Æviágrip
Sölvi Björn Sigurðsson fæddist 7. október 1978 á Selfossi þar sem hann bjó til ellefu ára aldurs en hann ólst síðan upp í Kópavogi og Reykjavík. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík 1998, stundaði nám í frönsku við Université Paul Valery í Montpellier í Frakklandi 1999 og lauk B.A. prófi í íslensku og bókmenntafræði frá Háskóla Íslands 2002. Eftir það stundaði hann nám í útgáfufræðum við University of Sterling og útskrifaðist þaðan með M.litt gráðu í Publishing Studies 2005. Sölvi hefur töluvert dvalið erlendis, á Spáni og í Englandi auk Frakklands og Skotlands. Hann hefur stundað ýmis störf auk ritstarfa, meðal annars selt bækur, passað kirkjur, smíðað glugga, skráð fornleifar og litið eftir þjóðminjum.
Sölvi hefur töluvert fengist við ritstjórn, hann út bókmenntatímaritið Blóðberg ásamt Sigurði Ólafssyni 1998 og af öðrum ritstjórnarverkum hans má nefna Ljóð ungra skálda sem Mál og menning gaf út 2001 þar sem hann fetar í fótspor Magnúsar Ásgeirssonar sem ritstýrði frægri bók með sama nafni 1954. Fyrsta frumsamda bókin sem Sölvi gaf út er ljóðabókin Ást og frelsi frá árinu 2000. Síðan hefur hann sent frá sér fleiri ljóðabækur og skáldsögur auk þýðinga. Hann hefur einnig skrifað greinar og birt skáldskap og þýðingar í blöðum, tímaritum og safnritum og tekið þátt í bókmenntahátíðum hér heima og erlendis, meðal annars H.C. Islandus hátíðinni í Kaupmannahöfn 2005 og The Leith Festival í Edinborg sama ár.
Sölvi Björn Sigurðsson býr í Reykjavík.
Útgefandi: Mál og menning
Um höfund
Þjóðleg fegurð og beinskeyttur ljótleiki – um Sölva Björn Sigurðsson
„Get ég aðstoðað? Sagði Stelpan á Skiptiborðinu sem var klædd í dökkbláar gallabuxur og rauðan, lítillegan upplitaðan bol frá vetrarólympíuleikunum í Vancouver.
„Ég veit það ekki,“ sagði ég afsakandi. Ég var eins hreinskilinn og hægt var: Ég vissi það raunverulega ekki. „Svo ég segi eins og er þá vonaðist ég til að þú segðir mér hvers vegna ég er hér.“
„Hafðu ekki áhyggjur, við erum alltaf að fá fólk sem veit ekki hvað það vill.“
Ég kunni vel við þessa stelpu, hún virtist merkilega laus við að vera … þjóðleg.
„Þér finnst ég ekki vera þjóðleg?“ spurði stelpan og gerði mér bilt við.
„Lestu hugsanir?“
„Að sjálfsögðu. Ég er Stelpan á Skiptiborðinu.“
Að sjálfsögðu, hvernig lét ég.
(Fljótandi heimur (2006), bls. 8)
Greina má tvær meginraddir í gegnum höfundaferil Sölva Björns Sigurðssonar. Annars vegar er það hefðbundin rödd sem viðheldur klassískum minnum og einkennist af skrúðugu málfari og nostalgískum blæ. Hægt væri að lýsa þessari hefðbundnu rödd sem „þjóðlegri“, sérstaklega þegar litið er til efnistaka þeirra sagna þar sem Sölvi beitir henni. Oftar en ekki vísa þær að einhverju leyti til menningar og fortíðar Íslendinga. Í brotinu hérna að ofan úr Fljótandi heimi (2006) má sjá dæmi um seinni röddina í skáldskap Sölva og skilin á milli raddanna tveggja. Sögumaðurinn fjarlægir sig frá orðinu „þjóðleg“ og leggur neikvæða merkingu í það. Mótvægið við þjóðlegu röddina er beinskeytt og meinhæðin rödd sem dregur fram lesti okkar mannanna og undirstrikar hversu ófullkomin og óskiljanleg tilvera okkar er. Það er ungskálda- og angistarlegur bragur yfir seinni röddinni og ákveðin óvægni þegar kemur að fjalla um myrkari hliðar tilverunnar. Sölvi er fjölhæfur rithöfundur og hæfileikaríkur í notkun sinni á tungumálinu, hvort sem það er í bundnu eða óbundnu máli. Segja má að Sölvi Björn brjóti ekki upp hefðina í skáldskap sínum – sem samanstendur meðal annars af ljóðabókum, skáldsögum, þýðingum og fræðibókum – þess í stað leikur hann eftir reglum hefðarinnar en reynir á þolmörk hennar og stekkur á milli þjóðlegrar fegurðar og beinskeytts ljótleika, og ægir þeim jafnvel saman.
