni. Jæja, sá fúli hóf upp raust sína svo farþegunum duldist ekki að hann var annað hvort kenndur eða að ná sér af sömu flensunni og helmingur þeirra. Og það sem hann sagði var eitthvað á þessa leið:
Að skrifa er að hlusta á sjálfan sig hlusta á sjálfan sig hlusta á aðra tala.
Einu sinni heyrði ég á tal tveggja manna. Annar var rauðskeggjaður og hár til hnésins, hinn þvert á móti. Þetta gerðist í strætisvagni á leiðinni ofan úr Breiðholti og niður í bæ, annað hvort leið tólf eða þrettán, og snjónum kyngdi niður allt í kringum hann á ljósunum í Mjóddinni. (Þá var þarna bara mýri.) Óttaslegnir farþegarnir horfðu í gaupnir sér og hvísluðu svo lágt að enginn heyrði en allir sáu gufuna stíga af vörunum: „Skyldi þessi morgunn aldrei taka enda?“ Jæja, sá reiðilegi hóf upp raust sína svo farþegunum duldist ekki að hann var annað hvort kenndur eða að ná sér af sömu flensunni og helmingur þeirra. Og það sem hann sagði var eitthvað á þessa leið:
Að skrifa er að hlusta á sjálfan sig hlusta á sjálfan sig hlusta á aðra tala um sjálfa sig.
Einu sinni heyrði ég á tal tveggja manna. Annar var fúlskeggjaður og hár til hnésins, hinn þvert á móti. Þetta gerðist í strætisvagni á leiðinni ofan úr Breiðholti og niður í bæ, en þess höfðuð þið að sjálfsögðu getið ykkur, og snjónum kyngdi niður allt í kringum hann á ljósunum í Mjóddinni. Jæja, sá illilegi hóf upp raust sína svo farþegunum duldist ekki að hann var annað hvort kenndur eða að ná sér af sömu flensunni og helmingur þeirra. Og það sem hann sagði var eitthvað á þessa leið: „Hér í vagninum er ungur maður, ef mann skyldi kalla því þetta er bara unglingur, hann er með bækur í tösku, já, það eru bækur sem hann er með í töskunni. Bara svo þið vitið það þá er hann að reyna að selja þessar bækur, og þar sem okkur er nú að snjóa inni hér á ljósunum þá vil ég bara segja ykkur að ég hef lesið þetta ...“ Nú hnippti hinn í hann og hreytti út úr sér: „Þegiðu, þetta er hann Sjón ...“
Sjón, 2001
Um höfund
Leikfangakastalar höfundarins: Sjón
Ljóð, súrrealismi, höfundurinn
Nærvera höfundarins er eitt af einkennum margra verka rithöfundarins Sjóns (Sigurjóns Birgis Sigurðssonar). Svo virðist sem höfundurinn beinlínis krefji lesandann um athygli eins og í ljóðabókinni ég man ekki eitthvað um skýin (1991), en þar kemur skáldið fram á fremstu síðu og vekur athygli lesandans á sjálfu sér, útliti sínu:
(vil að þið sjáið mig fyrir ykkur:
dökkt hár og fölt andlit. lítil augu
bak við sólgleraugu og rauðar varir
luktar um suðuramerískan vindil.)
Fremst í bókinni er svo að finna andlitsmynd sem samsvarar lýsingunni, hún er svarthvít og sama mynd prýðir bakhlið bókarinnar. Birgitta, eitt af hliðarsjálfum Sjóns (sbr. Sigurjón Birgir) kemur fyrir sem persóna í ljóðabókunum Birgitta (hleruð samtöl) (1979) og Reiðhjól blinda mannsins (1982). Í ljóðabókinni Leikfangakastalar sagði hún það er ekkert til sem heitir leikfangakastalar (1986) er mynd af höfundi, tíu ára gömlum, á forsíðu og baksíðu – og á hverri síðu bókarinnar. Það er í sjálfu sér engin sérstök nýlunda að myndir af höfundi prýði verk þeirra, en sú skýlausa krafa sem Sjón gerir til lesenda um að taka eftir sér er óvenjuleg. Í fyrstu skáldsögunni Stálnótt (1987) brunar Johnny Triumph (Jón Sigur, Sigur-jón) upp af sjávarbotni og lítur svona út:
Í fyrstu virðist hann tilheyra liðnum tíma en hann er of samsettur. Langur og grannur, dökkhærður, snöggklipptur, með dáralokk í spíss niður á mitt enni og brún sólgleraugu í gylltri sporöskjulaga umgjörð, klæddur svörtum jakkafötum og þvældri blúnduskyrtu, tvöföld reim liggur niður skyrtubrjóstið og er haldið saman um hálsmálið með silfurlitri hauskúpu, voldug beltissylgjan nær þvert yfir mjaðmirnar og skórnir úr leðri, sígildir og támjóir, allt svo Johnny sýnist fastari fyrir en hann er og kyrr á hreyfingu. (31-32)
Lýsingin minnir á rokkabillítöffara frá sjötta áratugnum en þann stíl tileinkaði Sjón sér sjálfur um sama leyti og Stálnótt kom út.
Í annarri skáldsögunni, Engill, pípuhattur og jarðarber (1989), er höfundurinn skuggi aðalsöguhetjunnar: „Grannur með hátt enni og þunnar varir og litla höku og dökk gleraugu“ (29). Þessi lýsing gæti vel átt við höfundinn sjálfan, Sjón, sem einmitt er grannur, með hátt enni og frekar þunnar varir, ekki sérlega stóra höku og gekk á þessum tíma oft með dökk gleraugu. Í þriðju og fjórðu skáldsögunum, Augu þín sáu mig (1994) og Með titrandi tár (2001) er nærvera höfundar ekki eins sýnileg, en hinsvegar er lögð áhersla á nálægð söguhöfundar, sem jafnframt er að lýsa eigin tilurð, líkt og tilvera hans mótist í þeirri sögu sem hann segir sjálfur af eigin skapnaði. Í Rökkurbýsnum (2008) birtist höfundurinn enn á ný, en þar er nærvera hans ekki eins áberandi, þó inngrip hans í atburðarásina og hugarheim söguhetjunnar sé dramatískt. Það djarfar fyrir höfundi í lok Mánasteins (2013), en þar er innkoma hans með nokkuð hefðbundnum hætti; hann ávarpar lesanda sinn að hætti sögumanna/söguhöfunda. Loks er Sjón persóna í Ég er sofandi hurð (2016), lokakafla þríleiksins sem hefst með Augu þín sáu mig.
Sjón heillaðist ungur af súrrealisma og bera verk hans stefnunni víða merki. Þetta er hvað mest áberandi í ljóðunum. Sem dæmi má nefna það að nýta sköpunarkraft dulvitundar og drauma samfara höfnun raunsæislegrar framsetningar. Sjón leggur mikið upp úr fagurfræði hins óvænta stefnumóts í skynjun, upplifun og lífsstíl, sem birtist meðal annars í hinni frægu tilvitnun í kvæði Lautréamonts, Söngvar Maldoror (1868-1869), „fallegur [...] eins og óvæntir fundir saumavélar og regnhlífar á krufningaborði!“[1] Þessu fylgir leikur með tilviljanakenndar og ósamstæðar tengingar, sem meðal annars er ætlað að opna skynjunina upp á gátt fyrir hinu óvænta ævintýri sem býr í hversdagsleikanum. Og loks er það erótíkin. Þessi atriði tilheyra aðferðafræði, hugmyndafræði og fagurfræði súrrealisma eins og hann var skilgreindur af André Breton, en lifðu hann af og hafa öðlast sjálfstætt líf sem hreyfiafl eða heimsmynd listar og bókmennta.[2]
Breton var mikill áhrifavaldur fyrir hið unga skáld eins og kemur fram í prósaljóðinu „(landsbókasafn)“ úr gráspörvum og ígulkerjum (2015). Þar er lýst heimsóknum í Landsbókasafnið (þá staðsett í Safnahúsinu við Hverfisgötu) í leit að súrrealískum skrifum. En í staðinn tapar ljóðmælandi sér í spjaldskrá safnsins: „oft vildi það henda að skáparnir yrðu endastöð mín. / erindið á safnið gleymdist þegar ég hóf leitina.“ Þannig fer svo að hönd ljóðmælanda var „komin hálfa leið inn í þriðju skúffu að neðan, í fjórðu röð / talið frá vinstri, í skápnum fyrir miðjum ganginum á næstu hæð / fyrir ofan.“ Þessum heimsóknum fylgja svo draumar þar sem ljóðmælanda finnst hann þeytast um í lyftu um Landsbókasafnið „upp og niður, þvers og / kruss.“
Súrrealismi var þó ekki sláandi einkenni á ljóðunum í Sýnum, fyrstu ljóðabók Sjóns frá 1978, né í Madonnu, sem kom út árið eftir. Það er ekki fyrr en í hinni örstuttu Birgittu (hleruð samtöl) (1979) sem skáldið byrjar að föndra við framúrstefnu. Í bókinni eru aðeins átta ljóð, sem eru í raun eitt, ljóðabálkur með þessum inngangsorðum:
Ég heiti Birgitta. Ég bý í fjölbýlishúsi
og oft þegar mér leiðist, þá legg ég eyrun
að veggjunum í íbúðinni og hlusta á fólkið
tala saman …
Og svo byrja samtölin og þau eru greinilega ekki alveg það sem gera má ráð fyrir úr nýraunsæum blokkaríbúðum úthverfisins: „Hvar eru fætur þínir? / Undir borðinu. / Hvar eru varir þínar? / Bak við runnana, yfir vatninu.“ Svona hljóðar fyrsta samtalið og það næsta er í svipuðum dúr: „Jæja, við skulum drífa okkur af stað. / Bíddu aðeins, ég er að hreinsa blómin úr augunum!“ Birgitta átti eftir að birtast aftur í Reiðhjóli blinda mannsins og þar veður allt í óvæntum samfundum:
ég borða humar á sama hátt og aðrir fæðast
ég sting honum undir hægri höndina og sofna
þá bregður svo við að frá gagnaugum mínum
berst rám fuglsrödd og ljósrauð kvenröddraddir birgittu og fuglsins
Óvæntir samfundir eru enn á ferð í gráspörvum og ígulkerjum, „efniviður í barnagælu“ hefst á óvæntri samlíkingu: „land ígulkerjanna er hvítt eins og appelsína“ og í kjölfarið kemur upptalning á litbrigðum sem eiga sér tæplega stað:
slýblátt, bikrautt
mánabrúnt, fífilgrátt
blóðgrænt, moldargult
Í Madonnu má sjá skáldinu sjálfu bregða fyrir eða skáldanafninu öllu heldur: í „Glasi af vatni“ er mannsauga í botni glassins sem horfir ásakandi á ljóðmælandann – „Og ég / sem bað aðeins um vatn.“ Myndmál augna setur víða mark á ljóðin eins og í þessu ljóði úr OH! (isn‘t it wild) (1985):
Oh!
