Æviágrip
Arnaldur fæddist í Reykjavík þann 28. janúar árið 1961. Foreldrar hans eru Þórunn Ólöf Friðriksdóttir, húsmóðir, og Indriði G. Þorsteinsson, rithöfundur. Arnaldur varð stúdent frá Menntaskólanum við Hamrahlíð 1981 og lauk B.A.-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 1996. Hann var blaðamaður við Morgunblaðið 1981-1982, lausamaður við kvikmyndaskrif frá þeim tíma og kvikmyndagagnrýnandi blaðsins frá 1986-2001.
Fyrsta skáldsaga Arnaldar var Synir duftsins, sem kom út árið 1997. Síðan þá hefur Arnaldur sent frá sér fjölda skáldsagna sem flestar flokkast sem spennusögur. Hann hefur unnið útvarpsleikrit upp úr nokkrum bóka sinna, sem voru flutt á Rás 1 RÚV. Þá hefur Arnaldur hlotið styrki frá Kvikmyndasjóði Íslands til að skrifa kvikmyndahandrit upp úr bókunum Dauðarósir og Napóleonsskjölin. Kvikmynd byggð á bókinni Mýrin, í leikstjórn Baltasars Kormáks, var frumsýnd 2006.
Skáldsögur hans hafa verið þýddar á fjölmörg mál og hlotið mjög góðar viðtökur. Arnaldur hlaut Glerlykilinn, Norrænu glæpasagnaverðlaunin, fyrir Mýrin 2002 og aftur ári síðar fyrir Grafarþögn. Hann fékk Gullna rýtinginn 2005, verðlaun samtaka breskra glæpasagnahöfunda, fyrir þýðingu Bernards Scudders á Grafarþögn, Silence of the Grave. Hann hreppti Blóðdropann, íslensku glæpasagnaverðlaunin, fyrir Harðskafi (2008) og Petsamo (2017). Skuggasund (The Shadow District) hlaut Premio RBA de Novela Negra verðlaunin árið 2013. Árið 2018 hlaut hann Kalíber verðlaunin (The Great Calibre Award), en þau eru veitt fyrir feril á hátíðinni The International Mystery & Thriller Festival í Póllandi. Auk þessa hefur hann hlotið þekkt bókmenntaverðlaun á Spáni, í Frakklandi margsinnis, í Svíþjóð, Finnlandi og víðar.
Arnaldur hlaut Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 2021. Einnig hefur hann fengið Fálkaorðuna, fyrir framlag sitt til íslenskra bókmennta.
Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.
Lesið ritþing um Arnald Indriðason í Gerðubergi 17. apríl 2004
Frá höfundi
Pistill frá Arnaldi Indriðasyni
Fyrsta spennusagan sem kom út eftir mig var Synir duftsins árið 1997 en síðan hef ég sent frá mér eina á ári, Dauðarósir 1998, Napoleónsskjölin 1999 og núna fyrir síðustu jól Mýrina. Napoleónsskjölin skera sig talsvert úr hinum bókunum þremur vegna þess að hún er ekki löggusaga eins og þær heldur söguleg og alþjóðleg spennusaga sem gerist í síðari heimsstyrjöldinni að hluta en þó mest í samtímanum. Hinar sögurnar eru svokallaðar lögreglusögur eða morðsögur. Þær segja frá hópi lögreglumanna sem fá sífellt ný mál inn á borð til sín og leysa úr þeim í bókarlok.
Ég er iðulega spurður að því hvort hægt sé að skrifa spennusögur á Íslandi. Ég hef skrifað fjórar og er að vinna við þá fimmtu svo ég verð að svara þessu játandi en spurningin á fullkomlega rétt á sér: Er Ísland nógu góður eða æskilegur vettvangur fyrir spennusögur? Er það ekki hlægilegt að ætla íslenskum lesendum að þykja trúverðugt allt það sem gerist í íslenskum sakamálasögum? Geta rannsóknarlögreglumenn sem heita eitthvað eins og Erlendur Sveinsson eða Sigurður Óli einhvern tíma keppt á jafnréttisgrundvelli við stjörnur eins og Morse og Taggart og Dalglish eða hvað þær nú heita allar löggurnar í bresku sakamálasögunum og við þekkjum svo vel úr sjónvarpinu? Hvað þá ofurstjörnur eins og Bruce Willis og Arnold Schwarzenegger í hasarmyndum sínum frá Hollywood?
Ég skil ekki hvers vegna Íslendingar ættu ekki að geta skrifað spennusögur eins og aðrar þjóðir. Sakamála- og spennusögur njóta hvarvetna annarstaðar mikilla vinsælda og það sem kannski meira er og furðulegra fyrir okkur sem fáumst við þetta hér heima, njóta virðingar bókmenntasamfélagsins. Mjög rík hefð er auðvitað fyrir slíkum sögum í Bretlandi, föðurlandi Sherlock Holmes og Agatha Christie, og í Bandaríkjunum þar sem Chandler og Hammett urðu til fyrir mannsaldri og á Norðurlöndunum hefur skapast mjög skemmtileg hefð í gegnum áratugi en líklega þekkjum við hér á Íslandi best sögur sænsku höfundanna Sjöwall og Wahlöö, sem allar voru gefnar út á íslensku. Þau skrifuðu bækur sínar ekki síst undir áhrifum frá bandarískum lögreglusagnahöfundi sem heitir Ed McBain, sem er einn af höfuðpostulum sakamálasögunnar vestra.
Saga íslenskra sakamálasagna er aftur á móti ekki mikil eða bitastæð. Á fyrrihluta síðustu aldar komu bækur á stangli sem gerðust í Reykjavík eins og Leyndardómar Reykjavíkur en bókmenntagreinin festi ekki rætur. Það voru fáir sem reyndu við hana og menn, sem voru feimnir að láta nafn sitt við slík skrif, sömdu bækur undir dulnefni. Þegar leið á öldina kom út ein og ein bók með löngu millibili sem heyrði undir sakamálasögu. Á áttunda áratugnum kom fram ungur höfundur, Gunnar Gunnarsson blaðamaður, sem fékkst við formið og hafði til hliðsjónar bækur sænsku höfundanna Sjöwall og Wahlöö. Hann skrifaði löggusögur og var aðalpersóna hans lögreglumaðurinn Margeir. Gunnar gerði um hann tvær bækur m.a. Margeir og spaugarann, en hætti svo um 1980 og hefur ekki skrifað neitt síðan af glæpasögum. Viktor Arnar Ingólfsson skrifaði Heitan snjó á níunda áratugnum og Ólafur Haukur Símonarson skrifaði stuttu seinna sína einu glæpasögu, Líkið í rauða bílnum, sem merkilegt nokk vann til verðlauna í spennusagnasamkeppni í Frakklandi. Síðan gerist ekkert fyrr en ég sendi frá mér bókina Syni duftsins árið 1997 og á sama tíma gaf Stella Blómkvist, eða höfundur sem skrifar undir því dulnefni, út Morðið í stjórnarráðinu. Þá verður nokkur vakning í gerð íslenskra spennusagna og fleiri bætast í hópinn: Viktor Arnar sendir aðra bók frá sér, Engin spor, Árni Þórarinsson skrifar Nóttin hefur þúsund augu og Hrafn Jökulsson skrifar Miklu betra en best svo nokkuð sé nefnt.
Ég held að ég hafi rambað inn á sakamálasögugerð af slysni. Það var að minnsta kosti ekki meðvituð ákvörðun og ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en ég var búinn með fyrstu söguna mína að hún gæti flokkast sem spennu- eða sakamálasaga. Hún fjallar um ungan mann sem á bróður á geðsjúkrahúsi er fremur sjálfsmorð. Það er ákveðin ástæða fyrir því, sem hann leitar að bókina á enda. Tveir lögreglumenn koma honum til aðstoðar við rannsóknina og þeim tveimur hef ég síðan haldið til haga og skrifað sérstaklega um þá tvær bækur í viðbót og er nú að vinna við fjórðu bókina um þá.
Þessir lögreglumenn heita Erlendur Sveinsson og Sigurður Óli og þegar ég er spurður að því hvaða fyrirmyndir ég noti þegar ég skrifa um þá verður mér svarafátt. Það er auðvitað til eins og þið vitið mýgrútur af erlendum lögreglumönnum og spæjurum í bókmenntum, sjónvarpi og kvikmyndum og voru aðeins fáeinir þeirra nefndir hérna áðan. Mínar löggur eru án efa samdar undir einhverjum áhrifum af því sem ég hef kynnst sem neytandi sakamálasagna og -mynda; ég er kvikmyndagagnrýnandi og kvikmyndaskríbent á Morgunblaðinu og hef verið það í fjölda ára og séð meira af slíku skemmtiefni en mér er kannski hollt, auk þess sem ég nú skrifa um erlendar spennusögur í blaðið. Svo ég hef auðvitað orðið fyrir áhrifum af því sem ég þekki og sé og les en ég á erfitt með að benda, í þessu flóði öllu, á einhverjar sérstakar fyrirmyndir sem hafa haft áhrif á mig meira en aðrar þegar ég var að búa til mínar löggur.