Hið gamla góða: Selfoss, kartöflur og fornir meistarar
Fyrsta skáldsaga Sölva Björns Radíó Selfoss (2003) er nokkuð hefðbundin uppvaxtarsaga. Þar segir frá sögumanninum Sigurði Óla sem er nýfluttur með fjölskyldu sinni frá Danmörku til Selfoss, þar sem hann kynnist besta vini sínum Einari Andrési. Sagan spannar æsku Sigurðar Óla, allt frá leikskólaárunum fram á þrítugsaldurinn. Frásögnin ber með sér nostalgískan blæ og er skrifuð í enduminningastíl. Heimurinn var einfaldari áður fyrr og skýrari, en um leið meira töfrandi. Í augum barns á Selfossi á níunda og tíunda áratugnum voru hversdagslegir hlutir sveipaðir dulúð. Í endurminningum Sigurðar Óla býr útvarpið yfir kyngimögnuðum möguleikum, nærumhverfið á Selfossi er framandi, útlönd takmarkast við Norðurlöndin og tónlist er gædd yfirnáttúrulegum eiginleikum. Þrátt fyrir að eiga lýsa upplifun barns er stíllinn í Radíó Selfoss ekki laus við skrúð:
Þetta bar þannig til að ég veiddi eitt sinn væna bleikju nærri steyptu klóakröri ofarlega á Fagurgerðissvæðinu. Það hafði verið lítið um aflabrögð neðar þar sem vatnið var ferskara og því höfðum við fært okkur á sjálft rörið og kastað beint út í skólpið.
(Radíó Selfoss, bls. 52)
Orðavalið og stíllinn er fullorðinslegur frá upphafi sögunnar og verður því ansi skondinn í bland við skynjun sögumannsins á umheiminum sem er barnsleg og oft byggð á misskilningi. Sigurður Óli túlkar til að mynda „andleysi“ föður síns, sem er angistarfullur tónlistamaður, sem asma og skilur ekki af hverju fullorðna fólkið tekur það nærri sér að vera kallað „mannó minn“ (mannsómynd). Þrátt fyrir kímnina leynist þó mikil sorg undir yfirborði sögunnar – foreldrar yfirgefa börn sín, fólk stríðir við áfengissýki og berst við eigin kynhneigð – en barnslegt skilningsleysi sögumannsins veitir ákveðna fjarlægð frá alvarleika þeirra vandamála sem hrjá fólkið í lífi Sigurðar Óla.
Í Radíó Selfoss koma fram ýmis stef sem eru endurtekin í seinni verkum Sölva. Eitt það helsta er ástríða Sölva fyrir stangveiðum. Sjá má ítarlegar lýsingar á veiðferðum Sigurðar Óla sem eins konar undanfara að veglegu tvíburabókunum Stangveiðar á Íslandi (2013) og Íslensk Vatnabók (2013) sem Sölvi skrifaði tíu árum síðar. Þrátt fyrir að flokkast til fræðirita er erfitt að undanskilja þessi verk í umfjöllunum um skáldskap Sölva. Milli tilvitnana í Egils sögu og sögu stangveiða í gegnum goðsögur og önnur rit má finna fallegar hugleiðingar um veiðimennskuna. Sölvi dregur upp mynd af stangveiðum sem eins konar hugleiðslu þar sem kyrrð náttúrunnar og tærleiki vatnsins lyftir einstaklingnum upp á nýtt tilvistarsvið. Stangveiðina mætti kalla eitt af þjóðlegu yrkisefnum Sölva vegna tengingar hennar við sameiginlega sögu og menningu Íslendinga, eins og Sölvi rekur í fræðitextum sínum.