Á. Lítur. Í botni. Hægra augað. Vakandi. Sjáandi. Vinstra augað
dreymir. Og bæði sjáandi. Andlitið á vélarhlífinni. Blint. Lítill
eldur. Eineygði gosinn. Gengur. Í augun. Á götunni. Hring eftir.
Gangstéttin. Litur augnanna. Hring. Titringur. Ljósin. Farinn. Förin
eru. Stúlkunni á hvíta bílnum gæti ekki staðið meira á sama.Oh!
OH! er í raun einskonar erótískur ljóðabálkur sem sker sig nokkuð frá öðrum bókum Sjóns, hraðinn er meiri og tungumálið klippt niður í minnstu einingar og því skeytt saman á ný. Í ég man ekki eitthvað um skýin er myndmál augnanna áberandi og birtist vel í ljóðinu „(nótt)(sítrónunnar)“:
glitrandi
mistur af hafi
götuljósin stækkuðu
eitt ljósker skein í hverjum dropa
á gleraugunum mínum
við sátum úti á svölum
og skárum sítrónur
köstuðum sneiðunum fram af
svo þær þöktu götuna
glitrandi
augu og augu
í nóttinni
Sítrónuaugun sem eru einskonar ranghverfa stjarnanna á himninum speglast í dropunum sem skína á gleraugum ljóðmælanda og saman glitra þessi „augu og augu“ í nóttinni.
Nóttin er tími drauma en í „Stefnuyfirlýsingu súrrealista“ (1924), leggur Breton mikla áherslu á drauma og draumurinn er einskonar leiðarhnoða í gegnum höfundarverk Sjóns:
Reykjavík 11.03.’80
Kæra F-
Í nótt dreymdi mig að þú klipptir af þér
allt hárið og gerðir úr því rúm sem við
elskuðumst í. Á veggnum á móti var spegill
og þegar ég fékk fullnægingu þá sá ég í
honum að þú varst ekki lengur hjá mér. Þú
sast í stól og lakkaðir á þér neglurnar
með grænu naglalakki unnu úr engisprettum.
Þú sagðir: Rauð hús eru þínar konur.
Þá vaknaði ég við það að ég beit mig í
öxlina. Klukkan var hálf sjö.
Annars er allt gott að frétta, hér er
kalt en samt nógu heitt fyrir gömul
tígrisdýr.Bless, þinn vinur
Sigurjón
Ljóðið birtist í Sjónhverfingabókinni og er gott dæmi um tök Sjóns á tungutaki hins súrrealíska ljóðs. Myndmálið er tilgerðarlaust og húmorinn lýsir í gegn, en jafnframt skapast í þessum stutta texta einhver undarleg stemning; draumaminnið er agað og áhrifamikið og undirstrikað með notkun spegilsins, sem er einnig tákn óveruleika eða annarlegs rýmis. Og svo er það upplausnin á mörkum draums og veruleika sem er einkennismerki skáldsins, þegar ljóðmælandi vaknar er hann enn í landi annarleikans og draumnum er ljóslega ekki lokið eða hvað?
Erótíkin tengist líka dulvitund og draumum, en draumurinn opnar leið inn í dulvitundina. Hafið hefur lengi verið ein af helstu táknmyndum hennar; hafið, djúpin eða „mother oceania“ eins og segir í sönglagatexta sem Sjón samdi fyrir Björk í tilefni af opnun Ólympíuleikanna í Aþenu árið 2004. Erótíkin getur líka tengst tilfinningu óhugnaðar sem ber einnig við í ljóðum Sjóns, stundum í líki hryllings. Í greininni „Við ysta myrkur: Forboðnir listar í ljóðum eftir Sjón“ (2011) fjallar Guðni Elísson um þá margvíslegu lista sem birtast í ljóðum skáldsins. Hann tengir listana við galdur og særingu og segir þá gegna því hlutverki að „kalla fram vofur, eða ná fram hugljómun með því að treysta á uppsprettur óreiðunnar“.[3] „fórnargjafir handa 22 reginöflum“ (söngur steinasafnarans (2007)) er dæmi um hryllingslista:
0. peli af leðurblökumjólk
I. gervireður úr tré og reipi
II. rotnandi svefnmúsafjölskylda
III. kúbein
IV. g-strengur úr lopa
V. rúlla af gullnum klósettpappír
VI. 777 svipuhögg með skóreim
VII. kúkabrúnt silkiveski
VIII. golfsett úr mannabeinum
IX. gerðu-það-sjálfur „gúmmíhanska sett“
X. blótandi páfagaukur að jafni juliette
XI. fretblaðra og poki af kartöfluflögum
XII. bikar af muldu gleri
XIII. hópur af hungruðum sléttuúlfum
XIV. 93 tonn af auðguðu plútóni
XV. þriggjablaða rakvél og hálsbindi
XVI. dautt skinn af ökkla ballerínu
XVII. vélbyssa
XVIII. visnuð páfaeistu
XIX. hjörð af búlímískum uxum
XX. tannstöngull
XXI. leðurblökuhellir
Hér mætast ólík fyrirbæri sem spanna allt frá erótík og draumum til óhugnaðar og ævintýra, með hæfilegri blöndu af hversdagsleika. Það eru smíðar af þessu tagi sem Sjóni er svo sérlega lagið að kalla fram og er hans sérstaka útgáfa af stefnumóti regnhlífarinnar og saumavélarinnar á líkskurðarborði súrrealismans.
Skuggar og stál
Johnny Triumph, fulltrúi höfundar stígur fram í fyrstu skáldsögu Sjóns, eins og áður hefur komið fram. Stálnótt er framúrstefnuleg skáldsaga sem gerist í einskonar framtíð – sem þó er mörkuð ýmsum einkennum fortíðar eins og fram kemur í lýsingum á búningi og bifreið Johnnys. Sagan er undir sterkum áhrifum frá sæberpönki og minnir á skrifaða myndasögu með knöppum og öguðum köflum og örum skiptingum milli sviða. Sagan er afar myndræn og keyrir á myndabútum sem knýja atburðarásina áfram – lítið er um viðamiklar sviðsetningar og frásagnarlegt samhengi, í staðinn er brugðið upp svipmyndum sem skapa stemningu og umgjörð; en þetta er mjög í anda myndasagna. „Að þessu leyti er nær að tala um söguauga en sögumann í Stálnótt“ segir Jón Karl Helgason í ritdómi sínum, en hann líkir hinni myndrænu frásögn við „stutta búta úr þögulli kvikmynd“.[4]
Gera má ráð fyrir að staðsetningin sé Ísland, Reykjavík, þó það komi hvergi beinlínis fram, en ýmislegt gefur til kynna að við séum á heimaslóðum, þrátt fyrir að alþjóðleikinn sé einnig nokkur. Einhverntíma áður en atburðir sögunnar gerast hefur orðið kjarnorkuslys og við borgarmörkin rís blýmúr sem girðir af afleiðingar slyssins, stökkbreytt og krossæxluð dýr og jurtir. Ef marka má lýsingarnar á aðalpersónum bókarinnar, Jonnanum, Finninum, Dísunni og jafnvel Önnunni, má vel hugsa sér að afleiðingarnar hafi verið öllu víðtækari en þau virðast búa yfir ýmsum óvenjulegum hæfileikum. Stálnótt hefst á því að Johnny Triumph kemur akandi eftir hafsbotni og stefnir á land. Við fylgjum honum eftir í undirdjúpunum en sjáum í leiðinni myndir af fæðingum og bernskuminningum Jonnans, Finnsins og Dísunnar.
Loks nær Johnny landi og keyrir í átt til borgarinnar að blýmúrnum og innan hans skilur hann eftir fjögur rjúkandi egg sem ummyndast og taka á sig leðurklæddar mannsmyndir. Djöflarnir, eins og þeir eru nefndir, eru greinilega gerviverur, jafnvel afkvæmi einskonar stökkbreytinga eins og þeirra sem finnast innan blýmúrsins.
Djöflarnir úr eggjunum fara beint til borgarinnar og hitta þar fyrir fyrrnefnd ungmenni, Jonnann, Finninn, Dísuna og Önnuna, og yfirtaka þau á einn eða annan hátt, eða sameinast þeim eins og fram kemur í þessari lýsingu á fundi Jonnans við einn djöflanna:
Sá ókunni grípur annarri hendi um andlit Jonnans, þvingar hann til að opna munninn, sveigir höfuðið aftur og blæs hratt og fast upp í hann. Reykurinn er jökulkaldur, þykkur og súr, og veltur af þunga ofan í Jonnann. Hann stífnar upp, finnur hvernig líkaminn kólnar allur. Kuldinn færist frá hægri hlið andlitsins, niður búkinn og fæturna og umlykur hann á augabragði. Og hann sér þann ókunna leysast upp í dökka móðu sem rennur inn í hann viðstöðulaust. Jonninn hnígur í götuna. Einn (75)
Fundir ungmennanna við djöflana eru allir ólíkir, en enda allir á svipuðum nótum – utan að lýsingin styttist stöðugt og lesanda er látið eftir að geta í eyðurnar.
