Æviágrip
Gyrðir Elíasson fæddist í Reykjavík þann 4. apríl 1961. Hann er Austfirðingur að ætt og uppruna en ólst upp á Sauðárkróki og gekk þar í grunn- og framhaldsskóla. Hann bjó um nokkurt skeið vestanlands, í Borgarnesi og á Akranesi, en seinna í Reykjavík.
Gyrðir hefur nánast alla sína fullorðinsævi unnið við ritstörf, hann hefur sent frá sér fjölda verka af ýmsu tagi: ljóðabækur, skáldsögur og sagnasöfn. Fyrsta útgefna bók hans er ljóðabókin Svarthvít axlabönd frá árinu 1983. Hann er einnig ötull þýðandi, meðal annars bóka um og eftir ameríska frumbyggja, og hefur þýtt fjórar af skáldsögum bandaríska rithöfundarins Richards Brautigan. Árið 2011 sendi Gyrðir frá sér veglegt safn ljóðaþýðinga, Tunglið braust inn í húsið, en þar er að finna ljóð eftir 36 skáld frá fimmtán löndum.
Gyrðir hefur hlotið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín, til að mynda Íslensku bókmenntaverðlaunin m.a. árið 2000 fyrir smásagnasafnið Gula húsið og Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2011 fyrir sagnasafnið Milli trjánna. Hann hefur í tvígang hlotið íslensku þýðingarverðlaunin árið 2012 fyrir ljóðasafnið Tunglið braust inní húsið og 2015 fyrir Listin að vera einn eftir Shuntaro Tanikawa. Bók hans Sorgarmarsinn (Requiem) í þýðingu Catherine Eyjólfsson komst á stuttlista frönsku Médicis-verðlaunanna 2022. Árið 2023 hlaut hann Maístjörnuna og bókaverðlaun starfsfólks bókaverslana fyrir ljóðabókatvennuna Dulstirni og Meðan glerið sefur.
Árið 2024 hlaut Gyrðir hin virtu Tranströmer-verðlaun sem veitt eru annað hvert ár fyrir afburðarskáldskap í anda sænska ljóðskáldsins Tomas Tranströmer.
Mynd af höfundi: Einar Falur Ingólfsson.
Frá höfundi
Frá Gyrði Elíassyni
Ég er fæddur í Reykjavík, 4. apríl 1961. Fluttist með foreldrum mínum norður á Sauðárkrók um tveggja ára aldur, og bjó þar fram yfir tvítugt. Hinsvegar er ég í báðar ættir frá Borgarfirði eystra, og var þess vegna mikið þar á sumrin, hjá afa mínum og ömmu í móðurætt. Tengslin við Skagafjörð urðu kannski þess vegna ekki jafn afgerandi og annars hefði orðið, og eiginlega miðaðist allt við Austurlandið í bernsku. Sennilega er umhverfi barnæskunnar flestum höfundum hugleikið, og í mínu tilfelli hafa þessir tveir firðir leikið býsna stór hlutverk í því sem ég hef skrifað – þetta gerist reyndar ekki síður ómeðvitað. Kannski getur rithöfundur aldrei skrifað í raun um neitt annað en það sem hann þekkir, og það er staðreynd sem flestir sem skrifa hafa rekið sig á að það er nánast útilokað að finna neitt upp alveg frá grunni. Alltaf skjóta upp kollinum rótarangar úr lífi höfundar.
Ég lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki 1982, og fór síðan suður til að setjast í Háskólann – nánar tiltekið bókmenntafræði. Það nám stóð hinsvegar stutt, fáeinar vikur, og þar með var ég eiginlega endanlega búinn að fá nóg af þeirri fræðigrein sem slíkri. Árið eftir reyndi ég fyrir mér í Kennaraháskóla Íslands, og entist þar rúman vetur. Eftir það bjó ég á Borgarfirði eystra einn vetur og þóttist vera að kenna þar einhvern vísi að myndlist, en í rauninni var ég fyrst og fremst að baksa við að skrifa þar. Ég hafði fyrst í Fjölbrautaskólanum byrjað á yrkingum í skólablað – sem blessunarlega eru gleymdar þar. Ég held að ég hafi ekki farið sérlega vel af stað, satt að segja. En meðan ég var í námi þar kom til starfa við skólann Geirlaugur Magnússon, og hann fékkst við ljóðagerð. Hann átti gríðarlegt safn erlendra bóka sem ég mátti ganga í að vild, og ég sýndi honum það sem ég var að fást við að yrkja. Honum leist að vísu ekki vel á það, sem ekki var von, en ég hélt samt áfram.
Fyrsta ljóðabókin kom haustið 1983, árið sem ég settist í Kennaraháskólann. Eftir veturinn þar var mér nokkuð ljóst að kennsla hentaði mér ekki (þótt ég reyndi eftir það að kenna á Borgarfirði), og sú hugmynd var farin að mótast í mér að fást við skriftir sem lífsstarf. Ekki veit ég alveg núna hvað ég hafði fyrir mér í því, nema þrjóskuna. Alveg frá því ég lærði að lesa hafði ég lesið mikið, en lítið fengist við að skrifa þar til í Fjölbrautaskólanum – með þeirri undantekningu að fimm ára setti ég saman bók um íkorna og notaði nafnið á henni 22 árum seinna á minni fyrstu útgefnu sögu.
Síðan hef ég fengist nánast jöfnum höndum við sögur og ljóð, auk þýðinga. Þýðingar eru mjög góður skóli finnst mér, maður kemur öðruvísi að tungumálinu og lærir ýmislegt – bæði af mistökum og því sem betur heppnast – og svo er oft mjög gott að hvíla sig á sjálfum sér; fara ofan í saumana á verki annars höfundar á þann hátt sem til dæmis lestur býður ekki upp á til fulls. Auk þess finnst mér það næstum vera skylda íslenskra rithöfunda að leggja hönd á plóginn í þýðingum, því einsog allir vita eru þær mjög mikilvægar svona litlu málsvæði.
Ég er giftur og á þrjár dætur, þar af eina frá „fyrra stríði“ eins og sagt er! Pétur Gunnarsson sagði einhverntíma að hann hefði ekki fundið sig í skrifunum fyrr en börnin komu, og ég held ég gæti tekið undir það. En hvað með H.C. Andersen? spyr þá kannski einhver. Jú, en hann var líka sitt eigið barn! Börn endurnýja og halda sýn manns vakandi, þó kannski sé stundum erfitt að samræma þetta undarlega starf venjulegu heimilishaldi frá degi til dags.
Líklega er hlutverk rithöfundar í samfélagi nútímans nokkuð breytt, þó er ekki víst að staða hans hafi breyst jafn mikið og afstaða fólksins til hans. En skáld sem jafnframt eru spámenn þjóðfélagsins eru líklega liðin tíð. Og þó er ekki gott um það að segja. En jafnvel lágmæltustu skáld geta haft skýra afstöðu. Þorsteinn Valdimarsson er gott dæmi. Allt hans lífsverk var markað afstöðu til lífsins sem var trúarleg í innsta eðli sínu – og þess vegna var smáljóð um blóm eftir hann hápólitískt í þeim skilningi að það fordæmdi næstum orðalaust eyðingu sköpunarverksins: blómið var tákn gegn stríði og yfirgangi varðandi náttúruna. Þetta er kannski ekki alltaf nægilega athugað þegar skáld nútímans eru gagnrýnd fyrir innhverfu og sinnuleysi gagnvart brennandi málum samtíðarinnar. Samt er ég ekki þar með að segja að gagnrýnin eigi sér enga stoð. Skáld eiga auðvitað ekki að lokast inni, jórtra á einhverjum bás sérhæfingarinnar, þar sem sýsl með orð er þeirra eina viðurkennda svæði.
Fyrr á öldum runnu list og trú í sama farvegi. Það er eiginlega ekki fyrr en á síðustu öld að leiðir skildu á yfirborðinu, og listin fór að renna í átt til vísindanna, gegnum natúralismann og realismann. En í innsta eðli sínu hefur listin alltaf staðið nær trúnni, dulhyggjunni en vísindunum. Ég held að nú í lok 20. aldar séu svokallaðir listamenn að átta sig á þessu í ríkari mæli, og að lokum fari svo að þessir tveir meginstraumar renni aftur saman. Að vísu er ég ekki spámaður, svo það er ekki víst að þetta sé annað en mín tilfinning.
Gyrðir Elíasson, 2000.
1983-2000
Hér má lesa grein Kristjáns B. Jónassonar um verk Gyrðis Elíassonar. Hún birtist árið 2000.
Hér á síðu Gyrðis má einnig finna nýrri grein Hrafnhildar Þórhallsdóttur, sem fjallar um verk Gyrðis á tímabilinu 2000-2022.
Um verk Gyrðis Elíassonar
Fyrstu ljóð
Fyrsta ljóðabók Gyrðis Elíassonar, Svarthvít axlabönd, sem kom út árið 1983, geymir merkilega lítið af þeim mælskufræðilega og pólitíska ljóðstíl sem hafði verið svo áberandi í ljóðum yngri skálda á Íslandi um 1980. Einu tilvísanirnar til hins pólitíska ljóðs áttunda áratugarins eru írónískar, svo sem heiti ljóðsins „Dagur verkalýðsins“, sem er lýsing á timburmönnum og einmanaleika, vörðuð hnyttnum tilvitnunum í önnur bókmenntaverk eins og „ljóðskáldinu berst aldrei bréf“ eða „skiptinemi í undralandi“. Ljóðin eru flest knöpp og öguð, byggð upp á einföldum myndum eða úthugsuðum orðaleikjum. Þau lengri bera einkenni þess stíls sem átti eftir að einkenna ljóð Gyrðis á komandi árum: Hugtökum og hlutum af sundurleitasta tagi er slegið saman í púkk með harðneskjulegu, nánast árásargjörnu myndmáli. Yfirleitt er ljóðvitundin ein í sínum heimi og mörg ljóðanna fjalla um einangrun og einsemd. Þessi einangrun elur hins vegar sjaldnast af sér sjálfsvorkunn eða vonleysi, heldur undirstrikar hún enn hinn sérstaka tón sem er ýmist skoplegur eða árásargjarn: Einstæðingur Gyrðis virðir oft einangrun sína reiðilega fyrir sér, án þess þó að megna að brjóta sér leiðir út úr henni. Hann duflar við sjálfsmorð, talar um höfuð sitt sem „hvítkalkaða hvelfingu“ og hugleiðir endanleikann, en gerir það í tóni sem vegur salt á milli kerskni og volæðis. Það er lýsandi fyrir þessa sýn á hlutskipti einstæðingsins að lesandinn er ekki fylllega sannfærður um hvort lokaorð bókarinnar, „Mér líður ekki vel“, (sem eru úr ljóðinu „Úr kvöldbók einstæðings“) séu meint sem einlæg tjáning einmana mælanda eða séu einskonar skoplegur útúrsnúningur. Að minnsta kosti eru svipmyndir þessarar ljóðvitundar af einstæðingslífi sínu afar fjölbreyttar og ekki alltaf hægt að treysta því fyllilega að þar sé á ferðinni „sönn“ tjáning á einmanaleika eða einsemd. Æ síðan hefur þessi blanda af óvæntum og stundum jafnvel mótsagnakenndum hugrenningatengslum, skopi og viðkvæmni, verið megineinkenni á ljóðum Gyrðis.
Ljóð níunda áratugarins
A. Nýtt tungumál
Það er eitt helsta einkennið á ljóðum Gyrðis Elíassonar og fleiri skálda sem komu fram á níunda áratugnum, s.s. Ísaks Harðarsonar, að þar fer saman endurnýjuð áhersla á fagurfræðilegar forsendur módernismans og umfjöllun um fjölmiðlun nútímans, önnur boðskiptatæki en ljóðið, eins og útvarp, dagblöð eða sjónvarp. Hvað varðar ljóð Gyrðis er þetta einkum áberandi í þeim tveimur bókum sem fylgja í kjölfar Svarthvítra axlabanda: Tvíbreitt (svig)rúm (1984) og Einskonar höfuðlausn (1985), en einnig má sjá athyglisverða þróun þessara stefja í fjórðu ljóðabók hans, Bak við maríuglerið (1985).
Svo litið sé fyrst á fyrri bækurnar tvær þá er þar á ferð svipuð ljóðvitund og í Svarthvítum axlaböndum, hinn einmana, en óútreiknanlega og oft skoplega rödd og hún er til að mynda áberandi í upphafsljóðum Tvíbreiðs (svig)rúms, „insomnia“ og „þýngsli“. Bækurnar tvær einkennast þó ekki af lýsingum á „firringu“, fjarlægð manns frá manni, heldur af áherslu á hlutina sem ljóðvitundin sér utan síns einmana hrings og orðin sem hún les og heyrir. Þeim sem mælir gengur hins vegar jafn illa að finna tengsl við hlutina og honum gengur illa að koma á sambandi við annað fólk. Það er sem hann sjái ekki hlutina fyrir orðunum sem notuð eru til að tákna þá. Ljóðin verða safn af sundurleitum boðskiptabrotum, slitrum úr öðrum ljóðum, titlum bóka, gömlum lögum, nöfnum á persónum í bókum, sjónvarpsþáttum og kvikyndum, grafískum prenttáknum og frösum úr auglýsingum og fjölmiðlum. Sjálfstjáning hinnar einmana vitundar verður að tjáningu á því sem að henni berst. Hún skynjar sig sem einangraða, en um leið stútfulla af orðum annarra, af frösum sem hrúgast upp og tengjast öðrum frösum. Ljóðvitundin á afar fá orð sem hún getur kallað „persónuleg“, en í stað þess að sleppa því að tala (nú eða þá að skrifa um þögnina, um tjáningarvandann, sem er algengt stef í módernískri ljóðlist) grípur hún klisjurnar á lofti og snýr út úr þeim, skrumskælir þær og steypir þeim saman í texta sem ýmist er ógnvekjandi eða skoplegur, en oftast hvort tveggja í senn.
Þetta á einkum við bókna Einskonar höfuð lausn, þar sem gengið er lengra en í Tvíbreiðu (svig)rúmi í að nota ýmis uppsetningarbrögð og prenttákn til að sýna nálægð textans við aðra miðla en ljóðið og þar sem ólíkum merkingarsviðum er stöðugt slengt saman. Þetta má til dæmis sjá af ljóðinu „Q“ (bls. 22):
glerkennd augu lognmolla brennidepill
haustsól á niðurleið(geislasneitt
ozonlag)tvær stúlkur haveacokeandasmile
skilti fjallhríngur asúrblár andstuttir
bílar að hraða sér heim(fellibylurinn
diana væntanleg á leið sinni suðaustur
til buckingham)
mistur sem þéttist
Þessi brögð eiga sér augljósar hliðstæður í konkretljóðlist sjöunda og áttunda áratugarins og tungumálsskynjunin er ekki ólík þeirri sem sjá má hjá mörgum evrópskum ljóðskáldum þess tíma. Í fyrsta lagi er höfuðáherslan lögð á miðilinn, tungumálið, en um leið er sú tilfinning ríkjandi að það sé velkt og úr sér gengið, hugmyndafræði vitundariðnaðarins og fjölmiðlanna hafi skrumskælt það og gert það að ónýtu tæki. Eini leikurinn í stöðunni sé því að snúa út úr, skopstæla, raða því þekkta upp þannig að það verði nýtt, eða að minnsta kosti sýnist nýtt, og kafa eftir undarlegum og skondnum tengingum milli annars ótengdra orða sem sýna önnur hugrenningatengsl en þau sem alla jafna er haldið að málnotendunum. Þó er ekki hægt að segja að Gyrðir hafi einbeitt sér sérstaklega að tungumálinu í þessum bókum. Þess í stað gaf hann klisjunum vægi utan tungumálsleikjanna, fékk þær til að tjá ógn og yfirvofandi skelfingu sem var ráðandi undirtónn ljóðanna. Við þetta blandast einnig sú hugsun að tengsl tungumáls ógnar séu mjög flókin því á vissan hátt er ógnin handan tungumálsins, hún er of yfirgengileg til að hægt sé að setja hana fram í beinum orðum. Klisjan varð því að einskonar farartæki sem ýtti lesandanum í átt að skelfingartilfinningunni. Kunnuglegu orðin urðu enn hræðilegri þegar þau tjáðu hörmungar og dauða.
B. Augu og gler
Tilraunir Gyrðis til að beita uppsetningu, orðaleikjum og frösum úr fjölmiðlum (eða þá tilvitnunum í fjölmiðla) til að ná utan um ógnartilfinninguna má glöggt sjá í kunnu ljóði í Einskonar höfuð lausn, „f“. Það er sett upp eins og atómsveppur og atómdauðinn er tengdur við hinn heimilislega nútímaarineld sjónvarpsins því endalokin ber að þegar „þau eru nýlega búin að / slökkva á sjónvarpinu(þáttur / um páskahald í ísrael)“ (bls. 43). Og þegar „þau“ hafa kastað sér á grúfu í snoðnu teppinu og klemmt aftur augun koma þessar hendingar (sem eru settar upp sem stilkur sveppsins): „manstu /ofninn / í hans / & grét / u æpir / hún þú / meinar nornina / umlar / hann svelgir brennheitt loft nær ekki andanum –“
Þessi myndrænu tengsl atómsprengju og ofns eru lýsandi fyrir það hvernig skáldskapur Gyrðis á níunda áratugnum þróaðist. Þau stinga aftur upp kollinum í Bak við maríuglerið og enn síðar í fyrstu skáldsögu Gyrðis, Gangandi íkorni (1987) og þau eru sínálæg í ljóðabálkinum Blindfugl/Svartflug (1986). Gyrðir sneri fjölmiðlabrotunum og orðasafninu sem að honum steðjaði upp í tjáningu á sögulegum veruleika níunda áratugarins, lokaskeiði kaldastríðsins, en bjó um leið til tákn og myndir til að lýsa þessum veruleika sem hefja sig upp yfir tímann og lýsa ógninni sem ástandi og ekki aðeins sem einhverju sem bundið er stað og stund. Bak við maríuglerið ber þess því glögg merki að glíman við tungumálshreinsunina var í reynd aðeins tilraun til að nálgast ógnina og að hún hefur nú vikið fyrir nýrri sýn á samband vitundar og umheims, samband vitundar og miðlunar. Brotin úr fjölmiðlamálinu eru umhverfð í martraðarkenndar lýsingar og ágengt myndmál og ljóðin geyma mjög þungan undirtón, illskilgreinanlega „skelfingu“.