Í fjórðu skáldsögu sinni, Gestakomur í Sauðlauksdal ** (2011), varpar Sölvi nýju ljósi á fortíð Íslands. Sögumaður og aðalpersóna sögunnar er Björn Halldórsson sem var prestur í Sauðlauksdal á átjándu öld. Björn var einn helsti talsmaður upplýsingarstefnunnar á sínum tíma á Íslandi og afrekaði margt í þágu þjóðarinnar. Þrekvirki Björns í kartöfluræktun er undirstaðan í bók Sölva og meginefni hennar er dýrleg veisla sem hann ætlar að halda handa sveitungum sínum til að kynna þá fyrir fjölbreyttari möguleikum í matargerð, í þeirri von að hjálpa löndum sínum sem hafa þurft að líða skort í gegnum tíðina. Þetta kann að hljóma fyrir mörgum sem óáhugavert upplegg fyrir skáldsögu enda er Sölvi að kafa í þann hluta fortíðarinnar sem margir Íslendingar eru ekki sérlega spenntir fyrir að rýna í. Í stað þess að leyfa okkur að baða okkur í víkingaljómanum sem vaknaði á góðærisárunum og er viðhaldið af ferðamannaflóðinu í kjölfar kreppunnar beinir Sölvi sjónum sínum að mögru árum Íslendinga og óglamúrvænum byltingum og hugsjónum:
Kartaflan mín sú hin kóngska er ekki einungis forðarík royalis kartafla heldur líka svört kartafla með móleitu holdi og litverp, sem sjálfur regnboginn kafaður í mósku. Mér er sagt þar megi sjá melgresur í roðaskuggum, glitbylgjur á kafgulu túni; þar nem ég saft moldarinnar og finn á allri hennar áferð gnægt þeirrar jarðar sem var sköpuð til gjafar og ástúðar þetta er kartafla lífsins, morgundagur Íslands, eyðing alls sultar.
(Gestakomur í Sauðlauksdal, bls. 39)
Þjóðlega röddin er skrúfuð í botn í Gestkomum þar sem Sölvi undirstrikar mikilvægi starfa Björns fyrir íslensku þjóðina og sýnir um leið fram á leikni sína í notkun tungumálsins. Barátta sögumannsins við eymdina á Íslandi ómar í hverri setningu en einnig vissa Björns um eigið ágæti. Setningarnar eru kjarnyrtar með latínuslettum að hætti menntamanna og upphafið af hátíðleika tilfinningaríks myndmáls. Stíllinn er ekki aðeins upplagður til að skimast inn í líf átjándu aldar Íslendings, heldur nær hann nýjum hæðum í löngum og listilegum matarlýsingum. Lesandinn fær vatn í munninn af heljarinnar upptalningum af öllu því góðgæti sem Björn og heimilsfólk hans þróar fyrir veisluna miklu.
