Æviágrip
Ísak Harðarson fæddist í Reykjavík 11. ágúst 1956. Hann lauk stúdentsprófi 1977 og stundaði síðan nám við Kennaraháskóla Íslands auk íslenskunáms við Háskóla Íslands.
Ísak sendi frá sér sína fyrstu bók, ljóðabókina Þriggja orða nafn, árið 1982 og í kjölfarið fjölda ljóðabóka, smásagnasafn, skáldsögu og endurminningabók. Ljóð hans komu út í safnritinu Ský fyrir ský árið 2000 og ljóð birtust einnig í erlendum tímaritum og sýnisbókum. Ísak samdi einnig söngtexta, auk þess sem ljóð hans hafa verið notuð til tónlistarflutnings. Þá þýddi hann bækur eftir erlenda höfunda á íslensku, meðal annars skáldsöguna Taumhald á skepnum eftir breska höfundinn Magnus Mills.
Ísak lést föstudaginn 12. maí árið 2023.
Frá höfundi
Frá Ísak Harðarsyni
Skáldskapur? Það er ekkert til nema skáldskapur! – og við erum stödd í ólgandi deiglu hans miðri, og eins og allir fæ ég að grípa neista og neista, og tísta: „Sjáiði, sjáiði!“
Og Lífið hvíslar: „Sjálfur ert þú neisti í skáldskap mínum. Og kannski þú verðir að ljóði sem lesið verður á himnum...“
Ég? Lítill fugl sem flýgur aldrei hátt upp úr skóginum – en þar, rétt yfir trjátoppunum, hef ég baðast hlýjum geislum óviðjafnanlegs auga, og þar hefur litlifugl eygt Lífsfuglinn hátt hátt uppi í sindrandi heiðinu og heyrt hann gjalla Sannleikann af kærleika og Kærleikann af sannleika ... Og litlifugl sest titrandi í rjóðrið á milli trjánna og reynir að rifja upp hvert hljóð með sínu lága og mjóróma tísti.
Og sjálft er Lífið fugl sem flýgur – HEIM!
Ísak Harðarson, 2001
Um höfund
Um verk Ísaks Harðarsonar
Ísak Harðarson fæddist í Reykjavík hinn 11. ágúst árið 1956, kl. 12.52 eftir hádegi. Ísak hefur sjálfur lýst æsku sinni og uppvexti í játningabókinni, Þú sem ert á himnum, þú ert hér! (1996). Í upphafi virðist hún af sama meiði og strákabækur Péturs Gunnarssonar og Einars Más Guðmundssonar enda er Ísak af þeirra kynslóð. Hann ólst upp hjá afa sínum og ömmu á Snorrabrautinni. Þar kynntist hann stækkandi heiminum í barnaleikjum sínum þar til hann fékk inngöngu í Austurbæjarbíó þar sem Roy Rogers og aðrar hetjur svarthvíta tjaldsins tóku við honum og hann fór að drepa kúreka og indíána frá morgni til kvölds. Fermingarpeningarnir gerðu hann að manni og honum opnuðust allar dyr á Laugaveginum og fyrirmyndin Roy Rogers var allt í einu kominn með sítt hár og kallaði sig John Lennon. En þegar hasarinn er rétt að byrja í hinum bókunum og strákabókastrákarnir hlaupa áfram upp í menntaskólann staldrar drengurinn Ísak við og verður það á að líta upp í himinninn:
Ó, hversu stór var þessi himinn, hversu tómur og botnlaus og opinn – opinn
eins og galopið gin sem ætlaði að gleypa allan heiminn í einum munnbita! (51)
Og drengurinn Ísak fer að hugsa og hlusta á söng þrastanna:
Hann var allt í einu orðinn svo hjáróma, svo merkingarlaus, svo falskur. Kannski voru fuglarnir allir orðnir vitskertir? Kannski var allt lífið eitthvert merkingarlaust brjálæði og óhugnaður? (51)
Og drengurinn Ísak fer að hugsa og hugsa:
Og ég – ég var líka lygari, ég var líka að látast! Ekki vissi ég til hvers
menn voru. TIL HVERS VORUM VIÐ? Til hvers var ÉG?
