Æviágrip
Hildur Knútsdóttir er fædd 1984 í Reykjavík. Hún hefur skrifað bækur fyrir bæði börn og fullorðna og velur sér sögusvið jöfnum höndum úr hversdeginum og heimi furðusagna – stundum á mörkum beggja þessara heima.
Fyrsta skáldsaga hennar, Sláttur, kom út 2011. Vetrarfrí, sem er skáldsaga af furðusagnaætt ætluð ungmennum, hlaut Fjöruverðlaunin 2015 og framhaldsbókin Vetrarhörkur fékk Íslensku bókmenntaverðlaunin 2016. Doddi: Bók sannleikans, sem hún skrifaði ásamt Þórdísi Gísladóttur, var tilnefnd bæði til Barnabókaverðlauna Reykjavíkurborgar og Fjöruverðlaunanna 2017. Þá var Hildur tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna fyrir Ljónið í flokki barna- og ungmennabóka árið 2018 og hlaut Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar 2019 fyrir sömu bók. Árið 2020 hlaut Hildur Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki unglingabóka fyrir bókina Skógurinn.
Hildur er með B.A.-gráðu í bókmenntafræði og skapandi skrifum frá Háskóla Íslands. Hún býr í Reykjavík.
Um höfund
Ómennskan í mennskunni — Um verk Hildar Knútsdóttur
Það er óhætt að segja að Hildur Knútsdóttir sé afkastamikill og fjölhæfur höfundur. Á þeim áratug sem liðinn er frá því hún sendi frá sér sínar fyrstu bækur hafa komið út eftir hana níu verk: ein skáldsaga fyrir fullorðna, ein ljóðabók, ein barnabók, fimm ungmennabækur og ein kaldhæðin lífstílsbók. Auk þessara níu verka hefur hún svo skrifað þrjár unglingabækur í samstarfi við Þórdísi Gísladóttur. Hér verður gerð tilraun til að varpa ljósi á þetta víðfeðma höfundarverk, greina sameiginleg einkenni bókanna og þær samfélagslegu hræringar sem þær spretta úr.
Að vera bæði lifandi og dáin
Fyrsta bók Hildar, Sláttur, kom út árið 2011 og segir frá nokkrum mánuðum í lífi Eddu, 24 ára líffæraþega. Edda lifir einföldu og hæglátu lífi, er í hlutastarfi á fasteignasölu og reynir þess á milli að synda og ganga í von um að hjartað sem hún fékk frá ókunnugri konu fimm árum áður slái sem lengst. Þegar hún kynnist sjö ára dreng, Eysteini, og pabba hans tekur líf hennar stakkaskiptum og áður óþekktar tilfinningar vakna.
Við fyrstu sýn virðist Sláttur standa nokkuð sér á parti í höfundarverkinu. Fyrir það fyrsta er þetta eina skáldsaga Hildar sem skrifuð er fyrir fullorðna og í öðru lagi tilheyrir hún ekki beinlínis þeirri bókmenntagrein sem hún hefur hvað mest einbeitt sér að: furðusögunni. Ýmislegt í frásögninni minnir í raun á þekkt stef úr skvísusögum. Ástríði, samstarfskonu Eddu, finnst til dæmis nóg um karlmannsleysi hennar og gerir sitt besta til að koma henni á stefnumót með misáhugaverðum mönnum. Og þótt það sé ekki fyrir tilstilli Ástríðar fær Edda sannarlega að kynnast ástinni. Hér er þó ekki boðið upp á þær endanlegu lausnir sem gjarnan einkenna skvísusöguna og Sláttur skreppur í raun undan öllum einföldum skilgreiningum. Við nánari skoðun má þó greina fingraför hins yfirnáttúrulega víða á síðum bókarinnar.
Sagan er til skiptis sögð frá sjónarhóli Eddu og Eysteins en hann virðist hafa dulræna hæfileika til að skynja hvar slys eða aðrir voveiflegir atburðir eigi eftir að eiga sér stað. Þannig er hið yfirnáttúrulega að vissu leyti sett í forgrunn frásagnarinnar. Það er þó ekki síður það sem lesa má milli línanna sem vekur hugrenningatengsl við furðusögur, ekki síst hrollvekjuna. Edda er nefnilega í þeirri sérstöku stöðu að vera í raun bæði lifandi og dáin. Hjarta hennar liggur í Fossvogskirkjugarði, grafið við fætur ömmu hennar, á meðan restin af líkamanum lifir eðlilegu lífi. Dauðinn vomir líka yfir henni enda ljóst að hjartaþegar verða í fæstum tilvikum langlífir. Í ofanálag virðist líffæragjafinn, kona, 28 ára, að vissu leyti hafa yfirtekið tilveru hennar. Eftir hjartaskiptin tók Edda að finna fyrir áður óþekktum löngunum. Nú girnist hún lakkrís, hnetusmjör og rósavín auk þess sem ilmurinn af nellikum fyllir brjóst hennar ljúfsárri tilfinningu. Ýmislegt í sögunni bendir jafnframt til þess að henni sé ekki sjálfrátt, hún hafi ekki lengur fulla stjórn á því hvað hún vilji gera og hvern hún geti elskað, heldur lúti vilja konu, 28 ára. Þótt ekki sé gerð nein sérstök tilraun til að vekja óhugnað í kringum þessi málefni lúrir ónotatilfinningin undir yfirborði textans og minnir á sig þegar Sláttur er lesinn í samhengi við síðari verk Hildar.