Þótt ég geti ekki nefnt beinar eiginlegar fyrirmyndir þá hef ég á tilfinningunni að þær séu fremur íslenskar en útlenskar, fólk sem ég þekki eða hef komist í kynni við í gegnum árin. Rétt eins og sögurnar eru fyrst og fremst íslenskar, fjalla um Íslendinga, gerast í íslensku umhverfi og snúast jafnvel um það sem er efst á baugi í íslensku samfélagi hverju sinni. Að öðru leyti held ég að á margan hátt sé um klassískt löggupar að ræða í mínum sögum. Erlendur er sá eldri. Hann er gamaldags í háttum og skoðunum, ættjarðarvinur og þjóðernissinni, afturhaldssamur, einbúi sem hefur dálæti á íslenskum skáldskap, þjóðlegum fróðleik og hrakningasögum (uppáhaldsbókaflokkurinn Hrakningar og heiðavegir þar sem hann les um menn sem farast á heiðum uppi), hann á að baki vondan skilnað og börnin hans eru fjarlæg honum; hann er einmana og þunglyndur en þrjóskur þegar kemur að sakamálum og gefur sig ekki fyrr en í fulla hnefana. Sigurður Óli er algjör andstæða, nútímalegur, í hjónabandi, snyrtilega klæddur, þolir ekki að hugsa til fortíðarinnar, vill aðeins sjá fram á veginn, óþolandi smámunasamur, uppalegur og leiðinlegur. Þeir eiga fremur illa saman þessir tveir en þegar á þarf að halda kemur samvinna þeirra þeim á áfangastað.
Þeir hafa grúskað í mörgu. Þeir hafa rannsakað sjálfsmorð, íkveikjur, klónvísindi, mannshvörf, barnadauða, kvótasvindl, flóttann af landsbyggðinni, eiturlyfjasölu, stækkun Reykjavíkur, líffærastuld, gagnagrunninn, morð, þeir hafa kynnst sorginni og ástinni og dauðanum og þótt Sigurður Óli láti það ekki svo mikið á sig fá leggst hvert og eitt mál á sálina á Erlendi sem gerir hann viðskotaillan, þunglyndan og lífsleiðan. Hann tekur nærri sér það sem hann sér á götum Reykjavíkur og það sem hann verður vitni að í morðrannsóknum sínum og það mótar skapgerð hans sem verður æ stirðari. Það er í gegnum Erlend sem lesandinn upplifir sakamálin og hann á að upplifa þau, ef ég geri þetta rétt, með sama hætti og hann. Þannig er Erlendur lykilmaður í sögunum og aðalpersóna og eftir því sem sögunum fjölgar kynnast lesendur honum betur og ég sjálfur kynnist honum betur, því ég er ekki enn farinn að þekkja hann almennilega eða skilja.
Eitt veit ég þó, hann er fyrst og fremst íslenskur. Ég held að Ísland sé ekkert síðri kostur en aðrir staðir í heiminum fyrir spennu eða sakamálasögur og mér finnst eins og viðhorfið gagnvart íslenskum sakamálasögum sé að breytast. Þær eiga sér að vísu enga hefð, saga þeirra í samhengi við sögu íslenskra bókmennta, er mjög fátækleg og einstaklega slitrótt nema núna á allra síðustu árum þegar, eins og ég sagði áðan, nokkrir höfundar hafa komið fram og leyft sér að kljást af einhverju viti við Ísland sem vettvang glæpaverka. Svo er nú komið að gefnar eru út á hverju ári tvær eða fleiri íslenskar sakamálasögur sem vakið hafa athygli og jafnvel notið vinsælda. Ein skýringin á uppgangi sakamálasögunnar síðustu árin er sú að fólk er orðið ginnkeyptara fyrir Íslandi sem sögusviði slíkra sagna. Ísland hefur rofið einangrun sína sem aldrei fyrr eftir að tölvu- og sjónvarpsöld gekk í garð, netið og kvikmyndirnar, tölvuleikir, erlendar skáldsögur, bæði þýddar og á frummálinu, og auðveldari ferðamáti hefur ekki aðeins dregið okkur nær hringiðu heimsatburða heldur einnig gert Ísland að þátttakanda á fjöldamörgum sviðum tækni og viðskipta og stjórnmála.
Ég held líka að fólk vilji í æ ríkari mæli, eftir því sem framboð erlends skemmtiefnis eykst með ári hverju, sjá Ísland eða Reykjavík og Íslendinga, gegna hlutverki. Það sama á við til dæmis um kvikmyndir. Við viljum gera íslenskar kvikmyndir þótt hér flæði allt yfir af erlendu skemmtiefni vegna þess að við viljum geta samsamað okkur þeirri veröld sem við þekkjum best og því fólki og hugarfari og umhverfi sem er okkar eigið en ekki búið til af útlendingum. Viðkvæðið er að það gerist aldrei neitt hér á Íslandi sem hægt er að byggja á spennusögur eða sakamálasögur. Stórglæpir eins og morð eru fátíðir og yfirleitt framdir í ölæði þegar samkvæmi í heimahúsum taka óvænta stefnu. Það fer sjaldnast fram víðtæk leit að morðingjanum. Vitni eru fjölmörg. Ógæfumaðurinn dúsir í nokkur ár í fangelsi og er svo sleppt. Á þessu eru auðvitað undantekningar og því miður virðist sem ofbeldi færist í vöxt hér á landi og er sjónvarpi og kvikmyndum oft kennt um. En ég held að ofbeldishneigð Íslendinga eða glæpaeðli spili enga rullu þegar samdar eru sakamálasögur. Það sem skiptir höfuðmáli er hvort höfundinum takist að gera sér mat úr því umhverfi sem hann hefur að vinna úr svo það sé bæði sannferðugt og trúverðugt í augum lesandans. Þá skiptir staðsetningin ekki máli í rauninni þótt mér persónulega finnist Ísland mjög spennandi og skemmtilegur vettvangur sakamálasagna. Það sem skiptir mestu máli þegar búnar eru til sakamálasögur í hvaða landi sem er, er að þú trúir og skilur á þínum forsendum það sem gerist í sögunni, þú trúir persónum sögunnar og því sem þær gera og segja, þú trúir á þær, að þær geti verið til og fengist við þær kringumstæður sem þær eru settar í eins og morðrannsókn. Þannig er það fremur undir höfundinum komið en umhverfinu sem hann lifir í hvort honum takist að gera trúverðugar sakamálasögur. Danski rithöfundurinn Peter Høeg skrifaði fræga spennusögu, Lesið í snjóinn eða Frøken Smillas fornemmelse for sne, og hún gerist að mestu leyti á Grænlandi. Honum tókst að gera sögusviðið sannfærandi með góðu ímyndunarafli og ritleikni.
Høeg er einmitt höfundur sem vakti athygli fyrir bókmenntalega vandaða spennusögu. Hann ruglaði fólk í ríminu. Það vissi ekki almennilega hvort hann hefði skrifað reyfara eða gilt bókmenntaverk. Menn voru mjög á báðum áttum rétt eins og þegar ítalski rithöfundurinn Umberto Eco skrifaði Nafn rósarinnar fyrir eins og einum og hálfum áratug. Þar var á ferðinni morðsaga eða reyfari en hún var hnýtt inn í sögusvið og umhverfi miðaldanna og samin með þeim hætti að fremur var rætt um hana sem bókmenntaverk eða skáldsögu en reyfara. Báðir þessir menn, og fleiri, hafa gert mjög óskýrar línurnar á milli lágmenningar og hámenningar í bókmenntum, þess sem talið er ódýr skáldskapur og þess sem talið er dýrt kveðið.
Hér á landi ríkir sterk bókmenntahefð eins og við þekkjum og það hefur verið mjög litið niður á hverskonar lággróður í bókmenntaflórunni. Það er ugglaust ein ástæða þess að hérna hafa aldrei orðið til sakamálasögur og við eigum enga hefð í gerð slíkra bókmennta. Hér var allt miðað við það sem maður getur kallað hátimbraðar og vandaðar bókmenntir og krafan var alltaf sú að skrifa mikinn skáldskap. Spennu- og sakamálasögur rúmuðust greinilega ekki inni í þeirri skilgreiningu sem ríkti um hvernig íslenskar bókmenntir ættu og skyldu vera og menn voru feimnir að skrifa eitthvað sem gæti dæmst sem lággróður. Orðið afþreying og afþreyingarsögur voru ljót orð sem áttu ekkert skylt við íslenskan skáldskap. Rithöfundar auðvitað skrifuðu um glæpi í skáldsögum sínum en það urðu ekki til eiginlegar sakamálasögur. Það er í rauninni ekki fyrr en á allra síðustu árum sem menn byrja að þora að þreifa sig í átt að þeim. Nýir höfundar koma til sögu, lesendur taka við sér þegar þeir sjá að þetta er ekkert hættulegt og ekki má gleyma því að útgefendur sýna spennusögunum æ meiri áhuga og ég held beinlínis að þeir séu farnir að sækjast eftir þeim til útgáfu nú um stundir.