Gott dæmi um þessa stefnubreytingu er að fjölmiðlarnir hafa nú breyst úr textabrotum í „návist“. Þeir eru því stundum persónugerðir, verða að „veru“, og horfa sem slíkir á ljóðmælandann eða steðja að honum í draugslíki. Stundum eru þeir einfaldlega „auga“ sem er bak við gler af einhverju tagi, spegil eða rúðu. Og stundum er návist glersins ein og sér næg til að vekja upp tilfinningu ógnarinnar. „Návistin“ kemur óumbeðin inn í hversdagslegt umhverfi ljóðmælandans og breytir sýn hans á umhverfið, gerir það torkennilegt eða er fyrirboði hvarfs og eyðingar.
Hér má sjá sömu tengsl sjónvarps og ofns og bar fyrir í ljóðinu „f“ og þá óhugnaðarkennd sem af þeim vex. Ofninn er ekki sýndur sem uppspretta vellíðunar og hita, honum er ekki lýst frá sjónarhóli þess sem situr við hann og horfir á hann, heldur frá sjónarhóli þess sem er inni í honum og brennur þar. Ljóðmælandinn horfir í vissum skilningi út um maríuglerið, en ekki inn um það. „Maríugler“ er jú gler í ofni svo hægt sé að sjá hvort logi í honum og hliðstæða þess við sjónvarpsskjáinn er augljós. Það er ekki lengur saklaus mubla í stofu, heldur brennandi kassi og í vissum skilningi er ljóðveran stödd inni í þessum kassa, inni í sjónvarpinu og logum þess.
Þetta skýrist betur þegar litið er á titilljóð bókarinnar, „Bak við maríuglerið“. Þar er ljóðmælandinn bundinn við rúmið (í Tvíbreiðu (svig)rúmi var hann límdur með límbandi við sjónvarpsskjáinn) og tilkynnir að sig skipti engu hvað orðin þýða, orð og hlutir megi riðlast fyrir sér. Samt er honum „ekki sama um allt / óttast stundum að bólgið gler / svarta kassans splundrist framan / í mig eða höfuð mitt sundrist í / allar áttir.“ Óttinn sem fylgdi ljóðvitund Gyrðis allt frá hans fyrstu bók er nú orðinn að hreinni skelfingu, martröð. Þessi ótti á upptök sín í röddum fjölmiðlanna. Þannig eru heimsendamyndirnar sem ljóðmælandinn lýsir teknar upp úr afbakaðri framhaldssögu sem hann les í blaði, þeim er miðlað af öðrum til hans en eru engu að síður hans ótti. Hinn dularfulli „sendiboði að handan“ sem tekur skyndilega „á sig form“ í stofunni, er enginn guðlegur útsendari, heldur úr þessum dularfulla „návistarheimi“ sem býr í sjónvarpinu, í heimi miðlunarinnar. Það þarf ekki að koma á óvart að sendiboðinn færir hinum rúmbundna ljóðmælanda farmiða til óhugnanlegs áfangastaðar, miða sem aðeins gildir aðra leiðina, og ljóðið endar á heimsendamynd; brátt á að fara „að rigna logandi olíu“, „fyrstu droparnir eru byrjaðir að / falla“.
Ljóðabálkurinn Blindfugl/svartflug (1986) sem fylgdi í kjölfarið er talsvert frábrugðin Bak við maríuglerið hvað uppbyggingu snertir, bókin er einn samfelldur ljóðabálkur sem telur 400 línur. Það má hins vegar óefað líta á hann sem niðurstöðu fyrri ljóðabóka Gyrðis, hápunkt og endastöð þeirrar ljóðsýnar sem hann hafði þróað á árabilinu 1982–1986. Einangrun ljóðvitundarinnar tekur nú á sig alheimsmynd, þenst út í sérstakan heim sem rúmar allt það sem áður steðjaði að vitundinni eða bærðist innra með henni. Frásagnir, draumar, sýnir, textar og boð fjölmiðlanna eru flutt inn í þennan heim, inn í „hvelfinguna“, sem er heildarmyndhverfing alls bálksins. Það er í raun ekkert lengur til nema þessi hvelfing, allt gerist innan hennar og við hana miðast allt. Í henni er líka sama óþolið og sjá mátti í bókunum á undan. Bálkurinn hefst beinlínis með yfirlýsingu frá ljóðvitundinni í þeim anda: „Rómsemi get ég ekki miðlað, / af henni á ég ekkert, flugþol / óreglulegra hugmynda virðist án / takmarka“ (1–4). Þessar línur mega teljast yfirskrift fyrstu fimm ljóðabóka Gyrðis.
Fyrstu prósaverkin
Árið 1987 sendi Gyrðir Elíasson frá sér sitt fyrsta lausamálsverk, skáldsöguna Gangandi íkorni, og ári síðar kom út smásagnasafnið Bréfbátarigningin og síðan þá hefur hann jöfnum höndum skrifað ljóð og prósa.
Sagan segir frá „sérvitra“ drengnum Sigmari og tvífara hans, íkornanum gangandi. Hún hefst með brotakenndum frásögnum af honum þar sem hann dvelst út í sveit hjá hjónunum Ágústi og Björgu sem hafa sjálf áður átt dreng sem nú er dáinn. Í miðri bók breytist Sigmar í dýr og gengur inn í veröld sem hann hefur teiknað sjálfur á maskínupappír. Þar ferst hann, eða virðist farast, þegar teikningunni er kastað í ofn. Eins og í Bak við maríuglerið er venjulegur heimilsofn orðinn að ógnartæki, nú að einskonar kjarnorkuofni og bruni fantasíuheimsins orðinn að staðgengli heimsbrunans.
Vel hefur verið fjallað um hvað stöðu barnið gegnir í þessari bók sem og í fystu þremur sögum Bréfbátarigningarinnar (Ástráður Eysteinsson: 1990). Þar, og reyndar einnig í sagnasöfnum Gyrðis frá tíunda áratugnum, er bernska persónanna langt í frá að vera sú dæmigerða ferð til þroska og vits eins og venjan hefur verið að sýna hana í bókmenntaverkum þar sem þroski barnsins og leið þess til fullorðinsára er í forgrunni. Barnið er óorðið, það er á leiðinni eitthvað og þetta eitthvað er ekkert endilega hugmynd okkar um þroskaða fullorðna veru, barnið er opið kerfi. Þetta sést vel í Gangandi íkorna þar sem frásögnin tekur stöðugt einskonar „kippi“, og ekki er lýst eiginlegu ferli eða þróun í átt til niðurstöðu í lífi Sigmars. Lesandinn fær til dæmis ekkert að vita hvaðan hann kemur eða hvers vegna hann er á þessum sveitabæ þar sem ósköp lítið sem ber til tíðinda og þar sem sjaldnast er lýst venjulegum bústörfum. Lífið er þrátt fyrir raunsæjan blæ fremur dularfullt.
Þegar litið er í heild til þeirra verka sem Gyrðir samdi á árunum 1987–1990: Gangandi íkorni (1987), Bréfbátarigningin (1988), Tvö tungl (1989) og Svefnhjólið (1990), sést vel að í þeim öllum er stöðug skörun fantasíu og raunsæis. Að forminu til eru þetta afar ólík verk. Gangandi íkorni er eins og fyrr segir stutt skáldsaga, næstum því nóvella. Bréfbátarigningin er safn af fjórum smásögum sem saman mynda þétta heild og stendur á mörkum þess að vera laustengd skáldsaga og smásagnasafn. Tvö tungl er ljóðabók, en þar er allt annar blær á ferðinni en í ljóðabókunum á undan, ljóðin eru skoplegri, oft líkust litlum frásögnum, og mikið hefur dregið úr óhugnaðinum sem áður var svo fyrirferðarmikill. Svefnhjólið er skáldsaga og er lengsta samfellda frásagnarverk Gyrðis til þessa.
Grunnhugmynd þessara verka felst í því að í þeim er leitast við að sýna bakhlið hins raunsæja yfirborðs, heim sem er bak við heim hlutanna. Heimarnir tveir tengjast á mörgum sviðum og stór hluti af skemmtuninni við að lesa textana er fólginn í því skyggnast eftir snertiflötum þeirra, sjá tengingar og samsvaranir, hliðstæður og andstæður. Eitt sem einkennir líka tvísæið er leikurinn sem skörun raunveru og ímyndunar kallar fram, ólíkindalætin og sérkennilegt skopið sem er alls staðar sýnilegt, þó hvergi sé það jafn áberandi og í Tvö tungl. Táknmynd þessa er trúðurinn eða fjöllistamaðurinn. Uppákomurnar sem lýst er bera svip sirkusskops þar sem blandað er saman alvarlegu fasi og fáránlegum uppákomum og þar sem fólk ræður yfir sérkennilegri fimi til að leika brögð sem hafa engan tilgang annan en að vera brögð, vera sprell. Þessi brögð eru oft illgjörn, sprottin af ólund og leiða. Sigmar, drengurinn í Gangandi íkorna, lítur greinilega á hrekkjabrögð sín sem vissa tegund af fyndni, en þau eru líka grimmileg, ef ekki skepnuleg, þótt illgirnin sé reyndar ekki alltaf í fyrirrúmi. Í lýsingu á kaupstaðarferð Sigmars og fóstru hans Ágústu sjást þessi trúðseinkenni mæta vel og um leið kemur í ljós hve „skrítinn“ þessi trúðaheimur er. Í heimi trúðsins eru engar ástæður fyrir því af hverju hann dettur á rassinn, eyðileggur hjólið sem hann ætlar að nota eða meiðir aðra. Hann gerir það sem hann gerir vegna þess að það er skoplegt, en af því að hann hlær aldrei sjálfur er sem öll hans uppátæki séu sprottin af tómum misskilningi. Kannski gerir trúðurinn þetta bara vegna þess að hann er ekki viss um hvað hann á að gera næst? Kannski gerir hann þetta bara vegna þess hve hann er hræddur?
Skop trúðsins er enda gætt dimmum tónum trega, ótta og þunglyndis. Í öllum sögum Bréfbátarigningarinnar vofir yfir háski, aðsteðjandi dauði og endalok. Sögurnar eru tiltölulega raunsæjar, en í þeim öllum má sjá eitt helsta einkenni trúðastílsins, að vekja hlátur án þess að hlægja eða vera „fyndinn“ í hefðbundnum skilningi þess orðs. Skopið sprettur meira af hinum afkáralegu aðstæðum, hinum undarlegu uppákomum og síðast en ekki síst gervunum sem persónurnar taka á sig. Sagan „Vængmaður“ lýsir til að mynda því hvernig venjulegur maður sem vinnur í prentsmiðju í kauptúni á landsbyggðinni hefur steypt „vængmannsgervi“ yfir sig, sem hann síðan lætur litlum dreng í té og vígir hann þannig inn í heim furðunnar. Þetta gervi er í vissum skilningi trúðsgervi, tæki til að sprella, en það á sér einnig djúprættan tilvistarlegan veruleika. Vera mannsins hlýst af gervinu og er óskiljanleg án þess, um leið og hann lætur það af hendi hefur hún breyst.
Í skáldsögunni Svefnhjólið má síðan sjá enn eina útfærslu hinnar leikrænu sýnar á veröldina því þar skapar Gyrðir heildstæðan heim, sem er beinlínis önnur veröld, veröld hinna framliðnu. Aðalsöguhetjan er ungur maður sem flakkar á milli sögusviða þegar hann sofnar í baði og sagan býður auðveldlega upp á að hægt sé að lesa hana sem fantasíu, en þegar í ljós kemur að söguhetjan er látin verður ljóst að hún er að lýsa heimi sem er ekki aðeins ímyndaður, heldur hefur verið til, en er það ekki lengur. Hér er verið að lýsa hvarfi, en um leið er það gert með meðulum trúðsins, þessi horfni heimur er ekki síður heimur Busters Keaton en memento mori-áminninga.
En í bókinn er einnig fyrir hendi sáttmáli milli hins efnislega og yfirskilvitlega sem gengur að því vísu að það sé til annar heimur handan, eða að minnsta kosti til hliðar við þennan. Hafi Gyrðir áður verið hinn dæmigerði nútímamaður sem á í stökustu vandræðum með að sjá fyrir sér frumspekilegan veruleika handanheimsins, hvað þá að trúa á hann, er hann hér orðinn að skapara sem setur fram veruleika hins yfirskilvitlega sem raunveru. Hann tekur algert grundvallarskref yfir gjána sem liggur á milli þess að daðra við einskonar töfraraunsæi „þar sem allt getur gerst“ og að taka frumspekina á orðinu. Hinir dánu eru ekki Zombíar – lifandi dauðir – heldur lifa þeir í sínum heimi.
Ljóð tíunda áratugarins
A. Samkennd
Ljóðabókin Tvö tungl (1989) er nátengd prósaverkunum frá sama tímabili eins og áður sagði. Líkt og í sögunum opnar trúðurinn og ólíkindaskopið fyrir nýrri sýn á viðfangsefni Gyrðis frá árunum á undan með því að gera óhugnaðinn mildilegri en um leið bætist við nýr tónn sem vissulega er manneskjulegri og hlýrri en sá sem ríkti í fyrri ljóðum. Trúðslætin opnuðu fyrir meira frelsi í framsetningu og yrkisefnum en áður og afraksturinn af því var meðal annars meira svigrými til að skrifa, enda er Tvö tungl afar efnismikil ljóðabók þar sem finna má ljóð sem spanna vítt svið, allt frá hreinu skopi til fremur alvarlegra og dapurlegra texta um gömlu grunnstefin ógn og hvarf.
En megintónn þessarar bókar var þó tilfinningin fyrir tengslum ljóðvitundarinnar við umhverfið, sú staðhæfing sem kemur fram í ljóðinu „Samkennd“ og segja má að sé einskonar mottó bókarinnar: „Ég er aldrei alveg einn.“ Með henni verður í raun grundvallarbreyting á skáldskap Gyrðis, að vísu ekki hvað varðar stíl og yrkisefni, heldur fremur afstöðu til heimsins og til þess sem skáldskapurinn á að fjalla um. Samkenndin myndar grundvallartón allra ljóðabóka Gyrðist síðan þá. Handan við huluna sem ljóðvitundin komst ekki í gegnum áður birtist nú annar heimur sem að vísu er ekki alltaf frýnilegur, en sem mætir engu að síður lesandanum sem veruleiki sem að minnsta kosti upp að vissu marki er traustsins verður og sem býður hann velkominn, vill treysta böndin við hann.
Hér má líka sjá svipaða tilraun og í Svefnhjólinu til að endurreisa í skáldskapnum horfna einingu manns og náttúru, manns og handanheims, þótt þessi tilraun sé enn skammt á veg komin í Tveimur tunglum. Hún tekur hins vegar á sig miklu þroskaðri myndir í þeim bókum sem eftir fylgja, Vetraráform um sumarferðalag (1991) og Mold í skuggadal (1992) og er meginsstef síðustu ljóðabóka hans Indíánasumar (1996) og Hugarfjallið (1999).
B. Einfaldleiki
Það verða gríðarleg skil á höfundarferli Gyrðis Elíassonar með útkomu næstu ljóðabókar hans Vetraráform um sumarferðalag (1991) sem kom út samhliða sagnasafninu Heykvísl og gúmmískór (1991). Þar er í fyrirrúmi ljóðstíll þar sem fyrst og fremst er horft til náttúrunnar og tengsla mannsins við hana, tilfinninga hans gagnvart henni. Til að ná fram þessari hugsun beitir Gyrðir því sem nefna mætti „japanska“ aðferð. Hann skráir svipmyndir af andlegri uppljómun andspænis náttúrunni og undrum hennar, veðrabrigðum, gróðri og steinum jafnt sem fjöllum og hafi og sól. Þessi skrásetning er í grundvallaratriðum dulúðug, mystísk. Hún keppir að samruna manns og þess sem ekki er innan hans marka: krafta náttúrunnar, anda lífheimsins, skapara alls sem er. Þetta eru smámyndir af unaðinum af því að tína grös í te, af gönguferðum, af því að sjá einföld fyrirbrigði líkt og steina eða sérkennileg fjöll og allt á þetta sér vissulega ákveðinn samhljóm við austurlenskan kveðskap, en hér er þó ekki síður á ferðinni endurvakin alþýðleg viðhorf til náttúrunnar og umhverfisins, svo sem trúar á mátt steina, og helgi staða.