Á vængjum jafnréttis
Spádómurinn kom út árið 2012 og er samkvæmt merkingu á kápu ætlaður lesendum sem eru 11 ára og eldri. Kolfinna, söguhetja bókarinnar, býr í þorpi þar sem allt hverfist um járnvinnslu. Hver einasti þorpsbúi á sitt par af vængjum og þá verður fólk að hafa með sér hvert sem það fer því vængina þarf að nota þegar spádómurinn sem lifað hefur með íbúunum kynslóð fram af kynslóð rætist – en ekki fyrr. Þegar sú stund rennur upp hefur Kolfinna þó lánað furðuverunni Jóni vængina sína og verður því óvart eftir í þorpinu þegar aðrir fljúga á brott. Æsileg atburðarás fer af stað og lýkur ekki fyrr en Kolfinna hefur uppfyllt áður óþekktan hluta spádómsins, frásögnina um hina útvöldu sem ein getur yfirbugað þau illu öfl sem steðja að samfélaginu.
Um margt er Spádómurinn sígild ævintýrasaga um framandi verur, örlög sem verða ekki umflúin og illvirkja sem svífast einskis. Að einu leyti er hún þó frábrugðin þeim flestum. Hér eru nefnilega allar aðalpersónurnar kvenkyns, bæði hetjur og skúrkar. Það hefur löngum loðað við furðusögurnar að þær séu heldur karllæg bókmenntagrein, í þeim séu fáar konur og hlutverk þeirra veigalítil. Þetta hefur sem betur fer verið að breytast á síðustu árum og Spádómurinn leggur sitt lóð á vogarskálarnar. Í bókinni leikur Hildur sér einnig með viðsnúning á hefðbundnum kynjahlutverkum, það er til að mynda mamma Kolfinnu sem er færasti járnsmiður þorpsins, pabbi hennar er einungis aðstoðarmaður sem sér um að blása lífi í eldinn.
Þessa áherslu á konur og kyn má raunar sjá í flestum verkum Hildar. Söguhetjur hennar eru í flestum tilvikum kvenkyns og kvenpersónur gjarnan í valdastöðum innan viðkomandi sagnaheims. Eins vinnur hún ötullega að því að vinda ofan af staðalímyndum kynjanna, meðal annars með því að láta kvenkyns söguhetjur ungmennabóka sinna gjarnan vera áhugasamar um kynlíf og ófeimnar við að njóta þess – jafnvel í meira mæli en karlpersónurnar. Athygli lesandans er þó almennt ekki beint að þessum femínísku eiginleikum verkanna. Yfirleitt er það hröð og spennandi atburðarásin sem er í forgrunni og aðeins stöku sinnum fjallað um hlutskipti kvenna með beinum hætti. Á þessu eru þó tvær undantekningar, tískubloggsbókin Hola, lovers eða Lífstíls- og megrunarbók Tískubloggsins eða Hvernig á að þóknast karlmönnum og vera betri en aðrar konur og ljóðabókin Orðskýringar sem báðar má skilgreina sem femínísk rit.
Hola, lovers (2011) sprettur upp úr bloggi sem Hildur hélt úti á árunum 2010–2013. Bloggið var nokkurs konar satíra þar sem Hildur gagnrýndi lífstílsblogg sem voru vinsæl þá um mundir og snerust gjarnan um klæðaburð, snyrtivörunotkun og megrun. Með því að bregða sér í hlutverk tískubloggarans H sem gefur lesendum sínum góð ráð um allt frá „hrukkulausum lífstíl“ til æskilegs mataræðis dregur hún á bráðfyndinn hátt upp mynd af þeim fáránlegu kröfum sem gerðar eru til kvenna í nútíma samfélagi. Í bókinni má meðal annars finna fjölmargar uppskriftir að „hollusturéttum“ sem flestir eiga það sameiginlegt að innihalda aðallega á vatn á ýmsu formi (heitt, kalt eða ferkantaða ísmola) auk þess sem mælieiningar eru yfirleitt nokkuð smáar, 4 ½ spaghettílengja eða 1 piparkorn. Almennt virðast heimagerðu snyrtivörurnar sem H mælir með hitaeiningaríkari en matréttirnir. Skoðun tískubloggarans H er skýr: Fremsta skylda konunnar er að vera falleg og mjó, hún á að láta lítið fyrir sér fara og gleðjast yfir allri athygli sem karlmenn beina að henni.