Stálnótt er samsett verk, og á fleiri en einn máta. Í fyrsta lagi minnir bygging sögunnar á einskonar samklipp (montage, collage), stuttir kaflar, örar skiptingar og það er sjaldan sem einum þræði er haldið í tveimur köflum í röð (þó það komi fyrir). Í öðru lagi er sagan sambræðsla ýmissa stefna og strauma. Ummerki súrrealismans eru greinileg, og líka fútúrismans, sem hér rennur saumlaust saman við hina vísindaskáldsögulegu þætti. Eitt einkenni framúrstefnu og módernískra verka eru tilvísanir og textatengsl, en fyrir utan áhrif frá sæberpönki og myndasögum eru tengslin við barna- og unglingabækur Enidar Blyton augljós, en Jonninn, Finnurinn, Dísan og Annan eru persónur úr hinum vinsælu Ævintýrabókum – þó án greinis. Sem slík eru þau einhverskonar erkitýpur ungmenna úr saklausri og bjartri fortíð, sem hér hefur breyst í öllu vafasamari og myrkari framtíð (sbr. greinirinn).
Þar fyrir utan vísar verkið til róta höfundarins sjálfs í Medúsuhópnum (sem er enn einn naglinn í höfundarsjálfs-smíðina), en á leið sinni um hafsbotninn keyrir Johnny framhjá hinu sokkna skipi Medúsu RE 23.
Stálnótt er því mótuð af fjölmörgum orðræðum og höfundarvirknin kemur úr mörgum áttum, annarsvegar (andstæðum) heimum afþreyingar og fagurbókmennta, og hinsvegar ólíkum greinum innan afþreyingarinnar og fagurbókmennta.
Andstætt hinni myrku og hörðu Stálnótt er Engill pípuhattur og jarðarber falleg og ljúf saga um ástir og sólstrandir, en sagan lýsir degi í lífi pilts og stúlku, Steins og Mjallar. Þau vakna, fara á kaffihús og taka svo strætó niður á strönd, en þar liggja þau í sólinni og njóta lífsins, borða og drekka. Þegar þau ætla að snúa aftur heim um kvöldið hefur strætó hætt að ganga og þau fá lánuð reiðhjól hjá skapvondum karli í strandskúr, karli sem þeim hafði reyndar verið sagt að væri dáinn. Þetta er ekki eina sagan sem sögð er í bókinni því jafnhliða hittum við fyrir annan Stein sem vaknar í myrkum heimi með skugga sér við hlið. Og með skugganum ferðast Steinn vítt og breytt, yfir sand og síðan haf og þaðan áfram í gegnum einskonar völundarhús ganga, herbergja, háhýsa, bakgarða og skóga, meðal annars eru þeir einu sinni staddir bakvið spegla kaffihússins sem Steinn og Mjöll sitja á. Á ferðum sínum hitta þeir allskonar fólk og fyrirbæri, þar á meðal stól sem heimtar að segja þeim draum sinn, og enda svo í skúr skapvonda karlsins. Báðar sögurnar enda svo á því að Steinarnir tvímenna á hjóli með Mjöll og skugganum, en missa stjórn á hjólunum þegar haglél skellur óvænt á.
Fallega sagan um sólríkan dag á ströndinni er því ekki eins ljúf og venjuleg og sýnist í fyrstu. Bókin endar í árekstri þessara tveggja heima, samslætti þeirra, og endirinn virðist marka upphaf skuggaheimsins. Samkvæmt því ferðast bókin í hring, skuggaheimurinn hefst þar sem bjarta sagan endar, endirinn vísar í upphafið. Það er hjól Steins og Mjallar sem fyrst fellur fyrir haglélinu og „Steinn fer í háum boga yfir veginn og lendir á bakinu í sandinum. Hann liggur í vegarkantinum með fætur í sundur og hendur út frá líkamanum. Eins og x“ (137). Svo stekkur skugginn af hjóli þeirra Steins sem verður því valdandi að hjólið fer fram af brún blindhæðarinnar og: „Steinn fór í háum boga yfir veginn og lenti á bakinu í sandinum. Hann lá í vegarkantinum með hendur út frá líkamanum og fætur í sundur. Eins og x. Vegur og hæð. Nótt“ (139). Lýsingin er næstum samhljóma utan að sú fyrri er í nútíð og sú síðari í fortíð.
Þjóðsagan eitt þeirra stefja sem reglulega skjóta upp kollinum í verkum Sjóns; Skugga-Baldur (2003) ber beinlínis undirtitilinn Þjóðsaga. En eins og þessi dæmi sýna einnig eru tök skáldsins á þjóðsögunni langt því frá að vera hefðbundin. Vissulega má greina draugasögustef í Englinum, en það er með súrrealísku bragði, ef svo má segja. Sagan er líka öðrum þræði einskonar ævintýri, ekki síst vegna Mjallar sem er heilmikil ævintýravera, en hinn tvöfaldi eða tvöfaldaði heimur með sínum undrum gefur líka til kynna undraveröld ævintýranna, eins og hún birtist í fjölmörgum sögnum af heimum álfa og trölla, eða í skáldverkum á borð við Lísu í Undralandi eftir Lewis Carroll (1865) og „Skugganum“ eftir H.C. Andersen (1847).
Eitt af lykilþemum Engilsins er byltingin (sem berst með jarðarberjum). Fræðimenn sem fjalla um framúrstefnur leggja mikla áherslu á að framúrstefnan gangi ekki aðeins út á fagurfræðilegt uppbrot heldur beri ávallt að skoða framúrstefnur í pólitísku ljósi.[5] Hinn pólitíski og félagslegi þáttur liggur þá í hugmyndafræði framúrstefnuhreyfinganna um listina sem samfélagslegt afl til róttækra umbreytinga og hugarfarsbyltingar. Listin á að gefa fólki nýja sýn á hversdaginn, draga fram ævintýrið og hið óvænta og þannig að koma róti á rútínur raunsæis og rökhyggju. Stöðugleiki er stöðnun og það versta sem komið getur fyrir, í staðinn er óreiðunni fagnað. Erótíkin er ein af þessum kraftbirtingum óreiðunnar og líkt og Stálnótt er Engillinn ilmandi af erótík, en í samskiptum Steins og Mjallar sem eru líkamleg og munúðarfull teiknast einmitt fagurlega upp sýn súrrealismans á holdlegar ástir sem leik og hlátur.
Þríleikur úr leir
En fyrst og fremst er það formsins vegna að ég festi niður stund og stað, svo þér sé ljóst hvar við erum stödd og hvenær, og til að gefa þessum upphafskafla þá vigt og stöðu sem hæfir því sem á eftir fer – það er að segja svo ekki fari á milli mála að saga mín kallist á við aðrar meiriháttar sagnalistir og hið langa og síklingjandi nafnakall frá draumkvæðum á skinnbók til framtíðarkvikmynda, frá öfugmælavísum til guðspjalla, frá þjóðsögum um móra bruggaðan af lyfjum til innhringds kjaftagangs í dagblöðum, frá ferðabókum gáfaðra kvenna til teiknimyndasagna um stökkbreytt börn [...]. (379-380)
Þessi orð sögumannsins Jósefs Löwe eru vissulega í upphafskafla skáldsögunnar Ég er sofandi hurð eftir Sjón en þó ber að hafa í huga að hún er þriðja verkið í þríleiknum CoDex 1962 og því er þessi ‚stund og staður‘ upphafsins, sem festur er niður ‚formsins vegna‘, dálítið á reiki.
Allt er þetta svo í takt við sögumanninn sjálfan, en í lokabók þríleiksins afhjúpast hann lesendum loks og reynist hreint ekki sá sem hann hafði áður sagst vera.
Þríleikurinn CoDex 1962 (2016) er einstakt verk í íslenskri bókmenntasögu. Tilurð þess spannar meira en tvo áratugi, en fyrsta bókin, Augu þín sáu mig, kom út árið 1994. Næsta bók, Með titrandi tár, birtist sjö árum síðar, 2001, og svo liðu heil fimmtán ár þar til sú þriðja, Ég er sofandi hurð, leit dagsins ljós. Og sú bók, eins og áður hefur verið sagt, hleypir hinum tveimur í uppnám, endurskrifar söguna og umskapar sögumanninn og aðalpersónuna.
Fyrri bækurnar tvær einkennast af samtali tveggja persóna, með áherslu á sögu sögumannsins í bland við inngrip hlustandarinnar. Sögumaðurinn rekur sögu sína aftur til síðari heimsstyrjaldar þar sem gyðingur á flótta, Leó Löwe, fær húsaskjól í gistihúsi í smábæ í Þýskalandi. Þar hittir hann þjónustustúlkuna Marie-Sophie sem hlúir að honum og saman móta þau barn úr leirklumpi sem Löwe hefur í hattöskju. Marie-Sophie er þungamiðja verksins, en til hliðar við þessa atburði er annar söguþráður sem fjallar um Gabríel erkiengil sem uppgötvar að hann er í raun hún. Þessi kynusli á sér svo samhljóm í hlustöndinni, en í Ég er sofandi hurð kemur fram að hún er transkona og nefnist Aleta.
Önnur bókin hefst á því að Leó er staddur á skipi sem siglir til Íslands. Reyndar byrjar hún ekki þar (ekkert af þessu er einfalt) en framhaldið af sögu Löwe hefst þar. Fyrir farið þarf hann að gjalda gullhring sinn og þegar á land er komið þarf hann að endurheimta gullið, því það er af alkemískum ættum og gætt þeim krafti að gefa leirbarninu líf. Eftir ævintýralegar uppákomur sem tengjast umsókn um ríkisborgararétt, verslun með frímerki, amerískum guðfræðingi og glímukappa frá Niggertown og rússneskum sendiráðsfulltrúa með rófu fær Löwe gullið í hendur á ný og sagan endar með því að barnið opnar augun.
Sjálfur býður höfundur upp á leið til að lesa þríleikinn, sem þrenningarsögu. Það er Aleta sem orðar þetta svo í Sofandi hurðinni: „hún var ekki mikill frásagnarfræðingur, en nóg hafði hún lesið, heyrt og séð til þess að vita að sögur Marie-Sophie og Leós Löwe voru saga móðurinnar og saga föðurins [...] og saga Jósefs var saga sonarins“ (514). Jafnframt er henni ljóst að sú saga verði ekki sögð nema að litlum hluta, að „[s]jálfur myndi hann ekki segja nema brot“, því frásögnin er full af útúrdúrum sem endurspegla sjúkdóm hans: „Líkt og bein sjúklings með steinmannssýki bregst við höggi með því að mynda með hraði nýjan beinvef á höggstaðnum, þá óf hugur Jósefs sögu í hvert sinn sem erfið hugsun eða minning sótti á hann“ (514). Ein þessara sagna er um uppruna hans sjálfs í helförinni, en Aleta rústar þeirri blekkingu með því að segja honum frá raunverulegri móður hans, sem var útigangskona að nafni Brynhildur Helgadóttir. Hún leitaði stundum á náðir Leós sem gaf henni húsaskjól og mat og tók loks á móti barni hennar og ól það upp sem son sinn.