Þeir vita að það er ekkert sem segir að góð sakamálasaga geti ekki líka verið góður skáldskapur og meiri og betri bókmenntir en það sem kallaðar eru vandaðar skáldsögur. Vönduð sakamálasaga getur verið vönduð skáldsaga og ég held að þegar frá líður muni þetta verða viðurkennt. Bókmenntagreinin, það er íslenska sakamálasagan, er mjög ung að árum og hefur í raun ekki enn slitið barnskónum en ef hún fær tækifæri til þess að dafna og menn halda áfram að semja spennusögur, þá eigum við eftir að viðurkenna þær hinar bestu sem raunverulegar bókmenntir og skemmtilega viðbót við íslenska skáldsagnaritun.
Eina krafan sem ég held að við getum gert til skáldverks er nefnilega sú að það sé skemmtilegt og spennandi og þannig úr garði að við nennum að lesa það og að það segi okkur eitthvað nýtt um okkur sjálf, varpi nýju ljósi á líf okkar og tilveru. Að mínu viti eru allar skáldsögur afþreyingarsögur. Þá skiptir ekki máli hvort til dæmis um eiginlega spennusögu sé að ræða eða hátimbraðar bókmenntir; sama reglan gildir um hvort tveggja. Að því leyti held ég að línurnar á milli fagurbókmennta og afþreyingar séu ekki eins skýrar og þær voru. Fagurbókmenntir eru afþreying og afþreyingu er að finna í fagurbókmenntum og þetta skarast að miklu leyti í þeim bókum sem skrifaðar eru í dag.
Ég vona að sakamálasagan festi rætur í íslenskum bókmenntum og verði viðurkennd sem bókmenntagrein jafnrétthá öðrum. Það er ýmislegt sem bendir til þess að svo verði. Það er kannski seint af stað farið en sennilega skiptir það ekki máli. Aðalmálið er að íslenska sakamálasagan er orðin að veruleika og verði rétt haldið á spöðunum er ég ekki í nokkrum vafa um að hún eigi eftir að dafna.
Arnaldur Indriðason, 2001.
Um höfund
Reykjavíkurdagar og nætur
I
Hvass vindur blés yfir Miðnesheiðina. Hann kom norðan af hálendinu og yfir úfið hafið á Faxaflóanum og klifraði upp á heiðina, napur og kaldur. (7)
Þannig hljóða upphafsorð Kamp Knox (2014). Það er óhætt að segja að ekki sé hlýlegt um að litast, og væri þá ekki í fyrsta sinn sem Ísland stendur undir nafni í texta Arnaldar Indriðasonar:
Gróðurinn lá varnarlaus fyrir opnu úthafinu og norðanáttinn og mátti heyja harða lífsbaráttu því að á heiðinni þrifust aðeins harðgerðustu plöntur. Það ískraði í girðingunni sem stóð upp úr auðninni og afmarkaði svæðið fyrir herstöðina þegar vindurinn smaug í gegnum hana og lamdi utan mikla veggi flugskýlisins efst á heiðinni. Hann espaðist allur upp við skýlið eins og honum væri ekkert um þessa stóru hindrun gefið og hélt svo áfram leiðar sinnar í myrkrinu. (7)
Þessi napra stemning er eitt einkenni verka Arnaldar og á vel við þann napra veruleika sem bækur hans fjalla um, glæpi, morð og sálarmyrkur.
Komið var undir kvöld en það var ekkert farið að skyggja. Erlendur horfði út um gluggann. Það myndi ekkert skyggja. Hann saknaði þess alltaf á sumrin. Saknaði myrkursins. Þráði kalt næturmyrkur og djúpan vetur. (Kleifarvatn 2004, 188)
Það kemur lesendum Arnaldar Indriðasonar ekkert á óvart að rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur Sveinsson kunni illa við sig í sumarbirtunni. Veturinn er kjörsvæði Erlendar, hann kann best við sig í myrkinu og kuldanum sem einkennir velflestar sagna Arnaldar, allt frá fyrstu síðu fyrstu skáldsögu hans: „Það var frostkaldur janúar og nöturleikinn draup af voldugri byggingunni. Hún stóð ein niðri við hafið, umkringd stórum og dimmum trjágarði“ (Synir duftsins 1997, 11). Hér er lýst geðsjúkrahúsi sem lítur út eins og fangelsi en þar hefst atburðarás Sona duftsins. Og eins og tilvitnunin gefur til kynna þá er kuldinn alltaf til staðar, ef hann ríkir ekki á hinu ytra sviði þá býr hann innra með persónum, ekki síst Erlendi sjálfum. Reyndar ekki bara persónum: lýsingin á nöturleika geðsjúkrahússins rímar við þá mynd sem dregin er upp af samfélaginu í heild. Þetta stöðuga þema kulda og myrkurs hangir svo saman við þá sýn sem birtist í verkum Arnaldar á íslenska glæpi:
[...] flest mál rannsóknarlögreglunnar snerust um algjöra smáglæpi. Mest var um innbrot í sjoppur. Innbrot á skrifstofur. Tölvuþjófnaðir voru mjög í tísku. Fjárdráttur starfsmanna í fyrirtækjum. Ömurlega óspennandi mál. Íslenskir glæpamenn voru yfirhöfuð afar ómerkilegir. [...] Íslenskir morðingjar voru fágætir og auðfundnir yfirleitt af því morð voru ekki framin af yfirlögðu ráði heldur af slysni eða menn voru gripnir stundarbrjálæði. (Synir duftsins, 75)
Þetta er ansi áhugaverð lýsing höfundar sem var þarna að stíga sín fyrstu spor í glæpasagnaskrifum. Arnaldur átti eftir að endurtaka þessa lýsingu á íslenskum glæpum, með tilbrigðum, í næstum hverri einustu bók sinni en þær eru þegar þetta er skrifað fyrri part árs 2017 orðnar 20 talsins. Lengst af hafa þær átt vísan stað efst á metsölulistum, auk þess að afla höfundi fjölda erlendra aðdáenda og viðurkenninga. Það er því ljóst að ‚ömurlega óspennandi mál‘ á ekki sérlega vel við um sögur Arnaldar en þó er hann þessari yfirlýsingu trúr því þau morðmál sem hann fjallar um eru í flestum tilfellum einmitt eins og hann lýsir og það er oftar en ekki tilviljun sem ræður því að ekki kemst upp um þau strax. Það er því ljóst að í kringum ‚ömurlega óspennandi mál‘ má vel smíða frábærlega spennandi skáldsögu.
Í umfjöllunum íslenskra jafnt sem erlendra rýna um bækur Arnaldar er gjarna lögð áhersla á þetta tvennt: kulda og ömurleika. Vissulega eru þetta þeir tónar sviðsetningar og tilfinningaskala sem höfundur spilar mikið á en því má hinsvegar ekki gleyma að sögur Arnaldar búa einnig yfir ríkulegum húmor og hlýju sem er meðal þess sem gerir þær svo læsilegar og ávanabindandi sem raun ber vitni. Erlendur er til dæmis gæddur kolsvartri kímnigáfu, en er jafnframt maður sem tekur eymd undirmálsfólk afar nærri sér.
II
Þegar fyrsta glæpasaga Arnaldar Indriðasonar, Synir duftsins, kom út voru glæpasagnaskrif lítt stunduð á Íslandi, þó nokkuð hafi verið um þýðingar á slíku efni. Arnaldur var þá blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Morgunblaðinu, orðinn 36 ára gamall og hafði ekki áður sent frá sér skáldskap á opinberum vettvangi.
Það varð strax ljóst af fyrstu bók Arnaldar að þarna var höfundur kominn til skjalanna sem ætlaði sér að skrifa röð glæpasagna – bókaflokk í anda þeirra Sjöwall og Wahlöö sem skrifuðu tíu bækur um sitt lögguteymi. Þrátt fyrir að Erlendur og hinn ungi félagi hans Sigurður Óli hafi ekki endilega verið aðalrannsakendur málsins var greinilegt að þarna var byrjað að byggja upp persónur sem átti eftir að útfæra frekar. Lögreglukonan Elínborg kemur örlítið við sögu í Sonum duftsins og lætur aðeins meira til sín taka í næstu bók, Dauðarósum (1998), en frá og með Mýrinni (2000) er hún orðin fastur hluti af teyminu. Eva Lind, eiturlyfjafíkill og dóttir Erlendar, er vandlega kynnt til sögunnar í Sonum duftsins en soninn áfengissjúka, Sindra Snæ, hitta lesendur fyrst fyrir í Dauðarósum þótt hann sé nefndur í fyrstu bókinni. Erlendi og Sigurði Óla bregður (nafnlaust) fyrir í Napóleonsskjölunum (1999) en sú bók tilheyrir formlega séð ekki Erlendar-seríunni og er meira í anda spennusagna eða þrillera. Í Mýrinni er Arnaldur farinn að vinna markvissar með persónur sínar og líf þeirra, en eins og lesendur þekkja fá þær æ meira rými eftir því sem á líður. Þetta á þó sérstaklega við um Erlend, frá og með Röddinni (2002) verður þáttur hans enn meira áberandi og tvær bókanna, Harðskafi (2007) og Furðustrandir (2010), fjalla í raun fyrst og fremst um hann, sérstaklega sú síðarnefnda. Í þremur bókum sem fylgdu í kjölfar Furðustranda hittum við Erlend fyrir sem ungan lögreglumann, fyrst rétt í mynd í Einvíginu (2011), svo sem ungan mann á uppleið í Reykjavíkurnóttum (2012) og Kamp Knox.
