Æviágrip
Gerður Kristný (Guðjónsdóttir) fæddist í Reykjavík 10. júní 1970. Hún ólst upp í Háaleitishverfinu, gekk í Álftamýrarskóla og fór síðan í Menntaskólann við Hamrahlíð. Hún lauk B.A. prófi í frönsku með almenna bókmenntafræði sem aukafag frá Háskóla Íslands í febrúar 1992. Lokaritgerðin fjallaði um fegurðina í Les fleurs du mal eftir franska skáldið Baudelaire. Veturinn 1992 – 1993 stundaði Gerður nám í hagnýtri fjölmiðlun við Háskóla Íslands og starfsþjálfun hjá sjónvarpsstöð Danmarks Radio fylgdi í kjölfarið. Hún var ritstjóri tímaritsins Mannlífs á árunum 1998 til 2004 en er nú rithöfundur í fullu starfi.
Gerður skrifar jöfnun höndum verk fyrir börn og fullorðna og hefur sent frá sér skáldsögur, ljóð og leikrit auk annars efnis. Hún hefur hlotið margvísleg verðlaun og viðurkenningar, meðal annars fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni Litrófs í Sjónvarpinu árið 1992, Bókaverðlaun barnanna árið 2003 fyrir Mörtu Smörtu, Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness 2004 fyrir skáldsöguna Bátur með segli og allt og Blaðamannaverðlaun Íslands fyrir Myndina af pabba – Sögu Thelmu 2005. Árið 2010 hlaut Gerður Íslensku bókmenntaverðlaunin fyrir ljóðabókina Blóðhófnir, sem skáldkonan byggir á sögu nöfnu sinnar Gymisdóttur úr Skírnismálum. Unglingasaga Gerðar, Garðurinn, hlaut Vestnorrænu barnabókaverðlaunin árið 2010. Gerður hlaut Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana í flokki ljóðabóka fyrir Sálumessu 2018. Árið 2021 fékk Gerður Fjöruverðlaunin í flokki barna- og ungmennabóka fyrir bókina Iðunn og afi pönk og í flokki fagurbókmennta árið 2022 fyrir Urtu. Árið 2024 hlaut Gerður norsk bókmenntaverðlaun sem kennd eru við Alfred Anderson-Ryssts. Verðlaunin eru fyrir þær margvíslegu og stundum óvæntu tengingar á milli Íslendinga og Norðmanna sem hún hefur búið til með skrifum sínum.
Auk þessa hefur Gerður hlotið Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar og Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur.
Gerður var sæmd hinni íslensku fálkaorðu fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta árið 2021. Árið 2024 hlaut Gerður viðurkenningu Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins.
Ljóð og smásögur Gerðar hafa birst í kennslubókum fyrir grunn- og framhaldsskóla, auk þess sem ljóð hennar og smásögur eru í ýmsum safnritum og tímaritum, íslenskum sem erlendum. Bækur hennar hafa verið þýddar á ýmis mál, meðal annars á ensku og norðurlandamál.
Frá höfundi
Frá Gerði Kristnýju
Fyrir skömmu hitti ég gamla vinkonu úr menntaskóla sem rifjaði það upp fyrir mér að þegar hún hitti mig fyrst, 16 ára gamla, hefði ég kynnt mig með þessu orðum: „Hæ, ég heiti Gerður og ég er skáld.“
Ég var barn þegar ég ákvað að verða skáld og rithöfundur. Frá upphafi fannst mér sjálfsagt að ég gæti skrifað bækur enda hafði ég búið að þeirri gæfu að geta notið afbragðs barnabóka sem skrifaðar voru af slíkri list að halda mætti að þessar sögur hefðu alltaf verið til. Systurnar Astrid Helgadóttir og Guðrún Lindgren voru auðvitað í mestu uppáhaldi og þegar ég stálpaðist tóku Löbbu- og Kátubækurnar við. Góðar barnabækur eru lykillinn að áhuga mínum á bókum. Án þeirra hefði hann aldrei kviknað.
Ég sat ekki með Heimskringlu á hnjánum í sex ára bekk eins og Thor heldur las barna- og unglingabækur fram eftir öllu. Ég var orðin 16 ára þegar ég fór loks að glugga í Selmu Lagerlöf og Halldór Laxness. Satt best að segja gæti ég talið upp allar bækurnar sem ég hef lesið frá því ég var 16 ára því ég hef skrifað niður hverja einustu þeirra. Þegar litið er yfir fyrsta ár þessarar skrásetningaráráttu kemur í ljós að ég hef verið að lesa um unglinga í sleik í bókum Andrésar Indriðasonar inn á milli vígaferla í Njálu og feilnótna hjá Jökli Jakobssyni.
Þegar ég byrjaði að yrkja fannst mér sjálfsagt að sýna ljóðin mín. Mamma og kennslukonan mín urðu fyrir valinu og þeim fannst þetta „bara fínt“ hjá mér. Þá sá ég enga ástæðu til að luma á þeim neitt lengur. Krökkunum í bekknum þótti líka alveg sjálfsagt að ég gæti samið kvæði rétt eins og ein stelpan var flink í djassballet og einn strákurinn átti hest. Og það voru fleiri sem gátu skrifað. Í nestistímanum í 12 og 13 ára bekk las einn strákanna upp frumsamda sögu sem fjallaði um klósettpúka og tilraunir þeirra til heimsyfirráða. Við bekkjarsystkinin komum öll þar við sögu, enda vorum við sólgin í þessa skemmtun og emjuðum af hlátri þegar nöfnunum okkar brá fyrir. Ferill stráksins á ritvellinum varð ekki lengri enda heillaðist hann ungur af galdri tryggingastærðfræðinnar.
Ekki þarf ég að fjölyrða neitt frekar um framgang minn í menntaskóla þar sem mér fannst svo óskaplega sjálfsagt að allir vissu af því að ég orti ljóð. Og hvað með það svo sem? Ekki sáu aðrir ástæðu til að fara í launkofa með það að þeir væru í kórnum eða leikfélaginu. Fyrsta veturinn hafði ég reyndar hægt um mig en um vorið birti ég kvæði í skólablaðinu. Ég þorði samt ekki að nota mitt eigið nafn og birti ljóðið undir dulnefni. Ekki vildi þó betur til en svo að í skólanum var stúlka sem hét sama nafni og ég hafði notað. Henni hefur greinilega þótt þetta heldur vafasamur heiður því hún brást ókvæða við og í næsta blaði bað hún ljóðskáldið óþekkta vinsamlegast um að finna sér annað nafn að fela sig á bak við. Síðan hef ég notað mitt eigið nafn. Þegar ég var 23 ára fór ég að velta fyrir mér útgáfu. Maður sem ég tók mark á hafði hvatt mig til þess og ég rambaði inn á Mál og menningu með fáein ljóð í farteskinu. Fyrsta bókin mín telur aðeins 20 ljóð. Hún er svo þunn að ég fæ ekki greitt fyrir útlán hennar á Borgarbókasafninu. Bók verður víst að vera 36 síður til að teljast alvörubók. Kannski er ég sjálf heldur ekki alvöruhöfundur. Að minnsta kosti sá maður nokkur sig einhverju sinni tilknúinn til að víkja sér að mér og segja mér að ég væri ekki alvörulistamaður því ég ynni sem blaðamaður. Samt á ég bréf frá honum þar sem hann eys fyrstu ljóðabókina mína lofi.
Ég svaraði manninum engu, enda finnst mér engu máli skipta hvort fólk skrifar bækurnar sínar í hádeginu eða undir morgun, í Hagkaupssloppi eða ullarsokkum einum fata, undir ítalskri aríu eða þvottavélanið bara ef það vandar sig rétt á meðan það er að skrifa. Út á það gengur þetta nefnilega, að vanda sig. Síðan þvælist það ekkert fyrir að fólk líti á sig sem skáld.
Einn daginn kemur síðan vonandi að því að einhver annar lítur á það sem skáld – sem vandi sig.
Gerður Kristný, 2001
Um höfund
Hér að neðan má finna tvær greinar um Gerði Kristnýju. Sú fyrri er eftir Öldu Björk Valdimarsdóttur en sú síðari er eftir Veru Knútsdóttir og fjallar um kynbundið ofbeldi í verkum Gerðar Kristnýjar.
Hver drap Mjallhvíti?: Um skáldverk Gerðar Kristnýjar
Vegastikurnar bera
handbragði þínu
vitni
Það sem eftir er
leiðarinnar
les ég sjálf á kortið
um leið og ég stýri
Skáldið tamið
Upphaf vegaljóðsins „Ferð“ úr ljóðabókinni Launkofi (2000) er einkennandi fyrir verk Gerðar Kristnýjar. Í því má greina einveru, leit að sterkri sjálfsvitund og þrá eftir því að vera óháður öðrum. Konan vill gjarnan losa sig undan þeim höftum sem samfélagið leggur á hana og hafna hefðbundnu hlutskipti sínu, en andóf hennar er oft dæmt til að mistakast.