Það helst í hendur við þennan nýja stíl að ljóðmálið verður afar einfalt og kyrrlátt. Málsniðið stendur nærri talmáli, myndhverfingum er stillt í hóf og stundum verða ljóðin svo blátt áfram að þau koma að ystu mörkum þess að hægt sé að merkja í þeim eiginlegt „ljóðrænt“ form. Þau virðast miklu frekar vera smáglefsur úr lengri texta sem aldrei er birtur, enda virðast bækurnar vera hugsaðar á þeim nótum. Allar eru þær tiltölulega efnismiklar af ljóðabókum að vera en það er mjög misjafnt hve formræn heild einstakra ljóða er sterk, fjöldinn er greinilega mikilvægur, ekki einstök ljóð. Þannig má vissulega sjá ljóð sem standa nærri hefðbundnum ljóðum þar sem gerðar eru kröfur um að búnar séu til „eftirminnilegar“ línur og sterkar myndir sem „geymast í hugum lesenda“, en á milli þeirra koma önnur sem virðast „veik“ og eiga erfiðara með að standa ein út af fyrir sig, en þyggja styrk sinn af heild bókarinnar, ef ekki heild höfundarverksins. Og um leið og bækurnar eru lesnar saman blasir þessi heild við, markviss hugsun að baki ljóðanna sem grundvallast á því að þau séu brot úr stórri mynd. Um leið er lesandinn hvattur til að taka þátt í íhugun skáldsins um samband mannsins við sér stærri fyrirbæri.
Næsta ljóðabók Gyrðis, Mold í skuggadal (1992) er líklegast sú bók hans frá tíunda áratugnum sem líkist hvað mest ljóðum hans frá tímabilinu 1983–1986. Þar er myrkari tónn og dapurlegri en í öðrum verkum hans frá síðustu árum og hann ber uppi mörg af „sterku“ ljóðum bókarinnar, s.s. „Blinda“ og „Skuggadalur barnanna“. En í meirihluta eru þó ljóð sem þróa áfram tón íhugunar og dulhyggju og lýsa þeim frumtáknum sem ráða yfir þessum ljóðheimi: ljósi og myrkri: Samspil þessara þátta er gríðarlega fjölbreytt og tákn þeirra ganga í gegnum allar ljóðabækur tíunda áratugarins, tákn eins og lampinn og ljóstíran. Það einkennir þó alltaf ljósið að það getur ekki logað nema í myrkrinu sem öðlast þar með vægi sem „félagi“ ljóssins. Það má síðan segja að þetta margslungna samspil ljóss og myrkurs nái ákveðnum hápunkti í síðustu ljóðabók Gyrðis, Hugarfjallið (1999). Þar taka þessar hugleiðingar á sig hvað heildstæðasta og fyllsta mynd og á vissan hátt lýkur Hugarfjallið upp hinum bókunum þremur, Vetraráform um sumarferðalag, Mold í skuggadal og Indíánasumar (1996) og birtir stefnu þeirra og hugarheim. Segja má að þar sé fram gnostísk kenning um manninn, kenning um að hann sé ekki nema að litlu leyti efnislegur búkur, heldur sé í raun vefnaður úr ljósi og myrkri. Tími hans, þeir tímar sem hann er uppi á, er tími myrkursins og leið hans er leið inn í æ dýpra rökkur, burt frá einfaldleikanum, burt frá birtunni sem umlykur það sem er gott, upprunanlegt og heilt. Í myrkrinu býr eymd mannsins og öll þjónusta við það eykur á þessa eymd. Ljóðin eru því ekki að tæpa á neinum dægurmálum. Þeim er ætlað að skapa frumspekilegt svið þar sem maður og alheimur tengjast á ljósan og skýran hátt í tungumáli sem hvert barn skilur og stendur eins nærri töluðu hversdagsmáli alþýðufólks og hugsast getur. Á þessu sviði eru hinir miklu mótspilarar ljós og myrkur leiddir fram í ýmsum gervum, svo sem minni villuljóssins, sem dregur fram hið mótsagnakennda eðli þess sem við fyrstu sýn virðist gæskan ein. Hugmyndin um villuljósið hefur á sér augljósan trúarlegan blæ því það kemur frá manninum, það er ljós skapað úr myrkri, þegar hið eiginlega ljós er ekki hans, heldur skaparans. Kærleiksljósið, ástarljósið sem stafar frá burðarbitum þessarar frumspeki, er hins vegar ekki orðið til af tvíhyggju, ekki byggt á því að eiga sér mótspilara, því það er skuggalaust ljós sem ekki er varpað á hlutina, en er í þeim. Þar sem það er til staðar lýsir allt og ekki vegna myrkursins, heldur vegna ljóssins eins. Ljósið er til vegna ljóssins. Þegar þessi „kenning“ er höfð í huga má sjá hvernig ljóðagerð Gyrðis hefur farið fullkomlega í öfuga átt við það sem hún stefndi á níunda áratugnum og eitt ljóð bókarinnar, „Tilskipun að ofan“ er skýr ábending um þetta. Hér gerir Gyrðir Elíasson upp sinn ljóðaferil:
Ljóð á að yrkja
með sólarorku,
með hugarorku
úr ljósiEkki myrkri.
Prósaverk tíunda áratugarins
Eftir úkomu Svefnhjólsins árið 1990 hefur Gyrðir ekki ritað annan lausamálsskáldskap en smásögur. Þær eru yfirleitt afar knappar, stundum ekki nema tvær síður, en við þetta smáa form hefur hann tekið sérstöku ástfóstri og það hefur fylgt honum nú í fjórum bókum. Fyrsta bókin af þessari tegund var hinn helmingur tvíburabókannna frá 1991, Heykvísl og gúmmískór, tveimur árum síðar, 1993, kom úr bókin Tregahornið, þá Kvöld í ljósturninum (1995) (árið 1994 var fyrsta árið síðan Gyrðir hóf rithöfundarferil sinn sem engin bók eftir hann kom út) og loks Vatnsfólkið (1997) þar sem greina má þreyfingar í þá átt að lengja sögurnar að nýju og hnika til þeirri gríðarlega fáguðu og öguðu áferð sem er á textunum í hinum bókunum þremur. Þessar fjórar bækur eru mjög skyldar að efni og áferð og í þeim má merkja, líkt og í ljóðabókunum, ákveðna þróun í átt til íhygli og frumspekilegra viðhorfa.
Þær eiga það sameiginlegt að þar er reynt að víkka út svið mannsins og mannsvitundarinnar, að fanga í tákn og texta flókin viðfangsefni eins og mótsagnakennd viðhorf nútímans til handanheimsins, hryggðina yfir hvarfi verðmæta náttúru og menningar og erfiðleikana við að höndla forgengileikann, við að tengja saman þann forgengileika sem náttúran ræður yfir og forgengileikann sem saga mannsins kallar yfir hann sjálfan. En í þessum bókum eru tilfinningamál einnig mjög áberandi, sögur um ættingja og ástvini sem ekki geta verið lengur saman, sögur um tilfinngaleg skipbrot og hryggð yfir því að missa frá sér það sem manni finnst vænt um og að sama skapi sögur um styrk, vináttu, gleði yfir samvistum – tengsl milli fólks.
Fagurfræðilega séð eru sögurnar hluti af þeirri hreyfingu innan módernískra og seinna póstmódernískra bókmennta Vesturlanda þar sem hafnað er einhlýtri framsetningu „inntaks“ eða miðpunkts. Sögurnar eru „háleitar“ í þeim túlkunarfræðilega skilningi sem franski heimspekingurinn Lyotard lagði í það orð í skýringum sínum við fagurfræði Immanuels Kants. Þær hafa ekki „skýr skilaboð“ fram að færa vegna þess að þær snúast um það sem er altækt og á sér því engin ljós tákn til að klæða sig í. Þetta sést einkum af tveimur atriðum sem eru fyrirferðarmikil í sagnasöfnunum: Annars vegar af þeim ráðgátum sem eru svo víða í textunum vegna þess að ýmsir hefðbundir hvatar að atferli fólks eru ekki til staðar, þar eru „eyður“ sem koma í veg fyrir að lesandinn leggi sálfræðilega merkingu í allt sem hann les. Hins vegar eru sögurnar nær undantekningalaust fjarri „miðjum“ nútímalífsins og fjalla ekki um fólk sem er í hringiðu fjármála, menningar og fjölmiðla. Sögusvið þeirra er oftast í dreifbýlinu, í hugarflugsheimum eða þá til hliðar við hefðbundna sögustaði „nútímasögunnar“. Sú mynd þjóðfélagsins sem birtist venjulegu fólki í gegnum framsetningu fjölmiðla er til að mynda algerlega fjarri sögum Gyrðis, og vafalaust orkar það afar framandi á marga. Hún birtist aðeins sem aðsteðjandi afl sem rýfur heild þess heims samvaxtar manns og umhverfis sem Gyrðir leitast svo oft við að lýsa. Á milli sýnar hans og veruleika markaðsþjóðfélags síðkapítalismans er stöðug spenna sem oftast brýst fram í táknmyndum ógnar, eða nagandi gruns. Í sögunum bólar því aldrei á hugmyndum eins og samkeppni eða afkastagetu. Grunnur þeirra er iðulega dýrkeypt virðing fyrir umhverfi, sögu og lifnaðarháttum sem eru utan alfaraleiðar. Þær eru siðferðislegar og ætlað að auka veg heillyndis og einlægni á kostnað kaldhæðni og lífsþreytu. Þær stefna að raunverulegri fjölhyggju umburðarlyndis og samskipta, ekki að baráttu samkeppninnar sem harmar aldrei hvarf þess sigraða. Sögur Gyrðis eru hins vegar skrifaðar gegn gleymskunni. Þeim er ekki ætlað að sætta okkur við heiminn eins og hann er, heldur til að minna okkur á að hvarf verðmæta, umhverfis og sögu. Við eigum ekki að gleyma eða samþykkja það að aðrir gleymi.
En um leið steðjar samtíminn og hans efahyggja að og sundrar þeirri heilu mynd sem viljinn stendur til að sýna. Það er ekki hvað síst þessi spenna sem elur af sér hið „háleita“ í sögunum, ráðgáturnar, sem eru eins og áður sagði eitt helsta einkenni þeirra. Í sögum eins og „Ferðasögu“ úr Kvöldi í ljósturninum sést til að mynda vel hvernig einföld lýsing á hversdagslegum fyrirbærum verður að frásögn um forgengileikan sjálfan, hvarf allra hluta í náttúrunni, eyðinguna og missinn. Eins og svo oft í textum Gyrðis er lýst fundum manns og náttúru, andblæ staðar og smáatriðum í veðri og umhverfi sem skapa nálæga, nákvæma og efnislega mynd af aðstæðum. Hér er um raunverulega staði að ræða, raunverulegt fólk og raunverulegar aðstæður: Þrír menn fara í fjörðinn Loðmundarfjörð á Austurlandi og gista þar í húsi. Þeir eru „einu mennirnir í firðinum“ hafast fátt að sem fréttnæmt telst, að morgni fjórða dags fara þeir úr húsinu og „lögðu lykilinn undir skófgulan hellustein á hlaðinu, þar sem þeir höfðu fundið hann, og tveir stilltu sér upp í morgunsólinni framan við húsgaflinn, meðan sá þriðji tók myndir af þeim og húsinu“. Meira gerist ekki í þeirri ferð, en þegar myndirnar úr henni koma úr framköllun og mennirnir rýna í þær kemur eitthvað annarlegt í ljós á myndinni sem tekin var þennan dag. Í glugganum bak við þá bregður eihverju fyrir: „Og þeir sjá að það er hönd sem lyftir tjaldinu varlega til hliðar, smá eins og barnshönd, og úr djúpum skuggum að tjaldabaki er einsog horft sé á þá, ferðalangana á hlaðinu – úr mannlausu húsinu.“ En það er líka annað á myndinni. Í gluggakistunni er steingervingur, „margra miljóna ára gamalt steintré úr hlíðinni ofan við bæinn, og höndin á svarthvítri myndinni snertir næstum þennan hrjúfa bút frá ævafornum tíma.“ Undarlegt nokk er það þessi steingervingur sem er óhugnanlegri en hin ókunna hönd. Þótt höndin sé auglóslega hönd dauðans, því hún minnir einn manninn á höndina „sem lokaði augunum á pabba og mömmu í draumnum, nóttina fyrir slysið“, er steintréð verra. „Á hvað minnir það þig?“ spyr einn mannanna og hinn svarar, og það eru lokaorð þessarar örstuttu sögu sem tekur ekki meira en tvær og hálfa síðu: „Eldgamla sólardaga,“ segir hann lágt, en þvert á birtuna í orðunum er röddin sem áður var full af gleði nú líkust goluhvískri í sinustráum.“
Steingerð náttúrusagan hefur vitjað mannanna og hún gerir það í gegnum mynd, í gegnum mannanna verk. Sjálfir eru þeir blindir á forgengileika náttúrunnar, enda aðeins ferðamenn sem dvelja fáeina daga í firðinum, en með því að taka óvart mynd af þessum forgengileika hafa þeir flutt hann inn í sinn eigin heim og þar með uppgötvað hann. Tæknin er hér ekki leið til að ná valdi á náttúrunni og beygja hana undir sig. Hún er þvert á móti leið til vitundar um að maðurinn er forgengilegur og með honum allt það sem hann hefur skapað. Sagan er alls ekki á vegum mannsins, hún er málefni náttúrunnar. Þessi uppgötvun felur hins vegar ekki í sér létti yfir því að maðurinn sé leystur undan því að telja tímann sitt verkefni. Mennirnir eru þvert á móti skelfingu lostnir, lamaðir andspænis afli sem er meira en þeir og sem þeir vita að mun fyrr eða síðar binda enda á starf þeirra og líf. Þessari skelfingu lýstur niður sem ótta við þau öfl sem eru hugleidd á íhugulli nótum í ljóðunum, hér er engin von sjáanleg, engin hughreysting með að þetta fari nú allt vel að lokum og þessi hryssingur er víða í sögunum, hann smýgur um þær líkt og kaldur gustur.
Það væri hins vegar ósanngjarnt að skilja við sagnagerð Gyrðis á tíunda áratugnum án þess að nefna að þær snúst oftar en ekki um einmitt vonina. Þessi von er hins vegar reist á raunsæi forgengileikans. Hún byggir á því að von mannsins sé sú að utan hans sé heimurinn að starfa, án hans afskipta og án hans þröngsýni. Sjónarhornið snýst frá mannkynnssögu að náttúrusögu og því er á vissan hátt fjallað hér um „endalok mannsins“, heim þar sem mannsins í núverandi mynd sinni nýtur ekki við. Þegar horft er til þess að fyrsta prósaverk Gyrðis, Gangandi íkorni, lýsti einmitt slíkum heimi sést hve nákomin honum sú hugmynd er að til sé eitthvað „annað“ en sú mennska veröld sem við nú þekkjum. Í Gangandi íkorna voru mennirnir nær útdauðir og ekkert eftir af þeim nema hauskúpur, þeir sem eftir lifðu voru dýr. Síðasta sagan í Tregahorninu endar líka á heimsendi sem þrátt fyrir alla sína skelfingu og ótta virðist líka leið inn í nýja veröld. Sólin og tunglið hafa horfið af himinum. Öll jörðin er böðuðu myrkri en mitt í þessu myrkri fæðist ný von og hún býr ekki í manninum, heldur einmitt í því sem er „ómennskt“: „Dýrin áttu að vita meia um myrkrið en við fólkið, þau gætu kennt okkur núna, og í þetta sinn mundum við reyna að læra af þeim“ (102).
Kristján B. Jónasson, 2000
2000-2022
Hér fyrir neðan má lesa grein Hrafnhildar Þórhallsdóttur, sem fjallar um verk Gyrðis Elíassonar á tímabilinu 2000-2022.
Hér á síðu Gyrðis má einnig finna eldri grein Kristjáns B. Jónassonar um verk Gyrðis Elíassonar. Hún birtist árið 2000.
Það sem lifir tímann er mennskan
Um verk Gyrðis Elíassonar - 2000-2022
Nærvera Gyrðis Elíassonar í heimi íslenskra bókmennta er jafn áþreifanleg og hún er hljóðlát. Þó höfundurinn sjálfur skeyti lítið um athygli og tannhjól markaðsaflanna eru verk hans þess eðlis að þau raðast sjálfkrafa í efstu hillu – hafin yfir tíma og rúm. Staðreyndin er einfaldlega sú að í landslagi skáldskaparins er Gyrðir Elíasson hluti af himninum; stöðugur, síbreytilegur, sitt eigið frumefni. Í nærri fjóra áratugi hefur hann gefið og gefið – afköstin og gæðin nær undraverð – og fengist við öll form skáldskapar auk ómetanlegra ljóðaþýðinga. Allt virðist leika í höndum hans en list hans felst kannski ekki síst í því að geta eimað bæði efni og orð í fagurfræðilegan töfradrykk þar sem heildin er stærri en summa einstakra þátta. Stíll hans er einstakur, hann er skáld sem lesandinn þekkir á einni málsgrein, og tök hans á tungumálinu slík að óhætt er að segja að fáir eru betur skrifandi á íslenska tungu í dag. Fyrir verk sín hefur hann verið tilnefndur til virtra verðlauna, bæði íslenskra og erlendra, en nú nýlega hlaut þýðing á skáldsögu hans Sorgarmarsinum tilnefningu til Médicis-verðlaunanna í Frakklandi. Hér í framhaldinu verður farið yfir höfundarverk Gyrðis frá aldamótum, tuttuguogeitt rit, og form verkanna látið ráða för fremur en línuleg tímaröð.
Að mála með orðum - Smáprósar
Smáprósinn, sem eiginlegt form, kom inn í skrif Gyrðis þegar nokkuð var liðið á ferilinn – þó hann hefði lengi skrifað mikið af mjög stuttum sögum. Frumraunin á því sviði, Lungnafiskarnir, kom út árið 2014. Safnið er gráglettinn leikur að þessu illskilgreinanlega formi sem dansar á óræðum mærum prósaljóðs, dæmisögu, brandara, ævintýris eða furðusögu og orðaleikja. Allt þetta má í sjálfu sér merkja í skáldskap Gyrðis almennt, þvert á form, og því kannski aðeins tímaspursmál hvenær smáprósinn rataði inn í höfundarverkið.