Og drengurinn Ísak er ekki lengur drengur í drengjabók heldur líkari nútímaútgáfu af Job eða sr. Jóni Steingrímssyni eldklerki, kvalinn af efa, sálarangist og endalausri leit að sjálfum sér og tilgangi. Þótt hann upplifi sjálfur ekki eins miklar hörmungar og þeir, þá birtast hörmungar Jobs og sr. Jóns honum daglega á sjónvarpsskjánum. Enginn virðist hugsa eins og hann, vinirnir eru ekkert sérlega uppteknir af tilgangi lífsins og eru sáttir við að vera bara unglingar og hann reynir að spila með. Hann reynir að trúa á kærleikann án tillits til Guðs en misvel gengur að ástunda hann.
Ísak fór í Kennaraskólann og kynntist skáldskap sem var ólíkur þeirri ljóðlist sem hann hafði kynnst til þessa, skáldskapur manna sem horfðust í augu við lífið af heiðarleika. Í venjulegri kennslustund opnaðist honum heill heimur:
Skáldskapurinn varð mér brátt dýrmætt akkeri í lífsins ólgusjó. Eitt af öðru bönkuðu skáldin upp á og buðu mér að kynnast sér. Jóhann Sigurjónsson, Þorsteinn frá Hamri, Jónas Svafár, Hannes Sigfússon, Stefán Hörður, Jón Óskar, Jón úr Vör, Jóhann Hjálmarsson, Dagur Sigurðarson, Ólafur Haukur. . . listinn var ótæmandi. En einn fannst mér gnæfa yfir alla og skera sig greinilega úr. Það var Steinn Steinarr. Um tíma fannst mér hann hafa reynt og orðað allt, sem bærðist innra með sjálfum mér. (s. 71)
Maður verður skáld
Þegar þetta er ritað hefur Ísak Harðarson gefið út ellefu skáldverk: átta ljóðabækur, smásagnasafn og skáldsögu auk játningabókarinnar. Þegar ljóðabækur Ísaks eru lesnar í réttri röð undrast maður hversu sterklega þær bregðast við samtímanum. Ísak er eins og kanarífuglinn sem námumenn tóku með sér ofan í göngin, hann skynjar eitthvað í loftinu og bregst við löngu áður en aðrir finna til óþæginda. Í fyrstu bókunum stendur skáldið andspænis samtíma sem verður sífellt hraðari, flóknari, vélvæddari og grimmari, það er eins og skáldið hafi misst einhverja paradís, eitthvað hefur hrunið, brotnað eða dáið. Þrátt fyrir andlega frelsið sem mótþróinn færir skáldinu er það samt fjötrað á einhvern hátt.
Ísak Harðarson kemur fram rúmum þremur áratugum eftir að módernistarnir unnu stríðið. Hann yrkir á tímum þegar órímaða ljóðið var orðin „hefð“ og arfleifð þess hafði fest sig í sessi sem meginstraumur íslenskrar nútímaljóðlistar. Í ljóðum Ísaks merkir maður ekki sérstaklega sterk áhrif frá skáldskap sem var ortur fyrir tíma módernistanna og skáldlegar samræður við Íslendingasögur, eddukvæði, þjóðsögur eða þjóðskáldin koma sjaldan eða ekki fyrir. Í ljóðum Ísaks er líka erfitt að rekja bein tengsl við erlenda höfunda. Ísak er ekki heimsborgari í þeim skilningi sem við leggjum í það orð, framandi lauf fjúka ekki um útlenskar götur, „ort í París 1989“ gæti varla verið undirtitill á ljóði eftirhann, skáldið ávarpar ekki látna eða lifandi alheimssnillinga, og situr ekki undir pálmatré með gulan sand milli tánna og senjorítu í fanginu, yrkjandi um tarantellur og tortellíní.
En heimurinn sem birtist okkur í ljóðum Ísaks er samt langt frá því að vera séríslenskur, í ljóðum hans bregst hann við stórum heimi en yfirleitt er þetta heimurinn á skjánum, skáldið horfir á heiminn en tekur ekki þátt, heimurinn er jafn ljótur og hann birtist á skjánum og viðbrögðin eru eftir því. Ísak stígur ekki fram sem „lært“ skáld eða klassískt eins og margir fyrirrennarar hans og orðaval hans er yfirleitt hversdagslegt eða óvænt og nýstárlegt, ruglingslegt og jafnvel hálfbrjálað fremur en „vandað“ eða upphafið.