Ljóðabókin Orðskýringar (2018) kom út töluvert síðar og inniheldur, eins og titillinn gefur til kynna, uppdiktaðar skýringar á orðum sem finna má í lista fremst en lesandanum er látið eftir að para við réttan texta. Ljóðin bregða upp hversdagslegum myndum af mönnum og málefnum, ekki síst þeim er varða stöðu kynjanna. Karlmenn bókarinnar eru gjarnan dálítið góðir með sig, fullvissir um eigið ágæti og finnst heimurinn skulda þeim viðurkenningu. Það má til dæmis sjá í fyrsta ljóði bókarinnar:
Ungskáld leggur smábíl fyrir utan Ikea
setur í handbremsu og hugsar um
víðáttuna djúpið firnin hörkuna og hitann
sem hið íslenska bókmenntalandslag verður af
ef hann fær ekki bráðum útgáfusamning.
Hér hvílir túlkunin í raun öll á persónufornafninu „hann“ sem fylgir ekki hinu málfræðilega hvorugkyni sem orðið „ungskáld“ krefst. Það sama má segja um mörg önnur ljóðanna:
Þrjátíu og sex ára gamall lögfræðingur
læsir sig inni á klósetti eftir launaviðtal
og reynir að ákveða hvort hún eigi að hlæja eða gráta.
Þótt ljóðin séu flest í léttum dúr og oft drepfyndin er óneitanlega broddur í þeim. Með því að tengja þau við orðabókarskilgreiningar varpar höfundurinn jafnframt fram spurningum um hversu vel tungumálið nái utan um veruleikann, ekki síst veruleika kvenna.
Samfélagsgagnrýni af þessu tagi einkennir gjarnan verk Hildar og snýr raunar að fleiri málefnum en jafnrétti kynjanna. Það á ekki síst við um þær bækur sem hún er hvað þekktust fyrir, ungmennabækurnar.
Íslenskir flóttamenn
Vetrarfrí og Vetrarhörkur komu út á árunum 2015 og 2016. Bækurnar mynda eina samfellda atburðarás og í raun mætti líta á þær sem sömu sögu í tveimur bindum.
Aðalpersónur bókanna eru systkinin Bergljót, 15 ára, og Bragi, 10 ára, og er frásögnin sögð frá sjónarhóli þeirra þeirra til skiptis. Þegar bókin hefst er vetrarfrí að bresta á í skólum borgarinnar og systkinin fara – miskát – með Þórbergi pabba sínum í sumarbústað á Arnarstapa á meðan mamma þeirra verður eftir í bænum til að vinna. Á Snæfellsnesi verða feðgarnir vitni að hræðilegum atburðum þegar hópur fólks, bæði börn og fullorðnir, tekur að hrynja ælandi niður á fótboltavelli þorpsins og missir að lokum meðvitund. Þórbergur og Bragi flýja í ofboði, fyrst í bústaðinn að sækja Bergljótu og þaðan frá Arnarstapa. Þegar þau keyra framhjá fótboltavellinum virðist fólkið sem áður lá þar eins og hráviði horfið en við nánari skoðun reynast kjöttægjur og líkamspartar liggja á víð og dreif í snjónum. Nokkrum klukkustundum síðar aka þau inn í myrkvaða höfuðborgina og umfang hörmunganna rennur endanlega upp fyrir þeim. Reykjavík er, að því er virðist, mannlaus og hvergi ljóstíru að finna enda landið með öllu rafmangslaust auk þess sem síma- og netsamband liggur niðri.
Það verður smám saman ljóst að Ísland hefur orðið fyrir árás geimvera sem nærast á mannfólki. Þær virðast senda einhvers konar loftborið eitur á undar sér sem veldur uppköstum og rænuleysi, jafnvel dauða. Í kjölfarið geta þær gætt sér á lífvana líkömunum án mikillar fyrirhafnar. Þrátt fyrir að Bergljót, Bragi og Þórbergur hafi fyrst um sinn virst einu eftirlifendurnir kemur annað á daginn. Fleira fólk hefur staðið fyrstu árás geimveranna af sér, sumir hafa gengið til liðs við þær, aðrir eru í felum. Fjölskyldan ákveður fljótlega að leggja á flótta og reyna að koma sér fyrir á afskekktum stað í von um að þeim takist leynast þar þangað til hjálp berst frá öðrum löndum. Áður en til þess kemur verður Bragi þó viðskila við föður sinn og systur og flækist um Suðurlandið í slagtogi við ýmsa aðila á meðan Bergljót og Þórbergur halda til Vestmannaeyja ásamt hópi fólks og fela sig þar. Frásagnaraðferðin, þar sem sjónarhornið flakkar milli systkinanna, setur lesandann því í einstaka stöðu: Hann er sá eini sem veit hver afdrif allra þriggja fjölskyldumeðlima eru á hverjum tímapunkti.