Sögurnar í Lungnafiskum birtast lesandanum sem skýrar myndir, líkt og höfundurinn sitji með pensil í stað penna og máli lítil málverk. Málaralistin er reyndar nálæg í mörgum verka Gyrðis enda hefur hann sjálfur fengist við myndlist og verk eftir hann hafa skreytt nokkrar kápur þeirra bóka hans sem komið hafa út hjá Dimmu. Litaval smámyndanna í Lungnafiskum afmarkast við grunnlitina gulan, rauðan, bláan og grænan – að vísu málað yfir með gráu þegar eintóna leiðindi hversdagsins bera lífið ofurliði. Litapallettan bæði bindur sögurnar saman og skapar kunnugleika innan sagnaheimsins sem oft er sérdeilis ókennilegur, fullur af martraðakenndum furðum og óljósum mörkum draums, veruleika og skáldskapar.
Það eru ekki síst þessi óræðu mörk sem gefa prósunum aukna vídd, stækka þá og víkka, um leið og þau hræra í veruleikaskyni lesandans sem veit oft ekki á hvaða plani hann er staddur eða upplifir sig á tveimur plönum samtímis. Í „Fiskikónginum“ fer sögumaður ofan í kjallara í þeim tilgangi að skoða fiskabúr en finnst hann þá skyndilega staddur í káetu, vatnið tekur að skvettast upp úr búrunum og senan sem í upphafi var hversdagsleg verður óhugnanleg og óræð. Í „16 MM S/H“ vaknar sögumaður í hljóðlausri kvikmynd, líkt og vökulífið lúti nú lögmálum draumsins. Margar sagnanna virðast lýsa því hvernig eitthvað í undirmeðvitund persónanna þrengir sér inn í veruleikann sem fær fyrir vikið ókennilegan blæ. Í „Heitt vatn“ brýst til að mynda hver upp úr stofugólfinu og í „Martröð náttúrufræðingsins“ veiðir sögumaður flugu sem tekur að stækka og ummyndast í óargadýr. Hér má reyndar greina annað þema sem stingur reglulega upp kollinum í bókum Gyrðis en það er loftslagsváin og áhrif hennar á lífríkið.
Langbylgja (2016) kom út aðeins tveimur árum á eftir Lungnafiskum og það má hæglega kalla þessar tvær bækur systrasöfn. Til að mynda innihalda bæði söfnin númeraða prósa með undirtitlunum Mínímalísk glæpasaga og nefnifall. Langbylgja er þó mögulega nær smásögunni – prósarnir flestir lengri og teygja sig út fyrir þær augnabliksmyndir sem einkenna fyrra safnið. Sögurnar fjalla um það sem mögulega gæti gerst fremur en að vera hreinar furðusögur – þó margt sé hér furðulegt birtist það yfirleitt í hegðun persóna. Sögupersónur Gyrðis eru gjarnan óvirkir áhorfendur, hér er á ferðinni samansafn fólks sem tjáir sig naumt í orði jafnt sem gjörðum, ef yfir höfuð nokkuð. En þegar þetta ágæta fólk á annað borð tekur sér eitthvað fyrir hendur ná þær athafnir langt út fyrir það sem eðlilegt getur talist og rata inn á lendur þráhyggjunnar. „Maðurinn sem safnaði vöfflujárnum“ segir frá manni svo helteknum af söfnunaráráttu að það kostar hann hjónabandið. Í „Samskiptin“ stefnir maður í sömu átt eftir að hafa tekið upp á því að rýma til fyrir sér og konu sinni með því að fleygja öllu þeirra innbúi fram af svölunum. Allt er þetta auðvitað sprenghlægilegt en um leið á einhvern hátt skelfilega óþægilegt fyrir lesandann sem veit aldrei á hverju hann á von.
Húmorinn er gegnumgangandi í Langbylgju, ekki síst í þeim mýmörgu sögum þar sem orðaleikurinn er í fyrirrúmi. Oft er spunnið út frá einu orði eða orðatiltæki líkt og í sögunum „Hlerað og Vasaþjófurinn“ þar sem látið er á það reyna hversu langt verði komist með tvöfalda merkingu orða. Hvert orð hefur merkingu í skapandi leik með tungumálið en sá leikur hefur löngum verið eitt meginstef skáldskapar Gyrðis. Í „Tveir gráir skuggar“ og „Gestahúsið“ rekur sögumaður augun í bókatitla á við The Importance of Being Ernest, ævisögu Ernest Hemingway, sem koma fremur spánskt fyrir sjónir þó þeir hljómi sannarlega kunnuglega. Tilgangur orðaleikjanna virðist oft fyrst og fremst fyndni, sem og tilraun til að hrista upp í vanabundinni notkun tungumálsins. Óhjákvæmilega fá samlegðaráhrifin af þessum útúr- og uppásnúningum þó lesandann til að hugleiða hversu viðkvæmt kerfi tungumálið er, orð eru samhengi sínu háð og oft má ekki muna nema einum staf til að merking og tengingar skolist til. Bilið milli skilnings og misskilnings er skuggalega stutt.
Bækurnar eru báðar krökkar af vísunum, svo krökkar að segja má að þær séu listaverk gerðar úr listaverkum. Þekkt nöfn og verk úr lista- og mannkynssögunni lita andrúm textanna og minna lesandann á stóra samhengið. Andstæður leika einnig stórt hlutverk því hér er ímyndunaraflinu, draumnum, fantasíunni og vímunni teflt gegn gráma hins hlutbundna veruleika. Lífríki náttúrunnar iðar í andstöðu við stöðnun og bælda skapgerð persónanna og húmor og óhugnaður læðast um hönd í hönd. Áhrifin eru oft mögnuð, ölvandi jafnvel. Það var því fremur gleði- en kuldahrollur sem hríslaðist um kropp lesandans þegar nýtt smáprósasafn frá Gyrði barst með haustkulinu nú í lok október, og það í tveimur bindum; Þöglu myndirnar og Pensilskrift.
Það fer ekki á milli mála hver mundar pennann í þessu gnægtafulla safni – titlarnir einir og sér kristalla þá einstöku myndvísi sem einkennir verk Gyrðis. Textarnir eru þó á nokkuð öðrum stað en í fyrri bókum – bókstaflega reyndar þar sem sögusviði sagnanna er óvenju skýrt skilgreint með íslenskum örnefnum. Hvort innanlandsferðalögin í Covid spili hér einhverja rullu er spurning en faraldurinn er allavega í bakgrunni nokkurra texta. Sagan „Ásjónur“ í Þöglu myndunum segir til að mynda á meinfyndinn hátt frá valdatíð hins ógnvænlega Kóvíðs keisara og potar í ýmsa auma snögga bletti. Sóttvarnargrímur hanga í trjám til vitnis um hvernig öll markmið í umhverfismálum fóru fjandans til og skotið er á skyndilegan vilja Vesturlandabúa til að hylja andlit sín – þó þeir hafi hingað til amast yfir þeirri hefð hjá öðrum þjóðum. Samtíminn birtist í fleiri textum, þarna er bruninn í Notre Dame og leikið er með orðræðu og málefni metoo-byltingarinnar í „Gaslýsingu“ og „Dúkkuheimilinu“.
Annað ríkjandi þema er svo svikult minnið en það fyrirbæri hefur verið mikið í umræðunni í tengslum við bókmenntir og tráma síðustu ár. Í sjálfu sér má segja að tráma sé þema út af fyrir sig í skáldskap Gyrðis í ljósi þess að tengsl og tengslaleysi er síendurtekið umfjöllunarefni í bókum hans, eins og betur verður vikið að hér síðar.
Titillinn Þöglu myndirnar kveikir hugrenningatengsl við fyrstu kvikmyndirnar, þar sem persónur tjá sig án þess að í þeim heyrist. Slíkar myndir koma vissulega oft upp í hugann við lesturinn. Hversdagsleg óhöpp rjúfa hárfína línu lífs og dauða og brölt okkar mannfólksins verður oft svo grátbroslegt að kómískar hetjur þöglu myndanna virðast leika listir sínar á síðunum. En hér býr meira að baki því titillinn fangar ekki aðeins stilluna í andrúmi textanna og orðleysi persóna heldur vísar ekki síður til persónulegra minninga. Í titilsögunni liggur kona í hjartasorg og hámhorfir (eins og höfundur kemst að orði) á myndir, minningar, sem hugur hennar varpar á loft svefnherbergisins. Myndunum hafði hún gleymt og skilur ekki hvernig þær nú framkallast úr óminninu – og hver tók þær fyrst hún sjálf er á þeim? Það brennur við að persónur muni alls ekki það sem skiptir máli en eigi í engum vandræðum með að rifja upp það sem litlu skiptir. Þannig er hin eiginlega saga oft handan sögunnar, utan við frásögnina. Frásagnaraðferðin er klassísk fyrir smáprósann, stílbragð sem víkkar textann, en dregur í þessu samhengi fram hliðstæðu við þá gloppóttu sögu sem ævi okkar er. Er nokkur leið að vita fyrir víst hvað er raunverulegt og hvað er ímyndun í þeirri sögu?
Frásagnarfyndni Gyrðis nýtur sín til hins ýtrasta í mörgum smámyndanna sem dregnar eru upp af kynlegum kvistum í Pensilskrift. Handrukkarinn sem hreinsar til í undirheimum Hassleysustrandar, listmálarinn sem málar ósýnileg verk í fúlustu alvöru og Ingmar Bergman á vídeóleigunni eru til vitnis um hvernig óvænt sjónarhorn höfundar gera einföldustu hluti fyndna. Á hinum enda sagnarófsins eru svo stuttir prósar á lendum ljóðsins. „Strandganga“ er augnabliksmynd sem sýnir fremur en segir mun stærri sögu en undir smásjánni er plastmengun og spilling hafsins. Bjargarleysi mannsins gagnvart þeim vanda endurspeglast í hugmyndinni um að telja handfylli af sandkornum – en til hvers að telja hið óteljanlega? Náttúran er hér, eins og oft í verkum Gyrðis, bakgrunnur tilvistar þar sem háskinn er við hvert fótmál og hreyfing og kyrrstaða togast á en einnig uppspretta kynjamynda og töfra. „Hugsað til Ionescu“ er glimrandi dæmi þar sem klettanes prýtt tveimur vitum tekur á sig mynd nashyrnings sem þá og þegar gæti rokið með okkur út í eilífðina, án þess að við fáum rönd við reist. Slíkt umkomuleysi er þema út af fyrir sig og undirstrikað í tilvísun í upphafi safnsins þar sem almættið sjálft auglýsir eftir nýju starfi – augljóslega búinn að fá nóg af því að passa börnin sín.
Að draga einstaka sögur út úr jafn ríkulegum söfnum og þeim sem hér er rýnt í þjónar fyrst og fremst þeim tilgangi að sýna breidd og fjölbreytni textanna. Heildaráhrifin verða til í gegnum fínlegar tengingar, þematíska og stíllega þræði milli prósanna. Tengingarnar eru aldrei augljósar, hér er ekki málað eftir númerum, og mósaíkmyndin sem teiknast upp við lesturinn er fremur skynjuð en skilin til hlítar. Í því liggur líklega seiður slíkra safna þegar best lætur og er sannarlega raunin í þessu tilviki.
Í svo knöppu formi vegur hið ósagða engu minna en það sem sagt er berum orðum og því krefst stuttur prósi, öfugt við það sem ætla mætti, mikils af athygli lesandans. Margt getur leynst á milli línanna og þó textinn virðist einfaldur á yfirborðinu er auðvelt að fara á mis við það sem opnar hann og kveikir hugrenningar. Að halda því sem mestu skiptir utan við hina eiginlegu frásögn er vandmeðfarið stílbragð sem þarf að útfæra án þess að hjá lesandanum kvikni sú tilfinning að verið sé að halda frá honum upplýsingum. Gyrðir hefur á þessu sterk tök, í hans meðförum eru eyðurnar í textanum jafn mikil uppspretta upplýsinga og merkingar og það sem er uppi á yfirborðinu. Þessa stílfærni hefur Gyrðir ekki síst fínstillt og fágað í glímu sinni við smásöguna, stóru systur smáprósans, og er hluti þeirrar ástæðu að hann þykir einhver sérstæðasti smásagnasmiður íslenskra bókmennta.
Hvarfpunktar hversdagsins - Smásögur
Það er ekki ósennilegt að smásagan sé það fyrsta sem kemur upp í huga lesenda þegar nafn Gyrðis ber á góma. Ekki aðeins sökum þess hversu veigamikinn sess hún skipar í höfundarverkinu heldur vegna þess hversu skýr fingraför hann skilur eftir sig þegar hann snertir á því formi. Á ferlinum hefur hann sent frá sér ellefu smásagnasöfn, þar af fimm frá árinu 2000, og þau fáguðu tök sem hann hefur á forminu skiluðu honum bæði íslensku bókmenntaverðlaununum, fyrir Gula húsið, og bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs, fyrir Milli trjánna.
Gula húsið (2000) var fyrsta bók Gyrðis á nýrri öld. Sögusviðið er að stærstum hluta sveitin og náttúran, andrúmið þrungið liðnum tíma og takturinn hægfljótandi – hér marar allt undir yfirborðinu líkt og kenning Hemingways um smásöguna sem ísjaka kveður á um. Yfir öllu svífur svo feigðin sem enginn fær flúið, jafnvel ekki æskan en aðalpersónur sagnanna eru að stórum hluta börn. Í upphafi bókarinnar fylgir lesandinn lítilli stúlku sem lagt hefur í göngu upp að fjalli í trássi við boð foreldra sinna. Á meðan myrkrið og þokan þéttist vex ókyrrð lesandans sem leggur sína merkingu í það hvernig hvítur kjóll stúlkunnar dökknar smám saman af leðju. Fjallið kemur reyndar ítrekað fyrir í bókinni sem tákn – tímans tönn er það nefnt á einum stað – og virðist standa fyrir hið óumflýjanlega, dauðann, sem vofir yfir en hefur um leið eitthvert aðdráttarafl. Í „Tuberculosis 1944“ beinir berklaveikur drengur spegli í átt að herbergisglugganum svo hann geti virt fjallið fyrir sér þaðan sem hann liggur. Drengurinn gerir sér fulla grein fyrir því sem bíður hans en hvort leikur hans með spegilinn tjái ótta við dauðann eða þrá eftir lausn frá tilbreytingarlausu lífi er hluti af undirliggjandi spennu sögunnar.
Staða og sjónarhorn barnsins í heimi fullorðinna er vel til þess fallið að birta lesandanum það sem ekki er sagt berum orðum. „Enginn er einn“ er snilldarlegt dæmi en í sögunni fylgist ungur drengur með móður sinni fyrstu andartökin eftir að hún fæðir barn heima hjá þeim. Aðstæðurnar vekja hjá honum óöryggi auk þess sem hárfín smáatriði í hegðun læknisins og móðurinnar kveikja grun um að læknirinn sé tengdari barninu en ætla mætti. Afbrýðisemi drengsins og andúð hans í garð læknisins er spaugileg, en þungi tilfinninganna er dreginn fram í lokalínum sögunnar þegar rökkvar í herberginu „einsog verið væri að herpa saman opið á svartri leðurskjóðu.“
Líkt og áður sagði eru börn víða í miðju frásagnarinnar en valdaleysi barna yfir eigin lífi talar beint inn í það einkenni smásögunnar sem nefnt er smælingjaminni. Hugtakið vísar til þess að smásagan fjallar gjarnan um þá sem minna mega sín eða standa höllum fæti í lífinu. Fólkið í Gula húsinu er reyndar flest af þeim meiði og víða glittir í lífið sem ekki varð. Lesandinn kynnist manni sem hugsar til „daganna þegar hann var enn lifandi“, bónda sem vildi vera smiður, presti sem langar til að skrifa og hjónum sem ná ekki saman. Ein eftirminnilegasta saga bókarinnar, „Fjallræðan“, er kostulegur bræðingur þjóðfélagsádeilu og biblíuvísana þar sem tveir ungir menn botna hvorki upp né niður í boðskapnum um að sælir séu fátækir – því sannarlega eru þeir fátækir en minna fer fyrir sælunni.
Ótal fleiri þemu mætti draga fram; listinni, og þá ekki síst handverkinu, bregður endurtekið fyrir og ber með sér töfrablæ eða undur sem opnar leið út úr hversdeginum. Myndlistin er einnig nálæg þar sem bókina prýða myndir eftir föður Gyrðis, Elías B. Halldórsson myndlistarmann. Málverk eftir hann skreytir sömuleiðis kápu bókarinnar sem safnið sækir líklega titil sinn til – þó hér sé mögulega einnig vísað til Van Gogh og gula hússins sem hann bjó í í Arles. Hið yfirnáttúrulega smýgur víða inn í ofurhversdagslegan heim sagnanna sem margar vinna með skýr kristileg tákn eða þjóðsagnaminni og afturgöngum og álfum bregður fyrir. Í því samhengi verður að minnast á söguna „Grásteinninn“ þar sem veröld manna og álfa mætist í dulúðlegri hugvekju um ágang mannsins gegn náttúrunni og það tilkall sem hann telur sig hafa til hennar.