Það má segja að Ísak feti í fótspor þeirra íslensku ljóðskálda sem teljast eða hafa talist utangarðs á einhvern hátt í samfélaginu, staða Ísaks í og andspænis heiminum og mótþrói, minnir á stöðu og afstöðu, Steins Steinarrs, Dags Sigurðarsonar og jafnvel Bólu-Hjálmars, stundum með smá keim af æðinu í ljóðum Æra-Tobba og Jónasar Svafár. Ísak mætti flokka með skáldunum sem eru utan hringsins og hringiðunnar, utan við kerfi og mynstur og í andstöðu við ríkjandi hugmyndir í samfélaginu. Í ljóðunum Ísaks má oft finna djúpstæða örvæntingu og svartsýni en hún nær sjaldan að brjóta niður kraftinn eða húmorinn. Það sama á við um skáldin sem að ofan voru nefnd.
Ljóðin sveiflast frá einlægum sársauka eða harðri ádeilu og alvöru, yfir í algeran fíflaskap og jafnvel bull og kaldhæðni en stundum blandast allt saman í einn graut sem er kannski einn helsti sjarminn á ljóðum Ísaks, hann er ólíkindatól, hámenning og lágmenning blandast saman, alvara og leikur og honum tekst iðulega að koma lesendum sínum á óvart með óvæntum tengingum, orðaleikjum eða ljóðmyndum.
Fyrsta ljóðabókin
Fyrsta ljóðabók Ísaks kemur út árið 1982, um það leyti sem hugsjónaeldar áttunda áratugarins eru að slokkna, það ófrumlegasta sem skáldi gat dottið í hug í kringum 1980 var að setja í ljóð einlæga löngun sína til að breyta eða bæta heiminn og trúa að ljóðið gæti verið nothæft tæki til að útrýma fátækt og illsku.
Tónninn sem Ísak Harðarson slær í sinni fyrstu bók er ólíkur kveðskap þeirra sem komu fram um þetta leyti, tónn hans er alvarlegri og sárari. Fyrstu ljóð Ísaks eru borgarljóð, sveitin og náttúran er víðs fjarri, þetta eru eiginlega stórborgarljóð, náttúrunnar er ekki saknað og hún er ekki þráð. Borgarmyndirnar sem birtast í Þriggja orða nafni (1982), Ræflatestamentinu (1984) og Slýi (1985) eru fullar af illsku og hatri. Vegurinn til Sunnuhlíðar er týndur og allir vegir liggja til Brjálæðisins, Líkþrátt graftól Lúsífers rífur jarðkringluna og Guð hefur slökkt á sólinni vegna vanskila. Í Þriggja orða nafni er skáldið eins og opið sár, örvæntingin er samt ennþá hálf hrá og kannski full dramatísk á köflum og lítið ber enn á aðalsmerki skáldskapar Ísaks seinna meir, húmornum, orðaleikjum og sterku myndmáli. Áhrif frá Steini Steinarr eru allnokkur. Bækurnar standa nokkuð nálægt pönkinu sem braust fram í vonleysinu sem tók við af hugsjónunum, sérstaklega Ræflatestamentið og vísar titillinn beint til pönksins, ræfill er íslenskur punk. Í stað smælingjasamúðar eða gáfulegra pælinga um hugmyndakerfi og alheimslausnir finna menn flóttaleið í kæruleysinu. Í stað þess að þykjast vita allt og hafa samúð með öllum þá vilja menn ekkert vita og gefa skít í allt:
Ég vil helst vera drepinn af atómsprengju
a) Sóvétmanna á lokaðan hátt
b) Bandaríkjamanna á opinn hátt
c) Færeyinga alveg óvænt
Það er eins og kalda stríðið hafi sorfið af skáldinu einlægnina. Ræflatestamentið er heldur svartari en miklu fyndnari en fyrsta bókin. Guð skapaði Geirfuglinn í sinni mynd og nýjasta tækni og vísindi gera fátt annað en að bæta við nýjum og fjölbreyttari leiðum til að tortíma jörðinni. Dómsdagsviðbrögðum er básúnað yfir bókina en tilgangur lífsins er AUKINN HAGVÖXTUR. Ræflatestamentið er fullt af harkalegri ádeilu á Guðsa gamla og við fyrstu sýn er eins og þar yrki ekki aðeins trúlaus maður heldur einnig harður boðberi trúleysis. Öfugur kross antíkrists fyllir blaðsíðu í upphafi verksins, en á baksíðu er mynd af hönd sem hefur ritað nafn bókarinnar með blóði á útidyrahurð skáldsins. Lífsháskinn sem sagt er að sé hverju skáldi nauðsyn var raunverulegur á þessum tíma, menn héldu í alvöru að jörðin myndi splundrast fyrr en síðar. Sá sem les Ræflatestamentið í hinu vandaða ritsafni Ský fyrir ský (2000) er í svipuðum sporum og sá sem rokkar og syngur: „þið munið öll deyja!“ með afturgöngum utangarðsmanna árið 2000. Það má heillast af kraftinum og hlæja að húmornum en lífshættan er horfin, í bili að minnsta kosti.