Ljóðlist Sölva er margslungin og erfitt er að festa hana undir aðra hvora röddina, enda á hann fjölbreytt höfundarverk að baki. Sölvi hefur tekist á við hefðbundnari og formfastari ljóðagerð og er vel að sér í klassískri ljóðlist, en hann hefur meðal annars þýtt ljóð eftir Shakespeare, Rimbaud, Baudelaire, Byron lávarð og John Keats. Sölvi hóf ljóðaþýðingar snemma og finna má þýdd ljóð í bland við hans eigin í ljóðabókunum Vökunætur glatunshundsins (2002) og 50 ½ sonnetta (2015) og heila bók tileinkaða þýðingum á sonnettum Keats árið 2000. Mikill munur er á ljóðabókum Sölva, bæði hvað varðar stíl og efnistök. Fyrsta ljóðabók hans, Ást og frelsi (2000), er með nokkuð hefðbundnum ljóðum þar sem mikið er um formfestu á borð við endarím og ferskeytlur, en einnig nokkur frjálslegri ljóð. Eins og titill bókarinnar gefur til kynna er ástin í fyrirrúmi en ekki endilega á þann jákvæða máta sem ætla mætti. Í mörgum ljóðunum virðist valið standa á milli ástarinnar og frelsis, þar sem ástin er skilgreind út frá ánauð ástarsorgarinnar. Þrátt fyrir örlítið dimman tón kemst Ást og frelsi ekki með tærnar þar sem Sláturtíðin (2012) hefur hælana í drunga. Sláturtíðin er tilraunakenndari og strípaðri í stíl en fyrri ljóðabækur Sölva og mun hvassari. Ljóðin eru ekki lengur ljúfsár heldur nístandi sársaukafull þar sem ráðist er að kjarnanum, kviku lífsins, beint að holdinu sjálfu:
hingað flykkjumst við
veðruð kjötstykkin
til móts við ómótstæðileg tilboð
með langgróið þol gagnvart myrkri & depurð
sem reisir við lík eftir lík upp úr svíðandi morgnumhér lifum við taktföst í rokki mánans & fjörunnar
spunnin til móts við stjörnur í ullarpeysum ljósanna
teygjum okkur náköld í ljáinn & mörinn sem orkar
enn nýjum degi & vekur okkur dauð inn í birtuna(Sláturtíðin, bls. 7)
Árið 2015 gaf Sölvi svo út tvær ljóðabækur sem fóru enn aðrar leiðir. Kristalsaugað er eins konar þjóðsaga, öll ljóð bókarinnar mynda eina frásögn þar sem náttúrumyndmál er áberandi. Sama ár kom út 50 ½ sonnetta þar sem finna má fjölbreyttar sonnettur sem Sölvi samdi í tengslum við menningarnótt árið 2014, ásamt þýðingum. Í sonnettunum má finna óð til sundfata, ketti sem baka pönnukökur, vini og fjölskyldu skáldsins, veiðimennsku og alþingiskosningar. Í inngangi verksins rekur Sölvi hugmyndirnar á bakvið hverja sonnettu ásamt því að rýna í þær breytingar sem hafa orðið á ljóðgerð hans. Í fyrstu var Sölvi uppteknari af forminu og hvort ljóðin gengu upp í hverjum brag, en í seinni tíð hefur losnað um formfestuna:
Það má líka alveg velta því fyrir sér hvort yfirhöfuð sé ástæða til að halda mjög fast í formið, jafnvel þótt við það sé stuðst. Þegar öllu er á botninn hvolft er sonnetta einskis virði ef hún skemmtir ekki lesandanum eða vekur hið minnsta hjá honum einhver þolanlegri hughrif en til dæmis það að vakna of seint í flug. (50 ½ sonnetta, bls. 5)
Komin er hreyfing á ljóð Sölva og hann nýtir sér reglur hefðarinnar en lætur þær ekki lengur takmarka sig. Enn hafa ekki öll ljóðaskrif Sölva verið upp talin. Árið 2005 gaf Sölvi út einstakt verk sem sameinar að miklu leyti tvær meginraddirnar í skáldskap Sölva.
Beinskeyttir heimsósómar: Dante á djamminu, Murakami og dauði ástvina
Gleðileikurinn djöfullegi (2005) er tvöhundruð blaðsíðna söguljóð ort í þríhendu, líkt og frægt verk Dante Alighieri frá fjórtándu öld, Gleðileikurinn (guðdómlegi). Samruni verður á milli þjóðlegu og beinskeyttu raddarinnar í Gleðileik Sölva þar sem formið er skýr vísun til hefðarinnar – líka til þeirrar íslensku þar sem Sölvi notast við yngri tegund þríhendunnar sem er helst tengd við Jónas Hallgrímsson – en skilin milli orðfæris aðalpersónunnar og þeirra sem verða á vegi hennar aðgreina söguna frá hástemmdum stefum Dantes og Jónasar.. Í sögu Sölva er sagt frá ungskáldinu Mussju og fyllerísráfi hans um götur Reykjavíkur. Með honum er í för Dante sjálfur sem fylgir Mussju í gegnum heljar kvöldsins. Gleðileikurinn djöfullegi speglar fyrsta hluta verks Dantes, Inferno, þar sem sjálfu helvíti hefur verið skipt út fyrir næturlíf Reykjavíkur og lagskipting helvítis er táknuð með mismunandi börum sem standa nær og nær gamla miðbænum. Sölvi slær þannig saman samtímabókmenntum við sígilda bókmenntahefð og úr verður afar sérstakt og metnaðarfullt verk. Verkið ber með sér að vera eins konar kaldhæðnislegur heimsósómi þar sem greinilegt er, þegar rýnt er í gegnum háfleygan stíl söguljóðsins, að tilgerðaleiki og meintir andlegir yfirburðir Mussju eru álitnir hlægilegir af þeim sem verða á vegi hans. Háfleygur talsmáti Mussju á lítið skylt við málfar hinnar venjulega sálu á ferð um helvíti Reykjavíkur:
Saman þau fljóta í fjöldans iðustraumi,
- fallvalt er allt og líka bjór í glasi:
gólfið er vott af veitinganna flaumi.