Brynhildur þessi var einkar hávaxin enda dóttir tröllvaxins fornaldarfræðings, Helga Steingrímssonar, sem var fyrirmynd bergrisans, verndarvættar Suðurlands, í skjaldarmerki Íslands. ‚Bergrisinn‘ kallast á við frásagnir af berserki sem er nefndur stuttlega í upphafi Augu þín sáu mig, en fær heilan upphafskafla í Með titrandi tár. Þar er líka sagt frá Helga og börnum hans, en sonur hans Ásgeir, er myrtur.
Þannig spinnast þræðir saman héðan og þaðan úr verkinu og mynda vef CoDexins. Vefnaðurinn þéttist svo enn þegar í ljós kemur að tilgangur samtals Aletu og Jósefs er rannsókn sem unnin er á vegum erfðalíftæknifyrirtækisins Codex. Inn í söguna fléttast saga stofnanda þess, en Aleta hlustar á þá sögu af segulbandi sem óvart fylgdi í upptökutækinu sem henni var fengið við verkefnið. Það er yfirmaðurinn sjálfur, erfðafræðingurinn Hrólfur Zóphanías Magnússon, sem ræður Aletu, en hann er að gera rannsókn á árganginum 1962, en óvenjumargir úr þeim árgangi þjást af sjúkdómum sem rekja má til stökkbreytinga vegna þess að „geislavirkni í andrúmslofti á Íslandi [var] orðin meiri en nokkru sinni fyrr“ (404) í kjölfar mikilla kjarnorkutilrauna stórvelda kalda stríðsins. Meðal þeirra er Jósef sem „var haldinn þeim afar sjaldgæfa sjúkdómi sem á íslensku kallast steinmannssýki en á læknamáli Fibrodysplasia ossificans progressiva“ (427).
Sögurnar þrjár eru svör við spurningalista Aletu sem er einnar síðu langur og í fimmtán liðum, allt frá nafni, fæðingardegi og fæðingarstað, til foreldra, búsetu, skólagöngu, áhugamála og eftirminnilegra atvika og drauma (428). Fyrstu tvær skáldsögur þríleiksins eru svarið við fyrstu fjórum spurningum listans: a) Nafn, c) Fæðingardagur og ár, c) Fæðingarstaður, d) Foreldrar (uppruni/menntun/atvinna) (461). Síðasta spurningin svarar að nokkru leyti afganginum af spurningunum, en þó ekki alveg, eins og áður hefur komið fram, því sífelld hliðarspor frásagnar Jósefs koma í veg fyrir að hann geti lokið við að segja eigin sögu.
Þríleikurinn er saga um sköpun og eyðingu, fæðingu og dauða, sjálfsköpun og sjálfseyðingu. Og varðveislu inn í óljósa framtíð – en þess má geta að Sjón er einn af þátttakendum í verkefni sem felst í því að skrifa texta fyrir framtíðina.[6] Sköpunarsagan inniheldur tilvísanir til kristni og gyðingdóms enda umskapar sögumaðurinn sig í anda hinnar gyðinglega sögu af leirmanni sem á hebresku nefnist golem (גלמ). Hugmyndin er fengin að láni frá guði sem mótaði Adam úr rauðum leir jarðarinnar. Með kabbalískum galdri getur maðurinn gert eins, mótað mann úr leir en öfugt við guð getur hann ekki blásið manninum lífsanda í brjóst og því er góleminn lífgaður með orði sem ritað er á enni hans eða stungið upp í munn hans. Þekktasta sagan af sköpun gólems er frá Prag, en þaðan er einmitt Löwe Sjóns. Frá Prag koma einnig þekkt skáldverk sem tengjast góleminum, skáldsaga Gustafs Meyrink, Der Golem (1915) og kvikmyndir Paul Wegeners, Der Golem (1915 og 1920). Einnig má nefna leikrit Karel Capek, R.U.R. Rossumovi univerzální roboti eða Alþjóðlegir róbótar Rossums (1921), en þar er orðið róbót í fyrsta sinn notað um tilbúna veru. Sjón vísar mjög til Meyrinks í Augu þín sáu mig og nefnir einnig róbot Rossums, en leikritið gengur aftur í Ég er sofandi hurð í verkefni sem Hrólfur stofnar utan um nýja gervigreind og nefnist „The Reykjavík Unilingua Research, skammstafað R.U.R.“ (560). Verkin tengjast gotnesku og framúrstefnu og því má vera ljóst að gólem Sjóns tilheyrir heimi hrollvekja, furðusagna og vísindaskáldsagna – auk þess að hafa smitast af framúrstefnu.
Áherslan í öllum verkunum er á mótun, tilbúning og það að skapa nýja (mann)veru í krafti samsláttar efnis og anda. Góleminn telst vera skrýmsli, þar sem hann verður til án getnaðar og fæðingar, utan við yfirráðasvæði guðs. Hann er búinn til úr vessum Prag og Löwe og síðan lífgaður í augum Marie-Sophiear – en það er hún sem er vísað til í titlinum ‚augu þín sáu mig‘. Að auki vísar þessi sköpun í krafti augnaráðs augljóslega til höfundarnafsins Sjón. Samkvæmt þjóðsögunni er góleminum neitað um tungumál, og þar með eiginlegt líf, en eins og ljóst má vera af lýsingunni á sköpun hans – lífgun með orðum – er vald á tungumáli nauðsynlegt til sköpunar.[7] En þetta málleysi á greinilega ekki við um gólem Sjóns, sem sjálfur er einmitt skapari; það er hann sem segir sögurnar í CoDexinum, sögur sem jafnframt fjalla um tilurð hans sjálfs og þá sérstaklega það hvernig hann umskapar sig sem þjóðsagnaveruna gólem.
Allar bækurnar einkennast af ríkri sjálfsmeðvitund. Umfjöllun skáldsagnanna um eigin sköpun er spegluð í sköpun gólemsins og því er hugtakið ‚sjálfsaga‘ hér sérlega viðeigandi. Verkin þrjú „fjalla[...] um sjálf[...] sig“ og eru bæði „sjálfsvísandi“ og „sjálfsmeðvituð“, auk þess að lýsa beinlínis mótun sjálfsmyndar eða sjálfsveru.[8]
Fyrri tvö verkin í CoDex 1962 vísa mjög til hrollvekjunnar, bæði gotnesku skáldsögunnar og nýrri hrollvekja. Í slíkum skáldsögum er spurningin um mennskuna miðlæg og í vísindaskáldsögunni er hún enn fyrirferðarmeiri. Verkin þrjú bera einmitt undirtitla sem vísa til bókmenntagreina, Ástarsaga, Glæpasaga og Vísindaskáldsaga. Ástarsagan birtist í sambandi Marie-Sophie og Leós sem skapa saman leirbarnið – án holdlegra kynna. Glæpasagan tengist fyrst og fremst morðinu á Ásgeiri, móðurbróður Jósefs en vísindaskáldsagan er í raun yfir og allt um kring, einkum þó í umfjölluninni um erfðatækni og geislavirkni í Ég er sofandi hurð, og loks í eftirmála verksins.
Þannig eru vangavelturnar um mennsku og sköpun sem birtast á ýmsan hátt í fyrri verkum enn til staðar í Sofandi hurð. Í Augu þín sáu mig er textinn hlaðinn sögum af tilbúnum verum og gervimennsku ýmiskonar, allt frá piparkökukörlum til tilbera en í Með titrandi tár er sjónum beint að tilurð íslendinga með sérstakri áherslu á varúlfa. Í Ég er sofandi hurð er sviðið svo víkkað út og nær til mannkynsins sjálfs og sköpunarverka þess.
Ástarsaga – glæpasaga – vísindasaga: þessir bókmenntagreinar hafa ekki verið taldar til fagurbókmennta heldur eru gjarnan flokkaðar í lægri þrepum virðingarstiga bókmenntastofnunarinnar. Súrrealistar hafa gjarnan sótt innblástur til þess háttar rita sem talin voru höfða til ‚lægstu hvata‘.[9] Það að tefla saman fagurbókmenntum og slíkri ‚list‘ felur í sér ákveðna ósvífni sem hentaði framúrstefnufólki vel og þetta nýtir Sjón sér vel í CoDexinum. Í Augu þín sáu mig er vísað til þekktra expressíónískra kvikmynda, spennumynda síns tíma; í Með titrandi tár koma hasarblöð og Drakúla við sögu og einnig er vísað til hasarblaða í Ég er sofandi hurð. Í upphafi nefnir Jósef teiknimyndasögu ‚um stökkbreytt börn‘, en þar er vísað til X-Men seríunnar sem notið hefur mikilla vinsælda allt frá árinu 1963. Sögurnar fjalla um það hvernig ungmenni öðlast ýmsa (ofurmannlega) hæfileika í krafti stökkbreytinga sem gefið er í skyn að séu af völdum geislamengunar. Aleta fundar með ‚hafgúu‘ sem einnig er af-mynduð vegna stökkbreytingar og sú lifir sig inn í umbreytingu sína líkt og Jósef. Samtal þeirra endar á því að hafgúan líkir Aletu við þennan stökkbreytta árgang – „þú ert ekki ein af okkur en við erum í sama liði“ (426) – og ítrekar þannig sambandið milli viðmælanda og viðfangs. Líkt og hin stökkbreyttu er Aleta sæborg, umformuð í krafti tæknilegs inngrips.
Og allar einkennast sögurnar af samspili við aðrar sögur. Góleminn segir ekki aðeins sína sögu heldur stíga aðrar persónur fram og segja sínar sögur og þannig fær sjálf sagnalistin mikið vægi og rúm. Frásagnartæknin byggir á því að flétta saman atburði, bæði sögulega og skáldaða, sögur sem eiga sér jafnvel stað innan annarra sagna, goðsagnir, myndskeið og margvíslegar tilvísanir, svo úr verður þéttur, fjölskrúðugur og sérstæður sagnavefur. Sjón blandar saman staðreyndum og skáldskap og gerir engan greinarmun þar á, sagnfræðin rennur saumlaust inn í skáldskapinn og skáldskapurinn ummyndar söguna. Þessi samansaumaði skapnaður endurspeglar svo sköpun gólemsins sjálfs, en hann birtist í verkum Sjóns sem samsett vera, mótaður og (um)myndaður úr efniviði sem sóttur er í bókmenntir, kvikmyndir, trúarbrögð, stríð, mannkynssögu, þjóðsögur og myndasögur.
