Beint í efni

Gunnar Theodór Eggertsson

Æviágrip

Gunnar Theodór Eggertsson er fæddur þann 9. janúar 1982 í Reykjavík. Hann er rithöfundur, fræðimaður og tónlistarmaður.

Hann lauk BA prófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands árið 2005, MA prófi í kvikmyndafræði við Háskólann í Amsterdam árið 2006 og loks Doktorsprófi í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands árið 2016.

Gunnar skrifar skáldsögur fyrir börn, unglinga og fullorðna, auk þess að hafa sent frá sér nokkrar smásögur og barna og unglingabækur fyrir Menntamálastofnun.

​Gunnar hefur skrifað greinar um ýmis fræðileg málefni, þó með sérstakri áherslu á dýr og ritstýrði og sá um útgáfu á smáritinu Köttum til varnar sem kom út hjá JPV/Forlaginu til styrktar Kattholti. Í því riti á hann ‚heimspekilega hugleiðingarsmásögu‘ „Kettirnir í Chernobyl“. Hann hefur starfað sem stundakennari við Háskóla Íslands og haldið fjölda fyrirlestra bæði innan lands og utan, auk þess að hafa starfað sem kvikmyndarýnir og pistlahöfundur á Rás 1, RÚV.

Smásagan „Vetrarsaga“ (2005) hlaut Gaddakylfuna, fyrstu verðlaun í hryllingssmásagnakeppni Hins íslenska glæpafélags.

Árið 2008 hlaut hann Íslensku barnabókaverðlaunin fyrir Steindýrin.

Sem tónlistarmaður er hann píanóleikari og tónsmiður með hljómsveitinni Malneirophrenia síðan 2004.

Sjá nánar á heimasíðu Gunnars, gunnaregg.com