Hin dularfulla persóna Marion Briem birtist fyrst í Mýrinni og aðrar persónur sögunnar velta fyrir sér hvort Marion sé kven- eða karlkyns. Erlendur gefur ekkert upp (og Arnaldur ekki heldur), ekki heldur í Einvíginu, en þar er Marion í aðalhlutverki. Þess má svo geta að þessi textalegi leikur höfundar að skrifa kynlausan texta nær ákveðnu hámarki í Bettý (2003). Þar vinnur Arnaldur með rökkursagnahefðina, en Betty er dæmigert tálkvendi að hætti þeirra. Hún tælir ungan lögfræðing og allt fer á versta veg, alveg eins og hefðin segir fyrir um. Arnaldur snýr hinsvegar á hefðina á sinn eigin hátt, en í lok sögunnar kemur í ljós að lögfræðingurinn ungi er kona, en ekki hinn ‚hefðbundni‘ karl.
Mannshvörf eru þema allt frá fyrstu bókinni, Sonum duftsins, og eru reyndar rædd í kjölfarið á lýsingunni sem vitnað er til hér að framan um ömurleika íslenskra glæpa: „Til voru dæmi um óútskýrð mannshvörf og þeim virtist fara fjölgandi“ (75). Erlendur tekur mannshvörf alvarlega, auk þess sem hann tengir þau söknuði og sorg. Nöturleiki mannshvarfanna og skeytingarleysisins gagnvart þeim endurspeglast í hversu hráslagalega hann lýsir íslenskum morðum en í flestum tilfellum eiga þessar lýsingar vel við um þau morð sem til umfjöllunar eru í bókum Arnaldar. Í þessu sambandi er vert að minnast þess að þau glæpamál sem reynst hafa íslensku samfélagi einna erfiðust á síðari árum, svokölluð Guðmundar- og Geirfinnsmál, snúast einmitt um óupplýst mannshvörf. Það er þó ekki fyrr en í Grafarþögn (2001) sem sagt er frá hvarfi bróður Erlendar sem týndist í aftakaveðri og hríðarbyl þegar þeir voru drengir og þar fá lesendur skýringu á áhuga hans á þessum málum.
Þegar Erlendur segir Evu Lind, meðan hún liggur í dái, frá hvarfi bróður síns, segir það lesanda strax margt um persónu hans – til dæmis að hann getur ekki opnað sig fyrir fólki undir eðlilegum kringumstæðum. Áður hefur áhugi Erlendar á mannshvörfum og þjóðlegum fróðleik um hrakningasögur ítrekað komið í ljós; sjálfur hvarf hann frá eiginkonu og tveimur börnum næstum án þess að kveðja. Það hefur sett mark sitt á samskipti hans við börnin en konan neitaði honum um að umgangast þau og hann lét hana ráða. Hann kynnist því börnum sínum ekki fyrr en þau eru orðin unglingar - og bæði komin í vond mál.
Þessi áhersla á persónur lögreglumannanna er í takt við þá hefð glæpasagna sem bækur Arnaldar tilheyra, löggusögur. Í stuttu máli urðu slíkar fyrst verulega áberandi á sjöunda áratugnum en þekktustu dæmin hérlendis eru bækur Svíanna Sjöwall og Wahlöö. Einkennin eru einfaldlega þau að störf lögreglunnar og staða hennar í samfélaginu er ekki síður til umræðu en glæpamálið, auk þess sem einkalíf lögreglumannanna heldur uppi stórum hluta frásagnarinnar.[1] Minna þekktar í dag, en þó afar mikilvægar fyrir sögur Arnaldar, eru glæpasögur Belgans Georges Simenon um einfarann Maigret en sú fyrsta kom út árið 1931.
Í grein sinni “Hverra manna er Erlendur?” (2003) segir Kristín Árnadóttir: “Þegar sögurnar um Erlend eru skoðaðar sem heild kemur í ljós ákveðin þróun í frásögninni [...] hvað varðar persónu Erlends”.[2] Þegar grein hennar var skrifuð var Röddin nýjasta bókin en þessi tilfinning fyrir heildarmynd hefur styrkst enn síðan þá, svo mikið að segja má að bókaflokkurinn sé einskonar Erlendar-saga sem bækurnar um hinn unga Erlend styrkja enn. Heildarmyndin hvílir fyrst og fremst á persónu hans en síður á öðrum persónum, atburðarás eða sögu.
Erlendur er einfari og mannafæla og honum líður best innan um bækurnar sínar, en þær fjalla allar um mannshvörf og hrakfarir. Slíkar bækur hafa reyndar notið mikilla vinsælda hér á landi eins og bókaflokkurinn Hrakningar og heiðavegir er þekkt dæmi um. Hann er sömuleiðis nokkuð einrænn þótt úr því virðist rætast í lok sögunnar. Bókelska Erlendar kemur þó ekki í ljós strax í upphafi en svo er eins og persóna hans renni saman við persónu fornbókasalans Pálma sem er önnur aðalsöguhetjan í Sonum duftsins. Pálmi kemur ekki aftur við sögu í bókum Arnaldar en svo virðist sem þættir úr persónu hans hafi verið endurnýttir til að styrkja persónu Erlendar og í sögunum er mikið um tilvitnanir í bókmenntir.[3] Annað eftirtektarvert atriði er að þrátt fyrir að vera svona einrænn og lítið gefinn fyrir mannleg samskipti virðist Erlendur hafa einstakt lag á því að ná til fólks og fá upp úr því upplýsingar í tengslum við rannsókn málanna. Að auki er hann afar víðsýnn og frjálslyndur, hefur samúð með lítilmagnanum og andúð á hverskyns fordómum. Þetta er í raun í andstöðu við þá mynd sem teiknuð er upp af honum sem ríflega fimmtugum geðillum karlskröggi og kemur enn skýrar í ljós þegar persóna hans er skoðuð í samanburði við Sigurð Óla.
Sigurður Óli er rúmlega þrítugur, vel menntaður en ekki að sama skapi víðsýnn og samskipti hans við Erlend eru stundum dálítið skrautleg, enda er hlutverk hans að nokkru leyti að vera andstæða Erlendar.
Eins og áður segir verður persóna Erlendar æ fyrirferðarmeiri í bókunum eftir því sem á líður, þó með þeim undantekningum að í Myrká og Svörtuloftum eru þau Elínborg og Sigurður Óli í aðalhlutverkum enErlendur fjarverandi. Þau fá þó heilmikið rými í sagnabálkinum í heild. Matreiðsluáhugi Elínborgar er kynntur til sögunnar strax í annarri bókinni og í Kleifarvatni (2004) gefur hún út sína fyrstu matreiðslubók. Fjölskyldulíf hennar er svo enn frekar til umfjöllunar í Myrká, hún er hamingjusamlega gift en á í basli með unglingsson sinn sem farinn er að blogga ótæpilega um prívatmál fjölskyldunnar. Sigurður Óli er í fyrstu einhleypur og virðist hafa tilhneigingu til að drekka of mikið en það lagast þegar hann kynnist Bergþóru, aðalvitninu í málinu í Dauðarósum. Þau byrja að búa saman en lenda í erfiðleikum við að eignast barn og að lokum skilja þau. Í Svörtuloftum er Sigurður Óli því einn á báti og virðist eiga erfitt með að fóta sig. Nokkuð er fjallað um unglingsár hans í Vetrarborginni en það er ekki fyrr en í Svörtuloftum sem lesandi fær frekari innsýn í fjölskyldu hans, kynnist hinni metnaðarfullu móður sem orðin er forríkur endurskoðandi og föður hans, hógværum iðnaðarmanni sem þarf að gangast undir aðgerð vegna blöðruhálskrabba. Þau eru skilin fyrir löngu og samband þeirra minnir um sumt á samband Erlendar og fyrrverandi konu hans og lesandi skilur því betur óþol Sigurðar Óla gagnvart Erlendi.