Dulúðin liggur áfram eins og slóð af steinvölum í gegnum Steintré (2005) og kristallast í titli bókarinnar sem óneitanlega vísar til einhvers konar samsláttar lífs og dauða. Titilinn má hæglega lesa sem skírskotun í persónur sagnanna sem fæstar standa í blóma, ef svo má að orði komast. Líf þeirra virðist markað biðstöðu sem stundum er rofin af skyndilegri hugljómun; stjörnuskoðari beinir kíki sínum oftar að glugga nágrannans en himinfestingunni þar til hann gerir uppgötvun sem leiðir hann aftur til stjarnanna; flyglakaupmaður með starfsleiða er vakinn til lífsins af blústónlist og þunglyndur rithöfundur verður óvænt yfirkominn af létti og upphafningu. Öðrum persónum hlotnast þó ekki slík undankomuleið út úr eigin hugarfylgsnum heldur mara í einsemd og innilokun. Í einverunni leitar undirmeðvitundin upp á yfirborðið í formi þrúgandi nærveru eða drauma sem leka inn í vökulífið með tilheyrandi óhugnaði og framliðnir halda sig ekki réttu megin við mörkin.
Sögumenn sagnanna eru undantekningarlaust karlar þó konur spili sannarlega stórt hlutverk. Tengslaleysi er einn sterkasti þráður bókarinnar þar sem samskipti eru hæpin ávísun á nánd og hjónabandið gróðrastía stöðnunar – kannski eitthvað í ætt við steintré. „Teljósin“ teflir til að mynda saman líflausu hjónabandi og dauðsfalli og fjarlægðin milli persónanna tákngerist í stjörnunum sem sögumaður sér á himnum í lok sögunnar: „fjarlæg teljós og köld.“ Í „Flugleiðin til Halmstad“ nýtur eiginmaðurinn einverunnar eftir að hafa sent konuna í frí en á hann renna tvær grímur þegar hún snýr ekki aftur heim. Nándin er því brothætt fyrirbæri, jafnvel draumsýn. Í það minnsta birtist hún sem slík í „Draumagleraugun“ en þar finnur sögumaður sér leið inn í drauma eiginkonunnar og skilst þá fyrst að „enginn er fjarlægur öðrum í raun og veru“.
Þó nútíminn sé öllu nálægari í Steintré en í Gula húsinu gera þau tæki og tól sem maðurinn hefur skapað lítið fyrir hæfni hans til tjáningar – þrátt fyrir fartölvur ganga skrif hægt (ef eitthvað) og símtölum er ekki svarað. Fjarlægðin og tengslaleysið er sömuleiðis undirstrikað með ferðalögum eða dvöl fjarri heimilinu. Vandinn við ferðalög er hins vegar sá að maður sjálfur er með í för, eins og sögumaður „Homo Pastoralis“ sannreynir þegar hann gengur fram á svartan hund (tákn þunglyndis) – í paradísinni þar sem hann hyggst setjast að.
Svartir hundar eru tryggar skepnur og það stendur ekki á þeim að elta persónur og lesendur inn á síður Milli trjánna (2009), einni mest lofuðu bók Gyrðis. Dauðinn er nálægur sem aldrei fyrr, enda óhjákvæmilegur fylgifiskur þegar fjallað er um mannlega tilvist, og spennan undir yfirborðinu er jafnvel meiri en í Gula húsinu og Steintré. Það er merkileg upplifun að lesa þessi þrjú söfn hvert á eftir öðru og fylgjast með höfundinum fága sinn knappa og átakalausa stíl, líkt og smám saman sé dregið niður í hljóðstyrk frásagnarinnar á meðan andrúmið þéttist og skriðþunginn eykst.
Titillinn einn og sér ber með sér blendinn andblæ kyrrðar og spennu. Vissulega fyllir það flesta friðsæld að ganga í skóglendi en tré byrgja líka sýn og búa til felustaði fyrir hið óvænta. Mögulega glittir ógreinilega í eitt og annað á milli greina og gróðurs – og ímyndunaraflið fyllir í eyðurnar. Óhugnaðurinn er í það minnsta áberandi í þessu gróðursæla safni og tekur á sig ýmsar myndir, sumar mun áþreifanlegri en í fyrri söfnum. Hér hrella ekki aðeins draugar og torkennileg hljóð um miðjar nætur heldur stíga inn skrímsli og furðuskepnur sem hluti af hinum náttúrulega heimi. Í „Glerhúsi“ mætir sögumaður ógnvænlegri veru innan um plöntur sem honum virðast „fluttar inn frá annarri plánetu.“ Andspænis vængjaðri verunni, sem minnir á blendingsskepnu, hreistruð með hrímaðar klær, fyllist maðurinn magnleysi og hörfar burt. Sögumaður í „Dýrið“ sleppur ekki eins vel frá ófreskjunni sem hann grefur upp en þar er aftur á ferð skepna sem virðist samsett úr ólíkustu kvikindum.
Hvort lesa megi slíkar skepnur í samhengi við þær vísanir í loftslagsbreytingar sem koma fram í öðrum sögum er kannski álitamál. Hitt er þó skýrt að náttúran leikur lykilhlutverk í bókinni og birtist á köflum sem dularfull og yfirþyrmandi, líkt og fjallið K2 sem sögumaður í „Tindurinn mikli“ er heltekinn af. Honum gengur þó ekki betur að klífa það en svo að jafnvel tilraun hans til að láta húðflúra nafn þess á handlegginn á sér fer forgörðum. En dulmagn náttúrunnar býr ekki aðeins í mikilfenglegum náttúruundrum, jafn heimilisleg fyrirbæri og stofublóm virðast ætla að breyta fólki í „rökkurþyrsta og einmana pottaplöntu.“ Náttúran er þó fyrst og fremst heilandi afl í sögunum. Persónur gleðjast „yfir fjölbreytni tilverunnar sem birtist í dýrum og jurtum sumarsins“, horfa til fjalla og anda að sér „traustleika þeirra og styrk“ og njóta stuðnings göngustafs úr birkiviði eftir slys, svo fátt eitt sé nefnt. Virðing fyrir lífríkinu er einnig augljós í hugleiðingum um hversu skamman tíma maðurinn hefur dvalið á þessari jörð í samanburði við trén – þó á þeim tíma hafi honum tekist að breyta loftslaginu til þess vegar að sögumaður í „Hússkiptin“ gengur fram á bjöllu sem er „alltof stór fyrir þennan heimshluta.“ Í „Útfellingar“ eru jurtir „orðnar einsog þær tilheyrðu öðru loftslagi“ og heil á gufar upp. Líkast til er það heldur ekki tilviljun að þegar drengurinn í „Grasasöfnun“ slítur upp fágætt sólblóm, og pressar í orðabók, hafnar blómið innan um jafn andstæð orð og „græðgi og guðdómskraftur“.
En þó náttúran sé þema sem vex víða í Milli trjánna er þar svo ótalmargt fleira undir smásjánni. Þarna er sálarlaus nútíminn með sínum stórverslunum þar sem allt er alltaf uppselt; enn líflausari framtíð þar sem ekki líður sá dagur án þess að eitthvað verði ekki úrelt; samfélag sem þarf að læsa öllu og kærir sig ekki um innflytjendur – tré jafnt sem fólk – og gjáin milli persóna virðist gera lítið annað en breikka og dýpka.
Tónninn sem sleginn er í Koparakri (2014) víkur nokkuð frá þeim sem víbrar í gegnum Milli trjánna. Frásögnin er í forgrunni og sjónarhornið á persónur og atburði er oft spaugilegt – þó umfjöllunarefnin séu á engan hátt léttvæg. „Á litla sviðinu“ fjallar til að mynda um einsemd og uppburðarleysi í gegnum þráhyggjukenndan áhuga sögumanns á nágranna sínum sem er leikskáld. Klaufagangur sögumanns þegar hann finnur sig knúinn til að ljúga til um starf, í stað þess að játa sig atvinnulausan, sem og hugleiðingar hans um nágrannann og verk hans eru bráðfyndin. Fyrir vikið verður sagan íronísk stúdía á samfélagsíþróttinni samanburði og þörfinni fyrir að spegla okkur í öðru fólki.
Margar sagnanna geyma lúmska ádeilu á mest notuðu sljóvgunarmeðul samtímans, skjátækin, sem aftengja manninn frá umhverfi sínu, skapa fjarlægð milli hjóna og sýna ofbeldi sem sjálfsagðan hlut. Sagan „Skjámyndir“ gefur jafnvel í skyn að slík tæki séu afsprengi andskotans. Í upphafi sögunnar er maður að skrifa grein um Grasblöðin eftir Walt Whitman þegar dularfullur gestur birtist honum fyrirvaralaust. Gesturinn gefur lítið uppi um tilefni heimsóknarinnar en í augum hans, sem eru „einsog skjáir í mikilli upplausn“, sér maðurinn eyðileggingu og hvers kyns óhugnað. Myndasýningin er að sjálfsögðu í beinni andstöðu við náttúrulofsöng Whitmans og eitt og annað bendir til þess að gesturinn sjálfur sé af fremur ónáttúrulegum toga – jafnvel klauffættur. Alltént er öllum skrifum um Grasblöðin slaufað hið snarasta.
Annar angi amerískrar menningar, hasarmyndin með sinni hversdagslegu ofbeldisfirringu, er sömuleiðis sannkallaður hjónadjöfull í „Tveggja hæða þögn“. Á þeim bæ hefur eiginmaðurinn aftengst öllu nema sjónvarpinu svo algerlega að svarti bolurinn hans minnir nú á skothelt vesti – varla nær ást eiginkonunnar þar í gegn. Viðlíka skírskotun til ofbeldis og aftengingu má sjá víðar, ekki síst þar sem umgengni okkar við dýr er í brennidepli. Að renna fyrir fisk í manngerðri tjörn þar sem enginn fiskur „getur verið fyllilega frjáls“ fær einhvern annarlegan blæ og frystikista er ekki forðabúr heldur líkkista fyrir dýr. Sagan „Aftakan“ gerir sömuleiðis skýlausa athugasemd við slátrun dýra þegar ungir drengir fylgjast með sauðfé reknu inn í sláturhús. Á hæla dýranna koma tvær manneskjur sem greinilega eiga að fara sömu leið og skepnurnar og á eftir þeim maður vopnaður riffli. Hliðstæðan sem dregin er upp með aflífun skepna og meðferð á fólki í stríðshrjáðum löndum er nógu truflandi ein og sér. En við bætist að óþægilegur samsláttur verður með rifflinum og kindabyssu sem drengirnir hafa meðferðis – og hafa í flimtingum að ætla að skjóta eitthvað fleira en rollur. Þó hér séu börn að leik er það einmitt ígildi byssunnar sem leikfangs sem kveikir hugrenningar um leik mannsins að lífinu. Sá leikur lærist víst snemma, eins og sjá má í „Hendurnar“ þar sem ungur drengur kaupir sér tindáta – hermenn frá Víetnam.
Þó lokasaga Skuggaskipa (2019) taki undir þá athugasemd sem gerð er við dýradráp í Koparakri sáir þetta ellefta smásagnasafn Gyrðis í allt annan akur. Húmor og tregi vega hér salt eins og svo oft áður en húmorinn hefur samt líklega aldrei verið jafn áberandi. Frásagnarhátturinn er á köflum allt að því kumpánlegur og höfundarröddin nærri lesandanum sem stundum er ávarpaður beint, jafnvel talað um „okkar mann“ þegar vísað er til persóna.
Eins og áður hefur verið komið inn á leika samskipti hjóna stóran þátt í sagnaheimi Gyrðis og það er ekki síst sá þráður sem spunnið er úr í Skuggaskipum. Í framtíðarheimi sögunnar „Venus“, þar sem mannmiðjukenningin hefur náð hæstu hæðum og bókstaflega öllu hefur verið útrýmt (dauðanum jafnt sem metnaðinum), er það ástin og þráin eftir nærveru annarrar manneskju sem stendur eftir. Hjónabandið er álíka viðkvæmt efnasamband og í fyrri sögum þó hér megi greina nokkra von um líf því til handa. „Vöxtur“, saga sem er enn einn vitnisburðurinn um skínandi hugmyndaauðgi Gyrðis, segir frá hjónum sem leggja mikið á sig til að nálgast gólfefni úr „lifandi“ viði fyrir nýja heimilið. Lífið í gólfinu fer hins vegar töluvert fram úr væntingum þegar heljarinnar trjálundur vex í stofunni. Á spássitúrum um lundinn, eftir að „sjónvarpið hreinlega hvarf“, virðast hjónin færast nær hvort öðru – þar má villast og þá þarf að „segja nafn hvort annars stundarhátt.“ Titill sögunnar hefur því mögulega tvöfalda merkingu og lýsir ekki einungis hinum kynlega vexti í stofugólfinu heldur vaxandi nánd þeirra hjóna.
Öllu snarpari viðsnúningur verður á samskiptum hjónanna í „Þulan“. Þar hefur eiginkonan stundað það um langt skeið að hella úr skálum reiði sinnar og vonbrigða í eyra eiginmannsins meðan hann sefur. Lítið atvik verður svo til þess að hún breytir um tón – sem virðist breyta öllu. Sögurnar hverfast reyndar margar um einhvers konar viðsnúning á væntingum eða ráðagerðum. Hvort sem það er barnsvon, tæki til að upplifa drauma annarra, kartöfluuppskera eða handrit að bók sem persónur binda vonir við, þá vilja hlutirnir fara á annan veg en lagt var upp með. Eftir lesturinn lifir því sú kennd með lesandanum að allar hugmyndir um kraft og mátt einstaklingsins sem skapara eigin örlaga séu úr lausu lofti gripnar – hendingin fer oftar sínu fram. Sagan „Englar og djöflar“ er í senn bæði kómísk og hrollvekjandi pæling á þessum nótum þar sem ungur maður bjargar lífi kollega síns. Þegar fram líða stundir áttar hann sig á að þetta björgunarafrek hefur gert hann að einum „af áhrifamestu mönnum 20. aldar.“ Þó hann viti ekki vel hvernig honum eigi að líða með það – að hafa bjargað lífi hins unga Adolfs með fituga hárið.
Frá árdögum smásögunnar hefur verið bent á að slíkir vendipunktar séu eitt af hennar höfuðeinkennum, þessi litlu atvik sem breyta öllu og draga fram hverfulleika lífsins og smæð manneskjunnar í hinu stóra samhengi. Gyrðir er með ólíkindum fundvís á efnivið og næmur á frásagnaraðferðir sem gera honum kleift að miðla hinu stóra í gegnum hið smáa. Hans bestu sögur minna á þurrkuð teblóm, lögð í vatn svo þau þenjast út og bera með sér dulúðlega angan. Sögurnar sækja styrk og slagkraft hver í aðra sem og í sagnaheim Gyrðis allan en Gyrðir er tvímælalaust í hópi þeirra höfunda sem hefur með verkum sínum skapað sinn eiginn heim, litaðan einkar sterkum höfundareinkennum. Sá heimur er merkingarbær í sjálfum sér og lýtur eigin lögmálum. Um leið og lesandi opnar bók eftir Gyrði veit hann nákvæmlega hvar hann er staddur – hverju hann geti átt von á er hins vegar alls óvíst.
Listin að vera einn - Skáldsögur
Af þeim fimm skáldsögum sem Gyrðir hefur sent frá sér síðustu tvo áratugi sker sú fyrsta, Næturluktin (2001), sig verulega úr fyrir ýmsar sakir. Það eitt að bókin er sjálfstætt framhald af Gangandi íkorna (1987) er sérstakt í höfundarverkinu. Þó innan bóka Gyrðis megi finna ótal tengingar eru þessar tvær þær einu sem tala saman sem eitt verk – og voru reyndar endurútgefnar saman í einni bók árið 2006.* Að lesa þessar tvær sögur saman á einni bók er áhugavert því merkjanlegur munur er á stíl sagnanna. Í Næturluktinni mætir lesandanum það látleysi og skýrleiki sem tengt er við texta Gyrðis í dag en var kannski ekki að fullu orðið skýrt höfundareinkenni í fyrri bókinni. Bækurnar, sem báðar myndu flokkast sem nóvellur, deila ekki aðeins sögusviði og persónum heldur einnig byggingu. Fyrri hluti þeirra á sér stað í heimi veruleikans, íslenskri sveit, og segir frá Sigmari, dreng sem af óljósum ástæðum hefur verið sendur í vist til hjónanna Bjargar og Ágústs. Seinni hlutinn gerist hins vegar í ævintýraheimi íkornans, fígúru sem er afsprengi hugarflugs Sigmars. Sá heimur er ríki dýranna og allt að því kafkaískur í óhlýðninni við hið röklega samhengi veruleikans.
Þó ýmsar furður og hið yfirnáttúrulega fléttist einatt inn í verk Gyrðis er líklega hvergi jafn langt seilst í þeim efnum og hér. Lesandanum er falið ærið verkefni við að túlka söguna og lesa í hin súrrealísku ævintýri íkornans sem ætla má að geymi lykla að sálarlífi drengsins, þó ekkert liggi í augum uppi hvað það varðar. Sigmar er dulur drengur en að sama skapi uppátækjasamur og skapandi eins og skammarstrik hans bera vitni um. Þó hann virðist sáttari við vistina hjá hjónunum en í Gangandi íkorna er vera hans þar augljóslega ekki tilkomin af góðu. Í það minnsta getur móðir hans ekki haft hann hjá sér en fram kemur að þau mæðgin hafi misst húsnæðið í bruna. Í upphafi Næturluktarinnar fær Sigmar þær fréttir að faðir hans sé látinn og tekur það merkjanlega nærri sér þó hann hafi ekki þekkt hann. Drengurinn virðist fátt vita um föður sinn annað en að hann hafi verið drykkfelldur og á engar minningar um þau móður sína saman.