Gerður Kristný hefur aldrei verið hrædd við að skilgreina sig sem femínista. Á meðan aðrar skáldkonur sverja gjarnan af sér öll tengsl við kvenfrelsisbaráttu hefur Gerður haldið hugsjónum hennar á lofti í verkum sínum, pistlum, í dagblöðum og umræðuþáttum í sjónvarpi. (1) Þannig hefur hún vakið athygli fyrir sterkar skoðanir og þótt óvægin í gagnrýni sinni á karlveldið. Ímynd Gerðar í fjölmiðlum ber afstöðu hennar vitni og hún hefur haft sýnileg áhrif á viðtökur verkanna eins og gerist gjarnan hjá kvenrithöfundum sem ögra hefðinni. Að þessu leyti skipar hún sérstöðu í íslensku bókmenntalífi. Þessa má víða sjá merki í opinberri umfjöllun um Gerði Kristnýju, jafnt í ritdómum, viðtölum og skáldverkum samtímahöfunda.
Í umfjöllun um skáldkonuna sést vel sú þörf að sviðsetja hana sem harðskeytta kvenréttindakonu eins og sjá má af viðtali Páls Ásgeirs Ásgeirssonar við Gerði sem birtist í DV í nóvember 2000. Þar „hvessir“ Gerður augun á blaðamann, þau „skylmast yfir borðið“ og jafnvel veðurfarið ber stemningunni vitni, því þau sitja „í úrillu morgunregni“. (3) Ímynd Gerðar sem „sterkrar“ konu sem ógnar karllegum gildum brýst þannig óbeint fram í myndmáli blaðamannsins. Þessi ímynd er orðin svo rótgróin í íslensku samfélagi að Gerður, sem er aðeins liðlega þrítug, hefur verið greind sem fyrirmynd blaðakonunnar Gyðu Dísar í leikriti Hallgríms Helgasonar Skáldanótt og blaðakonu í leikritinu Vitleysingarnir eftir Ólaf Hauk Símonarson. (4) Slíkt hlýtur að vera einsdæmi fyrir svo ungan höfund.
Vegna þess að ímynd Gerðar er jafn sýnileg og raun ber vitni hafa gagnrýnendur átt í erfiðleikum með að nálgast verk hennar á sjálfstæðum forsendum. Fyrirsagnir sem tengjast Gerði gefa til kynna nokkuð einradda umfjöllun um verkin. Þannig hefur hún verið kölluð „Meistari í kvikindishætti“ (5), ritdómar um bækur hennar bera nöfn eins og „Stálkuldi“ (6) og „Óður til sterkra kvenna“ (7) og stundum eru orð Gerðar sjálfrar tekin úr samhengi og notuð sem fyrirsagnir á viðtölum: „Þessi íslenski andstyggilegi húmor“. (8) Gagnrýnendur fara heldur ekki ótroðnar slóðir í lýsingum sínum á skáldskap Gerðar. Orð eins og kaldhæðni, írónía, meinfyndni eða hæðni eru gripin feginshendi og með þeim eru stílbrögð hennar afgreidd á svipstundu. Í stað þess að hugtökunum sé beitt til að víkka út merkingu textanna eru þeir allir stimplaðir eins. Þetta takmarkar umræðuna um verkin og hefur mótandi áhrif á almennar viðtökur þeirra.
„Þegar ég dey“
„Ljóðrænasta viðfangsefnið er dauði fagurrar, ungrar konu“ sagði Edgar Allan Poe (1809-1849) og vísaði þar í aldalanga hefð í skáldskap og myndlist. (9) Skáldkonur skrifa sig oft inn í þessa hefð en úrvinnsla þeirra er þó gjarnan önnur. Í Sérherbergi veltir Virginia Woolf (1882-1941) fyrir sér harmrænum örlögum ímyndaðrar systur Shakespeares, sem hefur sömu skáldgáfu og hann. Systirin fær ekki að þroska hæfileika sína og hún flýr að heiman í leit að tækifærum. Stuttri ævi hennar lýkur með því að hún sviptir sig lífi. (10) Með sögunni um systur Shakespeares skapaði Woolf nýtt minni í bókmenntum sem hefur gefið fræðimanninum Elisabeth Bronfen ástæðu til að snúa út úr orðum Poes á þann hátt að ljóðrænasta viðfangsefni kvenrithöfunda sé dauði konu með ljóðræna hæfileika. (11) Woolf segir um systur Shakespeares: „Hún lifir í ykkur og í mér […] því mikil skáld deyja ekki“. (12) Systir Shakespeares táknar þannig möguleikann sem konur hafa til sköpunar þegar þær fá tækifæri til að þroska hæfileika sína. (13)
Í ljóðabókinni Launkofi er Gerður upptekin af ólíkum myndum dauðans. Sjálfsmorð bandarísku skáldkonunnar Sylviu Plath í febrúar 1963 er tilefni ljóðs en Plath svipti sig lífi með því að stynga höfðinu inni í ofn og hleypa á gasi. Í því tengir Gerður sig þeirri kvennahefð að yrkja um ótímabæran dauða skáldkonu. (14) Sömuleiðis er algengt að kvenskáld yrki um ímyndaðan dauða sinn eins og Gerður gerir í ljóðinu „Guð“:
Þegar ég dey
skaltu tálga
úr tönnum mínum
bítandi frostbúa til blístrur
úr beinunum
og leika á þær ýlfur í vindum
Dauðinn í þessu ljóði er virkur og lifandi, jafnvel skapandi máttur, þótt hann sé einnig harmrænn. Ekki er að finna dauðaþrá í ljóðum Gerðar ólíkt því sem sjá má hjá mörgum skáldkonum sem eru uppteknar af dauðanum. Um leið og Gerður sækir í hefðina vinnur hún úr henni á sjálfstæðan máta. Í Launkofa er einnig ort í minningu vinkonu í „Skotbolta“ og í „Bergþóru“ er dauði Bergþóru í Njáls sögu skoðaður frá nýju og kvenlegu sjónarhorni.
Ljóðin í Launkofa sækja í kristna trú ásamt því að tengjast bókmenntaarfinum, meðal annars þjóðsögum og ævintýrum. Upphafsljóðið „Skál“ er að mörgu leyti einkennandi fyrir bókina en í því kemur fram tvenns konar sköpunarsaga, kristileg og skáldleg. Vísað er í „Bikarinn“ eftir Jóhann Sigurjónsson og sköpunarsögu Mósebókar. Því mætti þó halda fram að bíblíulegt myndmál lúti fyrir heiðnu í ljóðinu „Vænghaf“ þar sem er dregin upp mynd af guði sem minnir um margt á grísku goðsöguna um Ledu og svaninn:
Á örskotsstundu
varpar Guð yfir sig
veðurhamnum
og sökkvir þér í
víðfeðmt vænghaf sitt
Í ljóðinu „kveðja frá Ararat“ er vísað í söguna af örkinni hans Nóa en örkin strandar uppi á Araratsfjöllum (1M 8.4). Örk ljóðmælanda er aftur á móti úr pappír og árarnar eru fjaðurpennar: „Árarnar legg ég til sjálf/tálga þær úr/fjöðrum fugla“. Meðal annarra ljóða sem vísa í Biblíuna má nefna „Ástarljóð“ sem tekur á sköpun Evu úr rifi Adams: „eitt þeirra/átt þú“.
Í Launkofa má einnig finna ljóð sem Gerður tengir íslenskum þjóðsögum og fornsagnastíl. Hún yrkir um afturgöngur og drauga í „Þakkir“, „Hugskot“ og „Franklín“ á meðan önnur ljóð eru í beinu framhaldi af þeim minnum og yrkisefnum sem voru ráðandi í fyrstu ljóðabók Gerðar, Ísfrétt (1994).
Í Ísfrétt sækir Gerður myndmál sitt til heiðins tíma, meðal annars til víkingatímans, Íslendingasagnanna og grískrar goðafræði. Viðfangsefni ljóðanna tengjast fyrst og fremst ástinni. Það andar þó köldu í mörgum ljóðanna eins og sést best á því að dregnar eru upp myndir af heiðnum útfararsiðum. Í „Hefnd“ drepur ljóðmælandi ástina sína, ber hana út og urðar í dauðri jörð“. Umkomulaus hefur ástin verið borin út og grafin í óvígðri mold fjarri mannabyggðum. Svipuð tákn má sjá í ástarljóðinu „Með eld“ þar sem kemur fram mynd af bálför höfðingja sem lagður hefur verið í skip sitt. Í „Ástarkveðju“ minnir þræll ljóðsins á Tollund-manninn sem fannst vel varðveittur í mómýri á Jótlandi með snöru um hálsinn:
Orðin grafa dimmar holur
þar sem áður sátu augu mín
vindar leika um varir þínar
og þreifa eftir æðaslætti
á þrælnum sem heygður skal
með herra sínum (9)
Þrællinn fylgir höfðingja sínum og er grafinn í sömu gröf. Ljóðmælandi er undirgefinn og réttindalaus þræll þess sem hann elskar.