„Hver ertu,“ spyr hann, „óxt þú hérna úr grasi?“
(Ættfræðin er Íslendingnum kærust).
„Ha, get ég reddað grasi? Góður frasi,
geðveikt intró maður, snilldin tærust …“(Gleðileikurinn djöfullegi, 82)
Gjáin milli Mussju og umhverfis hans er síendurtekin í gegnum kvæðið og Mussju virðist vera einn um að sjá harminn og sálarkvölina sem einkennir hið svokallaða „skemmtanalíf“ Íslendinga. Svartsýnistónn Gleðileiksins djöfullega á margt sameiginlegt með tveimur skáldsögum Sölva, Fljótandi heimur (2006) og Síðustu dagar móður minnar (2009). Þessar tvær bækur eru aftur á móti mjög ólíkar söguljóðinu í orðfæri þar sem stíllinn er mun strípaðri og beinskeyttari.
Fljótandi heimur er fyrir margar sakir nokkuð sérstök skáldsaga í íslenskum bókmenntum, þá sérstaklega vegna þess að Sölvi vinnur markvisst með stíl þekkts erlends höfundar og sagnaminna hans. Haruki Murakami er japanskur höfundur sem nýtur alþjóðlegrar hylli, þykir hafa markað sér nokkra sérstöðu í bókmenntaheiminum og hefur hann lengi verið orðaður við Nóbelsverðlaunin. Bækur Murakami einkennast oft af fálátum karlkyns aðalsögupersónum sem standa utan við hefðbundið samfélag, ekki vegna þess að þeir búa yfir einstökum hæfileikum eða lífssýn, heldur vegna áhugaleysi þeirra gagnvart umhverfi sínu og skorti á persónuleika. Þessar litlausu aðalpersónur leiðast oftar en ekki úti í súrrealískar aðstæður fyrir tilstilli dularfullra kvenpersóna, sem er einmitt það sem hendir Tómas, aðalpersónu Fljótandi heims. Tómas flytur til Reykjavíkur utan af landi og hefur háskólanám. Tómas, líkt og persónur Murakami, er leiksoppur örlaganna þar sem hann virðist ekki taka margar sjálfstæðar ákvarðanir og líður þess í stað áfram, fljótandi í straumi heimsins. Þetta sést meðal annars á vináttu hans við hinn ódæla Hallgrím, þar sem Tómas virðist vera sá eini sem þolir að umgangast hann og tekur ekki inn á sig ruddalegar skoðanir hans. Tómas samþykkir umhverfi sitt eins og það er og reynir ekki að láta það lúta eigin vilja. Í upphafi verksins má sjá þetta viðhorf Tómasar í því hvernig hann bregst við símtali frá dularfullri konu. Konan í símanum spyr hann nærgöngulla spurninga og veit óeðlilega mikið um Tómas og líf hans, sem er augljós tilvitnun í The Wind-Up Bird Chronicle (1997) eftir Murakami. Í fyrstu bregast Tómas illa við en síðar sættir hann sig við furðuleg símtöl konunnar og fer að lokum að líta á þau sem hluta af lífinu.