Barnssálin hefur því augljóslega við eitt og annað að glíma sem skýrir kannski flótta drengsins inn í skáldskapinn. Eldsvoðinn sem gleypti heimili þeirra mæðgina gengur aftur í ferðum íkornans í báðum bókum. Í lok Næturluktarinnar virðast hins vegar engin merki um að íkorninn Sigmar sé á leið aftur til mannheima líkt og reyndin var eftir ferðir hans í fyrri bókinni. Hvort lesa megi endinn sem svo að Sigmar hafi kvatt heim bernskunnar fyrir fullt og allt eða hvort endurtekningin undirstriki að hann komist aldrei út úr áföllum bernskunnar er ekki gott að segja. Merkingin getur jafnvel verið allt önnur enda er sagan, eins og áður sagði, hálfgert samstarfsverkefni höfundarins og lesandans.
Í skáldsögunum fjórum sem fylgdu í kjölfar Næturluktarinnar færði Gyrðir sig frá heimi bernskunnar og inn í heim fullorðinsáranna – þar sem tilveran er engu minna flókin. Sögumenn bókanna eru allir listamenn, um og yfir miðjan aldur, sem hafa komið sér fyrir fjarri borgarlífinu og fólkinu sem stendur þeim næst. Glíman við sambönd, samfélagið og listina lúrir í miðju tilvistarkreppu þessara manna en á einhvern hátt virðast þessi þrjú frumefni ósamrýmanleg.
Æskan er þó ekki víðsfjarri í Hótelsumar (2003) því bókin hefst þegar sögumaður, rithöfundur, snýr aftur á bernskuslóðirnar þar sem hann dvelur á hóteli. Þó hann taki það skýrt fram í fyrstu setningum sögunnar að hann sé „ánægður með að vera kominn aftur heim“ dregur hann heldur enga fjöður yfir það að hafa aldrei liðið vel á þessum stað og hafi aldrei ætlað að snúa þangað framar. Heimsóknin er því lesandanum nokkur ráðgáta. Svarið við henni opinberast þó þegar persóna mannsins teiknast smám saman upp en hér er greinilega á ferðinni einstaklingur með erfiðan „viðhorfsvanda“. Hann er tiltölulega nýskilinn, gengur illa að skrifa og virðist ekki vita hvernig hann eigi að halda áfram með líf sitt almennt. Heimsókn hans á æskuslóðirnar er því skýr birtingarmynd þeirrar sannfæringar að hann búi ekki yfir þeim krafti sem til þarf til að hreyfa það áfram. Hann hafi álíka mikið um það að segja og trjábolirnir frá Síberíu sem einhvern veginn eru orðnir að símastaurum í þessu litla þorpi á Íslandi. Samt er hann með augljósa útþrá, smæstu hlutir í umhverfinu vekja hjá honum hugrenningar um jafn fjarlæga staði og Afríku, Jerúsalem og Tíbet. Einhverrar beiskju gætir líka í garð bróðurins sem hann alltaf stóð í skugganum af en er nú fluttur til Ástralíu. Til að kóróna allt saman vill svo kaldhæðnislega til að eina bókin sem hann tók með sér eru ferðasögur Mark Twain. Flakkið á Twain fjarri heimahögum fer þó bersýnilega í taugarnar á honum: „Hann hefði aldrei átt að fara frá Mississippi.“ Þegar hann sjálfur loks yfirgefur þorpið í lok bókarinnar er það ekki um borð í portúgalska skipinu sem hann sér í höfninni, og nefnt er eftir skáldinu Pessoa, heldur í flutningabíl – á leið „langt austur“.
Einsemdin er augljóslega leiðarstef í þessari sögu af sjálfskipaðri útlegð fráskilins manns frá öllu sem hann virðist innst inni þrá en ómögulega geta seilst eftir. Óframfærni hans við konur er til að mynda dapurleg, sér í lagi þar sem hann mænir á þær við hvert tilefni og þráir greinilega félaga – jafnvel fuglapörin nudda honum upp úr einsemdinni. Þegar líður á frásögnina er þó erfitt að verjast þeirri tilfinningu að þar fari ekki alltaf saman hljóð og mynd. Hversu áreiðanlegur sögumaður er þessi náungi sem segist svo auðveldlega verða aftur „þessi litli drengur sem áræðir ekkert“, en lýsir stuttu síðar hvernig þessi sami drengur gerði sér að leik að vappa í kringum slökkvistöðina með eldspýtur? Og svo furðulega vill til að augnabliki eftir að hann stendur fyrir framan æskuheimili sitt og kveður það hinstu kveðju, brunar slökkviliðið í gegnum bæinn. Í ljósi þess sem sagt hefur verið hér ofar, að persónur Gyrðis geri jafnan ekkert fyrr en þær gera eitthvað langt út fyrir rammann, er kannski full ástæða til að hafa áhyggjur. En hugurinn hvarflar líka óneitanlega til Næturluktarinnar, til Sigmars og eldsvoðans á þeim bæ – getur verið að sá uppátækjasami drengur hafi líka leikið sér með eldspýtur? Í hinum heildstæða sagnaheimi Gyrðis leiðist lesandinn ósjaldan út í slíkar vangaveltur. Kunnugleikinn innan þess heims, textatengslin og endurtekin þemun, í samspili við frjóar eyðurnar í textanum, verður til þess að sköpunargáfa lesandans er virkjuð – og áður en hann veit af hefur hann tekið sér byggingarleyfi.
Sköpunargáfan er þema í sjálfu sér í þessum heimi, svo og í þremur síðustu skáldsögum Gyrðis, Sandárbókinni (2007), Suðurglugganum (2012) og Sorgarmarsinum (2018). Sögumennirnir fást við ólík listform, myndlist, ritlist og tónlist, en allar takast bækurnar á við spurningar um líf og starf listamannsins. Sögusvið þeirra eru tímabundnir dvalarstaðir, þar sem fólk hefst allajafna við í skamman tíma, en persónurnar ílengjast á út í hið óendanlega. Þessir millibilsstaðir endurspegla kyrrstöðuna í lífi þeirra og fjarlægð frá öðru fólki en eru um leið lýsandi fyrir stöðu listamannsins í samfélaginu og einveruna sem er óhjákvæmilegur fylgifiskur listsköpunar.
Málarinn í Sandárbókinni hefur leitað skjóls í hjólhýsi nærri skóglendi þar sem hann reynir að endurnýja tengslin við myndlistana í gegnum náttúruna. Sjálfur segist hann vera „með tré á heilanum“ og að skógurinn hafi þau áhrif „að það losnar um sjálf manns“. Í þessum orðum birtist kannski þversögnin í allri listsköpun, hún er í senn innhverf og úthverf – listaverkið sprettur úr hugarfylgsnum listamannsins en til að hleypa því út má hann sjálfur ekki þvælast of mikið fyrir. Í bókinni er skógurinn ríki ímyndunaraflsins og hins villta þar sem þjóðsagnaverur leynast og allt iðar af lífi. Þar finnur málarinn einhverja tengingu sem hann hafði glatað en rekur sig líka á takmarkanir listarinnar þegar að því kemur að fanga hið upprunalega sköpunarverk. Hann fargar hverri myndinni af annarri því þær bæta „engu við það sem fyrir var í náttúrunni.“ Andstætt kyrrlátum, sjálfbærum heimi skógarins hamast góðærissamfélagið með allri sinni efnishyggju og stöðutáknum. Málarinn dregur ekki dul á andúð sína á því samfélagi og peningadýrkuninni sem þar ríður húsum. Sjálfur hætti hann að geta borgað af húsinu sínu enda eru þau verðmæti sem hann skapar ekki framleidd í gróðaskyni; starf listamannsins ýtir honum út á jaðar samfélags sem „stefnir leynt og ljóst að efnislegri velgengni.“ Í ofanálag kostar starf hans fjarlægð frá öðru fólki. Fjarlægðin gefur honum „næði til að vera ég sjálfur“ en er um leið vagga einsemdarinnar sem stigmagnast þegar innri tíma bókarinnar líður frá vori til vetrar: „Hvað verð ég lengi einn?“
Í huga rithöfundarins í Suðurglugganum (2012) er einsemdin ekki síður óhjákvæmilegt hlutskipti, eitthvað sem hann kæmist ekki undan þótt hann reyndi: „Sá sem er einn er alltaf einn, óendanlega einn, og enginn félagsskapur getur breytt því. Ég er þannig maður.“ Höfundurinn dvelur í sumarhúsi vinar síns þar sem hann beinlínis forðast allt mannlegt samneyti. Þrátt fyrir einangrunina á höfundurinn í mesta basli við að skrifa skáldsöguna sem hann er að reyna að ljúka við. Stafurinn b vill ekki halda sig í línu við restina af stafrófinu og orð týnast úr minni hans; ritvélaborðinn er að verða búinn og letrið verður sífellt daufara á pappírnum – líkt og verkið vilji eyða sér sjálft. Tungumálið er honum því engu gagnlegra tæki til að fanga veruleikann en litir og penslar eru málaranum í Sandárbókinni. Orðin liggja dauð á blaðinu og persónurnar sem hann skapar eru álíka líflausar og tilvera hans sjálfs, hann nær engum tengslum við þær frekar en annað fólk. Þetta vekur upp þá spurningu hvort þátttaka í lífinu sé ekki forsenda þess að geta skapað? Rithöfundur kemur hins vegar litlu í verk nema einn með sjálfum sér og pappírnum svo hér birtist aftur sú innbyggða mótsögn sem einkennir líf listamannsins.
Í bakgrunni sögunnar er misheppnað ástarsamband, sársaukafull bernska, peningaleysi og heimur á hverfanda hveli – ef marka má einu raddirnar sem höfundurinn hlustar á; fréttaþulina í útvarpinu. Sú brotakennda heimsmynd sem okkur birtist í fjölmiðlum og brokkgeng skrif höfundarins endurspeglast í formi bókarinnar sem samanstendur af stuttum textabrotum, hugleiðingum sögumanns um heiminn og mannskepnuna. Bókin á það sammerkt með Sandárbókinni að spegla samtíma sinn, þó hér liggi Ísland góðærisins ekki undir heldur heimurinn allur – eða í það minnsta hinn fréttnæmi heimur. Sá heimur hryðjuverka og hamfara er sannarlega ekki lífvænleg vistarvera og dregur ekki upp sérlega aðlaðandi mynd af dýrategundinni homo sapiens. Freistandi er að túlka hinn bjarta titil bókarinnar sem vísun í móteitrið við heimsósómanum: heilandi mátt listarinnar. En gluggar eru vissulega glerjaðir og listamanninum nægir ekki útsýnið. Hann þarf að finna leið í gegnum glerið. Og gott ef það er ekki tvöfalt.
Tónsmiðurinn í Sorgarmarsinum (2018) er öllu tendraðri í sýsli sínu með hljóma og laglínur þó hann margítreki að hann sé ekki tónskáld – biður lesandann beinlínis afsökunar þegar hann slysast til að nota það orð yfir sjálfan sig. Þó léttleikinn svífi ekki yfir titli bókarinnar dansar kómíkin um síðurnar. Frásagnarhátturinn er keimlíkur þeim sem greina má í Skuggaskip þar sem lesandinn er ávarpaður beint líkt og þeir sögumaður eigi í einkasamtali. Frásögnin er vissulega tragikómísk því þó sögumaður slái á létta strengi eru stór áföll í fortíð hans og hjónaband hans siglir hraðbyri í strand. Linnulausar úrtölur hans um listgildi þess sem hann skapar eru hins vegar grátbroslegar en í þeim liggur sömuleiðis meginspurning sögunnar – hvað er að vera listamaður?
Í upphafi bókarinnar hefur tónsmiðurinn fengið að láni hús í litlu þorpi til að sinna þessu áhugamáli sem á hug hans allan. Bókstaflega allt verður honum að efniviði, veri það þakrenna, teketill eða flugnasuð. Athygli hans er stöðugt stillt á listræna bylgjulengd þar sem hljóðmynd tilverunnar kemur til hans í tónum. Þessi tómstundaiðja, „að skrásetja það sem loftið færir mér“, sem „er bara eitthvað sem ég geri líkt og að draga andann“, er það eina sem hann gerir ótilneyddur. Snemma í frásögninni verður lesandinn því hugsi yfir því hvað eða hver gefi út leyfisbréf fyrir nafnbótinni listamaður? Í huga tónsmiðsins virðist sú nafnbót hanga saman við það að listaverkið komi út, öðlist viðtakanda. Tónsmiðurinn gælir reyndar við þá hugmynd að einhver verkanna verði flutt í hans eigin útför. Sú hugmynd endurspeglar kannski fyrst og fremst hversu tregur hann er til að axla ábyrgð á hæfileikum sínum, eins og hann tregðast við að axla ábyrgð á lífinu almennt. Þegar konan hans fer frá honum fyrir annan mann aðhefst hann ekkert. Hann hefur hljótt um skoðanir sínar og tilfinningar, rétt eins og hann hefur hljótt um tónsmíðarnar, enda fullviss um að „það skipti vissulega litlu hvað mér finnst.“ Hann starfar sem textasmiður á auglýsingastofu, starf sem er í hrópandi mótsögn við hans innri mann og hann skammast sín fyrir.
Því er stundum haldið fram að allir almennilegir höfundar séu alltaf að skrifa sömu söguna. Hver bók er ný rannsókn á efninu, skref í átt að heildarskilningi á spurningunni sem knýr skrifin. Gyrði Elíasson má flokka sem slíkan höfund – kannski má líkja honum við landslagsmálara sem málar sama fjallið aftur og aftur, því myndefnið verður aldrei fangað til fullnustu í einni atrennu. Þó listamannaþríleikurinn sé einatt ræddur sem samstætt verk – og auðveldlega megi sjá fyrir sér heildarútgáfu bókanna þegar fram líða stundir – mætti hæglega tala um Hótelsumar sem nokkurs konar forleik að þrennunni og einhver andlegur skyldleiki er með öllum fimm skáldsögunum sem reifaðar hafa verið hér ofar. Sköpun og eyðing virðast tvær hliðar á sama teningnum. Sköpunin, þráin eftir hinu fagra, er leið út úr þeim veruleika sem sögumennirnir finna sig ekki í, en sú leið er hvorki bein né breið og langt frá því að vera sársaukalaus. Ferðalag þeirra allra liggur inn í einhvers konar upplausn, færslu frá einum veruleika til annars, en hver sá veruleiki er leikur á tveimur tungum. Veruleikinn er í sjálfu sér loðið hugtak í bókum Gyrðis þar sem innra líf manneskjunnar er í miðdepli. Og kannski er þetta einmitt sterkasta sögnin í skáldskap hans; það raunverulega og ímyndaða er jafn mikill veruleiki; draumurinn jafn mikilvægur og vökulífið; dauðinn jafn nálægur og lífið. Því ætli maður sér að skilja hvað það er að vera manneskja, þá hrekkur veruleikinn einfaldlega ekki til.
„Allt er óendanlegt / nema lífið“ - Ljóð
Í þeim heimi sem Gyrðir Elíasson hefur skapað með verkum sínum má segja að ljóðlistin sé burðarvirkið. Umfangið eitt – hátt í tveir tugir ljóðabóka á ferlinum – segir sína sögu en hér er ekki síður átt við að Gyrðir er höfundur sem nýtir sér aðferðir ljóðsins í öllum sínum skrifum. Andrúmið, myndmálið og skýrleiki tungumálsins (hámörkun tungumálsins mætti segja þó það sé eitthvað rangt við að nota svo markaðslegt orð um fagurfræði) sem setja svo sterkan svip á öll hans verk eru allt verkfæri úr smiðju ljóðsins – formsins sem vill fanga heiminn í einni setningu.
Tvífundnaland (2003) kom út samhliða Hótelsumri en á síðustu tveimur áratugum hefur það nánast verið regla fremur en undantekning að Gyrðir sendi frá sér tvær bækur á sama tíma. Líkt og í Hótelsumri er hér litið til bernskunnar en bókin bregður upp meitluðum myndum af landi fullu af fegurð og töfrum en einnig myrkri og háska. Þetta er land ímyndunaraflsins; landið sem barnið finnur og týnir þegar það vex úr grasi, en finnur aftur þegar „silfurþráðurinn slitnar“ og ný tilvist tekur við; landið þar sem glampar og glitrar á hið hversdagslega en „Áður en litið er við er komið kvöld.“ Bókin er þó langt frá því að vera myrk, þvert á móti ber oft á barnslegri leikgleði í myndmálinu; listmálari dregur upp sjónauka „til að grandskoða/pensilförin/á himninum“, sölnuð puntstrá minna á trosnaða tannbursta; maður leitar að krókódílaeggjum í fjörusandinum og „Púsluspil fyrir lengra komna“ gerir himininn að töfrandi myndefni:
Sólin á himinbláum
húsþökunum;
einsog himinninn
hafi brotlent
og brakið
dreifst yfir allt
Ljóðin eru mörg sett saman úr tveimur myndum – sú fyrri björt landslagsmynd, full af litum, kyrrð og fegurð en á þeirri seinni læðir eitthvað sér inn í rammann svo það dimmir yfir. Ógnin er stundum óræð – á í örum vexti, hrafnar á flugi – en stundum áþreifanleg líkt og kjarnorkuverið, „hvítara en sængurver“, sem birtist í „Dagbókarbrot að utan“. Ljóðið er náttúrumynd í háskerpu, ýkt litasinfónían í eldrauðu, algrænu og skærgulu skírskotun til geislavirkni og yfirvofandi hættu. Álíka ádeilu á spillingaráhrif iðnaðar má greina í fleiri ljóðum. Þeirra eftirminnilegast er „Drög að nýjum tímum“ þar sem sólarorkuknúinni stundaglasaverksmiðju er teflt fram sem andstæðu orkufrekari virkjana. Hér er leikið með tímann sem mælikvarða og auðlind og hraða verksmiðjuframleiðslunnar stillt gegn hægum tíma náttúrunnar – sólin er rafhlaða sem „brestur aldrei afl“ og „hundruð manna / moka ljósum sandinum / með litlum sykurskóflum / í stundaglösin“. Samt hvískra starfsmennirnir við vinnuna, „einsog þegar öllu er lokið“, og lesandinn situr eftir með þá kennd – og sannleika – að náttúran er afl sem hefur allan tímann í heiminum. Það er maðurinn einn sem er að brenna inni á tíma.