Einkenni hrollvekjunnar eru augljós í Vetrarfríi og Vetrarhörkum. Sagan vekur spennu og ótta auk þess sem lýsingar á uppköstum og mannáti eru líklegar til að vekja ákveðinn viðbjóð með lesendum. Hryllingurinn býr þó að vissu leyti í því sem við sjáum ekki enda bregður geimverunum sjálfum í raun aðeins fyrir í örfá skipti í frásögninni. Ágætt dæmi um þetta er þegar fjölskyldan kemur að Hótel Búðum á flótta sínum frá Arnarstapa. Eftir að hafa læðst um mannlausa ganga átta þau sig á að hræðilegir atburðir hafa einnig orðið á hótelinu og Bragi verður var við umgang: „Það var eitthvað hinum megin við hurðina. Eitthvað sem hafði gert eitthvað hræðilegt inni í hinu herberginu og skilið eftir sig blóðug spor á ganginum. Og nú var þetta eitthvað bak við hurðina, aðeins nokkrum metrum frá þeim, að gera eitthvað sem hljómaði nákvæmlega eins og þegar hundur bryður bein“ (54–55).
Þegar Vetrarfrí kom út hafði borgarastyrjöld geisað í Sýrlandi í rúm þrjú ár og neytt fjölda fólks til að yfirgefa heimili sín. Þegar mest lét, árið 2015, var talið að tæplega helmingur Sýrlendinga væri á flótta, bæði innan heimalandsins og erlendis. Þeir sem leituðu hælis í öðrum löndum fengu þó ekki alltaf blíðar móttökur og var til að mynda gjarnan rætt um „flóttamannavandann“ í Evrópu. Það má vel hugsa sér að tvíleikurinn spretti upp úr þessu ástandi og að með honum gefist íslenskum lesendum tækifæri til að setja sig í spor fólks á flótta, velta fyrir sér hvert þeir myndu sjálfir fara væri þeim ekki lengur vært heima fyrir og skynja hve mjög þeir þyrftu að reiða sig á aðstoð erlendis frá í slíkum aðstæðum. Þótt vissulega séu til bækur sem fjalla um aðstæður raunverulegra flóttamanna (hér má til dæmis nefna hina margverðlaunuðu bók Kristínar Helgu Gunnarsdóttur Vertu ósýnilegur: Flóttasaga Ishmaels sem kom út árið 2017) vekur það annars konar tilfinningar að setja sig í spor fólks á flótta í aðstæðum sem við þekkjum svo vel, fá að fylgja einhverjum sem felur sig í myrkvuðum og eyðilegum skeljasandshúsum Vesturbæjarins, beinir vasaljósi yfir rekka verslunarinnar Útilífs í Glæsibæ í örvæntingarfullri leit að hlífðarfatnaði eða verður vitni að morði á Litlu kaffistofunni.
Margt í bókunum minnir jafnframt á Dagbók Önnu Frank, sögu gyðingastúlku sem lifði, ásamt sjö öðrum einstaklingum, í felum í skrifstofubyggingu stóran hluta síðari heimsstyrjaldarinnar. Það á ekki síst við um kaflana sem gerast í Vestmannaeyjum þar sem hópur fólks býr saman í barnaskólanum og byrgir gluggana með svörtum plastpokum svo bjarminn frá sprittkertunum sjáist ekki utan frá. En jafnvel undir þessum skelfilegu kringumstæðum heldur lífið áfram, unglingar fella hugi saman og finna sér afskekkta kima til að láta vel hver að öðrum.
Kannski má segja að það gefi frásögninni aukið vægi að hún fjalli um geimveruárás. Ef eitthvað er dregur það nefnilega enn skýrar fram ómennskuna í stríðum. Það eru ekki bara geimverur sem kæfa fólk með gasi og skilja sundurtætta líkama barna og fullorðinna eftir á víðavangi – við mannfólkið eigum jú sögu um það líka.
Ýmsum spurningum er ósvarað undir lok bókarinnar. Við fáum aldrei að vita hver afdrif mömmu systkinanna verða, hvers vegna geimverurnar komu né hvaða þátt tilteknir jarðarbúar áttu í því. Segja má að þetta sé eitt af sterkustu höfundareinkennum Hildar, hún lætur lesandanum gjarnan eftir að svara spurningum og fylla upp í eyðurnar með eigin ímyndunarafli. Þetta á ekki síst við um bókaflokkinn sem fylgdi í kjölfar Vetrarfrís og Vetrarharka, þríleikinn um skápinn í bláa húsinu við Skólastræti.