Skuggar, rökkur, regin og tungl
„[M]ikil er hún, myndgátan sem þú hefur burðast með í gegnum lífið“ (65), segir grasafræðingurinn Friðrik B. Friðjónsson þegar hann opnar böggul ‚vinnukonu‘ sinnar, Öbbu. Abba er nýlátin og böggullinn sem hefur fylgt henni í gegnum bæði hörmungar og gleði geymir púsluspil í tveimur pökkum:
Innihald hvors um sig sýnist það sama; svört tréspjöld, tuttugu og fjögur í hvorum stafla. Hann flettir spjöldunum eins og spilum af stokki, og sér að þótt þau séu máluð svört á annarri hliðinni, þá eru þau hvít á hinni, en ekki samt öll, því í öðrum staflanum eru nokkur spjaldanna svört og græn, en svört og blá í hinum.
[...]
Og nú hefst flókið og undarlegt sjónarspil í litlu stofunni að Brekku í Dal. Bóndinn á bænum handleikur hvern hluta gátunnar af varfærni, skoðar í krók og kring; á grænu og bláu flötunum er letur – setning á latínu – og það auðveldar leikinn.
Hann hefst handa við að púsla:
Hann byrjar á bláu spjöldunum. (64-65)
Friðrik og Abba eru persónur úr stuttu sögulegu skáldsögunni Skugga-Baldur, en hún færði höfundi sínum Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs árið 2005. Tilvitnunin hér að ofan er því að mörgu leyti lýsandi fyrir bókina, hún er eins konar myndgáta, hvern hluta þarf að handleika af varfærni og skoða í krók og kring – og púsla svo saman. Sem fyrr felst galdurinn í þessu púsli og ef lesandi gefur sig verkinu á vald opnast samsetning þess fyrir honum, líkt og spjöldin „leika í höndum Friðriks“ (67-68).
Titill skáldsögunnar vísar til þjóðsagna, en skuggabaldur er samkvæmt þjóðtrú afkvæmi kattar og tófu, þótt sumir segi hann getinn af samræði kattar og hunds. Skugga-Baldur er stóran hluta sögunnar á tófuveiðum og verður þar fyrir óvæntri upplifun, eins og gengur þegar fólk fer á íslensk fjöll, full af þjóðsögum. Baldur þessi, sonur Skugga, er prestur í litlum dal síðla á nítjándu öld. Ekki er hann með öllu vel liðinn af söfnuði sínum, sérstaklega ekki af einu sóknarbarninu, grasafræðingnum Friðriki B. Friðjónssyni. Sá hefur tekið í fóstur vangefna stúlku, Öbbu, sem veit enga meiri skemmtun en þá að klæða sig upp og fara í kirkju til að hitta annað fólk og syngja, sérstaklega er tekið fram að hún syngur aldrei ófalskt. En prestur meinar henni aðgang að kirkju sinni og þykir látbragð hennar ekki eiga við. Þessi þrjú eru aðalpersónur, en einnig kemur við sögu annar hálfviti, Hálfdán, sem vangefna stúlkan var lofuð.
Skáldsagan gerist á Íslandi á ofanverðri nítjándu öld og hefur yfir sér rómantískt yfirbragð sem er allfrábrugðið fyrri skáldsögum Sjóns. Þetta kemur ekki aðeins fram í sögusviðinu og viðfangsefninu heldur einnig í stílnum, tungumálinu, en sagan er skrifuð í nítjándualdarstíl – sem þó ber greinileg merki skáldunar skáldsins. Þrátt fyrir að vera ekki umfangsmikil má finna þrjá meginþræði í sögunni: eltingaleik séra Baldurs við tófuna; söguna af Öbbu asíatísku, dauða hennar og greftrun; og sögu Friðriks, fóstra hennar. Hver og einn þráður vísar í margar áttir og í lokin tengjast þeir saman.
Atburðarásin er þannig: Abba deyr og Friðrik undirbýr greftrun hennar. Hann sendir líkkistu til séra Baldurs og einnig bréf varðandi uppgjör vegna útfararinnar. Í bréfinu er eftirskrift, en þar segist Friðrik hafa séð feita tófu á ferð. Þegar sendimaður prests er farinn með líkkistuna undirbýr Friðrik sína eigin jarðarför fyrir Öbbu, og rifjar í leiðinni upp hvernig fundum þeirra bar saman. Hann jarðar svo stúlkuna um nóttina. Eftir að prestur hefur látið jarða líkkistuna sem hann fékk senda heldur hann á refaveiðar og lendir þar í ýmsum hremmingum. Tófan virðist sérlega illskeytt, auk þess sem skothvellur Baldurs kemur af stað snjóflóði sem að lokum verður honum að aldurtila. Það eyðir í það minnsta hans fyrra formi, en presturinn hefur hamskipti og breytist í ref og uppfyllir þannig viðurnefni sitt, „Skugga-Baldur“, þó ekki sé hann afkvæmi kattar og tófu, heldur bara manns og refs. Hann hverfur úr mannlegu samfélagi og sagan endar á því að Friðrik hefur tekið að sér sendisvein hans, Hálfdán. Einnig fær hann heimsókn frá manni sem fræðir hann um uppruna Öbbu, en hún reynist hafa verið dóttir séra Baldurs, sem seldi hana í ánauð á erlent skip.
Við fyrstu sýn gæti Skugga-Baldur virst hefðbundið verk og verið til marks um að höfundurinn hafi náð ‚þroska‘ til að hætta allri þessari tilraunastarfsemi og leikjum. Þetta er ítrekað með hinni ‚íslensku‘ áherslu verksins, samhliða síðrómantískum undirtónum sveitarómönsunnar. En þegar að er gáð sjást víða merki hins framúrstefnulega uppruna. Symbólistarnir sem lótusæturnar lesa eru meðal áhrifavalda þeirra sem aðhylltust súrrealisma. Lyfjavíman var eitt af tækjum súrrealista til að komast í tengsl við dulvitundina, upplifa annarleika í hversdeginum og orðabók Öbbu er eins konar dadaískt ljóð, eins og áður segir. Þess utan gefur staða Öbbu innan textans og lýsingar á henni, hugðarefnum hennar og svo orðabókinni ástæðu til að skoða verkið í ljósi áhuga súrrealista á list geðveikra og barna, eða einfaldlega list utangarðsfólks, en súrrealistar voru brautryðjendur í því að kanna og vekja athygli á list slíkra.
Sjón tekur hér á viðkvæmum málum á átakalausan og tilgerðarlausan hátt. Þrátt fyrir að þjóðarsálin sé tekin til skoðunar, líkt og í Með titrandi tár, þá er tónninn um margt ólíkur háðsádeilunni þar, hér er allt ljúfara og meira í anda hæfilega upphafinnar vímu síðrómantíkurinnar.
Með Skugga-Baldri verða nokkur umskipti í viðtökum á verkum Sjóns, en hún er mun aðgengilegri en fyrri skáldsögur höfundar og lesendahópurinn stækkaði. Íslenskir gagnrýnendur og lesendur tóku bókinni fagnandi og tilnefning til Íslensku bókmenntaverðlaunanna hjálpaði til við frekari útbreiðslu en það var ekki fyrr en hann hlaut Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs sem verk hans fóru að hljóta verðskuldaða athygli.
Endursköpun goðsagna er áberandi þema í nóvellunni Argóarflísinni (2005) enda ber hún undirtitilinn Goðsaga um Jason og Keneif. Bygging Argóarflísarinnar er mun raunsæislegri og framvindan er að mestu leyti línuleg, en stöðugt stungin furðusögum, eða réttara sagt, goðsögum sem mynda átakaöxul verksins.
Sagan segir frá Valdimar Haraldssyni, sem vegna sérstaks áhuga síns á fiskáti hins norræna kynstofns er staddur á farmskipi í eigu útgerðarfélagsins Kronos í apríl árið 1949, en eigandi þess er faðir gamals vinar Valdimars, sem nú er látinn. Sá hafði verið mikill skoðanabróðir Valdimars. Sagan snýst að miklu leyti um máltíðir um borð í skipinu, aðallega meðan það er statt í norskum firði, en þar er það hlaðið pappamassa sem flytja á til Tyrklands.
Valdimar situr við háborðið með skipstjóra og öðrum yfirmönnum og meðal þeirra er Keneifur nokkur, annar stýrimaður. Sá reynist sögumaður mikill og eftir að hafa hlustað um stund á viðarbút sem hann hefur jafnan meðferðis, þá segir hann sögu í lok hverrar máltíðar. Það er sagan af ferð hans með Jasoni, á margneglda skipinu Argó, til fundar til gullreyfið og Medeu. En saga Keneifs fjallar ekki um reyfið, stærsti hluti hennar gerist á eyjunni Lemney þar sem búa einungis konur, því karlpeningurinn hefur að sögn yfirgefið svæðið. Saga Jasonar og Medeu er svo heimfærð upp á norrænu goðsögnina um Guðrúnu Gjúkadóttur. Í útgáfu Sjóns er Sigurður Fáfnisbani í hlutverki Jasons og Guðrún er Medea. Þegar nánar er að gáð er þessi samfella ekki svo fjarstæðukennd, því báðar fjalla sögurnar um konu sem er ofurseld valdi karla og hefnir sín.