Tíminn, sú kvika skepna, er einmitt alltumlykjandi í Upplitað myrkur (2005) og bregður fyrir í ýmsum búningi. Í mörgum af húmorískari ljóðum bókarinnar gerir fortíðin sig gestkomandi í nútímanum og virðist eiga við hann eitthvert erindi. Bæði Nabokov og Laxness færa ljóðmælanda gjafir í draumi sem þó ferst fyrir að ferja inn í vökulífið, á sama vitundarstigi erfiðar maður við að þýða ljóð Jóhannesar úr Kötlum og Ingólfur Arnarson snýr aftur til Reykjavíkur í óræðum tilgangi. Reimleikar eru, eins og áður var komið inn á, algengt stef í bókum Gyrðis en í Upplitað myrkur er það fortíðin sem gengur aftur, líkt og hinu liðna sé ekki lokið. Annað stef, og öllu tilvistarlegra, er hinn jarðsögulegi tími og náttúran, eilífðarvélin sem mun lifa okkur öll. Bókin kom út á sama tíma og smásagnasafnið Steintré en á í raun meira sameiginlegt með Milli trjánna. Ljóðmælanda verður tíðrætt um tré og skóga, þessar seigu lífverur sem voru hér svo löngu á undan manninum og verða hér áfram löngu eftir að hann hverfur af yfirborði jarðar. Að flétta hinn kyrrláta og þolinmóða tíma jarðsögunnar inn í ljóðheiminn, þar sem „Hugskotin geta verið skúmaskot“ og ekkert virðist nægja „til að færa mér ró, / til að útiloka kuldann“, er sterkt mótvægi við tilvistarangistina.
Þó titillinn gefi til kynna gráma og deyfð gægist trúin á lífið inn við ólíklegustu tækifæri. Þegar dauðinn mætir er honum rétt „ljósker, / og handbók um líftækni“, Guð birtist brosleitur í skýjunum og heilræði berast í draumi: „Hún er mikilvægust, / gleðin að vera lifandi / hér í garðinum“. Það fer kannski ekki mikið fyrir gleði í ljóðunum en ljóðmælandi virðist þó ekki án vonar. Hann sækir sér fyrirmynd í náttúruna þegar lífið kreppir að og eina leiðin er að „Fella laufin í / vetur, fá svo ný og betri / lauf næsta vor“ – og væri ekki gott að geta tileinkað sér sveigjanleika barrtrjánna, þeirra sem „kunna / að brotna ekki“. Lokalínur „Á Rauðasandi“ birta svo ægifagra sýn, þar sem tungumálinu sleppir og tær skynjunin tekur við:
Við vöðum lænurnar neðan
við graslendið og göngum út
á logabjart flæmið niður að
sjónum
Öll orð eru horfin
við bara horfum
Litlar lexíur af þessu tagi, auðmýktin mitt í þunga tilvistarinnar sem öllum lögum samkvæmt er dauðanum merkt, er eitt af því sem gerir skáldskap Gyrðis ekki aðeins hugvekjandi heldur heilandi. Við hvert fótmál gæti okkur opinberast óvænt fegurð og mikið undur; snjóugur englasmiður í kirkjugarði, ormétið laufblað líkast fíngerðu víravirki og jafnvel ný jörð sem rís úr hafi. Alltaf er einhver glæta í myrkrinu og spurning hvort titil bókarinnar megi allt eins lesa sem svo að aldrei sé algert myrkur – því hvað upplitar myrkrið annað en ljósið?
Það er ekki beinlínis bjart yfir titli ljóðabókarinnar sem fylgdi í kjölfarið, Nokkur almenn orð um kulnun sólar (2009). Þar fyrir utan er eitthvað sláandi við mótsögnina sem fellst í því að ætla að fjalla í nokkrum almennum orðum um óhjákvæmileg endalok alls lífs, nánast eins og um sé að ræða eitthvað hversdagslegt og einfalt. Hér sannast kannski fyrsta regla skáldskaparfræða Gyrðis Elíassonar – látleysi og höfnun á hvers kyns dramatík. Þó Gyrðir fari undantekningalaust sparlega með þá auðlind sem list hans er spunnin úr, tungumálið, hefur naumhyggjan sjaldan verið meiri. Margt í bókinni minnir helst á speki Austurlanda en Gyrðir hefur þýtt nokkuð af austurlenskri ljóðlist.
NÚTÍMAMAÐURINN
Handa Yang Wan-Li
Ég gæti þegið
leiðbeiningar
í hugleiðslutækni
hrossaflugunnar
Ljóðin eru flest aðeins nokkrar línur og viðfangsefnin tímalaus en líkt og í Milli trjánna, sem kom út sama ár, má á stöku stað greina vísun til samtímans. Í „Aðgangur“ er til dæmis ort um „Endalaust framboð / af masterlyklum / að hamingjunni“ sem þegar til kastanna kemur opna þó engar dyr – og kannski eru heldur engar dyr. Það liggur beinast við að tengja ljóðið við sívaxandi markað hvers kyns sjálfshjálparmeðala – misgáfulegra – sem gera hamingjuna að hverri annarri söluvöru. Það er svo varla tilviljun að ljóðið er undanfari „Nútímamannsins“, sem birt er hér ofar. Tilvistarangistin er sterkasta þema bókarinnar sem skáldið nálgast af nánast vísindalegri hlutlægni. Hér nýtur sín hæfileiki Gyrðis til að spegla innra ástand í hinu ytra til hins ýtrasta:
HUGLEIÐING II
Brostnar vonir
eru eitt af því
sem erfiðast
er að laga
Einsog fyrir
einhentan mann
að spelka
vængbrot
smáfugls
Sá tónn magnleysis og angistar sem hér er sleginn bergmálar í gegnum ljóðheiminn þar sem farið er „um moldar- / stíg með daufa lukt / milli trjánna“ og „Skiltið sem varar / við sandstormum / er fokið burt“. Hvergi er örvæntingin þó jafn stingandi og í ljóðinu „Arnarstapi“ þar sem lausnina frá þjáningunni er ekki einu sinni að finna í jafn róttækri gjörð og að steypa sér fyrir björg: „Hann er enn / á leiðinni / niður“.
Það verður engin fjöður yfir það dregin að Nokkur almenn orð um kulnun sólar er dimm og skefjalaus í afstöðunni til þess að lífinu geti svipað skuggalega til dauðans. Bókin er þó alls ekki þung. Tærleikinn og naumhyggjan í tungumálinu gefa ljóðunum einhvern léttleika sem myndar mótvægi við innihaldið, enda er list Gyrðis ekki síst sú að kunna að vega salt, fínstilla hljóðstyrkinn. En þetta væri ekki bók eftir Gyrði Elíasson ef fegurðin slyppi ekki í gegn, þó ekki sé nema á stöku stað. Því sjá, þarna flýgur kanarífugl – og þarna eru barrtrén: „Þau halda uppi himninum“.
Þremur árum síðar leit svo Hér vex enginn sítrónuviður (2012) dagsins ljós, sama ár og Suðurglugginn. Hvað umfjöllunarefni varðar bendir bókin þó fremur í átt að Koparakri, sem kom út tveimur árum síðar, því hér er ekki skorið við nögl hvað varðar gagnrýni á meðferð manna á skepnum. Þó stíllinn sé hófstilltur eftir sem áður dylst lesandanum ekki reiði ljóðmælanda sem „Bregður stundum / þegar ég sé hvernig ein / dýrategund (sú sem ég / tilheyri) hefur yfirtekið jörðina.“ Mörg ljóðanna eru hreint ekki þægileg aflestrar. Stækkunarglerinu er brugðið á grimmd og drottnunartilburði mannskepnunnar í ljóðum eins og „Tveir hundar“ þar sem Hitler byrlar hundi sínum blásýru. Einræðisherrann stendur hér sem hluti fyrir heild, táknmynd fyrir manninn sem veigrar sér ekki við að slátra hinum saklausu. Í lok annars hluta ljóðsins mætir lesandinn vonglöðu augnaráði geimtíkurinnar Laiku, rétt áður en henni er skotið út í geim – og inn í opinn dauðann: „Allt fyrir vísindin“.
Miskunnarleysi og sakleysi er ítrekað teflt fram með svipuðum hætti og ekki látið ótalið að í ofanálag „grisjum við jafnt / og þétt okkar / eigin tegund“, dýrin í skóginum eru hreint engir vinir:
MANNKYNSSAGA FYRIR FRAMHALDSSTIG
„Svo þetta er þá Hálsaskógur,“
segir hann lágt við sjálfan sig
þegar hann lítur neðan af tré-
pallinum yfir mannþyrpinguna.
Hann lyftir öxlum. Það glampar
á hvasst blaðið í morgunsólinni.
Dauðahvötin er yfir höfuð gegnumgangandi í bókinni. Ljóðmælandi er gjarnan staddur í dauðalegu og dauflegu landslagi hversdagsins þar sem „Himinninn breytist ekkert. / Hann er alltaf jafn grár.“ Nei, hér vex svo sannarlega enginn sítrónuviður. Það má þó segja ljóðmælanda til hróss að hann er ekki húmorslaus, eins og glöggt má sjá í ljóðinu „Dagur læmingjans“ þar sem slegið er á hugarvílið með lestri sálfræðirita sem boða að „sjálfsmorðs- / tilhneigingar séu hér / um bil staðalbúnaður / í miðaldra karlmönnum.“ Ískrandi íronían fer ekki framhjá nokkrum manni þó maður nánast skammist sín fyrir að hlægja.
Ferðalög eru annað skýrt þema og ferðinni virðist þá jafnvel heitið yfir mörk lífs og dauða. Strax í upphafi bókarinnar liggur leiðin eftir vegi sem birtist á landakortinu jafnóðum og hann er ekinn, líkt og farið sé um áður alls óþekktar lendur. Lokaljóðið vísar sömuleiðis út úr þessum heimi og þar er rækilega hnykkt á afstöðunni til hinnar viti bornu veru:
SUÐ HEIMSINS
Handan við orðin
þar sem dýrin búa
er ókannaður heimur.
Þar er látlaust suð
sem enginn heyrir
nema þau. Þetta er
suðið frá stjörnunni
BX-5914. Þar lifa öll
dýr að eilífu: NO MEN
Skilaboðin verða vart skýrari. En þó bókin standi Koparakri nærri, eins og bent var á ofar, þá má allt eins segja að ljóðin endurómi heimsósómann sem streymir til rithöfundarins í Suðurglugganum í gegnum fréttamiðla. Alltént ætti það að vera lesendum ljóst að sú mynd sem dregin er upp af mannskepnunni í bókum Gyrðis fer dökknandi eftir því sem líður á 21. öldina. Að sama skapi magnast hugarvílið því með tillitsleysi í umgengni við dýr og náttúru er maðurinn smám saman að þurrka sjálfan sig út, grafa undan eigin tilvist. Myrkrið í huga hans er í örum vexti – á meðan sítrónuviðurinn brennur.
Árið 2015 kom út undir merkjum Dimmu Ljóðaúrval 1983-2012. Safnið er fyrirtaks byrjunarreitur fyrir þá sem ekki þekkja til ljóðlistar skáldsins og vilja kynna sér hana enda eru ljóðin vandlega valin og togað í meginþræði höfundarverksins. Ári síðar, 2016, sendi Gyrðir svo frá sér sína fimmtándu ljóðabók, Síðasta vegabréfið, samhliða smáprósasafninu Langbylgju. Fyrirheitið sem titillinn gefur, að hér sé lagt upp í hina hinstu för, er glettið villuljós því í samnefndu ljóði reynist orðið vegabréf notað í bókstaflegri merkingu – bréf ritað úti í vegkanti. Með titlinum snýr Gyrðir upp á lesandann og væntingar hans til bókarinnar með orðaleik en líkt og í Langbylgju spila slíkir leikir stórt hlutverk í ljóðunum. Bókin er gamansamari en verkin á undan og það er augljóst að form og inntak smáprósans hefur smitað ljóðaskrifin. Ekki svo að skilja hér sé tómt grín á ferð, í leiknum dylst oft hárfínt háð:
BANDARÍSKT LJÓÐ
heima og heiman
Gabbró er ekki steintegund
heldur falskur friður þess
sem situr á verönd í síð-
degissól með byssu sem
lögð er þvert yfir arma
ruggustólsins
Öllu meira fer þó fyrir snörpum athugasemdum við þá yfirborðsmennsku og sjálflægni sem gegnsýrir veröld samfélagsmiðla – veröld þar sem „Það sem er ekki ég / er ekki til“. „Um mannlega þekkingu“ tekur í skyldan streng og deilir á botnlausan áhuga samtímans á stundlegri frægð fremur en raunverulegri þekkingu á heiminum: „Við erum nærsýn / og glýjan í augunum / ólæknandi“. Hinn svokallaði hugsandi maður fær því litlu hærri einkunn en áður í ljóðum Gyrðis og lýtur klárlega í lægra haldi fyrir dýrunum, sem er talið fjölmargt til tekna í „Fáein atriði um yfirburði dýra“ – meðal annars það að „Þau geta horft á tré / án þess að hugsa um vélsög.“ Það er svo spurning hvort sú þekking sem maðurinn hefur umfram dýrin, meðvitund um eigin dauðleika, sé rótin að flóttanum inn í yfirborðskenndan sýndarheim? Í það minnsta er stutt í slíkar hugleiðingar hér:
EINS KONAR LÍFSGLEÐI
Við erum í leshring. Við lesum í rúnir
þeirra dauðu, á illa förnum legsteinum
í kirkjugörðum. Eftir því sem mosinn
og veðrunin er meiri, þess betra. Við
förum í nýjan garð í hverjum mánuði
og tökum myndir með símunum okkar,
sem við grandskoðum svo á notalegum
kvöldfundum, eftir að hafa varpað
þeim stækkuðum upp á vegg með
nýjustu tækni. Við erum svo fegin
að vera ekki dauð, að við tökum
andköf þegar steinarnir birtast
á veggnum.
Mörg af eftirminnilegri ljóðum bókarinnar sverja sig í ætt við smáprósann og víkja frá þeim meitlaða stíl sem yfirleitt einkennir ljóðagerð Gyrðis. „Forn-kóresk tákn á Norðurlandi“ er til dæmis heillandi og mystískur prósi sem hverfist um letur sem ljóðmælandi fær engan botn í. Fleiri ljóð fjalla um svipaða tregðu við að greina eða flytja merkingu með tungumálinu eða tjáskiptum. Orðaleikir tengjast slíkum skorti á skilningi eða misskilningi augljóslega en svo er það hitt, hvort það sé yfir höfuð einhverja merkingu að finna:
SÍÐASTA UPPGÖTVUNIN
Um leið og hann
skildi við allt,
skildi hann allt:
það var ekkert að skilja
bara vera
(og vera ekki)
En það var allt
of seint
Tvíræðnin sem flöktir milli lína þessa einfalda ljóðs býður lesandanum að taka afstöðu; líf okkar verður sannarlega dapurlegt ef við eyðum því í leit að merkingu sem einfaldlega er ekki til staðar; en er það í raun svo hræðilegt að tilvist okkar sé merkingarlaus? Er ekki allt eins gott að vera til fyrir því?
Af bleksvartri kápu Draumstols (2020) að dæma mætti reyndar ætla að skáldið hafi svarað þeirri spurningu neitandi, fyllt pennann af myrkri og sleppt þunglyndinu lausu á pappírnum. En þrátt fyrir svartnættið sem ríkir á kápunni er melankólían aðeins einn þeirra þráða sem spunnið er úr og einfaldlega hluti af lífinu, eins og tilvitnun í upphafi bókarinnar gefur í skyn:
Sársaukinn er eins og blóm
eins og þetta þarna,
eins og þetta hérna,
eins og þetta þarna,
eins og þetta hérna.
- Robert Creeley
Vísunin virðist undirstrika að sársaukinn sé hversdagsleg staðreynd sem blasi við hvert sem litið er, rétt eins og hvað annað, og í honum megi jafnvel greina einhverja fegurð. Myndmál bókarinnar ber slíkum samslætti fegurðar og sársauka oft vitni eins og sjá má í ljóðinu „Rennsli“ þar sem minningar ljóðmælanda fljóta eins og svartar vatnaliljur í köldu stöðuvatni hugans. Upphafslínur „Sönglaust“ eru annað dæmi og teikna upp nístandi tilveru þar sem fegurð og einsemd eru felld saman í heldur nöturlegri mynd: „Á fannbreiðunni, hér ofan við / grindverkið, liggja söngfuglarnir / alhrímaðir eftir óveðrið // Helfrosnar laglínur / innra með þeim“.