III
Eins og áður er sagt kemur strax frá upphafi fram mikill áhugi Erlendar á mannshvörfum. Það er engu líkara en að honum finnist hann hálfpartinn skuldbundinn til þess að upplýsa þau enda telur hann að á bak við mörg mannshvörf felist ósýnileg morð. Í Dauðarósum ræðir hann við Evu Lind um morðmál sem leystist upp og var afgreitt sem mannshvarf:
[...] það var svo sem enginn sem kippti sér upp við það þótt þessi maður kæmi ekki í leitirnar. Íslendingar hafa einkennilegt viðhorf til mannshvarfa. Þeir hafa einhvern veginn vanist þeim í gegnum aldirnar þegar menn voru að týnast í vondum veðrum og svo fundust skinin beinin eftir hundrað ár og hvarfið varð að enn einni skemmtilegri draugasögu. Meira að segja Geirfinnsmálið hefur ekki breytt því að neinu ráði. Við kippum okkur ekki mikið upp við mannshvörf nema í undantekingartilvikum. Þau eru partur af íslenskum þjóðsögum. (174)
Auðvitað kemur í ljós að Erlendur hefur rétt fyrir sér, mannshvörf tengjast oft og tíðum glæpum, eins og kemur strax í ljós í fyrstu bókinni en þar er mannshvarf hluti af lausn gátunnar. Frá og með Grafarþögn verða mannshvörfin enn fyrirferðarmeiri, þegar ljóst verður að áhugi Erlendar er af persónulegum toga. Eftir þetta fara málin að tengjast hans eigin harmleik sífellt meira auk þess sem það verður ljósara hversu mikil áhrif hvarf bróðurins hefur haft á hann. Í Röddinni er hinn myrti fyrrverandi kórdrengur og barnastjarna sem aldrei náði að fóta sig sem fullorðinn maður – „fraus“ svo að segja sem barn – og það, í bland við kuldann sem ríkir í hótelherbergi Erlendar, verður til þess að hann fer að hugsa um bróður sinn og dreymir hann meira að segja einu sinni svo ljóslifandi að Erlendur er ekki viss nema um afturgöngu hafi verið að ræða.
Þó hið yfirnáttúrlega sé almennt ekki áberandi í sögunum og Erlendur sé afar frábitinn öllu slíku, eins og fram kemur í Harðskafa, tekur hið dulræna smám saman að ryðja sér meira til rúms þegar líður á bókaflokkinn, með miðlum og tilheyrandi skilaboðum að handan, og þannig getur Arnaldi bæði sleppt og haldið: hann ýtir undir tilfinningu fyrir draugagangi án þess þó nokkurn tíma að staðfesta slíkt – uns þetta nær hámarki í draumförum Erlendar í Furðuströndum, sem nálgast hreinræktaða reimleika.
Í Kleifarvatni sækir minningin um bróðurinn enn á Erlend en þar snýst málið og rannsókn þess að miklu leyti um mannshvörf og í Vetrarborginni, þar sem hinn myrti er hálf-taílenskur drengur, rifjast bróðurmissirinn enn upp fyrir Erlendi. Í Harðskafa verður lesanda ljóst að við svo búið má ekki standa, einkum eftir að miðill sem Erlendur er að yfirheyra gefur í skyn að hann sjái eitthvað í kringum hann. Í Grafarþögn rekst Erlendur óvart á miðil þegar hann er að heimsækja dóttur sína á spítala. Sú grípur í hönd hans og biður hann að bíða og segir svo: „Það er drengur í hríðinni“. Erlendur bregst hinn versti við og þá bætir konan við: „Þú þarft ekkert að óttast [...] Hann er sáttur. Hann er sáttur við það sem gerðist. Það sem gerðist var engum að kenna“ (176). Það er því búið að leggja ákveðna línu snemma í bókaflokknum. Í Harðskafa snýst aðalmálið um mörk lífs og dauða: draugar fortíðar ásækja konu sem hengir sig, að því er virðist, í sumarhúsi sínu á Þingvöllum. Eiginmaður hennar hafði sem ungur maður tekið þátt í tilraun til að deyða mann með því að kæla hann niður svo hjartað stöðvaðist og lífga hann svo við á ný. Meðfram því að rannsaka þetta ætlaða sjálfsmorð tekur Erlendur upp tvö gömul mannshvarfsmál og leysir þau en í bókinni er áherslan frekar á sorg þeirra sem eftir lifa heldur en atvik glæpamála.
Harðskafi endar á því að Erlendur fer austur á land – hverfur „í kalda þokuna“ – og sá þráður er tekinn upp í Furðuströndum en þar er Erlendur allan tímann á gömlum heimaslóðum, býr í rústum síns fyrra heimilis og leitar ákaft að ummerkjum um bróður sinn. Samhliða, og eins og fyrir tilviljun, fer hann að grúska í gamalli sögu af mannshvarfi sem leiðir til dramatískrar niðurstöðu, ekki alveg óáþekkri málalyktunum í Grafarþögn. Furðustrandir marka því ákveðinn hápunkt á sögunni um bróðurhvarfið. Þar rifjar Erlendur stöðugt upp minningar frá bernsku sinni og sú sektarkennd sem liggur eins og rauður þráður í gegnum bækurnar verður enn sterkari. Það er sektarkenndin sem hefur mótað Erlend og gert hann að þessari mótsagnakenndu persónu en hann kennir sér um hvarf bróðurins og seinna meir um fíkn og ólifnað barna sinna. Jafnframt er skáldsagan lokakafli í leit og sjálfsásökunum Erlendar en þar er gefið til kynna að hann finni að lokum líkamsleifar bróður síns og leysi þar með í leiðinni sitt eigið ‚mál‘.
Þessi aukna áhersla á hvarf bróðurins er líka í takt við breytingar á persónu Erlendar. Í fyrstu tveimur bókunum, og jafnvel þeim tveim næstu, er hann afar uppstökkur og reiðigjarn en eftir því sem á líður virðist hann róast í skapinu og áherslan færist yfir á að skilgreina og skynja það sem mótað hefur þennan sérstaka mann.
IV
„Þetta er ekki amerísk bíómynd“ segir Erlendur við Sigurð Óla í Vetrarborginni (141). Þar er hann að ræða mannshvarf, eða réttara sagt konuhvarf, og Sigurður Óli veltir því fyrir sér hvort konan hafi verið líftryggð. Mannshvarf er annað málanna sem er til umræðu í bókinni, en hún fjallar þó aðallega um morð á hálf-taílenskum dreng. Rannsókn málsins hefur óhjákvæmilega í för með sér úttekt á fjölmenningarsamfélaginu svokallaða, stöðu innflytjenda og viðhorfum til þeirra. Sögusviðið er Breiðholt, en þar er að finna afar fjölbreytt samfélag fólks af ólíkum uppruna. Þessi umfjöllun um sambúð innflytjenda og innfæddra í verkinu líkist þó ekki í neinu amerískum bíómyndum og orð Erlendar eiga fullt eins við um það mál eins og hitt, enda er þetta hvorki í fyrsta né eina skiptið sem álíka yfirlýsingar eru gefnar. Þetta stef kallast á við lýsingar á köldum raunveruleika íslenskra glæpa eins og fyrr var nefnt þar sem glæpum á Íslandi er lýst sem slysum og illa ígrunduðu klúðri.
Hlutverk glæpafléttunnar virðist því ekkert endilega vera að lýsa snilli þess sem leysir málið né að gefa lesanda innsýn í forboðinn heim glanslegra gangstera. Áherslan er frekar á hið samfélagslega samhengi og þá sérstaklega samfélagsmeinin sem glæpirnir afhjúpa - og eru hluti af. Þó er það ekki þannig að þar sé glæpasöguformið beinlínis notað til að ráðast markvisst gegn ýmsum stórum vandamálum - pólitískri spillingu, eiturlyfjum, vændi, kynferðislegri misnotkun og svo framvegis – heldur er aðferð Arnaldar frekar sú að láta gagnrýnina koma fram í smáskömmtum, í gegnum hversdagsleg atriði rannsóknarinnar.[4]
Að vissu leyti má halda því fram að hversdagurinn sé því viðfangsefni verka Arnaldar, ekki síður en glæpir. Þessi áhersla á hið hversdagslega hefur í för með sér að tungumálið er laust við allan glamúr. Í grein sinni „Á kálfskinnsfrakka eða Arnaldur Indriðason og bókmenntahefðin“ (2010) bendir Bergljót Kristjánsdóttir á hvernig fordómar gagnvart glæpasögunni á Íslandi birtast í gagnrýni á stíl Arnaldar sem þótti lélegur, þurr og flatur. Bergljót hafnar þessu alfarið og það þarf ekki annað en að skoða textadæmin hér að ofan til að sjá hvernig Arnaldur tálgar stílinn markvisst niður, allt til að skapa andrúmsloft við hæfi. Segja má að stíllinn fylgi mælskulist Erlendar sjálfs. Sem dæmi má nefna lýsingu snemma í Furðuströndum en þar hefur Erlendur slegist í för með refaskyttunni sem hann hittir snemma í bókinni. Sá er afar málglaður og segir Erlendi langar sögur: Erlendur „vissi ekki hvort bóndinn var að hugsa upphátt og ákvað að þegja“ (12). Þannig velur hann iðulega að þegja frekar en segja eitthvað bara til að segja eitthvað og það sama á við um stíl sagnanna.