Óli sá sól
Helstu sérstöðu Ísaks má finna í einhverju sem líkist naívisma í bland við hina ítrustu alvöru. Hann notar, nefnir, stælir eða vísar til hluta sem eru utan við þann skáldlega efnivið sem skáld höfðu til þessa hleypt inn í ljóð sín. Naívisminn birtist í fyrstu bókinni sem ofurnæmi, einlægni og jafnframt í barnslegum einföldunum en í síðari bókum er hún beisluð á mjög listrænan hátt í orðaleikjum og barnslegri bullþörf. Skáldið skilur ekki eða þykist ekki skilja heiminn, það nálgast hann eins og barn, stillir sér ekki upp við hlið spekinga og gáfumenna heldur fer þveröfuga leið, Ísak samsamar sig einföldum og barnalegum persónum, Einari Áskeli og Palla sem var einn í heiminum. Þessum persónum er síðan stillt upp í brjáluðum og flóknum og jafnvel „föllnum“ heimi. Bækur Ísaks eru flestar hverjar mjög heilsteyptar, í þeim birtist einskonar fantasíuheimur og hann er notaður sem skopstæling eða til að berja á okkar heimi og heimsmynd. Mörg ljóðin og heilu bækurnar eru eins og dystópíur eða svartar útópíur. Veggfóðraður óendanleiki kom út árið 1986. Aðalpersóna bókarinnar er Óli sem flestir ættu að þekkja betur úr lestrarbókum fyrir 6 ára börn.
ÓLI SÁ SÓL
ÞAÐ VAR ÓÐ SÓL
ÓLI SÁ BRENNANDI ÓÐA SÓL
ÓLI SÁ BRENNANDI ÓÐA SÓL Á HIMNI
Einfaldari og saklausari persónu er vart hægt að ímynda sér og syndafallið í þessum einföldu orðum verður býsna dramatískt. Óli býr í arctícu, sem er ís-land þar sem tilfinningakuldinn nálgast alkul. Það má líta á bókina sem andsvar og varnarvegg við áreiti nútímans, tækni og skynsemishyggju, ærandi fjölmiðlum og kröfum samfélagsins um að „þræða hinar upplýstu og öruggu brautir heilans“:
með heilanum gerum við ha ha ha
með vörunum gerum við bla bla bla
einn 2 III ofurlítið zpor
einnmitt þannig er veruleikur vor
Ísak blandar saman orðum, slítur þau í sundur, límir saman, slítur aftur og býr til orðamauk úr öllu saman, þarna eru barnatextar og bullutextar sem ekki eru fyrir börn og eru ekki bull. Það er eins og Ísak hafi ofnæmi fyrir tungumálinu, hann er of næmur á margræðni málsins og sprengir af sér allar hömlur þess. Venjulegur maður sem les slíkan texta nálgast hann eins og lesblindur, hann er neyddur til að grandskoða hvert einasta orð, misskilja margt og vita stundum ekki hvort að baki býr bull eða alvara. Veggfóðraður óendanleiki er eins og framhald af 1984 George Orwells, arctíca kallast á við Oceaniuríki Stóra Bróðurs. Í 1984 áttu allir að tala „newspeak“, tungumál með lágmarks orðaforða sem átti að takmarka hugsun manna. Í Veggfóðruðum óendanleika eru afbrigði af newspeak tilkynntar reglulega af hræðsluskrifstofunni:
vegna breyttra aðstæðna
hafa eftirfarandi leiðréttingar verið ákveðnar
á raunveruleikanum:„sál“ verður „hugur“
„guð“ verður „samfélag“
„himnaríki“ verður „félagsþroski“
„ég“ verður „við“
Árið 1986 var ein sjónvarpsstöð á Íslandi og tvær útvarpsstöðvar en enginn átti tölvu eða GSM síma og þá var eini rúllustiginn á Íslandi í Glæsibæ. Það er eins og ýktur raunveruleikinn og ádeilan í Veggfóðruðum óendanleika geri það að verkum að hún er dæmd til að verða klassísk, hún lýsir sífellt betur og betur hraðari og hraðari samtíma og eflaust munu fleiri og fleiri samsama sig honum Óla sem er leikfangi í arctícu. Ísak skynjar ekki aðeins hraða samtímans, heldur einnig hröðunina: Sá sem skynjar hröðunina getur reiknað út hver hraðinn verður.