Í báðum ljóðabókum Gerðar er að finna ljóð sem endursegja fornbókmenntirnar frá kvenlegu sjónarhorni. Harmsaga Bergþóru er sögð í Launkofa og í Ísfrétt er sjónum beint að Hallgerði langbrók í „Vísum Hallgerðar“. Í ljóðinu „Til Skírnis“ er vísað til Skírnismála sem segir söguna af því hvernig Skírnir fékk Gerði með hótunum til að fara á ástarfund Freys. (15) Eins og nafn ljóðsins gefur til kynna ávarpar Gerður (Kristný) Skírni í ljóðinu. Athyglinni er beint að valdalausri stöðu konunnar í þessum kvæðum. Medúsa í samnefndu ljóði býr þó yfir miklum krafti enda ein af Gorgonsystrum. Hún breytir mönnum í stein með því að horfa í augu þeirra.
Frost, vetur, ís og eldur eru ráðandi myndir í fyrstu ljóðabók Gerðar, eins og til dæmis má sjá má í ástarljóðunum „Ísfrétt“ og „Björg“. Samböndin í þessum ljóðum einkennast þó ekki af þeim mikla kulda sem greina má í útfararljóðunum. Hér er fremur um samspil hita og kulda að ræða og eldheit ástin bræðir ísilagða náttúruna. Í Ísfrétt er umhverfið heiðið, náttúrumyndir eru alsráðandi og ástin er mikilvæg. Í Launkofa er runninn upp nýr tími, ljóðmælandi er orðinn kristnari og yrkisefnin önnur. Þar eru dauðinn og handanveruleikinn hluti af lífinu.
Escape fyrir kvenmenn
Flandrarinn hefur lengi verið áberandi í bókmenntum. Hugtakið er tengt við franska nítjándu aldar skáldið Charles Baudelaire (1821-1867) sem er talinn hafa mótað hugmyndina um flandrarann í stórborgum nútímans. Flandrarinn er oftar en ekki listamaður sem vafrar um iðandi borgina og horfir íhugull á umhverfi sitt. Fjarri öryggi heimilis síns gefur hann sig á vald hinu ókunnuga. Hann hrífst af nútímavæðingunni og hefur af þeim sökum verið kenndur við módernismann. (16)
Feministar benda á að kvenflandrarinn hafi komið fram á tuttugustu öld þegar konur fóru að stunda búðarölt en áður voru fyrst og fremst lista- og vændiskonur einar á ferli. (17)
Hulda og hin nýrómantíska skáldímynd.“ Skírnir. Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag. Árg. 161, vor 1987, s. 65. Löng hefð er fyrir því í feminískum fræðum að tengja kven- og ferðafrelsi andlegu frelsi, til dæmis gerir Virginia Woolf það í Sérherbergi. (18)
Eins og kom fram í upphafsorðum þessarar greinar þrá kvenpersónur Gerðar Kristnýjar að vera óháðar öðrum og fara sínar eigin leiðir í lífinu. Frelsisþörfin birtist glögglega í Tinnu, aðalpersónu skáldsögunnar Regnbogi í póstinum (1996). Sagan gerist í Reykjavík, í París þar sem Tinna passar börn og skoðar sig um og í Kaupmannahöfn. Sjálfsmynd Tinnu er samfléttuð hugmyndinni um flandrarann. Textinn gefur til kynna að hún þrái að líkjast rithöfundunum Halldóri Laxness og Pétri Gunnarssyni sem bjuggu um skeið í Kaupmannahöfn og stunduðu ritstörf. Tinnu er hugsað til ferðalags þeirra og vill með flandri sínu öðlast reynslu listamannsins.
Tinna er fjarri heimili sínu líkt og venjan er með flandrara og lætur ekki einu sinni foreldra sína vita þegar hún heldur til Kaupmannahafnar: „Ég sagðist ætla að taka lest til Madridar. Ég veit ekki af hverju ég sagði Madrid. Það bara hljómaði betur en að fara til Kaupmannahafnar“ (13). Tinna vill ákaft tengja sig lífi karlflandrarans eins og hún hefur lesið um það í bókum, en verður að sætta sig við að fara „heim“ til Kaupmannahafnar fremur en að halda í lestarferðalag á meira framandi slóðir.
Þrátt fyrir að Tinna vilji vera frjáls og óháð á ferðalagi sínu er henni oft hugsað til fjölskyldu sinnar og í Kaupmannahöfn fer hún og skoðar blokkina sem pabbi hennar bjó í:
Ég finn fyrir furðulegri tilfinningu þegar ég stend allt í einu fyrir framan rauðu blokkina þar sem hann sat eitt sinn ásamt vinum sínum í hinni ómissandi lótusstellingu, hlustaði á Cohen og fékk sér te og appelsínur sem komu alla leið frá Kína. Ég hef séð þetta hús á fölnuðum ljósmyndum. Ég man sérstaklega eftir að á einni þeirra stendur pabbi minn á húströppunum með Arnar sér við hlið. (37)
Tinna nýtur þess ekki að fara frjáls ferða sinna líkt og venjan er með listamann strætisins. Hún flíkar þó ekki innri líðan sinni, heldur er lokuð, kaldhæðin og virkar jafnvel skeytingarlaus. Gefið er til kynna að heimsókn hennar til dularfulla móðurbróðursins Arnars sem býr í Kaupmannahöfn breyti sjálfsmynd hennar. Eftir að Tinna sér hvernig fjölskylda hennar lætur eins og geðsjúkdómur Arnars sé ekki til ákveður hún að hætta flandri sínu og fara heim.
Lesendur kynnast ekki tilfinningalífi Tinnu en klukkustrengur sem var gjöf frá ömmu hennar og hefur að geyma myndir af Tinnu á mismunandi aldri er táknrænn og sýnir að ferðalag hennar er sjálfsleit. (19) Í upphafi sögunnar getur hún ekki samsamað sig neinni mynd á strengnum:
Efsta myndin sýnir aldurinn sem ég er á núna. Þar situr stuttklippt kona í bleikum kjól við útvarpstæki og talar í síma […] og ég, sem alltaf hef getað bent á einhverja myndina og sagt: „Svona er ég núna“, hef ekki lengur neina mynd að benda á. (5)
Lýsingin á Tinnu undir lok sögunnar þar sem hún er í bleikum kjól, talar í síma við móður sína og segist vilja koma heim er í samræmi við myndina á strengnum á fyrstu síðu bókarinnar. Hún hugsar líka: „finnst mér ég eitt andartak minna á einhverja konu sem ég þekki. Ég man bara ekki hverja“ (139). Kannski eru þessi orð Tinnu fyrstu merki þess að hún hefur áttað sig á því að hún er ekki flandrarinn sem hún vildi vera.
Annan týndan flandrara má finna í sögunni „Escape fyrir karlmenn“ sem birtist í smásagnasafninu Eitruð epli (1998). Kvenpersónan fer í ferðalag til Suður-Frakklands með kærastanum sínum sem stingur hana af vegna þess að hún hugsar of mikið um gamlan kærasta sem býr á þessum slóðum. Persónan vill ekki vera neinum háð og fer sínar eigin leiðir líkt og fram kemur stuttu áður en kærastinn fer frá henni:
Á þriðja degi fór ég að velta því fyrir mér hvort Paul byggi enn á sama stað. Ég sagðist ætla í gönguferð daginn eftir til að athuga hvort ég fyndi húsið sem fjölskylda hans bjó í. Frikki sagði að ég gæti farið án hans. Það voru mér engar fréttir. Annað hafði aldrei staðið til. (11)
Sagan tekur á vafri hennar að degi og nóttu, ferðalagi til ókunnugs bæjar og flótta undan kærastanum sem kemur til hennar aftur. Líkt og í Regnboga í póstinum lýsir sagan þeirri gerð kvenfrelsis að geta ferðast nær afskiptalaust á milli staða. Frelsið er þó takmarkað því persónan virðist ekki hafa neitt annað að gera en ráfa um og fara frá einum kærasta til annars.