Loftslagið og leikurinn
Ungmennabókin Ljónið kom út árið 2018 og segir frá Kríu sem er að hefja nám við Menntaskólann í Reykjavík. Þar kynnist hún jafnöldru sinni, Elísabetu Snæhólm Thorstensen, sem býr í lágreistu bláu húsi við hlið skólans, húsi sem hefur verið í eigu fjölskyldu Elísabetar í rúma öld. Það verður fljótlega ljóst að húsið tengist hörmulegum atburðum sem gerðust 79 árum áður en þá hafði ömmusystir Elísabetar, Sylvía Snæhólm, horfið þaðan sporlaust. Kría og Elísabet ákveða að reyna að komast til botns í málinu og taka að leita upplýsinga um það í rykföllnum skjölum og gögnum. Meðfram því lifa þær hefðbundnu menntaskólalífi, læra fyrir próf, fara á veitingastaðinn Mandi þegar þær eru þunnar eftir böll og spá í hvaða strákar í 6. bekk séu sætastir. Kría hefur reyndar takmarkaðan áhuga á því umræðuefni þar sem hún kynnist hinum dularfulla en heillandi Davíð í partýi heima hjá Elísabetu snemma í bókinni. Davíð kemur og fer eins og honum sýnist og Kríu tekst aldrei að draga neinar almennilegar upplýsingar upp úr honum um hvar hann búi eða hvað hann geri. Lesendur sem þekkja til höfundarverks Hildar hafa sennilega strax ákveðinn fyrirvara á sér gagnvart Davíð og tekur jafnvel að gruna að hann sé ekki þessa heims – og þeir reynast hafa rétt fyrir sér. Undir lok sögunnar sér Gerða, amma Kríu, mynd af Davíð í síma dótturdóttur sinnar og þekkir hann strax aftur sem drenginn sem dró bestu vinkonu hennar, Sylvíu Snæhólm með sér inn í skáp í húsinu við Skólastræti, inn í einhvers konar töfraveröld sem hún átti aldrei afturkvæmt úr. Þegar Gerða áttar sig á að Kría sé nú í slagtogi við sama unga mann tekur hún til sinna ráða og tekst undir blálok sögunnar að forða Kríu frá örlögum Sylvíu með því að bjóðast til að fylgja Davíð inn í skápinn í hennar stað.
Þegar Ljónið kom út var ljóst að um upphafið að væntanlegum í þríleik væri að ræða. Sjálfsagt ímynduðu margir lesendur sér að í næstu bók fengju þeir að fylgjast með Kríu á öðru skólaári sínu í MR og að þeirri þriðju myndi svo ljúka með útskrift söguhetjunnar, giftursamlegri björgun horfnu kvennanna og maklegum málagjöldum níðinganna. Annað átti þó eftir að koma á daginn.
Önnur bók þríleiksins, Nornin, gerist nákvæmlega 79 árum eftir að amma Gerða hvarf inn í skápinn og fjallar um Ölmu Kahn, 19 ára gamla dótturdóttur Kríu. Þegar þarna er komið sögu hafa ískaldir vindar loftslagsbreytinga sorfið landið áratugum saman, sjór flætt yfir miðborg Reykjavíkur og gríðarleg fólksfjölgun orðið vegna flóttamannastraums frá verr stöddum svæðum. Hellisheiðin hefur verið lögð undir iðnvædda matjurtaræktun – það borðar jú enginn kjöt lengur – og þar starfar Alma, fyrst sem óbreyttur starfsmaður í baunahúsinu en síðar býðst henni óvænt starf í einkagróðurhúsi vísindamannsins Olgu Ducaróvu þar sem hún kemst í tæri við jarðveg og plöntur sem hún taldi útdauðar.
Þessi áhersla á loftslagsbreytingar ætti ekki að koma lesendum Ljónsins algjörlega á óvart því þar eiga Kría og mamma hennar samtal um rannsókn sem sú síðarnefnda vinnur að um hækkun yfirborðs sjávar. Margar af þeim breytingum á umhverfinu sem þær ræða eru orðnar að veruleika í Norninni. Segja má að skáldsagan tilheyri bókmenntagrein sem gjarnan kallast „cli-fi“ á ensku, heiti sem myndað er úr orðunum „climate“, eða loftslag, og „sci-fi“, eða vísindaskáldsaga. Á íslensku er einfaldlega talað um loftslagsbókmenntir. Það sem gjarnan einkennir þess konar fantasíur er að þar er kunnuglegur heimur gerður framandi í gegnum ímyndaðar loftslagsbreytingar. Í Norninni teiknar Hildur upp mynd af Reykjavík þar sem sjór flæðir yfir Kvosina svo tengja þarf austur- og vesturhlutann með brú, háhraðalest gengur til stórborgarinnar Húsavíkur og íbúar háhýsanna á Skólavörðuholti geta horft á klukkuna á Hallgrímskirkjuturni út um gluggann hjá sér. Styrkleiki bókarinnar felst í því jafnvægi sem hér er gætt. Þótt framtíðarsýnin sé dystópísk heldur lífið sinn vanagang og fólk hefur aðlagast breyttum veruleika. Líf unga fólksins í Norninni er ekki svo frábrugðið lífi ungmenna Ljónsins, það stundar nám, fær sér skyndibita með vinum sínum í þynnku og verður ástfangið. Og þótt hið hnattræna stjórnkerfi sem komið hefur verið á, Sameinaða þjóðin, virðist við fyrstu sýn lausn alls vanda kemur annað í ljós þegar lengra líður á söguna.
