Beint í efni

Eiríkur Örn Norðdahl

Æviágrip

Eiríkur Örn Norðdahl fæddist í Reykjavík þann 1. júlí 1978. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum á Ísafirði 1999 og stundaði síðar þýskunám í Berlín árið 2003. Auk ritstarfa hefur Eiríkur fengist við ýmis störf í gegnum tíðina, hann hefur verið leiðbeinandi í grunnskóla, málari í skipasmíðastöð, næturvörður á hóteli, stuðningsfulltrúi á sambýlum, fengist við umönnun aldraðra, káetuþrif á skemmtiferðaskipi og verið kokkur á leikskóla svo sitthvað sé nefnt. Hann er einn stofnmeðlima í Nýhil, útgáfufyrirtæki sem gaf út skáldskap ungra höfunda og stóð að auki fyrir menningarviðburðum þar sem skáldskapur ungra höfunda var í öndvegi.

Á vegum Nýhil hefur Eiríkur tekið þátt í skipulagningu fjölda hátíða og ljóðadagskráa, svo sem Nýhilkvölda í Berlín veturinn 2002 – 2003, Ljóðapartýs Nýhils um Ísland sumarið 2003, The Mugihil Vestfjarðatúrs ásamt tónlistarmanninum Mugison (Örn Elías Guðmundsson) og fjölda annarra Nýhilkvölda í Reykjavík, Berlín og á Ísafirði. Hann var framkvæmdastjóri Alþjóðlegrar ljóðahátíðar Nýhils 2005 sem haldin var í Klink og Bank og Norræna húsinu um verslunarmannahelgina og sömu hátíðar 2006 sem haldin var í Stúdentakjallaranum 10. og 11. nóvember. Fjöldi íslenskra og erlendra skálda tóku þátt í þessum hátíðum. Eiríkur Örn var einnig útgáfustjóri Traktors, undiforlags bókaútgáfunnar Bjarts á Ísafirði, sem skyldi leggja sérstaka áherslu á ferskar og skelmislegar bókmenntir innlendra sem erlendra höfunda. Þá er hann stofnandi síðunnar 

Fyrsta útgefna bók Eiríks Arnar er ljóðabókin Heilagt stríð – runnið undan rifjum drykkjumanna, sem hann gaf út sjálfur í 50 eintökum árið 2001. Árið áður hafði hann þó sent frá sér þrjár smásögur í jafn mörgum bæklingum. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur á vegum Nýhils, bæði á íslensku og ensku, auk skáldsagna. Ljóð hans hafa líka birst í safnritum og tímaritum á Íslandi og erlendis. Eiríkur Örn er ötull þýðandi og hefur bæði þýtt skáldverk erlendra höfunda á íslensku og verk af öðrum toga. Hann hlaut Íslensku þýðingaverðlaunin árið 2008 fyrir þýðingu sína á Móðurlaus Brooklyn (Motherless Brooklyn) eftir Jonathan Lethem. Að auki hefur hann skrifað greinar og pistla um bókmenntir og þjóðfélagsmál fyrir blöð og tímarit og flutti pistla í Speglinum í RÚV sumarið 2005. Meðal annars hefur hann skrifað um bækur fyrir Morgunblaðið, vefsíðuna ljóð.is, tímaritið Mannlíf og Bæjarins besta á Ísafirði og tekið viðtöl fyrir tvö síðastnefndu blöðin.  Hann er einnig afkastamikill bloggari og heldur úti síðunni norddahl.org.

Fyrsta skáldsaga Eiríks, Hugsjónadruslan, kom út árið 2004. Síðan hafa fleiri bækur fylgt í kjölfarið, m.a. skáldsagan Illska sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin 2012 og var auk þess tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs. 

Heimasíða Eiríks Arnar Norðdahl

Mynd af höfundi: Aino Huovio.