Tómas kynnist hinni hálfjapönsku Saiko í upphafi sögunnar og verður samstundis hugfanginn af henni. Saiko er sokkabuxnamódel með gloppótt minni eftir að hafa tekið þátt í heilarannsóknum hjá leyndardómsfullu fyrirtæki í Reykjavík. Saiko hefur gífurleg áhrif á líf Tómasar og kynnir meðal annars fyrir honum skáldskap Murakami. Sölvi reynir alls ekki að fela tilvísanirnar í skáldskap Murakami heldur þvert á móti undirstrikar nærveru skáldsins í gegnum söguna með því að nefna mörg af verkum hans ásamt að notast við augljóslega „Murakamísk“ minni. Fljótandi heimur er óvæginn og glímir við alvarleg og viðkvæm málefni á tæran og tilfinningalítinn máta. Stíllinn er strípaður tilfinningum sem gefur sögunni kaldhæðnislegan blæ en um leið ákveðinn heiðarleika. Í Fljótandi heimi eru vandamálin lögð á borðið og lýst upp af sterílli flúorperu, allt er til sýnis. Svipaða nálgun má finna í yngra verki eftir Sölva þar sem hann kannar sorgina og ófullkomleika mannsins.
Síðustu dagar móður minnar (2009) segir frá Hermanni „Dáta“ Willysyni og móður hans Evu. Eftir að hætta skyndilega í langtímasambandi flytur Dáti aftur inn til móður sinnar sem aðeins fjórum mánuðum síðar greinist með beinkrabbamein. Eftir að hafa legið í aðgerðarleysi og sjálfsvorkunn í nokkra mánuði tekur Dáti af skarið og einsetur sér að gera allt sem hann getur til að bæta líf móður sinnar: „Héðan í frá yrði sérhver dagur listaverk þar sem pensilstrokurnar tækju ekki mið af öðru en þessu: Að gera Mömmu hamingjusama, síðustu dagana sem hún lifði“ (Síðustu dagar, bls. 12). Dáti sannfærir Evu um að leita sér lækningar hjá Libertas sem er meðferðarheimili og líknarstofnun nálægt Amsterdam sem notast við nýstárlega aðferðir í meðhöndlun krabbameins. Þau mæðginin fara því út til Hollands og sagan á sér svo stað yfir nokkra mánaða tímabil árið 2008 í Amsterdam og á líknarstofnuninni.
Samband Dáta og Evu kann að vera ansi frábrugðið hefðbundnum mæðginasamböndum enda eru þau langt frá því að vera hefðbundnar manneskjur. Í fyrstu einkennist dvöl þeirra í Amsterdam af stanslausri áfengisdrykkju, sem krydduð er með léttvægri eiturlyfjanotkun. Þau telja sér trú um að þau séu að halda upp á lífið og njóta þess meðan kraftaverkalyfið frá Libertas byrjar að útrýma krabbameini Evu, en erfitt er að hundsa, bæði fyrir lesendur og sögupersónur, að á bakvið veisluhöldin liggur löngunin í flótta frá aðstæðum þeirra. Innst inni vita þau að Eva er alvarlega veik og mun að öllum líkindum ekki lifa af, og að þau leituðu ekki aðeins til Libertas vegna meðferðarinnar heldur líka vegna líknarstefnu þeirra: að hjálpa sjúklingum að kveðja.
Síðustu dagar móður minnar er falleg saga um hrylling sorgarinnar. Við mennirnir erum gallagripir og vitum varla hvernig á að takast á við lífið. Í þessum ólgusjó tilviljana og misvísandi tilfinninga mætti halda að dauðinn yrði kærkomin festa í óskiljanlegri tilveru, en við mætum ekki örlögum okkar með höfuðið hátt. Við erum skíthrædd og flýjum sannleikann, afneitum sorginni og ríghöldum í tilbúna hamingju sem ristir grunnt. Verk Sölva kemur með nýtt sjónarhorn á dauðstríð manneskjunnar með því að standast þá freistingu að fegra það um of. Stíllinn er beinskeyttur líkt og í Fljótandi heimi og lýsir upp mannlega tilvist á óaðlaðandi – en um leið heiðarlegan – máta. Lýsingar Dáta á eigin útliti, hegðun og fylleríum þeirra mæðgna er óvægin og afneitun mæðgnanna á örlögum sínum skín bersýnilega í gegn. Þetta torveldar lesendum að leyfa sér að gleyma því hvað er í vændum og verða samdauna Dáta og móður hans í tilfinningaflóttanum. Beinskeytta rödd Sölva nístir í gegnum sorgina og veltir upp mörgum athyglisverðum spurningum um líknardráp og hvaða hlutverki við fáum að gegna í okkar eigin dauða og ástvina okkar.