Mitt i þessari áhrifaríku sviðsetningu vindur sögunni sem hófst með Ljóninu svo fram. Í flæðarmálinu í Kvosinni stendur lágreista húsið við Skólastræti í mikilli niðurníðslu. Það er nú í eigu Kríu sem er enn í fullu fjöri, þökk sé meðferð sem framlengir líf jarðarbúa. Nú þegar 79 ár eru liðin frá því Davíð dró ömmu hennar, Gerðu, inn í skápinn – jafnlangur tími og var þá liðinn frá hvarfi Sylvíu – óttast hún að hann snúi til baka og lokki Ölmu með sér. Hún gerir sitt ýtrasta til að vernda hana en allt kemur fyrir ekki. Davíð birtist að nýju en nú í gervi ungrar konu, Söru, enda er Alma samkynhneigð. Á ögurstundu tekur Kría sömu ákvörðun og amma sín forðum daga og býðst til að fara inn í skápinn í stað dótturdóttur sinnar.
Síðasta bókin í þríleiknum, Skógurinn, hefst svo nákvæmlega þar sem Norninni lýkur. Við fylgjum Kríu í gegnum skápinn og yfir í víðáttumikinn skóg. Trén standa þétt, stofnar þeirra þráðbeinir og sverir, laufin dökkgræn. Á milli þeirra skríður svört klifurjurt og á himni skín eldrauð sól. Kría virðist hafa yngst um 79 ár í þessari nýju veröld og Sara hefur aftur tekið á sig mynd Davíðs. Og nú, nú fá bæði Kría og lesendur loks svör við spurningunum sem brunnið hafa á þeim frá því þeir luku við fyrstu bókina: Hvað verður um þær sem dregnar eru í gegnum skápinn? Hvaða hlutverk hafa þær í þessum framandi heimi? Í ljós kemur að yfirboðari Davíðs þarf á lífskrafti þeirra að halda til að viðhalda sjálfum sér. Yfirboðarinn er þó ekki maður og ekki einu sinni dýr, það er skógurinn sjálfur. Skógurinn hafði birst óvænt, fyrst aðeins eitt tré en síðan fjölgaði þeim jafnt og þétt þar til þau höfðu rutt öllu öðru lífi í burt, bæði trjánum sem voru þar fyrir sem og fólkinu sem bjó innan um þau. Til að skógurinn geti haldið áfram að breiða úr sér þarf Davíð að færa honum stúlkur og hrinda þeim ofan í risastórt blóm sem vex upp úr skógarbotninum. Þótt þær ranki síðar við sér við hlið sölnaðs blómsins hefur eitthvað verið tekið frá þeim, kannski einmitt það sem gerir þær að manneskjum. Kría er um það bil að hljóta sömu örlög þegar hún er skorin úr blóminu og bjargvætturinn reynist engin önnur en amma hennar, Gerða. Saman leggja þær af stað í leit að Sylvíu og síðan ætla þær að skora skóginn á hólm.
Í Skóginum tekur loftslagsþemað því á sig breytta mynd. Hér er ekki lengur verið að ræða beinar afleiðingar hamfarahlýnunar heldur enn víðtækari málefni tengd sjálfstæðum rétti náttúrunnar, útrýmingu tegunda og sjálfbærni. Við fáum mörg dæmi um það síðastnefnda í sögunni því ákveðnir aðilar í þorpunum í kringum skóginn hafa hæfileika til að tala við náttúruna og semja við hana um hvar og hvernig þau geti nýtt gjafir hennar. Skógurinn minnir aftur á móti á aðra ágenga tegund: manninn. Báðar ryðjast þær yfir lífríkið með lítið annað í huga en eigin skammtímaþarfir og afleiðingarnar eru hörmulegar.
Femínísku þræðirnir eru líka áberandi í Skóginum, það er í það minnsta freistandi að túlka þessa neyslu á líkömum ungra stúlkna og kvenna sem vísun í kynferðisofbeldi. Þótt fórnarlömbin komist lífs af verður tilvera þeirra aldrei söm aftur. Það má jafnvel setja þetta í stærra samhengi, við hið karllæga kapítalíska hagkerfi þar sem margar konur slíta sér út í láglaunastörfum til að halda hjólum atvinnulífsins gangandi en sitja svo einar uppi með afleiðingarnar þegar líkami og sál gefur sig. Þá finnur kerfið sér nýjar konur til að þjóna sér svo það geti haldið áfram að vaxa og ryðjast yfir allt sem fyrir verður.