Týndar konur má víða finna í verkum Gerðar Kristnýjar. Nefna má brúðurina í leikgerðinniBannað að blóta í brúðarkjól (2000), en hún flytur ræðu frammi fyrir hópi brúðkaupsgesta en kemst svo að því í lokin að hún er á röngum stað. Einræða hennar afhjúpar brostna sjálfsmynd og óöryggi með ást mannsins sem hún er nýbúin að giftast. Brúðurin er ósamkvæm sjálfri sér og textinn gefur til kynna að hún sé búin að lifa í sjálfsblekkingu svo lengi að hún geti ekki lengur greint raunverulegt hlutskipti sitt. Eftirfarandi kafli er endurtekinn tvisvar í leikritinu sem gerir það að verkum að hér er sem undirvitund brúðarinnar afhjúpist:
Það er fyrst þegar fólk fær samviskubit að það verður skáld. Þess vegna eru til dæmdir morðingjar sem halda því fram að þeir hafi aldrei drepið neinn þótt fingraförin þeirra hafi fundist á fórnarlömbunum og það er líka til fólk sem segir að þær sex milljónir Gyðinga sem létu lífið í heimsstyrjöldinni hafi ekki verið drepnar heldur „bímaðar“ upp af geimverum og síðast en ekki síst eru til strákar úr Eyjum sem halda að þeir elski stelpu úr Árbænum. Hver er ég að banna það?
Brúðurin er skáld og líf hennar ein stór lygasaga sem hún reynir að telja sér trú um að sé sönn. Saga hennar er í rauninni harmleikurinn um konuna sem breiðir yfir þann tómleika sem étur hana að innan.
Hvað með Rue de Marianne?
Í smásagnasafni Gerðar Kristnýjar Eitruð epli koma fyrir konur sem lifa tilbreytingarlausu lífi og gera misgóðar tilraunir til að brjótast út úr því. Konur hafa löngum þurft að spyrna gegn þörfinni á að sinna kvenlegum skyldum sínum en eins og Virginia Woolf lýsir í greininni „Störf fyrir konur“ er baráttan við húsengilinn enginn hægðarleikur. Húsengillinn er samviskubit kvenna holdi klætt.
Þegar húsengillinn truflar Woolf þar sem hún skrifar ritdóm um bók eftir karl hvíslar hann í eyra hennar: „Sýndu samúð, vertu nærgætin, hrósaðu, segðu ósatt. Beittu allri þeirri kænsku og klækjum sem kyn þitt þekkir. Láttu engan vita að þú hafir sjálf skoðun á hlutunum. Vertu umfram allt hreinlynd.“ (20) Þegar Woolf sá að engillinn var farinn að stjórna skrifum hennar drap hún hann. Hann gekk aftur en hvarf að lokum á brott. Þessi dæmissaga lýsir því hvernig konur sem vilja skrifa verða að brjótast út úr kvenhlutverkinu þó að það geti reynst þeim erfitt.
Gerður Kristný lýsir í sögum sínum togstreitu kvenna við sjálfar sig og samfélag sem kúgar þær til undirgefni. Sú kvenpersóna í Eitruðum eplum sem helst nær að umbreyta daglegu lífi sínu og öðlast sterkari sjálfsmynd er Maríanna í „Rue de Marianne“. Hún tekur upp nýjan lífstíl og fer að skrifa eftir að hafa klófest kynferðisglæpamann og kvennakúgara: „Í ljósi síðustu atburða hef ég ákveðið að halda ítarlega dagbók“ (41). Bætt sjálfsmynd Maríönnu er gefin til kynna með skrifum hennar og einnig með kröfu um nafn: „ætla ég að gera alvöru úr þeirri ósk minni að nafninu á götunni minni verði breytt í eitthvað franskt. Hvað með Rue de Marianne?“ (49)
Önnur kvenpersóna sem rífur sig upp úr hversdagslegri tilvist er aðalpersóna sagnabálksins „Sögur af saumaklúbbi“. Hún á hugmyndina að frumlegu einkennismerki saumaklúbbsins og í kjölfarið fer líf hennar að breytast. Hún áttar sig á því að einn klúbbfélaginn, Maja, er karl og að hún er hrifin að henni/honum: „Á leiðinni verður mér hugsað til Maju. Ég hefði ekkert á móti því að fá að verja meiri tíma ein með henni. Helst í ró og næði, einhvers staðar langt frá öllu öðru fólki þar sem enginn getur truflað okkur“ (63). Hún getur nú breytt í samræmi við langanir sínar. Í sögunni „Sólarsystur“ verða orð hennar að veruleika þar sem hún og Maja sigla tvær saman í burtu.
Öðrum konum Eitraðra epla gengur ekki jafn vel í átökum sínum við kvenhlutverkið. Kvenpersónan í „Enginn engill“ er löðrunguð af steypuverkamanni fyrir að hafa brúkað munn vegna þess að hún gekk í óþornaða stétt. Unga konan ætlar að hefna sín, snýr aftur á staðinn þegar kvölda tekur, leggst í steypuna og gerir engil. Hann frystir og hún festist í formi engils í steypunni. (21) Hér má sjá mun vonlausari baráttu konu við húsengilinn en þá sem Woolf segir frá. Karlveldið stendur óhaggað þrátt fyrir að einstaklingarnir sýni minniháttar mótþróa.
Í Eitruðum eplum er að finna ýmsar vísanir í bókmenntaarfinn. Í „Sólarsystrum“ breytast þrjár vinkonur í svín þar sem þær flatmaga í sólinni á grískri eyju. Aðalpersónan og vinkona hennar éta eitt þeirra. Lesandinn er kominn á slóðir seiðkonunnar Kirku, dóttur sólguðs Forn-Grikkja, sem breytti fylgdarmönnum Ódysseifs í svín þegar þeir lentu á eyju hennar. Síðustu þrjár sögur Eitraðra epla eru kómískar hryllingssögur sem segja frá og sýna aflimanir og ofbeldi. Dýrið í konunni er vaknað. (22)
Þegar verk Gerðar Kristnýjar eru skoðuð má glögglega sjá að beiting hennar á íróníu er ekki einföld. Í sumum tilfellum er hún notuð til að gefa til kynna tilfinningar eða sálarástand sem verða ekki færð í orð. Þannig er komist hjá óþægilegri tilfinningasemi. Írónían hjúpar sögupersónurnar og veitir þeim skjól fyrir augum forvitinna lesenda. Að baki kaldhæðninnar glyttir í persónur sem eru ólíkar því sem ætla má við fyrstu kynni.
Til þess að eitt lítið epli komi af stað stríði, drepi prinsessu og felli mannkyn þarf einhver að eitra það. Var nornin kannski skáld?
© Alda Björk Valdimarsdóttir
Neðanmálsgreinar
(1) Sjá t.d. pistil Gerðar Kristnýjar: „Ekki dánar – bara gleymdar“. Morgunblaðið, 21. des., 1999, s. 66.
(2) Sjá til dæmis grein Irmu Erlingsdóttur um viðtökur á Simone de Beauvoir: „Hitt kynið í fimmtíu ár. Viðtökur og viðhorf í Frakklandi.“ Simone de Beauvoir: heimspekingur, rithöfundur, femínisti. Ritstj. Irma Erlingsdóttir og Sigríður Þorgeirsdóttir. Reykjavík: Rannsóknarstofa í kvennafræðum, 1999, s. 47-51.
(3) Páll Ásgeir Ásgeirsson: „Skáldskapurinn er leitin að lyginni“. DV, 18. nóv, 2000, s. 20. Þess má geta að í grein Gerðar Kristnýjar frá árinu 1999: „Ekki dánar – bara gleymdar“ gagnrýnir hún Pál Ásgeir Ásgeirsson fyrir að útliloka kvenrithöfunda í skrifum sínum um íslenskar sakamálasögur
(4) Um þetta ræðir meðal annars Páll Ásgeir Ásgeirsson í viðtalinu „Skáldskapurinn er leitin að lyginni“. Leikrit Hallgríms Helgasonar var sýnt í Borgarleikhúsinu veturinn 2000-1 og Vitleysingarnir eftir Ólaf Hauk Símonarson í Hafnarfjarðarleikhúsi á sama leikári.
(5) Sigríður Albertsdóttir: „Meistari í kvikindishætti“. DV, 7. des., 1998, s. 16.
(6) Ingi Bogi Bogason: „Stálkuldi“. Morgunblaðið, 3. maí, 1994, s. 11.
(7) Sigríður Albertsdóttir: „Óður til sterkra kvenna“. DV, 4. des., 2000, s. 18.
(8) Morgunblaðið, 22. des., 1998, s. 32.
(9) Edgar Allan Poe: „The Philosophy of Composition“. The Selected Poetry and Prose of Edgar Allan Poe. Ritstj. T.O. Mabbott. New York: Modern Library, 1951, s. 369.
(10) Virginia Woolf: Sérherbergi. Þýð. Helga Kress. Reykjavík: Svart á hvítu, 1983, s. 70.
(11) Elisabeth Bronfen: Over Her Dead Body: Death, feminity and the aesthetic. New York: Routledge, 1992, s. 404.