Þessi agaða framsetning er enn í mótun í fyrstu tveimur bókunum og í Dauðarósum ber nokkuð á löngum einræðum gegn kvótakerfinu en ádeila á það er eitt af lykilatriðum bókarinnar. Kvótakerfið er eitt af fáum hreinræktuðum pólitískum málum sem tekin eru fyrir í bókum Arnaldar en gagnrýni á það kemur aftur fram í Bettý. Frá og með Mýrinni hefur stíllinn slípast og samfélagsleg ádeila er fléttuð inn á látlausari hátt. Gott dæmi er Vetrarborgin þar sem umfjöllun, upplýsingum og vangaveltum um stöðu innflytjenda á Íslandi er haganlega komið á framfæri í litlum dreifðum skömmtum.
Mörg málanna sem tekin eru fyrir í verkunum tengjast eiturlyfjum og fíkn, oft og iðulega í sambandi við börn Erlendar. Kynferðisleg misnotkun og annað ofbeldi kemur víða fram, allt frá Sonum duftsins til Svörtulofta, með viðkomu í Röddinni. Nauðgun á konum er aðalviðfangsefni Myrkár en er einnig mikilvægur þáttur Mýrarinnar, þrátt fyrir að dregið hafi verið úr þeim hluta í kvikmyndinni.[5] Heimilisofbeldi er meginstefið í Grafarþögn og stéttaskipting og stéttafordómar koma reglulega við sögu, allt frá Sonum duftsins þar sem tossabekkir eru mikilvægur þáttur fléttunnar.
Hinn hráslagalegi hversdagsleiki sem umvefur glæpina í verkum Arnaldar er órjúfanlegur hluti af hinu hráslagalega umhverfi sagnanna. Þegar vetrinum sleppir er það hin hvíta og skerandi sumarbirta sem umlykur Erlend og veldur honum vandræðum: „Helvítis miðnætursólin hélt fyrir honum vöku langt frameftir öllu. Það var eins og ekkert dygði á hana. Erlendur reyndi að útiloka svefnherbergi sitt frá næturbirtunni með þykkum gluggatjöldum en henni tókst að smjúga framhjá þeim“ (Dauðarósir, 13). Eins og áður segir kann Erlendur best við sig í kulda og myrkri vetrarins, og hverfur inn í hvíta þoku í lok Harðskafa:
Hann stóð við eyðibýlið sem var gamla heimilið hans og horfði upp í átt að Harðskafa. Það sást ekki vel til fjallsins vegna hrímþoku sem seig æ neðar í fjörðinn. [...] Hann starði langa stund þögull og alvarlegur upp að fjallinu áður en hann lagði af stað fótgangandi með gönguprik og lítinn bakpoka á herðum sér. Honum sóttist ferðin greiðlega og hann var umvafinn þögn náttúrunnar sem lögst var í vetrardvala allt í kringum hann. Áður en langt um leið var hann horfinn í hvíta þokuna. (295)
Þannig spilar Arnaldur á tvær andstæður íslensks veðurfars og fellir saman í eitt en nístandi birtan er þó greinilega meiri óvinur Erlendar en köld þokan. Þetta umhverfi hvítrar auðnar er áberandi í verkum Arnaldar en auðninni fylgir líka ákveðin hugmynd um hreinleika, allt þetta hvíta óendanlega rými skapar tilfinningu fyrir friðsæld og sakleysi. Þarna myndast svo greinileg mótsögn því mitt í þessari friðsæld finnast ummerki um ofbeldi, lík.
Þetta nýtir Arnaldur sér í Furðuströndum. Þar er Erlendur komin á sínar bernskuslóðir, enn upptekinn af hvarfi bróðurins en jafnframt kominn á kaf í að rýna í eitt enn mannshvarfið, mál konu nokkurrar sem varð úti í aftakaveðri á þessum slóðum mörgum áratugum fyrr. Arnaldur leyfir sér hér að fara lengra með ýmsa mystíska undirtóna sem henta viðfangsefninu og fangar fjölmörg blæbrigði innan þessa afskekkta og dreifða sögusviðs.
Arnaldur hnykkir svo enn á þessu með aðalpersónu sinni, Erlendi, og tengir glæpamálin kulda og auðn með stöðugum tilvísunum í fortíð hans og hvarf bróðurins. Eins og áður segir er Erlendur vinur vetrarins, næstum því einskonar morri, því oft og tíðum virðist allt kólna í kringum hann. Þessi sviðsetning er stöðugt ítrekuð, eins og í kaldranalegu umhverfinu í Sonum duftsins, stöðugum haustrigningunum í Mýrinni, kalda hótelherberginu í Röddinni, aftakaveðrinu sem brestur á þegar lausn málsins nálgast í Vetrarborginni, banvænum kulda vatnanna í Harðskafa og sívaxandi kuldanum í Furðuströndum. Þó Harðskafi gerist um síðsumar þá fjallar bókin um kulda, bæði sem hluta af plottinu og svo kuldann sem búið getur í mannssálinni og það sama má segja um Kleifarvatn.
V
Flest gefur til kynna að Erlendur farist í lok Furðustranda, en þó hverfur hann lesendum ekki með öllu eins og áður hefur komið fram. Í Einvíginu birtist hann stuttlega, en sögusviðið er Reykjavík ársins 1972 og heimsmeistaraeinvígið í skák sem fram fór það ár. Bókin hefst á því að lýsa ferð ungs pilts í kvikmyndahús og teiknar í leiðinni upp kvikmyndahúsaheim þessa tímabils, en sem fyrr sýnir Arnaldur sérlega næmi og hæfileika þegar kemur að því að skapa sannferðugt sögulegt andrúmsloft. Skemmtunin endar þó illa fyrir piltinn en hann finnst myrtur í lok sýningarinnar, auk þess sem upptökutæki hans er horfið. Aðallega fjallar bókin þó um Marion Briem, en til hliðar við taflborðið er nefnilega dreginn upp mynd af heimi hinna berklaveiku.. Marion þjáðist af berklum sem barn og jafnhliða þessari veikindasögu kynnist lesandi uppvexti Marions og fjölskylduaðstæðum, en þær eru nokkuð óvanalegar.
Í Reykjavíkurnóttum, sem gerist tveimur árum síðar, er Erlendur hinsvegar í aðalhlutverki. Bókin var kynnt sem ‚fyrsta mál Erlendar‘ og það má með sanni segja, en þó er hann ekki orðinn fulltrúi rannsóknarlögreglunnar þegar hér er komið, heldur aðeins óbreyttur lögreglumaður. Málið rannsakar hann því að mestu upp á eigin spýtur og ekki alveg í þökk yfirvalda. Ástæðan fyrir þessum sjálfsprottnu eftirgrennslunum er sá hæfileiki Erlendar til að sýna samúð og samhug, að þessu sinni með róna sem finnst drukknaður í grunnri tjörn í Kringlumýri. Að auki er sagan heilmikil borgarsaga, eins og reyndar flestar af fyrri bókum Arndaldar. Á ferðum Erlendar um Reykjavíkurborg kynnumst við sögu hennar og skáldum, en sem fyrr er heilmikið um tilvísanir í íslenskan skáldskap. Einnig er vísað til persóna sem koma fyrir í eldri bókunum og því er lesanda boðið upp á að fara í sinn eigin lögguleik með nöfn og lýsingar.
Einnig kemur mannshvarf við sögu, líkt og í Kamp Knox en hún gerist árið 1979. Auk þess að sinna rannsókn á dauðsfalli á Reykjanesi er Erlendur að kanna mál frá árinu 1953, en þá hvarf ung stúlka sporlaust einn morgunn á leið sinni frá Vesturbænum í Kvennaskólann. Leið hennar lá framhjá einu braggahverfinu, Kamp Knox, sem stóð þar sem Sundlaug Vesturbæjar er nú. Braggahverfin eru leifar af hersetunni og í Kamp Knox er herinn yfir og allt um kring. Skáldsagan er í raun að hluta til um herinn og veru hans hér, komið er inn á samskipti hermanna og heimamanna, smygl, dægurtónlist og svo auðvitað braggahverfið sjálft.
Persóna Erlendar er burðarás meginhluta verka Arnaldar og jafnframt einskonar táknmynd fyrir þær breytingar sem orðið hafa á íslensku samfélagi frá og með síðari heimsstyrjöld. Arnaldur notar Erlend til að fjalla um gamla tíma í nýjum heimkynnum. Eftirgrennslanir Erlendar og þrautsegja hans tilheyra eiginlega horfnum tíma, sem endurspeglast svo í hægfara en þó stígandi og knýjandi hrynjanda sagnanna.
Það er þekkt að höfundar þreytast á aðalsöguhetjum sínum, sem lesendur á hinn bóginn elska. Á sínum tíma reyndi Arthur Conan Doyle að drepa af sér Sherlock Holmes, og Hergé fékk martaðir um Tinna. Það er því snjallræði hjá Arnaldi að kynna Erlend upp á nýtt fyrir lesendum, sem ungan mann í upphafi ferils síns – ungan en þó strax í raun gamlan, og gefa þeim jafnframt tækifæri til að fylgjast með því hvernig hann verður að þeim manni sem síðar markar sín eigin spor í íslenska bókmenntasögu.