Persóna Valdimars Haraldssonar er að hluta til byggður á langafa Sjóns og því mætti hugsa sér að Sjón sé erfingi söguflísarinnar. Enn á ný má því sjá móta fyrir höfundarnærveru. Einhvers konar höfundarímynd kemur einnig fyrir í Rökkurbýsnum (2008), en nú í líki guðs skáldskaparins, Óðins. Sá sækir aðalsöguhetjuna, Jónas Pálmason, til Bjarnareyjar um miðja bók og kemur honum áleiðis til Kaupmannahafnar. Reyndar ávarpar þessi höfundarímynd Jónas sem Jón Guðmundsson, en Jón lærði Guðmundsson (1574-1658) er söguleg fyrirmynd Jónasar.[10] Með því að stíga sjálfur fram á sjónarsviðið og afhjúpa fyrirmynd sögulegrar sögupersónu sinnar með þessum hætti minnir höfundurinn á að sá hugmyndaheimur sem í verkinu birtist er höfundarverk, skapnaður, alveg á sama hátt og hugmyndir okkar um heiminn í dag eru höfundarverk, nýr skapnaður. Jafnframt minnir Sjón á þátt sjálfs sín í því að endurskapa þessa heimssýn og færa hana inn í nútímann og tengja meðal annars þeirri heimssýn sem hann sækir hugmyndir sínar til, súrrealismann.
Rökkurbýsnir gerist á sautjándu öld og segir frá Jónasi Pálmasyni sem kallaður er hinn lærði. Hann er fjölfræðingur mikill, náttúruvísindamaður og vel lærður í lækningalistum, auk þess að kunna góð skil á hinu yfirnáttúrulega. Sagan gerist á stuttu tímabili í ævi hans, nánar tiltekið árunum 1635-1639, í kjölfar útlegðardóms sem hann hlýtur af völdum undirróðurs óvildarmanna sinna. Jónas er dæmdur fyrir galdra, en í ljós kemur að málaferli gegn honum eiga sér aðrar og skuggalegri rætur. Eins og gengur flakkar þó frásögnin fram og til baka í tíma og við kynnumst uppvexti Jónasar og upphafi fróðleiksfýsnar hans og lærdóms, en honum er lýst þannig að hann hafi það sem í dag er kallað ljósmyndaminni.
Súrrealískt andrúmsloft umlykur Rökkurbýsnir. Eitt dæmið um þetta er bygging sögunnar, sem minnir dálítið á völundarhús. Á vissan hátt mætti sjá þetta völundarhús sem undirvitund sögumannsins, en eftir stuttan inngang um (neikvæð) viðbrögð hins ofurhetjulega Lúsífers við nýjasta uppáhaldi guðs, manninum, er lesanda hent inn í sundurslitin minningabrot Jónasar, sem dvelst á lítilli eyju í útlegð sinni. Honum hefur aldrei tekist að komast úr landi og er holað niður þarna, einum með minningum sínum.
Í næsta hluta, sem gerist ári síðar, er fyrstu persónu frásögnin orðin heillegri, og nú segir frá því að kona hans kemur og saman þreyja þau þessa einangrun, Jónas með hugsunum sínum og kenningum um samhengi hlutanna og furður tilverunnar, sem Sigríður kona hans svarar með orðunum: „Það er þessi þvættingur sem kom okkur hingað“ (65). Hér er frásögnin aðgengilegri og lesandi þarf ekki að ríghalda sér í síður bókarinnar til að hanga með í beygjum.
Í þriðja hluta breytist frásagnarhátturinn í þriðju persónu frásögn og þar er sagt frá komu hins dularfulla manns til eyjarinnar, en eins og áður sagði tilkynnir sá Jónasi að hann sé á leið til Kaupmannahafnar. Þá tekur við ferð Jónasar til Kaupmannahafnar, en þar er hann meðal annars að leita sýknu í máli sínu. Í þessum hluta leikur fræðimaðurinn Óli Worm mikilvægt hlutverk, en hann hafði einmitt verið nefndur af manninum ókunna. Enn breytist tóntegundin og er mun léttari, stöðugt stungin kímni – og (gróteskum) hlátri. Hér er lesandi kominn inn að miðju völundarhússins og getur fagnað því að hafa komist alla leið. Á sama hátt fjarlægist hann Jónas, stendur dálítið utan við persónuna og kynnist henni þannig upp á nýtt. En ferð Jónasar – og lesandans – er ekki lokið, finna þarf leið út úr byggingunni.
Í fjórða hluta erum við aftur stödd á eyjunni með Jónasi og hér kemur í ljós uppspretta ofsóknanna gegn honum: Jónas sagði óþægilegan sannleika um þátt yfirmanna og fyrirmenna í Spánverjavígunum meðan aðrir þögðu. Í fimmta og síðasta hluta erum við síðan á ný komin á kaf í hugsanir Jónasar, minningabrot og sundurlausar hugsanir í anda hins móderníska stíls sem nefnist vitundarflæði. Hér þjónar þetta flæði þó öðrum tilgangi, þeim að byggja upp – og soga lesandann inn í – þá ríku tilfinningu fyrir samhengi ólíkra hluta sem sagan fjallar um. Og svo endar þetta allt saman á litlum og ævintýralegum eftirmála, í anda formálans, og loks eins konar neðanmálsgrein.
Inn í þessa byggingu, sem er fimlega ofin en þó svo sláandi einföld, fléttar höfundur heimsmynd endurreisnarinnar, enn ómengaða af upplýsingunni. Allt á sinn stað í sköpunarverkinu, hlutverk, stund og (ævi)sögu. Og allt hangir þetta saman í flóknum og á stundum ógagnsæjum vef sem er strengdur yfir heiminn allan og himinhvolfin.
Vangaveltur um frásögnina og sögumennskuna í verkum Sjóns er gaman að bera saman við fræga grein bókmenntafræðingsins Walters Benjamin, „Sögumaðurinn“ (1936). Þar er áhersla lögð á forsögulegar rætur sögumennskunnar, mikilvægi þess að segja sögur sem þjóna því hlutverki að miðla reynslu og tengja saman sögumann og hlustanda (viðtakanda).[11] Skáldsögur Sjóns eru afar lifandi dæmi um sagnamennsku, það að segja sögur. Jafnframt má skoða prósaverk hans sem rannsókn á frásögninni, möguleikum hennar og þanþoli. Sjón hefur sjálfur bent á í viðtölum að það sé firra að halda því fram að sagnamennskan sé að hverfa úr nútímanum.[12] En í stað þess að við fáum yfir okkur langar línulegar frásagnir sem standa jafnvel klukkutímum saman einkennist sagnamennska nútímans af brotum, fjölmörgum minni frásögnum sem (stundum) raðast saman í eina, svona álíka og er algengt í myndasögum og sjónvarpsþáttaröðum. Frásagnatækni Sjóns er merkingingarbær vegna þess að hún hrærir upp í hlutunum, kemur óreglu á þá. Þannig speglar heimur frásagnanna viðfangsefnið. Þetta sjáum við í Skugga-Baldri, Argóarflísinni og Rökkurbýsnum, en í öllum verkunum er frásagnarformið merkingarbært: Skugga-Baldur er myndgátan um Öbbu, Argóarflísin er goðsagan og sagnamennskan sjálf, Rökkurbýsnir er völundarhúsið, safnið – furðusafn endurreisnarinnar. Á sama hátt er nóvellan Mánasteinn (2013) samsett úr svipmyndum sem kalla fram tilfinningu fyrir formi kvikmyndarinnar.
Mánasteinn: Drengurinn sem aldrei var til vísar mjög til framúrstefnu en er einnig sögulegt skáldverk. Nóvellan spannar víðtækt svið, en meðal þess sem þar kemur við sögu er kynvilla og framúrstefna, fullveldi og plága, kvikmyndir og heimsstyrjöld. Að auki eru ólík svið felld saman líkt og þegar samkynhneigð lýstur saman við fullveldið og framúrstefnu við íslenskt samfélag árið 1918. Þó er verkið ekki mikið um sig, frekar en margar af fyrri skáldsögum höfundar.
Ljóst má vera af þessari lýsingu að sagan er margbreytilegt og áhrifaríkt verk. Hér segir frá ungum dreng, Mána Steini, sem er á skjön við samfélag sitt: Reykjavík haustið 1918. Hann er munaðarlaus og lesblindur og samkynhneigður að auki – og þar með ‚ekki til‘.[13] Þrátt fyrir það er hann ákaflega viðeigandi lykill að sögu þessa tímabils. Drengurinn er að mestu alinn upp hjá gamalli konu sem segist vera langömmusystir hans og eftir að hafa lokið skólaskyldu sér hann fyrir sér með því að selja sig karlmönnum, bæði hérlendum og erlendum. Tekjurnar renna beint í kassa kvikmyndahúsa, en helsta áhugamál Mána Steins er að fara í bíó. Katla gýs, spænska veikin berst til landsins og allt virðist á hverfanda hveli. Meðan plágan geysar aðstoðar drengurinn lækninn Garibalda Árnason ásamt stúlkunni Sólu Guðb- sem Máni Steinn dáir, enda er hún mikill töffari, ferðast um á mótorhjóli og er eins og stigin út úr veröld bíómyndanna.
Fullveldisathöfnin reynist drengnum örlagarík, en í kjölfar hennar er hann sendur burt úr landi – þar bíða hans ný ævintýri sem lesandi verður að að segja sér sjálfur, en í lokakafla kemur fram að hann kynnist framúrstefnulistafólki og deilir kvikmyndaáhuganum með þeim. Hann snýr aftur til landsins í félagsskap þessara vina sinna, en þegar hann heimsækir bernskuslóðirnar tekur skáldskapurinn völdin yfir sögunni og drengurinn máist út – enda var hann aldrei til. Þá stígur höfundurinn fram og tengir tilurð verksins eigin fjölskyldusögu.
Sjónarhorn verksins, sem er jafnframt sjónarhorn Mána Steins, er mótað af kvikmyndinni. Kvikmyndin Les Vampires (Louis Feuillade 1915-1916) kemur nokkuð við sögu, en hún er í sérlegu uppáhaldi hjá drengnum.