(12) Virginia Woolf: Sérherbergi, s. 157.
(13) Sjá umfjöllun Elisabeths Bronfen um systur Shakespeares í Over Her Dead Body: Death, feminity and the aesthetic, s. 397-8.
(14) Í ljóðinu „Sylvia Plath“ hefur nornin náð undirtökunum:
Áður en hún borar sér
inn undir bringubeinin
og hjúfrar sig upp að
hjarta þínuljúktu upp ofnhurðinni
og ýttu henni inn
Gerður vísar í ævintýrið um Hans og Grétu en hér renna nornin og skáldkonan saman.
Nafn smásagnasafns Gerðar Eitruð epli gefur til kynna svipuð tengsl við annað ævintýri en þar færir skáldkonan lesendum sínum eitruð epli.
(15) Nákvæma greiningu á myndmáli Skírnismála má finna í bók Helgu Kress Máttugar Meyjar. Íslensk fornbókmenntasaga. Reykjavík: Háskóli Íslands, 1993, s. 71
(16) Sjá t.d. vefsíðu M. Hartmann: „The Flâneur“.
(17) Janet Woolf: „The Artist and the Flâneur: Rodin, Rilke and Gwen John in Paris“. Resident Alien. Yale University Press, 1995, s. 101. Skáldkonan Kate Chopin er ein af þessum sjálfstæðu listakonum sem á síðari hluta nítjándu aldar „reykti í viðurvist annarra“ og gekk „um götur borgarinnar án fylgdar“. Sjá Guðna Elísson: „Líf er að vaka en ekki að dreyma.
(18) Virginia Woolf: Sérherbergi, sjá til dæmis s. 27 og 122.
(19) Klukkur eru algeng tákn í þroskasögum og nægir að nefna jafn ólíkar bækur og Gangvirkið [1955] eftir Ólaf Jóhann Sigurðsson, Behind the Scenes at the Museum [1995] eftir Kate Atkinson og The Life and Opinions of Tristram Shandy, Gentleman [1760] eftir Laurence Sterne.
(20) Virginia Woolf: „Professions for Women“. Women and Writing [1942]. Ritstj: Michèle Barret. New York/London: Hartcourt Brace & Company, 1979, s. 59.
(21) Taka mætti undir orð Geirs Svanssonar sem segir í ritdómi sínum um söguna: „hún er og verður engill hvort sem hún vill eða ekki.“ Sjá Geir Svansson: „Saumað að systrum“. Morgunblaðið, 15. des., 1998, s. B3.
(22) Af sögum í þessum anda má nefna hryllingssagnir Angelu Carter í The Bloody Chamber.
Kuldi, myrkur og kynbundið ofbeldi sem yrkisefni
Einn sterkur þráður í höfundarverki Gerðar Kristnýjar er kynbundið ofbeldi og ofbeldisglæpir gagnvart konum, málefni sem skáldið tók fyrir sem ritstjóri tímaritsins Mannlífs. Hún er í þeim stellingum þegar hún skrifar sögu Thelmu Ásdísardóttur, Myndin af pabba, sem teljast má tímamótaverk í íslensku samfélagi. Þegar bókin kom út árið 2005 opnaði hún augu og eyru fólks fyrir barnaníði og þeim djúpstæðu áhrifum sem kynferðisofbeldi hefur á þolendur. Í seinni tíð fara þessi mál einnig að finna sér farveg inn í ljóðagerðina og skáldskapinn og verða að yrkisefni hjá skáldinu Gerði sem hefur nú sent frá sér alls þrjá ljóðabálka sem taka á kynbundnu ofbeldi. Þetta eru ljóðabækurnar Blóðhófnir, sem hlaut Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2010 og tilnefningu til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs árið 2012, Drápa sem kom út árið 2014 og loks Sálumessa sem kom út árið 2018.
Í Blóðhófni leitar skáldið fanga í norrænni goðafræði og birtir annað sjónarhorn á efni Skírnismála sem eins og Úlfhildur Dagsdóttir bendir á hefur yfirleitt verið túlkað sem ástarljóð, eða frjósemisgoðsögn, og segja frá Skírni, skósveini Freys, sem rænir jötunmeynni Gerði til að færa goðinu Frey sem ber ástarhug til hennar. Að launum fær Skírnir sverð Freys. Í Blóðhófni er ljóðmælandi jötunmeyjan sjálf og nafna skáldsins, Gerður, sem segir lesendum söguna frá sínu sjónarhorni og hvernig Skírnir beinlínis rændi henni; hótaði henni öllu illu ef hún kæmi ekki með honum og gerðist kona Freys. Hér varpar skáldið ljósi á það ofbeldi sem felst í goðsögunni og hvernig Skírnismál fjalla fyrst og fremst um glæp og mansal. Frásögnin er endurlit, Gerður rifjar upp atburðina, hugsar hlýtt til heimajarðar sinnar í jötunheimum og hvernig Skírnir rauf þá ró sem hún lifði við:
Þegar hófar skullu
á klöppum
var sem bein brysti.
(25)
Í fyrstu lofar Skírnir henni gulli og grænum skógum, eða öllu heldur „gullepli á greinum“ (31) og skarti ef hún fylgi honum. En þegar hún neitar breytast gylliboðin í ofbeldisfullar hótanir; hann muni deyða bræður hennar, höggva föður en sjálf verði hún dæmd til eilífrar einsemdar og þjáningar ef hún fylgi honum ekki. Þegar Gerður áttar sig á að hún á engra annarra kosta völ lýsir hún því hvernig óttinn bókstaflega lamar hana:
Skelfingin
skorðaðist
í kviði mínumþandist út
og þyngdistBjarg sem
breiddi úr sérÉg lofaði að koma
Dauðan leit ég
svip minn
í sverði drengsins
(48-9).
Kuldi og myrkur einkenna umhverfið í Blóðhófni. Myrkrið rammar inn aðsteðjandi ógnina þegar Gerður er flutt til heimkynna Freys: „Vígtennt myrkrið / skreið yfir / himinhvolfið“ (87) en kuldinn, og ísinn sem honum fylgir, táknar aftur á móti harm, hryggð og söknuð eftir bjartari tímum: „Þar er landið mitt / vafið náttkyrri værð / steypt í stálkaldan ís“ (119-120). Harmurinn veldur kulda í sálinni þar sem tilfinningar liggja bældar í dvala líkt og í klakaböndum. Þessi stef myrkurs og kulda eru það áberandi í öllu höfundaverki skáldsins að greina mætti þau sem höfundareinkenni; dyggir lesendur vita hvað bíður þeirra þegar myrkur og ís taka að birtast í ljóðum og frásögnum Gerðar Kristnýjar en táknræna merkingu þessara stefja má finna í fleiri textum skáldsins.
Í Drápu er skáldið statt í nútímanum en hún hefur lýst því hvernig glæpur sem átti sér stað í Reykjavík varð kveikjan að verkinu. Hér bregður hún upp mynd af Reykjavík sem er vægast sagt óhugnanleg og segja má að myndmál kulda, íss og myrkurs nái nokkurs konar hápunkti:
Snjókorn svifu
niður á stéttinaBorgin
slegin nóttu
hvarf í kófBandóðir vindar
sátu um bæinn
sendu hryðjur
ofan í miðja byggðVetrarstríðið
var hafið
(13-14).
Borgin breytist svo í það sem skáldið kallar myrkus: „Myrkusinn / var kominn / í bæinn / steypti yfir þig / þéttriðnu tjaldi“ (20). Myrkusinn hefur tengsl við sirkus en er mun óhugnanlegri. Honum fylgja trúðar sem eru illgjarnir ofbeldismenn og hrottar, og ráðast á aðalpersónu ljóðsins, unga konu sem ljóðmælandi ávarpar í annarri persónu: Þú. Persóna sem kölluð er boxarinn bjargar konunni úr klóm trúðanna en í skjóli hans er hún allt annað en hólpin því svo virðist sem hann stýri myrkusnum: „Myrkusstjórinn / var mættur / að tyfta þig og aga / augun dimmir gígar“ (36). Húsið er ríkt tákn í skáldskap og bókmenntum þar sem heimilið er hálfheilagur íverustaður samofinn sjálfinu og hinu persónulega fjölskyldu- og einkalífi. Húsið kemur ítrekað fyrir í ljóðum Gerðar en í Drápu er hús aðalpersónunnar sokkið:
Þú veittir því
ekki athygli
fyrr en of seint
að húsið sökkVatnið ýrðist
milli fjala
fossaði inn
um glugga
(38)
Lýsingarnar á hráslagalegu umhverfinu og viðfangsefnið glæpur tengja ljóðabálkinn við bókmenntagrein norrænna glæpasagna sem stundum er kölluð nordic noir. Gerður hefur sjálf lýst því í viðtölum hvernig hana hafi langað að taka þátt í þeirri bylgju, en glæpasögur og sjónvarpsþættir frá Norðurlöndunum hafa víða átt mikilli velgengni að fagna síðustu ár. Framan af er það ekki skýrt hver það er sem mælir í ljóðinu en þegar líður á frásögnina verður nokkuð ljóst að ljóðmælandi er fallinn engill, djöfullinn sjálfur, sem ávarpar aðalpersónu ljóðsins, konu sem er þolandi í ofbeldissambandi sem að lokum leiðir til dauða hennar. Kölski fylgist með henni úr fjarlægð og hvernig örlögin leika hana grátt, en eftir dauða hennar sækir hann sálina og hefur með sér á brott.