Himinninn
Trúarþörfin skín í gegnum flestar bækur Ísaks allt frá því hann týndi og fann veginn til Sunnuhlíðar í fyrstu bókinni. En í Ræflatestamentinu er skáldið í uppreisn, þar er ráðist á smjaðrandi presta, guð er uppnefndur Guðsi gamli og bókin hefst á öfugum krossi. Þótt töffaraskapurinn í þeirri uppreisn gæti hafa hneykslað einhvern var þetta samt frekar „örugg“ leið, þetta var „samþykkt“ uppreisn og hneykslaði líklega fæsta lesendur bókarinnar í raun. Líklega hefur hún miklu frekar átt sterkan hljómgrunn hjá ungri, róttækri og uppreisnargjarnri kynslóð enda var það raunin og vinstrisinnaðri menntaelítu landsins hefur eflaust ekki mislíkað guðleysið. En eftir að hafa lesið Ræflatestamentið eiga menn líklega í erfiðleikum með að trúa því að sami maður semji þessar línur í Stokkseyri, án íróníu: „Ó þessi prestur,/ hann er ekkert skáld – hann yrkir/ bara sannleikann.“
Í seinni tíð teljast menn fyrst orðnir brjálaðir þegar þeir tala opinberlega um trú sína, það þykir ekki samrýmast frjálsri hugsun. En það eru fleiri vandamál á ferðinni. Hvernig á að ávarpa Guð eða yrkja um hann þegar nánast allt trúarlega tungumálið er ofnotað og merkingarlaust eða útþvælt af mærð og orðin eru klístruð af helgislepju? Hvaða merkingu hafa orð eins synd, miskunn, náð og almáttugur? Við eigum gríðarlega sterka trúarlega hefð í ljóðlist en trúin í ljóðum hvarf með ríminu. Nútímaljóðið hefur alltaf verið form efa, spurnar og trúleysis. Í hinni órímuðu hefð eru nánast engin trúarljóð til að taka sér til fyrirmyndar. Vilji menn aftur á móti efast eða trúa alls ekki má finna fjöldamörg ljóð eftir okkar bestu skáld sem tjá efann.
Það er merkilegt að með því að trúa er Ísak í rauninni í hálfgerðri andstöðu við samfélagið og jafnvel í andstöðu við lesendahópinn. Hann tekur í rauninni meiri áhættu með því að yrkja um trúna. En trúarlegar pælingar gegnsýra allar bækur Ísaks og trúin og leitin að henni virðist helsti drifkratur skáldsins. Þannig skýrist kannski samræðuleysið við íslenska hefð og erlendar heimsbókmenntir, trúarþörfin er drifkrafturinn og leitin er innávið en nútímaljóðið færir honum aðferð til að tjá hana. Ísak er meðvitaður um orðin sem ekki má nefna þegar kemur að trúarlega orðaforðanum. Hann þarf að sneiða hjá klisjunum eða vinna með þær. Hann er líka meðvitaður um að djúpar heimspekilegar hugleiðingar um eilífðina hafa engu skilað: Í Síðustu hugmyndum fiska um líf á þurru er trúarlega umræðan dýpri en nokkru sinni fyrr, hún er undir sjávarmáli og síðustu hugmyndir fiska um líf á þurru eru bráðfyndnar: Þyrsklingur spyr golþorskinn hvort þetta eilífa og endalausa haf sé í rauninni til. En auðvitað er það ekki til, þroskaði golþorskurinn hefur aldrei séð einn einasta dropa og svarið er einfalt: „Við syndum um æðar okkar sjálfra“.