Drengurinn lifir sig inn í kvikmyndirnar og býr í heimi þeirra, þær eru honum athvarf og fóstra og í krafti kvikmyndanna lærir hann að lesa þrátt fyrir lesblinduna. Í stað orða les hann í myndir og tákn og það er því viðeigandi að hann verður vitni að því þegar plágan hefur útbreiðslu sína í Reykjavík: „Við hótelið ríkir góð stemning eins og alltaf þegar farþegaskip er í höfn. Dampskipið Botnía lagðist við bryggju um kaffileytið, eftir siglingu með fólk og varning frá Kaupmannahöfn“ (24). Hópur ungra manna stendur fyrir utan hótelið og einn þeirra sýnir félögum sínum silfurhring með svörtum steini sem hann ber á litlafingri vinstri handar. Hringurinn er gjöf frá systur hans, sem hefur þennan sama dag snúið heim eftir að hafa lokið smurbrauðsnámi í Óðinsvéum. Pilturinn lætur glóa á hringinn í bjarmanum af gasluktinni við hóteldyrnar og vinirnir dást að honum. Svo kyssir hann steininn svarta: „„Systa“ er best! Verst að hún skuli ekki geta verið með þeim í kvöld, hún er eitthvað slöpp eftir siglinguna. Klukkan í Dómkirkjunni slær átta högg“ (25-26). Lýsingin er áhrifamikil og þrátt fyrir hversdagsleg atriði þá hvílir greinileg ógn yfir andrúmsloftinu; vanur kvikmyndaáhorfandi veit strax að ef kysst er á glóandi hring með svörtum steini boðar það illt. Ofan í það slær kirkjuklukka Dómkirkjunnar – dramatíkin er undirstrikuð með viðeigandi hljóðrás, en á þessum tíma voru kvikmyndir þöglar og fylgt úr hlaði með lifandi undirspili, tónlist við hæfi.
Jafnframt lýsir Mánasteinn einföldum bæjarbrag Reykjavíkurborgar á þessum tíma. Lesandi fær nasasjón af stéttaskiptingu sem kemur meðal annars fram í lymskulegri lýsingu á háttum gömlu konunnar þegar plágan skellur á. Hún verst kuldanum með því að liggja dúðuð uppi í rúmi og:
fer ekki fram úr nema til þess að sjóða drengnum graut á morgnana, fisksporð og kartöflur á kvöldin, vinda úr fötunum hans og sínum eigin, strauja og stoppa í, strjúka rakann af gólfum og veggjum, reykja þrjátíu sígarettur.
Og eftir að unga frúin og eldri dóttirin tóku veikina hefur hún skotist niður til húsbóndans og eldað fyrir hann og yngri börnin, hjúkrað sjúklingunum, þvegið af þeim og látið suðuna koma upp á tuskum og plástrum.
Gamla konan man varla til þess að hafa þurft að liggja eins lengi kyrr og síðustu daga. (51-52)
Eins og áður segir má sjá bjarma fyrir ýmsum þáttum úr höfundarverki Sjóns í Mánasteini. Hinsegin þemu hafa birst í Stálnótt, Augu þín sáu mig og Argóarflísinni. Í Stálnótt eiga tvö ungmennanna mök við einstaklinga af sama kyni og í Augunum og Argóarflísinni koma kynskipti fyrir, Gabríel erkiengill uppgötvar að hann er kvenkyns, með dramatískum afleiðingum fyrir heimsbyggð alla, og Keneifur, handhafi sagnaflísarinnar, hefur sína tilveru sem kona. Kvikmyndin og dægurmenningin leika lykilhlutverk í CoDexinum, en meðal annars er vísað til framúrstefnukvikmyndarinnar Das Kabinett des Doktor Caligari (Robert Wiene 1919) í Augu þín sáu mig. Framúrstefnan er lykilatriði fyrir Mánastein, en þrátt fyrir að hún komi ekki beint við sögu eru angar hennar víða – meðal annars er vísað til íslenskrar framúrstefnu þegar leikskáldið Haraldur Hamar tekur á móti drengnum í Lundúnum (115). Auk þessa gegnsýrir framúrstefnan allt andrúmsloft og frásagnarstíl sögunnar.
Umbreytingin er eitt af þeim þemum sem gengur í gegnum öll verk Sjóns, allt frá hinum súrrealísku hamförum sem finna má í ljóðunum til fjölskrúðugra tilbrigða í skáldsögnum: Egg breytast í djöfla í Stálnótt, drengurinn í Englinum tvöfaldast (tvífarinn getur einnig verið minni hamfara), gólem-barnið er mótað úr margskonar leir í Augunum og lifnar í Tárinu, auk þess er bókstaflega að finna varúlf í Með titrandi tár. Presturinn Skugga-Baldur breytist í tófu í krafti þjóðsögunnar og í Argóarflísinni hefur Keneifur kynskipti, auk þess sem suðrænir og norrænir goðsagnaheimar renna saman. Í Rökkurbýsnum hefur Jónas vissulega ekki hamskipti, en allur heimurinn gerir það þegar hann öðlast nýja skynjun. Umbreytingar eru beinlínis viðfangsefni verksins, en náttúruathuganir Jónasar ganga meðal annars út á hin ótrúlegu tilbrigði náttúrunnar í tengslaneti heimsmyndar hans. Máni Steinn ummyndast hins vegar bókstaflega – og hverfur. Umbreyting er opið ferli, opnar fyrir nýja möguleika, eins og fram kemur í öllum verkunum. Stálnótt fer í hring og byrjar upp á nýtt í lokin og sama gerist í Englinum. CoDexinn gengur út á umsköpun og stökkbreytingar, Skugga-Baldur eignast nýtt líf, líkt og Valdimar í Argóarflísinni. Þó endalok Jónasar séu gefin þá hefur skáldverkið Rökkurbýsnir gefið Jóni lærða nýtt líf og það sama gerist í Mánasteini: þótt drengurinn hverfi þá verður til bók.
Úlfhildur Dagsdóttir, nóvember 2017
[1] Lautréamont (Isidore-Lucien Ducasse), Les Chants de Maldoror (1868-1869). Ljóðið í heild má finna víða á vefnum, t.d. hér: http://www.loyalbooks.com/download/text/Book-12005.txt, síðast skoðað 15. ágúst 2016. Þýðing úr frönsku er eftir Jónu Dóru Óskarsdóttur.
[2] Hal Foster leggur mikla áherslu á arfleifð framúrstefnunnar og hafnar takmörkunum tímabilsskilgreininga, sjá Hal Foster, Compulsive Beauty, Cambridge Massachusetts, The MIT Press 1995 (1993) og The Return of the Real: The Avant-Garde at the End of the Century, Cambridge, Massachusetts, London, England, The MIT Press 1996 (einn kafli þeirra bókar birtist í íslenskri þýðingu í Ritinu 1:2006).
[3] Guðni Elísson, „Við ysta myrkur: Forboðnir listar í ljóðum eftir Sjón“, Ritið 2:2011, bls. 74.
[4] Jón Karl Helgason, „Setningar mola veggi“, Tímarit Máls og menningar 3:1988, bls. 376.
[5] Sjá sérstaklega grein Sascha Bru, „Ólesnar bækur: Aldarlöng umræða um framúrstefnu og pólitík“, en einnig aðrar greinar í Ritinu 1:2006 og bækur Bürger og Fosters.
[6] „Icelandic writer Sjón named next Future Library contributor“, síðast skoðað 9. apríl 2017.
[7] Sjá Byron L. Sherwin, The Golem Legend: Origins and Implications, London, University Press of America, Inc. 1985.
[8] Sjálfsaga er þýðing á ‚metafiction‘. Ástráður Eysteinsson, „Þetta er skáldsaga: Í sama klefa eftir Jakobínu Sigurðardóttur“, Umbrot: Bókmenntir og nútími, bls. 214.
[9] Robin Walz, Pulp Surrealism: Insolent Popular Culture in Early Twentieth-Century Paris, Berkeley, University of California Press 2000.
[10] Titill skáldsögunnar er kominn frá Jóni, úr ljóðabálki hans Tíðfordríf: en þar lýsir Jón „röckurz býsnunum“, sem eru rán kirkjunnar í kjölfar siðaskipta. Sjá Halldór Hermannsson, Jón Guðmundsson and his Natural History of Iceland, Ithaca, New York, Cornell University Library 1924 (Islandica vol. XV), bls. xiv.
[11] Walter Benjamin, „Sögumaðurinn“ (1936), Fagurfræði og miðlun: Úrval greina og bókakafla, aðalþýðandi Benedikt Hjartarson, Reykjavík, Háskólaútgáfan og Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands 2008.
[12] Sjá t.d. viðal sm í DV, 22. desember 2001, „Þrumandi kór þúsund sagna: Rætt við Sjón um skáldskap og nýja skáldsögu hans, Með titrandi tár“. Sjón ítrekaði þetta í samtali okkar í kennslustund (11. mars 2005) í námskeiðinu Málstofa í nútímabókmenntum: Sjón og Guðrún Eva Mínervudóttir, Íslenskudeild, Háskóla Íslands, vor 2005, kennari var Sveinn Yngvi Egilsson.
[13] Ásta Kristín Benediktsdóttir fjallar um Mánastein í tengslum við samkynhneigð í ritdómi sínum í Spássíunni (haust/vetur 2013), „Kynvilla á dögum spænsku veikinnar“.
Greinar
Almenn umfjöllun
Critical Approaches to Sjón : North of the Sun, ritstj. Linda Badley, Úlfhildur Dagsdóttir, Gitte Mose.
Greinasafn um verk Sjóns, gefið út af Routledge, 2024. Sjá nánar
Úlfhildur Dagsdóttir: Sjónsbók : Ævintýrið um höfundinn, súrrealisma og sýnir. Reykjavík, JPV útgáfa 2016
Guðni Elísson: „Við ysta myrkur: forboðnir listar í ljóðum eftir Sjón“
Ritið 2011, 11. árg., 2. tbl. bls. 67-84.
Guðni Elísson: „Eftirmáli að lestrarbók handa nemendum í sextíuogátta ár bekk. Eða: Aðferð til þess að koma ekki of mikilli reglu á hlutina“
Eftirmáli Guðna að Sjón. Ljóðasafn 1978-2008. Reykjavík: Bjartur, 2008, s. 347-372
Pétur Blöndal: „Hér er eitt líf. Svona hljómar það. Er merkið sterkt?“
Sköpunarsögur. Mál og menning, 2007, s. 32-65
Jón Yngvi Jóhannsson: „Að baka úr hisminu. Samtal við Sjón“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 10-24
Katrín Jakobsdóttir: „Aldrei verið skúffuskáld. Spjallað við Sjón.“
Skíma, 28. árg., 2. tbl. 2005, s. 24-28
Kristín Ómarsdóttir: „Rætt við Sjón“
Bjartur og frú Emilía, 2. tbl. 1992, s. 40-41
Soffía Auður Birgisdóttir: „Därför förstår jag Homeros.“ Viðtal við Sjón
Nordisk tidskrift, 3. tbl. 2005, s. 254-259
Madsen, Johny Hedergaard: „Faldt i gryden som barn.“ Viðtal við Sjón vegna útkomu Augu þín sáu mig á dönsku.