Að lokum er komið að nýjustu skáldsögu Sölva, Blómið – saga af glæp (2016). Í bókinni má greina ýmsa þræði úr fyrri verkum Sölva, þá sérstaklega þau verk sem hafa verið talin upp hér sem hluti af „beinskeyttu“ bókum Sölva. Sagan fjallar um íslensku Valkoff-fjölskylduna sem er í sárum eftir að Magga Valkoff hvarf sporlaust þrjátíu og þremur árum áður, aðeins sex ára gömul. Eftir dularfullan formála um manneskju með ljósblett og sjálflýsandi kakkalakka hefst sagan á að Bensi, eldri bróðir Möggu sem var með henni daginn sem hún hvarf, vaknar skyndilega um miðja nótt heima hjá sér. Hann sér að kveikt er á ljósunum á æskuheimili hans hinum megin við götuna þar sem móðir hans býr ein. Hann ákveður að fara yfir og ræða við móður sína, sem er líka andvaka, um fortíðina og hvað kom fyrir Möggu. Fyrsti hluti bókarinnar er rammaður inn af samtali mæðginanna um fortíðina og einkennist af endurlitum til ársins afdrifaríka þegar Magga hvarf, sérkennilegu lífshlaupi fjölskylduföðursins Péturs Valkoff, sumrinu þegar Bensi kynntist konu sinni og öðrum atburðum sem mótuðu líf fjölskyldunnar. Ráðgátan um afdrif Möggu verður flóknari og meira spennandi eftir því sem lesandinn kemst að meiru um líf Valkoff-fjölskyldunnar. Sérkennileg fortíð Péturs sem vísindamanns úti í Sovétríkjunum ásamt sjálflýsandi kakkalökkum og yfirnáttúrulegum persónum gefa sögunni yfirbragð vísindaskáldskapar eða hryllingssögu. Hér má sjá mikil líkindi við Fljótandi heim þar sem Sölvi víkur frá raunveruleika lesandans með efnislegum hætti. Í Blóminu eru hins vegur öllum fyrirvörum á borð við vísanir í stíl þekktra rithöfunda sleppt og Sölvi vinnur furðurnar þess í stað á persónulegri máta.
Blómið sver sig líka í ætt við Síðustu daga móður minnar. Bókin er harmsaga þar sem lesendur fá að kynnast þeim tortímandi áhrifum sem barnsmissir hefur á hjónabönd, uppvöxt og samband barna og foreldra. Vangaveltur um samspil ástar og sorgar eru einnig áberandi. Er til að mynda óumflýanlegt að sorgin verði ástinni yfirsterkari? Eða er það einmitt með ástina að vopni sem hægt er að sigrast endanlega á sorginni? Þessar umhugsanaverðu spurningar spretta upp inn á milli ráðgátunnar um hvarf Möggu, sjálflýsandi kakkalakka og ótrúlegra atburða. Það verður gaman að sjá hvort Sölvi haldi áfram að þróa notkun sína á furðum í bland við átakanleg málefni í framtíðinni.
Már Másson Maack, nóvember 2016
** Óstyttur titill bókarinnar er Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferð og gestakomur í Sauðlauksdal: eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr öskustó.
Greinar
Almenn umfjöllun
Eiríkur Örn Norðdahl: „Afmeyjun líffæranna: Viðtal við Sölva Björn Sigurðsson“
Tíuþúsund tregawött
Haukur Ingvarsson: „Maður þarf ekki að skrifa fyrir skúffuna. Stefnumót við Sölva Björn Sigurðsson“ (viðtal)
Tímarit Máls og menningar, 73. árg., 3. tbl. 2012, s. 23-37
Um einstök verk
(Umfjöllun sem birst hefur á Bókmenntavefnum má finna í valmyndinni hér til hliðar.)