VI
Eins og áður segir eru sögur Arnaldar iðulega sögulegar á einhvern hátt. Eitt af þeim þemum sem skjóta reglulega upp kollinum er hersetan og afleiðingar hennar. Því má ekki gleyma að hernámið og áframhaldandi nærvera bandaríska hersins í kjölfar síðari heimsstyrjaldar markaði þáttaskil fyrir íslenskt samfélag, skipti sköpum í íslenskri menningarsögu. Samband Íslendinga við herinn og söguna um hersetuna og herstöðina hefur alltaf verið flókið eins og best kom líklegast fram við brotthvarf hans. Hvað sem segja má um hersetuna og seinna herstöðina þá er ljóst að hvorttveggja hefur nýst rithöfundum ákaflega vel sem efniviður í skáldskap og má meðal annars nefna tvær áhrifaríkar sögur, Gangvirki Ólafs Jóhanns Sigurðssonar og 79 af stöðinni eftir Indriða G. Þorsteinsson, en báðar komu út árið 1955, áratug eftir að síðari heimsstyrjöld lauk. Bæði verkin bera með sér að hersetan skildi eftir sig djúp spor í þjóðarsálinni; í grein sinni um þríleik Ólafs Jóhanns talar Daisy Neijmann um ‚rof‘ og ‚tráma‘ í tengslum við Gangvirkið og vísar þar sérstaklega til síðustu orða sögunnar: „Eftir var tóm eitt og þögn“.[6] En sagan endar einmitt á því að breskur her sest að á Íslandi.
Spilling og samsæri tengd síðari heimsstyrjöld er viðfangsefni Napóleonsskjalanna og Konungsbók (2006) fjallar um afleiðingar síðari heimsstyrjaldar. Hvorug þessara tilheyrir þó Erlendar-seríunni eins og áður hefur komið fram. Napóleonsskjölin segir frá flugvél sem finnst á jökli eftir áratuga hvarf, en nokkrir ungir menn koma þar að og verða fyrir ‚slysi‘. Systir eins þeirra fer að rannsaka slysið nánar og áður en veit er hún föst í flóknum vef njósna og leyndardóma. Konungsbók gerist hinsvegar stuttu eftir síðari heimsstyrjöld, en þar flækist ungur nemi í norrænum fræðum inn í mál sem varðar horfin handrit og hugmyndir nasista um æðri kynstofna. Njósnir á tímum kalda stríðsins koma fyrir í Kleifarvatni, þar skiptist frásögnin í tvær raddir, eina úr fortíð og aðra í nútíð, líkt og í Grafarþögn, en í þeirri bók tengist viðfangsefnið einnig stríðsárunum.
Reykjavík stríðsáranna er bakgrunnur nýrrar sögusyrpu Arnaldar, sem hófst með Skuggasundi árið 2013. Í henni kynnir Arnaldur til sögunnar nýtt lögguteymi, en sagan gerist á tveimur tímasviðum: Á stríðsárunum finnst stúlkulík fyrir aftan þjóðleikhúsið og í nútímanum reynist lát ríflega níræðs karlmanns vera morð. Líkt og fyrr er um vandað verk að ræða og Arnaldur teiknar upp áhrifamikla mynd af Reykjavík stríðsáranna, auk þess að fjalla ítarlega um eitt af elstu hverfum borgarinnar, Skuggahverfi, sem á undanförnum áratug hefur gengið í gegnum róttækar breytingar.
Í Þýska húsinu (2015) kallar hann aftur fram á sjónarsviðið persónur úr Skuggasundi, vestur-íslenska herlögreglumanninn Thorson og íslenska lögreglumanninn Flóvent. Hér rannsaka þeir gróft morð á farandsala. Sem fyrr er lögð áhersla á að teikna upp sögusvið stríðsáranna og lýsa áhrifum hernámsins á land og þjóð, auk þess að gefa mynd af Reykjavík þessa tímabils, meðal annars því hvernig íslendingar voru um margt hallir undir nasismann. Að auki vísar Arnaldur til fyrstu skáldsögu sinnar, Sona duftsins, en bæði verkin fjalla um tilraunir sem gerðar eru á drengjum án þeirrar vitundar. Hér er það nasisminn sem er hið myrka afl, en í Sonum duftsins eru voðaverkin framin í krafti auðs og vísinda, og þrá eftir ódauðleika.
Daisy Neijmann hefur fjallað um hernámið í sögum Arnaldar og ræðir þar meðal annars hvernig hann skrifar um “ástandið” svokallaða í verkum sínum, og birtir þar oft nokkuð ólíka mynd frá þeirri sem gekk ljósum logum um bókmenntir eftirstríðsáranna.[7] Hún bendir sérstaklega á hvernig Arnaldur sýnir ‚ástandskonuna‘ í nýju ljósi og nefnir sem dæmi konurnar í Grafarþögn og Skuggasundi, sú fyrri býr við ofbeldi af hálfu íslensks eiginmanns, en þar kemur amerískur hermaður til bjargar og sú síðari er fórnarlamb íslensks ofbeldismanns sem lék sér að því að fara illa með konur. Jafnframt er viðhorfi til íslenskra kvenna sem áttu í samböndum við ameríska hermenn lýst á vægðarlausan hátt.
Þessi samúð með ástandskonum er einnig áberandi í þriðju bók þessarar syrpu Petsamo (2016). Sem fyrr er Arnaldi ekki síður umhugað um að skoða sögu þessara umbrotatíma en glæpamálin. Inn í söguna fléttar hann svo stríðsnjósnum og svikum, en íslenskur námsmaður flækist inn í andspyrnuna í Kaupmannahöfn og er handtekin. Unnusta hans er ein þeirra sem kemst til Íslands í stríðsbyrjun í hinni frægu Petsamoferð (1940), en þar gáfu stríðandi aðilar einstaka undanþágu fyrir siglingu farþegaskips fullu af Íslendingum sem vildu flýja stríðið í Evrópu. Sagan segir að þýskur flugumaður hafi verið um borð og Arnaldur nýtir sér það. Sagan lýsir að auki stéttaskiptinu í Reykjavík þess tíma og aðstæðum þeirra kvenna sem nýttu sér ‚ástandið‘. Og ekki bara kvenna, því Arnaldur fjallar líka um sambönd íslenskra karlmanna og hermanna.
VII
Arnaldur Indriðason er merkilegur höfundur í íslenskri bókmenntasögu. Honum hefur tekist að hrinda af stað bylgju íslenskra glæpasagna og með því festa íslenskar glæpasögur í sessi sem viðurkennt og vinsælt bókmenntaform. Það að koma íslenskum glæpasögum á íslenska bókmenntakortið hefur síðan haft þau áhrif að önnur form bókmennta hafa smám saman rutt sér til rúms, eins og auknar vinsældir furðusagna eru til marks um. Ennfremur hafa vinsældir sagna Arnaldar náð langt út fyrir landsteinana með þeim afleiðingum að áhuga erlendra lesenda á íslenskum bókmenntum – og Íslandi almennt – hefur aukist til muna. Án þess að ætla að draga úr gæðum þeirra íslensku skáldverka sem vakið hafa athygli erlendis, þá er ljóst að vinsældir Arnaldar hafa haft mikið að segja til að minna á bókmenntir þessarar örsmáu eyþjóðar og gefa þeim aukið rými á bókamessum og –mörkuðum. Og síðast en ekki síst er Arnaldur framúrskarandi glæpasagnahöfundur sem nýtir sér formið á áhrifaríkan hátt til að fjalla um sögu Reykjavíkurborgar, með sérstakri áherslu á þau margvíslegu samfélagslegu átök sem finna má innan borgarmenningarinnar.
úlfhildur dagsdóttir, 2017
Þessi grein er skrifuð upp úr grein um verk Arnaldar Indriðasonar sem birtist í Tímariti Máls og menningar 3:2011. Ég kann ritstjóra, Guðmundi Andra Thorssyni, góðar þakkir fyrir yfirlestur.
[1] Kristín Árnadóttir fjallar um lögreglusögur í grein sinni „Hverra manna er Erlendur?”, í Tímarit Máls og menningar, 1:2003, bls. 50-56.
[2] Kristín Árnadóttir, „Hverra manna er Erlendur?”, bls. 53.
[3] Sjá um bókmenntatilvísanir í bókum Arnaldar: Bergljót Soffía Kristjánsdóttir, „Á kálfskinnsfrakka eða Arnaldur Indriðason og bókmenntahefðin”, Skírnir haust 2010, bls. 434-454.
[4] Kristín Árnadóttir leggur mikla áherslu á þetta atriði í grein sinni „Hverra manna er Erlendur?”.
[5] Björn Ægir Norðfjörð fjallar sérstaklega um þetta atriði í grein sinni „„A Typical Icelandic Murder?” A ‘Criminal’ Adaptation of Jar City”, Journal of Scandinavian Cinema, 1:2011, bls. 37-49.
[6] Daisy Neijmann, „Hringsól um dulinn kjarna“, Ritið 1:2012, bls. 117-119.