Sentura: Magasin for litteratur og levende billeder, #12, 13. apríl 2002.
Viðtalið má einnig lesa í vefútgáfu ritsins, sjá hér
„En sentimental multikunstner“ Intervju med Sjón
Vinduet, 54. árg., 1. tbl. 2000. Oslo: Gyldendal. S. 2-13
Hrefna Haraldsdóttir: Skáldatími. Sjón
Reykjavík: Hugsjón, 1998 (myndband)
Úlfhildur Dagsdóttir: „Fugl á grein. Sjón og erótík“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg. 1. tbl. 1993, s. 77-84
Úlfhildur Dagsdóttir: „Samsteypa sagna, segulbandsupptökur og stökkbreytingar“
Tímarit Máls og menningar, 78. árg., 2. tbl. 2017, s. 127-135
Um einstök verk
Argóarflísin
Anna Björk Einarsdóttir: „Fortíðarþrá í Argóarflís Sjóns“
Skírnir, 180. árg. 2006 (haust), s. 483-496
Ármann Jakobssson: „Gylfaginning á grísku skipi“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 3. tbl. 2006, s. 110-114
Úlfhildur Dagsdóttir: „Goð, konur og meinvættir“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Vinterberg, Sören: „Sjóns skönne skipperskröner“ (um Argóarflísina á dönsku)
Augu þín sáu mig
Frobenius, Nikolaj: „Avbrudd og sammenheng: en bemerkning om Christina Hesselholdts Det skjulte og Sjóns Augu þín sáu mig (Öynene dine så meg)“
Vinduet 54 årg (nr. 1), 2000. Oslo: Gyldendal. S. 16-19
Kristján B. Jónasson: „Ár stöðugleikans. Um nokkrar skáldsögur sem komu út á árinu 1994.“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 4. tbl. 1995, s. 107-121
Peitersen, Bue Peiter: „Den surrealistiske dannelse“ Um Augu þín sáu mig á dönsku.
Sentura: Magasin for litteratur og levende billeder, #12, 13. apríl 2002.
Ritdóminn má einnig lesa í vefútgáfu ritsins, sjá hér
Sigríður Albertsdóttir: „Ástin sigrar grimmdina og dauðann“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 2. tbl. 1995, s. 116 – 119
Sigríður Albertsdóttir: „Töfraraunsæi í íslenskum samtímaskáldsögum“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg., 1. tbl. 2000, s. 81 – 100
Úlfhildur Dagsdóttir: „Augu þín sáu mig“
Ástráður Eysteinsson (ritstj.): Heimur skáldsögunnar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun H.Í. 2001.
Drengurinn með röntgenaugun
Ástráður Eysteinsson: „Eru augu (s)kynfæri?“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 4. tbl. 1987, s. 505 – 512
Ástráður Eysteinsson: Umbrot: Bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan 1999, s. 310 – 319
Jeanette Fich Jespersen: „Sjón og stjernene: en læsning af Sjóns Drengurinn með röntgenaugun“
Nordica, bindi 8 1991. Odense: Odense Universitetsforlag, s. 41-67 (ársrit)
Engill, pípuhattur og jarðarber
Torfi Tulinius: „Veröld mjallar og steins, veröld skugga“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 3. tbl. 1990, s. 110 – 112
Úlfhildur Dagsdóttir: „Fugl á grein. Sjón og erótík“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 1. tbl. 1993, s. 77-84
Ég man ekki eitthvað um skýin
Úlfhildur Dagsdóttir: „Augu lesandans“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 2. tbl. 1992, s. 107 – 112
Gráspörvar og ígulker
Vera Knútsdóttir: „Draumar, goðsagnir og náttúran í borginni“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Hvörf
Þorgeir Tryggvason: „Þú ferð ekki héðan fyrr en þú manst þetta“ (leikdómur)
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 23-4.
Mánasteinn: drengurinn sem aldrei var til
Ásta Kristín Benediktsdóttir: „Kynvilla á dögum spænsku veikinnar“ (ritdómur)
Spássían 2013, 4. árg., haust/vetur, bls. 6.
Úlfhildur Dagsdóttir: „„Það súgar milli heima“ : kvikar myndir, skuggar og sjóðheitur sýningarklefi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 3. tbl. bls. 122-8.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Kynvillt fullveldi og óður til afþreyingar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Með titrandi tár
Úlfhildur Dagsdóttir: „Skyldi móta fyrir landi? af leirmönnum, varúlfum og víxlverkunum.“
Skírnir, 176. árg. (haust) 2002, s. 439-464.
Oh! (isn’t it wild)
Heimir Pálsson: „Að skilgreina tættan heim.“
Ljóðormur, 2. tbl. 1985, s. 46-47.
Rökkurbýsnir
Halldóra Kristín Thoroddsen: „Upplýsingamyrkrið“
Tímarit Máls og menningar 2009, 70. árg., 1. tbl. bls. 136-9.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Völundarhús fjölfræðings“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Skugga-Baldur
Anna Jóhannsdóttir: „Refskák sögumanns Skugga-Baldurs“
Mímir, 45. árg., 2007 (nr. 51), s. 58-64
Ármann Jakobssson: „Veiðimaður, spjátrungur og innlifun: Sjón og sögulega skáldsagan.“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005, s. 19-27.
Brynja Þorgeirsdóttir: „Samtal yfir tvö þúsund ár: um tengsl Skugga-Baldurs og Ummyndana Óvíðs“
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 3. tbl. bls. 42-50.
Kristján Árnason: „Mörk mennskunnar.“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 109-111.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Skugga-Baldur er ekkert Skoffín.“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Stálnótt
Jón Karl Helgason: „Setningar mola veggi“
Tímarit Máls og menningar, 49. árg., 3. tbl. 1988, s. 375 – 381
Jón Karl Helgason: „„Og borgin tekur mig.“ Borgarkort fjögurra skálda“
Skírnir, 173. árg. 1999, s. 481 – 493
Úlfhildur Dagsdóttir: „Fugl á grein. Sjón og erótík“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 1. tbl. 1993, s. 77-84
Söngur steinasafnarans
Úlfhildur Dagsdóttir: „Undan ferðamanns fæti...“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Verðlaun
2023 - Norræn verðlaun Sænsku akademíunnar, veitt höfundi sem þykir hafa lagt sitt af mörkum með markverðum hætti á sínu sviði
2022 - Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir bestu kvikmyndina
2022 - Edduverðlaunin fyrir besta kvikmyndahandrit: Dýrið
2021 – L'Ordre des Arts et des Lettres - frönsk heiðursorða lista og bókmennta
2016 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Ég er sofandi hurð
2013 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Mánasteinn: drengurinn sem var aldrei til
2013 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Mánasteinn: drengurinn sem var aldrei til
2013 – Verðlaun starfsfólks bókaverslana: Mánasteinn: drengurinn sem var aldrei til (besta íslenska skáldsagan)
2005 – Verðlaun starfsfólks bókaverslana: Argóarflísin (besta íslenska skáldsagan)
2005 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Skugga-Baldur
2002 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Með titrandi tár
1998 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1995 – Menningarverðlaun DV: Augu þín sáu mig
Tilnefningar
2019 - Best Translated Book Award: CoDex 1962, þýð. Victoria Cribb
2016 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Ég er sofandi hurð (CoDex 1962)
2013 – The International IMPAC Dublin Literary Award (shortlist): Rökkurbýsnir
2009 – Prix Europa: Augu þín sáu mig (leikgerð Bjarna Jónssonar). Í flokknum útvarpsleikrit
2009 – Gríman, íslensku leiklistarverðlaunin: Augu þín sáu mig (leikgerð Bjarna Jónssonar). Sem útvarpsverk ársins
2009 – The Independent Foreign Fiction Prize (Bretland): The Blue Fox
2008 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Rökkurbýsnir
2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Söngur steinasafnarans
2005 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Argóarflísin
2003 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Skugga-Baldur
2001 – Óskarsverðlaunin: fyrir texta í söngvamynd Lars Von Trier, Dancer in the Dark
Sýnir - 45 ára viðhafnarútgáfa
Lesa meiraÍ tilefni af 45 ára útgáfuafmæli skáldsins Sjón hefur Newport og Gallery Port endurútgefið titilljóð fyrstu ljóðabókar hans, Sýnir, með fimm nýjum blýantsteikingum eftir hann.. .Kvæði og sögur
Lesa meiraMyndarlegt úrval af kvæðum og sögum þessa brautryðjanda vestrænna nútímabókmennta, sannkölluð stórbók með þýðingum frá fyrri tíð, en líka glænýjum þýðingum eftir marga kunna þýðendur. Meðal eldri þýðinga eru Svarti kötturinn og Hjartslátturinn í þýðingu Þórbergs Þórðarsonar, Hrafninn í rómuðum þýðingum Einars Benediktssonar og Þorsteins frá Hamri, Í röstinni í þýðingu Málfríðar Einarsdóttur og Draumaland í þýðingu Helga Hálfdanarsonar. Nýir þýðendur kvæða og sagna eru Aðalsteinn Ásberg Sigurðsson, Ástráður Eysteinsson, Elísa Björg Þorsteinsdóttir, Jón Karl Helgason, Rúnar Helgi Vignisson og Sjón.The Northman
Lesa meiraBlóðug víkingamynd í leikstjórn Roberts Eggers, sem skrifar handritið með Sjóni.Dýrið
Lesa meiraDýrið er íslensk kvikmynd frá 2021 í leikstjórn Valdimars Jóhannssonar. Handritshöfundur ásamt Valdimar er skáldið Sjón.Rågblont hår, grå ögon
Lesa meiraKorngult hár, grá augu
Lesa meiraGunnar Kampen er ungur Reykvíkingur, verslunarskólagenginn og vel settur í lífinu, áhugasamur um menn og málefni innan lands sem utan.Höfuðljóð
Lesa meiraCoDex 1962
Lesa meira
Birtan í húminu: ljóðaþýðingar
Lesa meiraFlati karlinn
Lesa meiraHræddu mig í svefn
Lesa meira