Árið 2018 kom svo út Sálumessa, ljóðabálkur sem einnig byggir á raunverulegum atburðum og lýsir kynbundnu ofbeldi. Nánar tiltekið kynferðislegri misnotkun sem síðar leiddi til sjálfsvígs þolanda. Hér tengist viðfangsefnið blaðamannsferli skáldsins beint en hún hefur sagt frá því í viðtölum að ung kona hafi haft samband við hana þegar hún var ritstjóri Mannlífs sem vildi fá birta grein um það kynferðisofbeldi sem hún mátti sæta af hálfu eldri bróður síns í æsku og olli andlegum veikindum hennar á fullorðinsárum. Þegar blaðið var í prentun stytti konan sér aldur. Titillinn „sálumessa“ vísar í kaþólska hefð en sálumessa er flutt sálum látinna karla og kvenna til að stytta dvöl þeirra í hreinsunareldinum. Titillinn gefur því til kynna að ljóðið sé ort til minningar um konuna, minna á þá baráttu sem hún háði og ekki síst til að benda á það órættlæti sem enn ríkir um það tiltekna mál. Sálumessan hefst á því að ljóðmælandi kynnir sig og tengsl sín við aðalpersónu ljóðsins:
Lengi hef ég
dvalið með þér
í dysinniheygð eins og
hundur með
eiganda sínum
(7)
Líkt og á við um Drápu ávarpar ljóðmælandi aðalpersónuna, hina látnu konu, en ljóst er að ljóðmælandi er einhver sem tekur stöðu með konunni, hefur samkennd með henni og vill hefna hennar. Að minnsta kosti virðist ljóðmælandinn, haugbúinn, vilja að hinn seki, gerandinn sem var valdur að harmi konunnar, iðrist og að réttlætið nái fram að ganga í einhverri mynd. Rétt eins og á við um Drápu ríkir vetur í umhverfi aðalpersónunnar þegar lesendur kynnast henni og heyra af því ofbeldi sem hún varð fyrir í æsku. Þar koma fram kunnugleg stef úr öðrum verkum skáldsins:
Pollurinn
lagður svelliÞað hvein
í ísnum undan
skautum barnannaeins og
hníf væri
brugðið á brýni
(13)
Skautaferðin vísar einnig í annan eldri ljóðabálk skáldsins sem birtist undir lok ljóðabókarinnar Strandir og lýsir hvernig ís eða svell skilur tvær manneskjur að: „Það gneistar undan/ flugbeittum járnunum/ á fótum mér / Ískurlið þyrlast / í slóðina“ (79). Ásamt kuldanum og ísnum birtist hér annað stef sem kemur ítrekað fyrir í verkum Gerðar Kristnýjar og mætti lýsa sem núningi þegar tveir harðir hlutir nuddast eða slást saman. Til dæmis hnífur á brýni eða egg skauta á svelli, eins og í brotunum hér fyrir ofan, eða hófur á steini eins og í Blóðhófnum. Núningurinn vekur hroll hjá lesendum og skapar óþægindatilfinningu sem undirstrikar hversu áleitið en erfitt viðfangsefni ljóðsins er. Líkt og í Drápu er hús aðalpersónunnar notað til þess að ramma inn ástand hennar og hvernig henni líður innan veggja þess:
Hús þitt
hljótt og myrkt
sveipað
djúpum svefniGrýlukerti uxu
fyrir gluggaÞú horfðir út um
vígtenntan skolt
vetrarins.Röddin drafandi
augnlokin rökkurþung
(14)
Myrkur, ís og kuldi einkenna hús konunnar og gefa til kynna hugarástand hennar og andlega líðan en bernsku hennar er ennfremur líst sem botnfrosinni tjörn. Myndmál kuldans gefur til kynna að eitthvað verði að gera svo ísinn bráðni, og þegar hún gerir sig líklega til að heyja baráttu, segja sögu sína öðrum til varnaðar, lýsir ljóðmælandi hvernig hún mylur af sér ísinn og hristir af sér hraglið (19). Aftur á móti virðist það ekki duga og konan ákveður að „flýta fyrir sér“ eins og ljóðmælanda verður á orði. Þess vegna ákveður hann að taka upp hanskann fyrir hina látnu og halda baráttunni áfram, en það er boðberi vorsins og þíðunnar, heiðlóan sjálf, sem vekur drauginn af vænum blundi í haugnum. Örlög konunnar virðast sitja í draugnum sem segir:
Nafn þitt
næðir um
huga minnliðast
niður í munntefst á tungu
bráðnar á broddiSleppur
aldrei út.
(45)
Þegar líður á frásögnina magnast reiðin í huga ljóðmælanda og þráin eftir réttlæti:
Bálast upp
reiði mín!Bróður þinn
dæmi ég til
sjógangs
(66)
Ljóðabálkurinn er brotinn upp með skýringum á orðum úr erlendum málum sem hafa mjög sértæka og sérkennilega merkingu. Sálumessa hefst til að mynda á útskýringu á grænlenska orðinu „Iktsuarpok“ sem þýðir að „skima sífellt eftir mannaferðum“ (5). Að undanskildu fyrsta orðinu, fylgir hverri orðskýringu yfirlýsing um að það vanti tiltekin orð til að tjá tiltekna tilfinningu eða aðstæður. Á eftir skýringu á farsiska orðinu „tiámi“, sem vísar í ljómann í augum okkar þegar við eignumst vin, segir höfundur að það vanti „orð yfir skelfinguna sem hríslast eins og snjóbráð niður eftir hryggnum“ (25). Orðskýringarnar veita ekki aðeins hvíld frá frásögninni heldur varpa einnig ljósi á þá tilraun skáldsins að reyna fanga erfiða og átakanlega lífsreynslu látinnar manneskju með tungumálinu. Orðskýringarnar á sértæku orðunum benda til skapandi máttar tungumálsins og hvernig megi finna þar orð með mjög afmarkaða merkingu. En að sama skapi draga orðin sem vantar úr trúnni á mátt tungumálsins og undirstrika takmarkanir þess. Orðskýringarnar minna vissulega á að möguleikinn er til staðar en hann þarf að virkja og til þess þarf manneskjur eins og skáld. Þau gætu kannski líka tekið það að sér að túlka og greina af hverju tungumál búa til dæmis ekki yfir orði fyrir „tímann sem tekur harm að hjaðna“ (39). Að þessu leyti mætti túlka lokaorð bálksins „það vantar orð“ sem ákall eftir því að fleiri nýti sér skapandi virkni tungumálsins til að tjá óréttlæti, erfiða reynslu og það sem þar til nýlega hefur að mestu verið þagað um.