Blómið - saga um glæp
Már Másson Maack: „Harmur, ást og furðuverk“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Dálítill leiðarvísir um heldri manna eldunaraðferð og Gestakomur í Sauðlauksdal eður hvernig skal sína þjóð upp reisa úr öskustó
Auður Aðalsteinsdóttir: „Gegn veraldarinnar hallæri“
Spássían, 3. árg, 1. tbl. 2012. Bls. 26-7.
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: „Þegar blindgatan opnast til allra átta: um Gestakomur í Sauðlauksdal“
Tímarit Máls og menningar 2014, 75. árg., 4. tbl. bls. 51-63.
Páll Valsson: „Sauðlauks upp í lygnum dali“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2012, 73. árg., 4. tbl. bls. 131-3.
Fljótandi heimur
Davíð Stefánsson: „Meðvitaður dans í lánuðum búningi“
Tímarit Máls og menningar 2008, 69. árg., 1. tbl. bls. 122-7.
Kristrún Heiða Hauksdóttir: „Fljótandi heimur – 4 stjörnur“
(birtist í Fréttablaðinu 20. desember 2006)
Gleðileikurinn djöfullegi
Eiríkur Örn Norðdahl: „Meira að drekka, minna búllsjitt“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 4. tbl. 2006, s. 122-123
Radíó Selfoss
Sigrún Erna Geirsdóttir: „Radíó Selfoss“
Rithringur, gagnrýni um bækur, sjá hér
Verðlaun
2019 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Selta - Apókrýfa úr ævi landlæknis
2016 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
2013 – Menningarverðlaun DV í fræðibókum og ritum almenns efnis: Stangveiðar á Íslandi og Íslensk Vatnabók: eða yfirlit um fiskana og veiðmenn þeirra og þær aðferðir sem þeir beita til að ná þeim
Tilnefningar
2017 – Íslensku þýðingaverðlaunin: Uppljómanir & Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud (ásamt Sigurði Pálssyni)
2013 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Stangveiðar á Íslandi og Íslensk Vatnabók: eða yfirlit um fiskana og veiðmenn þeirra og þær aðferðir sem þeir beita til að ná þeim (í flokki fræðibóka og rita almenns efnis)
2009 – Íslensku þýðingarverðlaunin: Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud
2008 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Árstíð í helvíti eftir Arthur Rimbaud (þýðing)
Anatómía fiskanna
Lesa meiraÁ samkomustaðnum Glóðarauganu ríkir sundrung eftir að Guðmundur Hafsteinsson hefur að semja smáauglýsingar í mannlífsblöð um líf sitt þar og annarra er staðinn sækja. Póstþjónusta Reykjavíkur sér þess ei annan kost en að gefa út sérrit til skýringar á því hvers vegna útburðarkonan Absentína Valsdóttir kýs að dreifa ekki þeim auglýsingum.Melankólía vaknar
Lesa meiraEmbla fer í ferðalag á heilsuhæli í afskekktum dal við nyrstu strendur Íslands. Á leið þangað taka málin óvænta stefnu. Í faðmi fjallanna á Fagraskaga sækja á Emblu spurningar sem krefja hana um að leita aftur til upphafsins. – Nútímaævintýri frá einum af okkar áhugaverðustu höfundum.Kóperníka
Lesa meiraSelta. Apókrýfa úr ævi landlæknis
Lesa meiraBlómið – saga um glæp
Lesa meira50½ sonnetta
Lesa meiraKristalsaugað: þjóðsaga
Lesa meiraThe Last Days of My Mother
Lesa meiraStangveiðar á Íslandi
Lesa meira
Uppljómanir & Árstíð í helvíti
Lesa meiraÞúsund og einn hnífur: og fleiri sögur frá Írak
Lesa meiraOfviðrið
Lesa meiraSteindrekinn
Lesa meiraÁrstíð í helvíti
Lesa meiraLaxveiðar í Jemen
Lesa meiraNeistaflug
Lesa meiraSonnettur
Lesa meira