Beint í efni

Hildur Knútsdóttir

Æviágrip

Hildur Knútsdóttir er fædd 1984 í Reykjavík. Hún hefur skrifað leikrit, ljóð og skáldsögur fyrir bæði börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og heimi furðusagna – stundum á mörkum beggja þessara heima.

Fyrsta skáldsaga hennar, Sláttur, kom út 2011. Vetrarfrí, sem er skáldsaga af furðusagnaætt ætluð ungmennum, hlaut Fjöruverðlaunin 2015 og framhaldsbókin Vetrarhörkur fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016. Doddi: Bók sannleikans, sem hún skrifaði ásamt Þórdísi Gísladóttur, var tilnefnd bæði til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar og Fjöruverðlaunanna 2017.

Hildur hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki barna- og ungmennabóka þrjú ár í röð frá 2018 fyrir þríleikinn Ljónið, Nornin og Skógurinn og var einnig tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir allar bækurnar. Fyrir Ljónið hlaut hún einnig Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar árið 2019.

Fyrir bókina Hrím hlaut hún Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar og Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana, auk þess að vera tilnefnd til Barna- og unglingabókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, Fjöruverðlaunanna og Íslensku bókmenntaverðlaunanna.

Hildur er með B.A.-gráðu í bókmenntafræði og skapandi skrifum frá Háskóla Íslands. Hún býr í Reykjavík.