Aðalsmerki þríleiksins er þó ekki femínisminn heldur leikurinn – leikur höfundar og lesanda. Líkt og áður sagði gera lesendur sér kannski ákveðnar væntingar þegar þeir ljúka við fyrstu bókina, væntingar um að sú næsta fjalli um sömu persónur og gerist á nokkurn veginn sama stað og tíma. Allar eru þær þó þverbrotnar með Norninni. Eftir lestur hennar hafa sennilega flestir áttað sig á að það sé ekki á vísan að róa með þriðju bókina en margir hafa þó ef til vill talið sig geta reiknað eitt út, nefnilega titilinn. Ljónið og Nornin eru auðvitað augljósar vísanir í eitt af stórvirkjum barnabókanna, Ljónið, nornina og skápinn eftir C.S. Lewis, en þar liggur leiðin yfir í fantasíuveröldina Narníu í gegnum skáp. En þegar lokabindið kemur út heitir það alls ekki Skápurinn, heldur Skógurinn. Þannig leikur Hildur sér með væntingar lesandans og kemur honum stöðugt á óvart en um leið skilur hún ýmsar vísbendingar eftir í bókunum um það sem koma skal, vísbendingum sem hann getur dundað sér við að rekja eftir á hafi þær farið framhjá honum í fyrsta lestri. Lýsingar á gróðri og trjám eru til að mynda algengar í fyrstu tveimur bókunum auk þess sem vísað er í hamfarahlýnun í Ljóninu, líkt og áður sagði. Bækurnar snúast einnig um leik höfundar með formið því segja má að hver þeirra tilheyri sinni eigin bókmenntagrein. Ljónið er í raun nokkurs konar glæpasaga eða gátusaga, með smávegis furðusagnasnúningi undir lokin, Nornin er vísindaskáldsaga með loftslagsþema og Skógurinn hreinræktuð fantasía. Þessi fjölbreyttu efnistök gera það að verkum að hægt er að nálgast helstu umfjöllunarefni þríleiksins, náttúruna og áhrif mannsins á hana, úr ýmsum áttum og þótt bækurnar séu ólíkar mynda þær sterka hugmyndafræðilega heild.
Engin endanleg lausn fæst þó undir lok Skógarins, hvorki á loftslagsvandanum né sögunni af Kríu, Ölmu, Gerðu og Sylvíu. Við fáum heldur aldrei að vita hvers vegna skógurinn sóttist svona stíft eftir stúlkum úr tiltekinni fjölskyldu, hversu margar þeirra hurfu í gegnum í skápinn eða hvort til séu fleiri hlið milli heimanna tveggja. Þessir lausu þræðir eru settir í hendurnar á lesandanum sem fær sjálfur að flétta þá saman og binda endahnúta eins og honum hentar.
Sögur úr samtímanum
Hildur Knútsdóttir hefur jafnframt skrifað þrjár bækur ásamt Þórdísi Gísladóttur, tvær um unglingsstrákinn Dodda og félaga hans, Doddi: Bók sannleikans (2016) og Doddi: Ekkert rugl (2017), og Hingað og ekki lengra! (2020) um 8. bekkinginn Vigdísi Fríðu og vinkonur hennar, Rebekku og Geirlaugu. Þessar bækur skera sig nokkuð úr í höfundarverki Hildar. Fyrir það fyrsta má ekki greina í þeim vott af furðusögu. Þvert á móti eru þetta nokkuð hversdagslegar frásagnir af lífum unglinga, algjörlega lausar við heimsóknir geimvera eða aðra yfirnáttúrulega atburði. Í öðru lagi má segja að þær setji léttleika og húmor í fyrirrúm – nokkuð sem er almennt ekki einkennandi fyrir verk Hildar nema tískubloggsbókina Hola lovers og ljóðabókina Orðskýringar.