[7] Daisy Neijmann fjallaði um þetta í Bókakaffi í Gerðubergi á vegum Borgarbókasafnsins, 24. febrúar 2016, undir yfirskriftinni: „Siðspilling og sóðaskapur, hildarleikur og huldumál: að skyggnast um eftir horfnum uppgangstímum í sögum Arnaldar Indriðasonar“. Sjá einnig grein hennar, „War and Crime in the Work of Arnaldur Indriðason” (opinn aðgangur, PDF) í Tijdschrift voor Skandinavistiek 35.1 (2017).
Greinar
Almenn umfjöllun
Daisy Neijmann. "Stríð og glæpir í skáldsögum Arnaldar Indriðasonar", Tímarit Máls og menningar. 2020; 81 (3): bls. 5-30
Daisy Neijmann, (2017). "War and crime in the work of Arnaldur Indriðason". Tijdschrift Voor Skandinavistiek.
Daisy Neijmann (2016). "Soldiers and Other Monsters: the Allied Occupation in Icelandic Fiction". Scandinavian-Canadian Studies, 23, 96–120
Ásta Gísladóttir: „Á slóð glæpa í Arnaldarrútu“
Spássían 2011, 2. árg., sumar, bls. 47.
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: „Á Kálfskinnfrakka eða Arnaldur Indriðason og bókmenntaarfleifðin“
Skírnir 2010, 184. árg. (haust), s. 434-454.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Codus criminalus: mannshvörf og glæpir“
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 3. tbl. bls. 51-66.
Jón Knútur Ásmundsson: „Arnaldur er stórt fyrirtæki“
Frjáls verslun, 67. árg., 10. tbl. 2005, s. 58-59.
Katrín Jakobsdóttir: „Merkingarlausir Íslendingar: um samfélag og þjóðerni í sögum Arnaldar Indriðasonar.“
Skírnir, 179. árg. (vor) 2005, s. 141-159.
Kristín Árnadóttir: „Hverra manna er Erlendur? : Sögur Arnaldar Indriðasonar um Erlend Sveinsson og tengsl þeirra við sænsku raunsæissakamálasöguna“
Tímarit Máls og menningar, 64. árg., 1. tbl. 2003, s. 50-56.
Katrín Jakobsdóttir: Glæpurinn sem ekki fannst : Saga og þróun íslenskra glæpasagna.
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 2001
Um einstök verk
Bettý
Úlfhildur Dagsdóttir: „Háskakvendi á norðurslóðum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Dauðarósir og Synir duftsins
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: „Á kálfskinnsfrakka eða Arnaldur Indriðason og bókmenntaarfleifðin“
Skírnir 2010, 184. árg., haust, bls. 434-54.
Grafarþögn
Eva Sóley Sigurðardóttir: „Grafarþögn“
Bókasafnið, 2003, s. 77.
Furðustrandir
Auður Aðalsteinsdóttir: „Draugar fortíðar“
Spássían 2011, 2. árg., haust, bls. 14.
Harðskafi
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína 2008, 3. árg., 2. tbl. bls. 123-34.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Einhver draugalýsulog“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Einvígið
Úlfhildur Dagsdóttir: „Undir urðarmána“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Furðustrandir
Ingibjörg Rögnvaldsdóttir: „Mannskaðar á fjöllum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kamp Knox
Úlfhildur Dagsdóttir: „Dauðinn og stúlkan“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Kleifarvatn
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Söknuður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Katrín Jakobsdóttir: „Leyndarmál úr djúpinu“
Tímarit Máls og menningar, 66. árg., 3. tbl. 2005, s. 113-116.
Konungsbók
Úlfhildur Dagsdóttir: „Handritin heim“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Myrká
Úlfhildur Dagsdóttir: „... þarna er efinn“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Myrkrið veit
Vera Knútsdóttir: „Myrkrið veit“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Mýrin
Helen Sigurdson: „Tainted blood: by Arnaldur Indriðason“ (ritdómur)
The Icelandic Canadian 2006, 60. árg., 1. tbl. bls. 40-1.
Petsamo
Vera Knútsdóttir: „Meira af glæpum á sögusviði Reykjavíkur stríðsáranna“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Reykjavíkurnætur
Úlfhildur Dagsdóttir: „Og rónarnir eru skammt undan“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Skuggasund
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Furðulegir tímar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Stúlkan hjá brúnni
Úlfhildur Dagsdóttir: „Örlög, álög, ólög“
Bókmenntaborgin, umfjöllun um bækur, sjá hér
Vetrarborgin
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Napur vindur sem hvín ...“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Þýska húsið
Daisy Neijmann: „Rannsóknir á stríðsárum“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Greinar og viðtöl við Arnald Indriðason auk ritdóma um bækur hans, hafa einnig birst í dagblöðum. Sjá til dæmis Gagnasafn Morgunblaðsins
Verðlaun
2021 - Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar
2017 – Blóðdropinn, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags: Petsamo
2015 – Chevalier des Arts et des Lettres, riddaraorða franska menningarráðuneytisins fyrir framlag til franskrar menningar
2023 - Premio RBA de Novela Negra: Skuggasund
2009 – Heiðursverðlaun Finnska glæpasagnafélagsins (Suomen dekkariseura ry).
2009 – The Barry Award, bresk glæpasagnaverðlaun: The Draining Lake (Kleifarvatn). Sem besta glæpasagan.
2008 – Blóðdropinn, glæpasagnaverðlaun Hins íslenska glæpafélags: Harðskafi
2008 – Le Prix du Polar Européen, bókmenntaverðlaun franska tímaritsins Le Point: L’homme du lac (Kleifarvatn)
2007 – Grand Prix des Lectrice de Elle í Frakklandi: La Femme en vert (Grafarþögn í þýðingu Eric Boury)
2006 – Ouessant bókmenntaverðlaunin í Frakklandi: La Femme en vert (Grafarþögn, í þýðingu Eric Boury).
2006 – Le Prix Mystère de la Critique: bókmenntaverðlaunin í Frakkalandi La Cité des Jarres (Mýrin, í þýðingu Eric Boury). Í flokki þýddra glæpasagna.
2006 – Coeur Noir (Svarta hjartað) bókmenntaverðlaunin í Frakklandi: La Cité des Jarres (Mýrin, í þýðingu Eric Boury). Sem besta þýdda glæpasagan.
2005 – Martin Beck verðlaunin: Ängelrösten (Röddin, í þýðingu Ylfu Hellerud). Sem besta þýdda glæpasagan í Svíþjóð.
2005 – The Golden Dagger: Silence of the Grave (Grafarþögn, í þýðingu Bernards Scudders)
2003 – Sænsku Caliber-verðlaunin fyrir bestu glæpasöguna: Glasbruket (Mýrin)
2003 – Skandinaviska Kriminalselskabet – Glerlykillinn: Grafarþögn
2002 – Skandinaviska Kriminalselskabet – Glerlykillinn: Mýrin
Tilnefningar
2021 - Íslensku bókmenntaverðlaunin: Sigurverkið.
2010 – Martin Beck verðlaunin í Svíþjóð: Mörka strömmar (Myrká). Sem besta þýdda glæpasagan.
2010 – CWA International Dagger: Hypothermia (Harðskafi)
2009 – CWA International Dagger: Arctic Chill (Vetrarborgin í þýðingu Bernards Scudders og Victoriu Cribb)
2009 – Macavity Award (Mystery Readers International): The Draining Lake (Kleifarvatn í þýðingu Bernards Scudders)
2008 – Skandinaviska Kriminalselskabet – Glerlykillinn: Harðskafi
2007 – Martin Beck verðlaunin í Svíþjóð: Vinterstaden (Vetrarborgin). Sem besta þýdda glæpasagan.
2007 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókabúða: Harðskafi
2006 – Bandarísku Gumshoe verðlaunin, sem besta evrópska glæpasagan útgefin í Bandaríkjunum það ár: Jar City (Mýrin)
2006 – Írsku IMPAC bókmenntaverðlaunin: Jar City (Mýrin)
2005 – The CWA Gold and Silver Daggers For Fiction (bresk glæpasagnaverðlaun; Crime Writers´ Association): Silence of the Grave (Grafarþögn)
2004 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Kleifarvatn
2004 – Martin Beck verðlaunin í Svíþjóð: Kvinna i grönt (Grafarþögn). Sem besta þýdda glæpasagan
2003 – Martin Beck verðlaunin: Glasbruket (Mýrin). Sem besta þýdda glæpasagan
2001 – Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókabúða: Grafarþögn
2001 – Menningarverðlaun DV í bókmenntum: Mýrin
Sæluríkið
Lesa meiraMarta hristi höfuðið. - Konni, Síldarútvegsnefnd? Gamlar Lödur? Konráð yppti öxlum. - Ég veit það, vinan, en þetta er Ísland. Það er enginn James Bond í þessu.Kyrrþey
Lesa meiraÍ fórum látins manns finnur ekkjan lúna skammbyssu og fer með hana til lögreglunnar.Sigurverkið
Lesa meiraLes fantomes de Reykjavik
Lesa meiraÞagnarmúr
Lesa meiraTregasteinn
Lesa meiraLes roses de la nuit
Lesa meiraSkuggor över Reykjavik
Lesa meiraQuel che sa la notte
Lesa meira
Fjör í fjölleikahúsi
Lesa meira