Ísaki tekst að yrkja um guðdóminn, eðli hans og samband sitt við hann á sérlega frumlegan hátt. Hann leyfir sér að nota hugmyndaflugið og er óhræddur þegar kemur að myndlíkingum enda er Guð sjaldnast nefndur berum orðum. Hann þarf að lauma trúnni gegnum aðrar heilabrautir en gert er í kirkjum landsins, hann þarf að koma aftan að lesendaum sínum, hann þarf að láta menn hugsa hlutina upp á nýtt og sjá allt í nýju LJÓSI. Í ljóðinu „Himinninn snýr niður“, er himninum líkt við hund sem eltir skáldið út um allt, og fer ekki, sama hversu mikið skáldið sveiar á hann. Brátt fer lesandi að skilja að himinn er Guð sjálfur: en á kvöldin/ ber ég vonir mínar og ótta/ fyrir hann í skál undir húsvegginn.
Himinninn lepur upp allt sem er í skálinni. Þetta hlýtur að teljast nokkuð djarflega ort um mátt bænarinnar. Það má finna sterkan trúarlegan stíganda í bókunum og úr þeim má nánast lesa þroskasögu manns sem leitar að Guði og finnur. Stokkseyri er í heild sinni trúarlegt verk, í henni er heimurinn skyndilega heill, Stokkseyri séð frá jörðu speglar Stokkseyri séða frá himnum. Í Hvítum ísbirni er eins og hann nái fullum þroska, „Maður án höfundar“ er firnasterkt trúarljóð, þrungið af trúarlegri sannfæringu og það er eins og þar komi saman í einu ljóði helstu kostir Ísaks og líklega mun það standa uppúr sem eitt allra sterkasta trúarljóð 20. aldar.
Mannveiðihandbókin
Það má segja að í Mannveiðihandbókinni, fyrstu skáldsögu Ísaks, hafi skáldið sameinað alla helstu þættina úr ljóðabókum sínum. Í henni mætast friðsælt sveitalífið, sem minnir að nokkru leyti á Stokkseyri, og hin spillta borg sem er að kafna í illsku, freisingum og neyslu þótt hún sé öllu huggulegri en borgin sem birtist mönnum í Slýi (1985). Musteri borgarinnar er Rínglan, verslunarpíramídi á sjö himnum þar sem menn neyta og njóta: Úr hátalarakerfinu glymur dag og nótt: „Kortið er minn hirðir...“ Eins og í Síðustu hugmyndum fiska um líf á þurru eru mennirnir þorskhausar sem vita ekkert um líf á þurru landi. Húmorinn og myndvísin eru oft og tíðum mjög glæsileg, hugmyndaflugið er geysimikið en drifkraftur verksins er trúarsannfæring í stað leitar að tilgangi eins og í fyrri bókunum. Skáldið veit til hvers mennirnir eru og hann reynir að leiða þá á rétta braut, opna augun, þorskhausinn getur sloppið úr nótinni. Í smásagnasafninu, Snæfellsjökull í garðinum (1989) var allt miklu óljósara og falið í táknrænum vísunum og skírskotunum. Í Mannveiðihandbókinni er Jesús jafnvel ákallaður berum orðum, kraftaverk gerast og hið illa berar sig í illskufullri borginni sem illfygli og mávager. Bókin er vel skrifuð og stíllinn er stundum upphafinn og ótrúlega myndrænn en verður á köflum barnalegur í einföldunum sínum og svarthvítri skiptingu sveitar og borgar. En fyrir þá sem lifa á tímum þegar Rínglurnar soga til sín heila þjóð á einni viku þá hefðu margir gott af því að setjast niður og lesa magnaðar Rínglulýsingar Ísaks Harðarsonar.