Ljóðabálkarnir þrír , Blóðhófnir, Drápa og Sálumessa eiga það sameiginlegt að vera hver og einn samfelldar frásagnir byggðar í kringum einn atburð. Þeir taka ennfremur á málefnum sem skáldinu liggur á hjarta og þykir brýnt að ræða við lesendur sína: kynbundnu ofbeldi og óréttlæti sem virðist hafa fylgt mannkyni í gegnum aldirnar, allt frá því að menn hófu að skrifa og yrkja (og vafalaust lengur). Ljóðbækurnar Höggstaðir, sem kom út árið 2007 og er því fyrirrennari þríeykisins, og fyrrnefndar Strandir frá 2012, sem fylgdu Blóðhófni en birtust lesendum á undan Drápu, eru af töluvert öðrum meiði. Hér er ekki um að ræða ljóðabálka heldur ljóðasöfn sem geyma ljóð héðan og þaðan og eru ekki eins þrungin alvöru og ljóðabálkarnir um myrkur og kuldalegu málefnin. Hér leyfir skáldið sér að taka kúnstpásu og yrkja um hversdagslegri málefni af húmor og nostalgíu. Sem dæmi um ískaldan húmor skáldsins mætti nefna „dánartilkynningu trúlausa mannsins“ í ljóðabókinni Höggstaður, en tilkynningin er myndskreytt rós í stað hins hefðbundna kross „eins og hann hafi trúað því / að eilíft líf biði hans/ í blómabúð“ (30). Ljóðmælandi er aftur á móti á nostalgískum slóðum æskunnar í ljóðinu „Safamýri“ og hér má velta því fyrir sér hvort að snjór sé ekki örugglega bara snjór:
Oft þegar ég lóna
milli svefns og vöku
undir sænginni minni
finnst mér ég hljóta að
geta séð það sama
út um gluggann
og þegar ég var barnsnjóinn hvíla
á svalahandriðinu og
nágrannann skafa
tröppurnarEnginn snjór hefur
ilmað jafn sterkt
(41)
Epli, brauðmolar og önnur ævintýri
Skáldsögur Gerðar Kristnýjar eru þrjár talsins og töluvert ólíkar ljóðabálkunum fyrrnefndu; hér er frásögnin ívið hversdagslegri og atburðir með raunsærri blæ. Bátur með segli og allt kom út árið 2004 og fjallar um unga kona sem gerist blaðamaður og tengsl hennar við fjölskylduna en faðir hennar er nýlátinn þegar frásögnin hefst. Hestvík kom út árið 2016 og fjallar um einstæða móður sem fer með syni sínum í gamlan sumarbústað foreldra sinna í Hestvík á Þingvöllum. Smartís sem kom út 2017, er þroskasaga unglingsstúlku sem elst upp í Háaleitishverfinu á níunda áratug síðustu aldar. Stíll skáldsagnanna er í ætt við agaða ljóðagerðina því hér er engu orði ofaukið og meira gefið í skyn heldur en sagt fullum fetum. Það á sérstaklega við um Hestvík þar sem höfundur bregður á leik við lesandann og teflir fram ýmsum minnum og mótífum sem vekja eftirtekt og spennu, vísa í þjóðasagna- og ævintýrahefð en hafa líka tengsl við hrollvekjur og frásagnir sem eiga að vekja óhug hjá lesendum.
Þar inn í spilar söguumhverfið. Sumarbústaðalandið er tákngervingur hins huggulega; þangað kemur fólk til að slaka á í öruggu og fallegu umhverfi, tengjast náttúrunni, fylgjast með skýjafari, vindátt og fuglunum sem koma og fara. En á kvöldin leggst myrkrið yfir eins og „myrkustjald“ (svo ég leyfi mér að vitna í annað verk skáldsins) og græna kjarrið er ekki eins huggulegt og áður. Myrkrið er svartara í sveitinni enda minna um lýsingu og öll hljóð magnast upp í þögninni – til dæmis fótatakið á pallinum fyrir utan sumarbústaðinn sem rétt heyrist í þegar aðalpersónan er að festa svefn. Þá virðist fólkið í sveitinni vera aðeins sérkennilegra en gengur og gerist, en aðalpersónan hittir til dæmis afar sérstök systkini sem búa á næsta bæ og virðast ekki kunna mannasiði. Að minnsta kosti koma þau afar undarlega fyrir og vekja tortryggni í hugum lesenda sem svo virðist fá staðfestingu þegar sonur aðalpersónunnar hverfur en systkinin sérkennilegu virðast eiga einhverja sök í því máli. Sveitin kemur líka fyrir sem annarlegur staður í Smartís, að minnsta kosti í augum aðalsöguhetjunnar sem undir lok frásagnarinnar yfirgefur heimkynnin í borginni til að heimsækja vinkonu sína í sveitinni og verður vitni að afar sjokkerandi atburði sem hún telur útskýra persónugerð sveitastúlkunnar og af hverju henni fannst hún alltaf töluvert frábrugðin henni sjálfri, borgarbarninu.
Hrollvekjur gerast jöfnum höndum í borgarumhverfi og sveit en hún er nokkuð oft kveðin vísan um sveitina og dreifbýlið sem svið óhugnaðar. Að minnsta kosti virðast glæpasagnahöfundar keppast við að finna sem afskekktast umhverfi til að gæða sögur sínar óhugnaði. En Gerður Kristný er ekki glæpasagnahöfundur þótt hún daðri ítrekað við óhugnanleg og hrollvekjandi einkenni og stef. Í Hestvík tengir höfundur ennfremur þessi stef við klassísk ævintýraminni og þjóðasagnahefð, eins og til að minna á hversu samofin þau eru sagnagerð frá upphafi. Þetta hef ég rætt um áður hér á þessari síðu en það er vert að endurtaka það; söguhetjan í Hestvík fer í göngutúr um bústaðalandið og skilar sér ekki aftur heim fyrr enn hún hafði „borðað úr öllum grautarskálum [og] lagst í öll rúmin.“ (48) Þegar hún leitar týndra barna vonar hún að þau komi „hlaupandi eins og Hans og Gréta að piparkökuhúsinu“ (90). Ævintýraminnin eru ennfremur þráður sem fylgja má og greina í gegnum höfundarverk skáldsins frá upphafi. Eins og á við um myndmál kulda og myrkurs verða þau að nokkurs konar höfundareinkennum. Þegar ljóðmælandi lýsir því hvernig konan í Drápu týnir brauðmolunum sínum, veit hygginn (eða tryggur) lesandi að hún hefur tapað áttum í „borgarskóginum“ og verður jafnvel hugsað til Hans og Grétu í Vesturbænum í samnefndu ljóði í Höggstað;
Á hverjum degi
geng ég fram á
stakan vettling
á garðveggbrauðmolar
týndra barna
í borgarskóginum
(40)
Í sömu bók birtist okkur stúlka úr ævintýri H.C. Andersens þegar ljóðmælandi í ferðaljóðinu „Norður“ lýsir bílferð yfir heiði í hvítum snjóbyl og líkir stikunum í vegarkantinum við eldspýtur sem lýsa í örskamma stund eins og þær sem litla stúlkan átti. Hér vakna hugrenningatengsl við glæpasagnirnar skandinavísku og hvort vinsældir þeirra hafi fyrst og fremst eitthvað með sögusviðið að gera, norðrið, eða hvort aðdráttarafl þeirra sé fólgið í norrænum sagnaarfi. Ævintýrin og þjóðlega hefðin kemur fyrir aftur í ljóðinu „Ævintýri á fjöllum“ þar sem fjallkonan „spennir á sig hamrabeltið“ og gerir sig klára að leika týndan þýskan ferðamann grátt – rétt áður en björgunarsveitin nær til hans. Í Blóðhófni er það svo eplið og glerkistan sem lesendur þekkja úr Grimmsævintýrinu um Mjallhvíti; fyrst er það Skírnir sem lofar Gerði gulleplum til að lokka hana með sér, en þegar hún er komin í heimkynni Freys kemur til hennar kona sem strýkur henni um vanga og gefur henni epli sem reynist eitrað svo við fyrsta bita fellur hún niður í glerkistu. Í Sálumessu lýsir ljóðmælandi látnu konunni sem „mannsdótturinni sem var fórnað“ sem vekur upp tengsl við bæði þjóðsagnahefð og við trúarlegar goðsögur gamla testamenntisins í Biblíunni. Vísanirnar gefa ljóðum og sögum fágað yfirbragð og minna lesandann á frjóan jarðveg bókmenntaarfsins sem skáldið nýtir sér óspart og ræktar áfram.
Ævintýrin eru einnig áberandi í barnabókum höfundar enda augljóst að þau laða börn og unga lesendur að lestri, sögum og bókum. Skáldið hefur verið afar ötul á því sviði en fyrsta barnabók hennar, Marta Smarta, kom út árið 2002. Land hinna týndu sokka fylgdi næst á eftir árið 2006, en bækurnar um ævintýri forsetans á Bessatöðum eru þrjár talsins: Ballið á Bessastöðum frá árinu 2007, Prinsessan á Bessatöðum árið 2010 og loks Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf sem birtist lesendum árið 2011, en titillinn einn og sér minnir á klassísk minni ævintýra. Þá má greina sterk tengsl á milli Hestvíkur og Garðsins sem kom út árið 2008, og hlaut barna- og unglingabókaverðlaun Vestnorræna ráðsins árið 2010, og Dúkku sem kom út árið 2015. Í þessum sögum er ekki allt sem sýnist. Í Garðinum virðist undarlegur draugagangur fylgja antíkstól sem faðirinn í sögunni festir kaup á og dúkka í samnefndri bók virðist hafa afar slæm áhrif á eiganda sinn svo ekki sé meira sagt. Aðalsöguhetja Garðsins er nýflutt með foreldrum sínum á Ljósvallagötuna í Reykjavík og sér yfir gamla Hólavallarkirkjugarðinn út um svefnherbergisgluggann sinn sem henni finnst ekkert allt of notalegt. Faðirinn finnur gömul bréf inn í antíkstólnum sem reynast vera skrifuð af ungri stúlku sem bjó í Reykjavík haustið 1918 þegar spænska veikin herjaði á bæjarbúa. Hér beitir höfundur draugagangi á afar áhugaverðan hátt til að tengja saman ólíka tíma. Þá fjallar Dúkka ekki aðeins um óhugnanlegar dúkkur heldur um sorg aðalpersónunnar sem nýlega hefur misst pabba sinn, viðfangsefni sem vert er að ræða við börn á öllum aldri. Vináttan er annað þema sem er áberandi í höfundarverki skáldsins, þá sérstaklega í barnabókunum, en Smartís fjallar einnig fyrst og fremst um mikilvægi vináttunnar á unglingsárunum. Umhverfið í verkum skáldsins er oft kalt og myrkt sem er ef til vill óhjákvæmilegt í sögum sem gerast á heimaslóðum þess á norðurhjara en dregur einnig fram mikilvægi þess að upplifa hlýju sem, eins og í tilviki vináttunnar, kemur innan frá.