Það sem er einna athyglisverðast við þessar þrjár bækur Hildar og Þórdísar er hve nákvæmlega þær eru staðsettar í tíma og rúmi. Í Doddi: Bók sannleikans kemur Almar í kassanum við sögu en innan við ári áður en bókin kom út skreið myndlistarneminn Almar Atlason nakinn inn í glerkassa og hafðist þar við fyrir augum almennings í viku. Doddi: Ekkert mál hverfist aftur á móti um hneykslið í kringum Panamaskjölin. Móðir titilpersónunnar kynnist erlendum manni sem lifir dularfullu lífi og Doddi óttast að hann sé flæktur í glæpastarfsemi. Annað kemur þó í ljós þegar vinurinn birtist óvænt á sjónvarpsskjánum eitt kvöldið og er þá að taka viðtal við þáverandi forsætisráðherra, Sigmund Davíð Gunnlaugsson. Hér er því kominn sænski blaðamaðurinn Sven Bergman sem varð víðfrægur fyrir rannsókn sína á aflandsfélagi í eigu ráðherrans. Vinkonurnar í Hingað og ekki lengra! sækja loftslagsverkfallið við Austurvöll auk þess sem minnst er á hneykslið í kringum mútugreiðslur Samherja í Namibíu. Allt eru þetta mál sem líklegt er að börn og unglingar hafi heyrt um og jafnvel séð andlitum höfuðpauranna bregða fyrir á sjónvarpsskjánum kvöld eftir kvöld. Lesturinn vekur því með þeim þá tilfinningu að þau hafi verið á staðnum, að það muni kannski bara hársbreidd að bækurnar séu um þau sjálf. Engin leið er að vita hversu lengi sameiginlegar minningar á borð við þessar lifa með þjóðinni svo kannski er þetta ekki öruggasta leiðin til að skrifa sígildar barnabækur. En bækur Hildar og Þórdísar gera annað enn mikilvægara, þær endurspegla veruleika lesandans hér og nú og ef það er eitthvað sem barna- og ungmennabækur ættu að gera, þá er það einmitt það.
Þótt bækurnar um Dodda og Vigdísi Fríðu séu ólíkar öðrum verkum Hildar eiga þær þó eitt sameiginlegt með þeim: Óbilandi áhuga á samtímanum og knýjandi málefnum hans. Það gildir einu hvort Hildur beitir húmor eða hryllingi, henni tekst ævinlega að segja okkur eitthvað alveg nýtt um líf okkar hér og nú, hvort sem það felst í því að varpa ljósi á eyðileggingu lífríkisins, fjalla um kúgun kvenna eða gagnrýna stríðsrekstur. Hér er allt hið ómannlega í mannlegri tilveru undir.
Guðrún Lára Pétursdóttir, mars 2021
Til þessara greinaskrifa hlaut Bókmenntavefurinn styrk frá
Greinar
Um einstök verk
Doddi, ekkert rugl
María Bjarkadóttir: „Doddi, ekkert rugl“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Nornin
Úlfhildur Dagsdóttir: Framtíð í frjálsu falli
Tímarit Máls og menningar 2020: 81 (2): 125-128
Ljónið
María Bjarkadóttir: „Óvenjuleg Reykjavíkursaga“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Úlfhildur Dagsdóttir: „Dularfulla húsið og myrkrið í mannssálinni“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2019, 80. árg., 2. tbl. bls. 138-142
Spádómurinn
Helga Birgisdóttir: „Stundum þarf maður að berjast“
Spássían 2012, 3. árg. (sumar) bls. 5-7
Sláttur
Helga Birgisdóttir: „„Ógeðsleg, loðin og ófrumleg hæðnisrotta“: um tísku, blogg og skáldsöguna Slátt“
Spássían 2011, 2. árg. (sumar) bls. 34-35
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“ (ritdómur)
Stína 2011, 6. árg., 3. tbls. bls. 124-129
Úlfhildur Dagsdóttir: „Með hjartað á réttum stað“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Vetrarfrí
María Bjarkadóttir: „Hryllilegt vetrarfrí“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Vetrarhörkur
María Bjarkadóttir: „Heimsendir byrjar á Íslandi“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bókmenntir, sjá hér
Verðlaun
2020 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana í flokki íslenskra unglingabóka: Skógurinn
2019 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur: Ljónið
2016 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka: Vetrarhörkur
2016 - Fjöruverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka: Vetrarfrí
Tilnefningar
2021 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkur í flokki frumsaminna bóka á íslensku: Skógurinn
2020 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka: Skógurinn
2019 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka: Nornin
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka: Ljónið
2016 - Fjöruverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka, ásamt Þórdísi Gísladóttur: Doddi: Bók sannleikans!
2016 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, ásamt Þórdísi Gísladóttur: Doddi: Bók sannleikans!
Hrím
Lesa meiraSkugginn hafði skilið sig frá myrkrinu undir bakkanum. Gríðarstór bakuggi stakkst upp og klauf yfirborðið svo það mynduðust tvær straumrákir í vatnið sitt hvorum megin. Skugginn stefndi beint á Bresa sem var nú kominn út í um það bil miðja ána..Hingað og ekki lengra!
Lesa meiraSkógurinn
Lesa meiraNornin
Lesa meiraLjónið
Lesa meiraDoddi: ekkert rugl!
Lesa meiraDoddi – Ekkert rugl!
Lesa meiraDoddi – Bók sannleikans!
Lesa meiraVetrarhörkur
Lesa meira