Greinin er unnin upp úr bók minni um Ísak Harðarson, Maður undir himni og formála að ljóðasafni Ísaks Harðarsonar, Ský fyrir ský.
© Andri Snær Magnason, 2001
Greinar
Almenn umfjöllun
Andri Snær Magnason: Maður undir himni. Um trú í ljóðum Ísaks Harðarsonar Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1999
„„Ég get ekki lengur þagað um Krist“ segir Ísak Harðarson skáld um nýútkomna bók sína, „Þú sem ert á himnum, þú ert hér. Játningasaga.“
Bjarmi, 90. árg., 6. tbl. 1996, s. 16-19
Henning Emil Magnússon: „Svífa Guðs englar“
Viðtal við Ísak Harðarson um nýútkomna bók hans, „Mannveiðihandbókina“.
Bjarmi, 93. árg., 5. tbl. 1999, s. 22
Um einstök verk
Ellefti snertur af yfirsýn
Árni Davíð Magnússon: „Þrjú hjól undir bílnum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Rennur upp um nótt
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Að spýta ljósi“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 3. tbl. bls. 127-32.
Síðustu hugmyndir fiska um líf á þurru
Jón Kalman Stefánsson: „Líf á þurru landi“
Tímarit Máls og menningar, 51. árg., 2. tbl. 1990, s. 107-110
Snæfellsjökull í garðinum
Jón Karl Helgason: „Fjórir ónúmeraðir fuglar“
Skírnir, 164. árg., haust, 1990, s. 495-507
Stokkseyri
Haukur Hannesson: „Við öxl bensíndælunnar“
Tímarit Máls og menningar, 56. árg., 4 tbl. 1995, s. 125-127
Söngur guðsfuglsins
Helga Birgisdóttir: „Tíst til guðsfuglsins“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þriggja orða nafn
Vésteinn Lúðvíksson: „Vegurinn til Sunnuhlíðar“
Tímarit Máls og menningar, 44. árg., 1. tbl. 1983, s. 114-117
Þú sem ert á himnum – þú ert hér
Birna Bjarnadóttir: „Í mótsögn tilfinninga“ Um játningar Ísaks Harðarsonar
Skírnir, 172. árg., vor 1998, s. 219-237
Fleiri greinar og viðtöl við Ísak Harðarson hafa birst í dagblöðum, sjá t.d. Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2008 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Bókaþjófurinn eftir Markus Zusak (besta þýdda bók ársins)
1994 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1982 – Aukaverðlaun í Afmælissamkeppni Almenna bókafélagsins: Þriggja orða nafn
Tilnefningar
2020 - Ísnálin: Feilspor (Felsteg) eftir Mariu Adolfsson
2021 - Ísnálin: Eldum björn (Koka björn) eftir Lars Kepler
2011 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Rennur upp um nótt
Ró í beinum : Ljóðaþykkni 1982-2022
Lesa meiraRó í beinum er úrval ljóða Ísaks Harðarsonar (1956‒2023) sem hann tók sjálfur saman og gekk frá til útgáfu skömmu áður en hann lést.. . Undirtitillinn er Ljóðaþykkni 1982‒2022 og elstu ljóðin eru úr fyrstu bók hans, Þriggja orða nafn. Ljóðabækur Ísaks urðu ellefu talsins á þessum fjörutíu árum, auk safnritsins Ský fyrir ský frá árinu 2000. Fyrir þá næstsíðustu, Rennur upp um nótt frá 2009, var hann tilnefndur til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs.. . Andri Snær Magnason ritar eftirmála.Hitinn á vaxmyndasafninu
Lesa meiraEllefti snertur af yfirsýn
Lesa meiraHamingjuvegur
Lesa meiraKrakkaskrattar
Lesa meiraSíðasti hlekkurinn
Lesa meiraÆrlegi lærlingurinn
Lesa meiraHaustfórn
Lesa meiraÖreigarnir í Lódz
Lesa meira
Fyrir fallið
Lesa meiraÆvintýri
Lesa meiraSumardauðinn
Lesa meiraHvíti tígurinn
Lesa meiraDexter dáðadrengur
Lesa meira