Vera Knútsdóttir, 2018
Greinar
Almenn umfjöllun
Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson: „„Átti hún ekki alltaf inni hjá þér ljóð?“, Gerður Kristný og raddir kúgaðra kvenna“
Són, 15. árg. 2017, s. 45-61
Böðvar Guðmundsson: „Þegar séníið sýnir klærnar: um ljóð Gerðar Kristnýjar“
Tímarits Máls og menningar, 77. árg. 2. tbl. 2016, s. 75-79
Helga Birgisdóttir: „Verður meira að ljóði en áður“ (viðtal)
Spássían, 3. árg., 4. tbl. 2012, s. 23-28
Kristín Ómarsdóttir: „Því meira fannfergi því meira fjör“ (viðtal)
Tímarit Máls og menningar, 76. árg. 2015, 3. tbl., s. 41-52
„Upphefð einnar sáldrast yfir okkur allar“ (viðtal)
19. júní, 59. árg., 2010, s. 24-26
Um einstök verk
Sjá umfjallanir sem birst hafa á Bókmenntavefnum undir flipanum „Umfjallanir“ hér til hliðar.
Ballið á Bessastöðum
Arndís Þórarinsdóttir: „Skemmtilegur skýjaglópur í lausu lofti“ (leikdómur)
Börn og menning, 2011, 26. árg., 1. tbl. bls. 29-30.
Guðrún Lára Pétursdóttir: „Barnið á Bessastöðum: um Ballið á Bessastöðum eftir Gerði Kristnýju“ (ritdómur)
Börn og menning, 2008, 23. árg., 1. tbl. bls. 23-4.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Litli forsetinn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Bátur með segli og allt
Sigríður Albertsdóttir: „Svikamylla og fjölskyldudrama.“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 4. tbl. 2005, s. 114-116
Blóðhófnir
Hjalti Snær Ægisson: „Undan sverði Skírnis“ (ritdómur)
Spássían, 2010, 1. árg., haust, bls. 14.
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall: Kormákur Bragason fjallar um bækur“ (ritdómur)
Stína, 2011, 6. árg., 2. tbl. bls. 201-10.
Soffía Auður Birgisdóttir: „Gerðarmál – eða För Gerðar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 2011, 72. árg., 2. tbl. bls. 127-33.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Gullum skreytt Gerður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Drápa
Alda Björk Valdimarsdóttir og Guðni Elísson: „„Ég veit hvað höfuð þitt vó en þekki ekki síðustu hugsunina“ : ofbeldi, ábyrgð og femínísk fagurfræði í Drápu eftir Gerði Kristnýju"
Ritið, 2018, 18. árg. 3. tbl. s. 17-43
Dúkka
María Bjarkadóttir: „Ekkert venjulegar dúkkur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Eitruð epli
Heiða Jóhannsdóttir : „Eitruð epli. Tragikómedía hversdagstilverunnar“
Vera, 17. árg., 6. tbl. 1998, s. 64
Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf
María Bjarkadóttir: „Forsetinn, prinsessan og höllin sem svaf“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Garðurinn
Guðlaug Richter: „Út yfir gröf og dauða“ (ritdómur)
Börn og menning, 2009, 24. árg., 1. tbl. bls. 19-21.
Hestvík
Vera Knútsdóttir: „Óhugnaður og ævintýri sumarbústaðalandsins“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Heimskaut
Orri Matthías Haraldsson: "Gerður Kristný. Heimskaut" (ritdómur)
Són, 17. árg. 2019, s. 112-115
Halla Þórlaug Óskarsdóttir: „„Skáld er bara starfstitill“ viðtal við Gerði Kristnýju um Heimskaut, skáldskap og blaðamennsku"
Tímarit Máls og menningar 2019, 80. árg. 4. tbl. s. 7-17
Höggstaður
Böðvar Guðmundsson: „Heklað úr ull og ást“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar, 2008, 69. árg., 2. tbl. s. 115-20
Úlfhildur Dagsdóttir: „Nú tálga ég hest“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Land hinna týndu sokka
Arndís Þórarinsdóttir: „,,Hundur og stórmerki“ : um Land hinna týndu sokka eftir Gerði Kristnýju“ (ritdómur)
Börn og menning, 22. árg., 1. tbl. 2007
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Hvert skyldu sokkarnir fara?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Margrét Tryggvadóttir: „Tapað/fundið“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2007, 68. árg., 4. tbl. s. 119-22.
Sálumessa
Theresa Dröfn Njarðvík: "Gerður Kristný. Sálumessa" (ritdómur)
Són, 2018, 16.árg., s. 153-155
Guðrún Baldvinsdóttir: „Að heyja baráttu í ljóði“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Smartís
Ásta Kristín Benediktsdóttir: „Nostalgískar svipmyndir“ (ritdómur)
Tímariti Máls og menningar, 2018, 79. árg. 3. tbl. s. 125-128
Vera Knútsdóttir: „Smartís og krítískt ástand unglingsáranna“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Strandir
Auður Aðalsteinsdóttir: „Sagan endurrituð“
Spássían, 2012, 3. árg., 4. tbl. s. 9-17.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Skautasvell ljóðsins“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Regnbogi í póstinum
Berglind Steinsdóttir : „Sjálfsmyndarleit“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 3. tbl. 1997, s. 111-14
Soffía Auður Birgisdóttir : „Regnbogi í póstinum“
Vera, 15. árg., 6. tbl. 1996, s. 38-39
Verðlaun
Verðlaun
2024 - Norsk bókmenntaverðlaun kennd við Alfred Anderson-Ryssts
2024 - Viðurkenning Rithöfundasjóðs Ríkisútvarpsins
2023 - Fjöruverðlaunin fyrir ljóðabókina Urtu
2021 - Fjöruverðlaunin. Iðunn & afi pönk. Í flokki barna- og ungmennabóka
2020 - Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
2018 - Bókmenntaverðlaun starfsfólk bókaverslana. Sálumessa. Sem ljóðabók ársins
2010 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Blóðhófnir
2010 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Blóðhófnir. Sem ljóðabók ársins
2010 – Vestnorrænu barnabókaverðlaunin: Garðurinn
2010 – Ljóðaverðlaun Guðmundar Böðvarssonar og Ingibjargar Sigurðardóttur
2008 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Garðurinn. Sem barnabók ársins
2005 – Blaðamannaverðlaun Íslands: Myndin af pabba. Saga Thelmu
2005 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Myndin af pabba. Saga Thelmu. Sem besta ævisagan.
2004 – Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness: Bátur með segli og allt
2003 – Bókaverðlaun barnanna 2002: Marta smarta
1998 – Þriðju verðlaun í smásagnakeppni Vikunnar
1992 – Fyrstu verðlaun í ljóðasamkeppni Litrófs
1987 – Þriðju verðlaun í ljóðasamkeppni Þjóðviljans
1986 – Fyrstu verðlaun í smásagnasamkeppni Ríkisútvarpsins
Tilnefningar
2024 - Barnabókaverðlaun Reykjavíkurborgar, þýðing á Múmínálfunum og hafshljómsveitinni
2018 - Maístjarnan: Sálumessa
2018 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sálumessa
2012 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Blóðhófnir
2011 – Fjöruverðlaunin. Bókmenntaverðlaun kvenna: Blóðhófnir
2007 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Höggstaður
Iðunn & afi pönk
Lesa meiraHeimskaut
Lesa meiraSálumessa
Lesa meiraDrápa: A Reykjavík Murder Mystery
Lesa meiraSmartís
Lesa meiraHestvik
Lesa meiraDrapa
Lesa meira
Múmínálfarnir og hafshljómsveitin
Lesa meiraMúmínpabbi óskar þess eins að lenda í ævintýrum og hann fær alla sína drauma uppfyllta þegar Hafshljómsveitin siglir um höfin. En besta ævintýrið bíður múmínfjölskyldunnar heima.Brúnar
Lesa meira