Inn á milli er slegið á mun léttari strengi og hreint ekki bannað að gera grín – ekki einu sinni að starfi ljóðskáldsins. Mörg sterkustu ljóð bókarinnar fjalla hins vegar á einn eða annan hátt um hversu illa manneskjan virðist í stakk búin til að skilja sjálfa sig og annað fólk. Í „Ferðalög“ er sálarlestin „yfirfull af fólki/sem þekkir ekki hvert/annað, og fæstir vita/einusinni hvert þeir/eru að fara“. Í „Draumar“ dreymir ljóðmælanda ýmist um að vera eða vera ekki hann sjálfur og í titilljóðinu „Draumstol“ er klifað á slíkum flótta frá sjálfum sér þar sem draumarnir snúast um að fara „Burt frá þessari þörf / fyrir að fara burt“. Ærið margt í skáldskap Gyrðis opinberar þá þversögn að vitneskjan um dauðann er furðulega lítill hvati til að hrista af sér andvaraleysið og umfaðma lífið, vera kvikur meðan það varir. Líkt og ljóðið „Biðstaða“ hnykkir á virðist tilvera mannsins oft fremur snúast um „að bíða / ekki alltaf eftir einhverju / sérstöku, heldur oftast / eftir öllu“. Og lífið flýtur hjá.
Þrátt fyrir þá næmu sýn sem ljóðmælendur og sögumenn Gyrðis jafnan hafa á veröldina eru þeir einatt því marki brenndir að horfa á heiminn en megna ekki að hreyfa við honum. Líkt og þeir hafi sæst á þá staðreynd að lífið sé þeim ofviða. Hvort sem sú afstaða er dregin húmorískum dráttum eða birtist sem dauðans alvara er hún ávallt skýr en laus við tilfinningasemi og ekki án samkenndar. Í heimi Gyrðis er einsemdin einfaldlega óumflýjanlegur fylgifiskur þess að vera til – kjarni þess að vera manneskja.
Lífselexír Gyrðis
Sá seiður sem Gyrðir Elíasson bruggar í verkum sínum er margslungin efnablanda. Öðrum þræði er hann höfundur sem vinnur einkar persónulega úr þjóðlegum arfi, listasögunni og heimsbókmenntunum en fjallar jafnframt um áleitin efni á áreynslulausan og hversdagslegan hátt. Í sögum hans og persónusköpun endurspeglast tengslaleysi og einsemd mannsins í yfirborðskenndum og grimmum heimi sem virðist vinna að því leynt og ljóst að tortíma sjálfum sér. En drykkur Gyrðis er töfradrykkur, ekki banvæn blanda, og í textum hans skín jafnan í gegn ást á undrum og fegurð þessa sama heims, lotning gagnvart sköpunarverkinu og lífinu í allri sinni stærð. Og í því liggur kannski einmitt aðdráttaraflið. Að lestri bóka hans loknum líður lesandanum í það minnsta eins og eitthvað hafi hent, að hann hafi orðið vitni að einhverju merkilegu, verið snortinn af töfrum. Höfundarverk Gyrðis er í öllu tilliti einstætt; skáldskaparheimurinn víðátta á lendum sem eru alfarið hans eigin; sjónarhornið og sýn hans á lífið óvænt og margbrotin – líkt og horft sé í kviksjá inn í innstu kima mannssálarinnar. Skáldskaparrödd hans er vitnisburður þess að í heimi fullum af hávaða er viskuna jafnan að finna í orðum þess sem hvíslar. Betra að leggja við hlustir. Því með verkum sínum er Gyrðir að segja eitthvað sem varðar okkur sem manneskjur, eitthvað um hvað það er að vera til – í dag sem og á öllum tímum. Að agnarsmátt málsvæði á mörkum hins byggilega heims eigi slíkan höfund er stór gjöf, bóluefni og vítamín - tímalaust smyrsl í sammannleg sár.
Hrafnhildur Þórhallsdóttir, nóvember 2022
*Gangandi íkorni var endurútgefin árið 2017 af Dimmu. Á innsíðum kápunnar er myndskreytt saga, handskrifuð af Gyrði aðeins fimm ára gömlum, sem síðar varð kveikjan að bókinni.
Greinar
Almenn umfjöllun
Auður Aðalsteinsdóttir: „Hleyptu því út, angistarópinu“
Spássían 2011, 2. árg. vor, bls. 6-8
Auður Aðalsteinsdóttir: „Pósthúmanískir draumar : karlar, konur og náttúra í listamannaþríleik Gyrðis Elíassonar“
Ritið 2020, 20. árg. 2. tbl., bls. 215-264
Áslaug Agnarsdóttir: „Gyrðir Elíasson (1961- )“
Icelandic Writers. Dictionary of Literary Biography, vol. 293, ritstj. Patrick J. Stevens, Detroit, Gale 2004, s. 116-124
Guðmundur Andri Thorsson: „Tónarnir berast orðtengdir. Um tónlist í verkum Gyrðis Elíassonar.“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 55-66
Gunnar Ágúst Harðarson: „Orðsending úr vetrarhríðinni. Rætt við Gyrði Elíasson“
Teningur, 3. árg., 4. tbl. 1987, s. 20-22
Halldór Guðmundsson: „Þankaflækja um Gyrði.“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 119-125
Helgi Þorgils Friðjónsson: „Birtuskuggar og glampar. Gyrðir og málaralistin“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 37-40
Ingunn Snædal: „Blámóður pípureykur. Um ljóðskáldið Gyrði Elíasson.“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 67-72
Jón Kalman Stefánsson: „Á svörtum vængjum inn í ljósið. Fram og aftur í ljóðum Gyrðis Elíassonar.“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar, 2010, s. 11-29
Jón Yngvi Jóhannsson: „Verönd sem var“ um einmana sögumenn í skáldsögum Gyrðis Elíassonar
Tímarit Máls og menningar, 80. árg., 4. tbl. 2019, s. 56-57
Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010.
Sveinn Yngvi Egilsson: „Gönguskáldið.“ Grein um göngur og ferðir í skáldskap Gyrðis.
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 99-118
Sveinn Yngvi Egilsson: „Gönguskáldið. Leiðir að ljóðum Gyrðis Elíassonar“
Í Sveinn Yngvi Egilsson: Náttúra ljóðsins. Umhverfi íslenskra skálda. Reykjavík, Bókmennta- og listfræðistofnun Háskóla Íslands og Háskólaútgáfan 2014, s. 209-230
Um einstök verk
Bak við maríuglerið
Ástráður Eysteinsson: „Brotgjörn augu. Skyggnst um í ljóðvistarverum Gyrðis Elíassonar“
Ljóðormur, 5. tbl., 1987, s. 38-55. Einnig í Ástráður Eysteinsson: Umbrot: bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, s. 295-309
Blindfugl/Svartflug
Gunnar Ágúst Harðarson: „Svefnleysið smíðar huganum vængi. Umsögn um Blindflug/Svartflug“
Tímarit Máls og menningar, 48. árg., 2. tbl. 1987, s. 245-248
Ástráður Eysteinsson: „Brotgjörn augu. Skyggnst um í ljóðvistarverum Gyrðis Elíassonar“
Ljóðormur, 5. tbl., 1987, s. 38-55. Einnig í Ástráður Eysteinsson: Umbrot: bókmenntir og nútími. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1999, s. 295-309
Bréfbátarigningin
Ástráður Eysteinsson: „Myndbrot frá barnæsku. Í tilefni af sögum Gyrðis Elíassonar“
Skírnir, 164. árg., 1990, s. 470-494. Einnig í Ástráður Eysteinsson: Umbrot : bókmenntir og nútími, s. 180-207. Reykjavík : Háskólaútgáfan, 1999
Guðrún Eva Mínervudóttir: „Neðansjávarbirta“
Í Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 31-35
Svanhildur Óskarsdóttir: „Bréfbátarigningin“
Í Ástráður Eysteinsson (ritstj.): Heimur skáldsögunnar. Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun H.Í. 2001, s. 285-291
Draumstol
Árni Davíð Magnússon: „Gyrðir Elíasson. Draumstol“ (ritdómur)
Són, 18.árg. 1. tbl. 2020 s.129-131
Dulstirni
Soffía Auður Birgisdóttir: „Skilaboð berast gegnum járnlokið : Gyrðir Elíasson. Dulstirni“ (ritdómur)
Són, 21. árg. 1. tbl. 2023, s. 220-222
Flautuleikur álengdar. Ljóðaþýðingar eftir Gyrði Elíasson
Úlfhildur Dagsdóttir: „Póstkort og landakort, eða er dauðinn eins og hundur?“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Gangandi íkorni
Ástráður Eysteinsson: „Myndbrot frá barnæsku. Í tilefni af sögum Gyrðis Elíassonar“
Skírnir, 164. árg., 1990, s. 470-494. Einnig í Ástráður Eysteinsson: Umbrot : bókmenntir og nútími, s. 180-207. Reykjavík : Háskólaútgáfan, 1999
Valgerður Brynjólfsdóttir: „Ugla sat á kvisti. Um Gangandi íkorna og Næturluktina eftir Gyrði Elíasson.“
Eftirmáli í Gyrðir Elíasson: Gangandi íkorni og Næturluktin. Reykjavík: Mál og menning, 2006. S. 190-214
Gula húsið
Kirsten Wolf: „Gula húsið“
World Literature Today, 76, 2002, s. 194-195
Terje Holtet Larsen: „Den rasende og den lavmælte / The Irate and the Calm“ (Um Gula húsið og Heimsins heimskasti pabbi e. Mikael Torfason)
Nordisk litteratur 2002, s. 54-58
Haugrof
Sigurbjörg Þrastardóttir: „Höfuð Gyrðis. Hellaskoðun í ljóðasafni frá 1987.“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 85-97
Heykvísl og gúmmískór
Kristján B. Jónasson: „Tvær bækur frá Gyrði“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 1. tbl. 1992, s. 105-110
Hér vex enginn sítrónuviður
Kolbrún Lilja Kolbeinsdóttir: „Af tegundahroka og annarri ólukku“ (ritdómur)
Spássían 2012, 3. árg. sumar, bls. 33.
Úlfhildur Dagsdóttir: „Hér vex enginn sítrónuviður“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur
Hótelsumar
Úlfhildur Dagsdóttir: „Gyrðir tvífundinn“ (Um Hótelsumar og Tvífundnaland)
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur 2003, sjá hér
Þórunn Hrefna Sigurjónsdóttir: „Endurfundir við einsemdina“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 2. tbl. 2004, s. 112-116
Hugarfjallið
Guðbjörn Sigurmundsson: „Ljár sem fellir augngrös“
Tímarit Máls og menningar, 61. árg. 3. tbl. 2000, s. 125-128
Indíánasumar
Haukur Hannesson: „Ljósin heima“
Tímarit Máls og menningar, 58. árg., 3. tbl. 1997, s. 108-111
Jón Karl Helgason: „Mynstrið í gólfteppinu, mosavaxið letur“
Í Þórðarfögnuður, haldinn í tilefni fimmtugsafmælis Þórðar Helgasonar 5. nóvember 1997 af samstarfsfólki hans og vinum. Reykjavík, 1997, s. 49-52
Kvöld í ljósturninum
Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: „ „Nema í sögu / og huga“ : um tengsl manna og frásagna og fáein verk Gyrðis Elíassonar“
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 4. tbl. bls. 24-30.
Kristján B. Jónasson: „Mótsögn, ráðgáta, von“
Tímarit Máls og menningar, 57. árg., 3. tbl. 1996, s. 125-129
Meðan glerið sefur
Soffía Auður Birgisdóttir: „Andað með sólinni“ (ritdómur)
Són, 21.árg., 1.tbl., s. 220-224
Milli trjánna
Auður Aðalsteinsdóttir: „Hleyptu því út, angistarópinu“
Spássían 2011, 2. árg. (vor), s. 6-8
Magnús Sigurðsson: „Að geta séð drauma sína : um systrabækurnar Milli Trjánna og Nokkur almenn orð um kulnum sólar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 4. tlb. bls. 113-21.
Rúnar Helgi Vignisson: „Smáfuglar fagrir : staldrað við nokkrar smásögur frá liðnum árum“
Spássían 2011, 2. árg., vetur, bls. 36-39.
Þröstur Helgason: „Girðingar : um smásöguna „Milli trjánna„ eftir Gyrði Elíasson“
Tímarit Máls og menningar 2011, 72. árg., 4. tlb. bls. 31-42.
Mold í Skuggadal
Eysteinn Þorvaldsson: „Hugarganga. Kynnisferð um ljóðabækur fjögurra skálda“
Skírnir, 167. árg., vor 1993, s. 259-274
Sveinn Yngvi Egilsson: „Með náttblindugleraugun“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 1. tbl. 1993, s. 109-112
Nokkur almenn orð um kulnum sólar
Magnús Sigurðsson: „Að geta séð drauma sína : um systrabækurnar Milli Trjánna og Nokkur almenn orð um kulnum sólar“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2010, 71. árg., 4. tlb. bls. 113-21.
Steinunn Ásmundsdóttir: „Nokkur almenn orð um kulnum sólar. Ljóð“ (ritdómur)
Glettingur 2010, 20. árg., 3. tbl. bls. 48-50.
Næturluktin
Valgerður Brynjólfsdóttir: „Ugla sat á kvisti. Um Gangandi íkorna og Næturluktina eftir Gyrði Elíasson.“
Eftirmáli í Gyrðir Elíasson: Gangandi íkorni og Næturluktin. Reykjavík: Mál og menning, 2006. S. 190-214
Ógæfusama konan (þýðing Gyrðis á skáldsögu Richards Brautigan, An Unfortunate Woman)
Fríða Björk Ingvarsdóttir: „Heimurinn handan orðanna.“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 41-54
Pensilskrift
Sigríður Albertsdóttir: „Það sem ég hafði gert og hafði ekki ætlað að gera“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar. 84. árg., 3. tbl. 2023, bls. 97-99
Sandárbókin
Guðmundur Andri Thorsson: „Sagan eftir söguna.“
Tímarit Máls og menningar, 69. árg., 4. tbl. 2008, s. 111-115
Hermann Stefánsson: „Myndkveikjur.“
Í Magnús Sigurðsson (ritstj.): Okkurgulur sandur. Tíu ritgerðir um skáldskap Gyrðis Elíassonar. Akranes, Uppheimar 2010, s. 73-84
Kormákur Bragason: „Bókmenntaspjall“
Stína, 3. árg., 2. tbl. 2008, s. 123-134
Úlfhildur Dagsdóttir: „Skógarlíf“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Sorgarmarsinn
Marianna Clara Lúthersdóttir: „Tregafullt undirspil við lífið“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Steintré
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Gestagangur“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur 2005, sjá hér
Jón Kalman Stefánsson: „Skáldskapur er ekki kanínur upp úr hatti“
Skírnir, 180. árg. 2006 (vor), s. 225-231
Steinunn Inga Óttarsdóttir: „Annars verð ég víst alltaf einn“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 4. tbl. 2006, s. 118-121
Suðurglugginn
Auður Aðalsteinsdóttir: „Daufir karlar með sölnaða ritvélarborða“
Spássían 2013, 4. árg., vor/sumar, bls. 16-22.
Gunnþórunn Guðmundsdóttir: „Dagbók höfundar“
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur, sjá hér
Ingi Björn Guðnason: „Niðurbælt pólitískt öskur“ (ritdómur)
Tímarit Máls og menningar 2013, 74. árg., 4. tbl. bls. 135-40.
Svefnhjólið
Einar Falur Ingólfsson: „Af draugum og sérlunduðum drengjum. Hugað að sögum eftir Gyrði“
Skírnir 165. árg., haust 1991, s. 505-524
Ástráður Eysteinsson: „Mylluhjólið. Um lestur og textatengsl“
Tímarit Máls og menningar, 54. árg., 4. tbl. 1993, s. 73-85
Friedhelm Rathjen: „Ein bischen Roman“
Í Tintenkurs Nordwest: mit der Lesefähre durch Golfstromeuropa: Holland, England, Wales, Irland, Schottland, Dänemark, Färöer, Island. Scheeßel, Edition ReJoyce, 2006, s. 150-151
Hugrún Ragnheiður Hólmgeirsdóttir: „Á svefnhjóli um lendur hugans. Um Svefnhjólið eftir Gyrði Elíasson“
Mímir, 32.-33. árg., 41. tbl. 1994, s. 70-77
John Erik Riley: „Gjenopplivet: irritasjon og glede, liv og död í Sövnhjulet av Gyrðir Elíasson“
Vinduet, 54. árg., 2000, s. 34-37
Robert Zola Christensen: „Sömnhojen“
Gardar 1993, årsbok 24. Lund: Walter Ekstrand, s. 47-48
Verena Stössinger: „Das Isländische am Isländischen: über Steinunn Sigurðardóttirs Der Zeitdieb und Gyrðir Elíassons Das Schlafrad“
Í Literarische Reise um die Welt: Island. Baden: Buchhandlung Librium, 1999, s. 22-23
Tregahornið
Kristján B. Jónasson: „Fegurð heimsins mun hverfa“
Tímarit Máls og menningar, 65. árg., 4. tbl. 1993, s. 103-108
Tunglið braust inn í húsið : ljóðaþýðingar
Hermann Stefánsson: „Úr húsinu eins og þar er umhorfs eftir vellukkað innbrot“ (ritdómur)
Spássían 2011, 2. árg. vor, bls. 9.
Tvíbreitt (svig)rúm
Pétur Gunnarsson: „Tvíbreitt (svig)rúm“
Tímarit Máls og menningar, 46. árg., 2. tbl. 1985, s. 256-258
Tvífundnaland
Úlfhildur Dagsdóttir: „Gyrðir tvífundinn“ (Um Hótelsumar og Tvífundnaland)
Bókmenntavefurinn, umfjöllun um bækur 2003, sjá hér
Upplitað myrkur
Böðvar Guðmundsson: „Skógar og draumsýnir“
Tímarit Máls og menningar, 67. árg., 2. tbl. 2006, s. 124-127
Helgi Hallgrímsson: „Ríkuleg uppskera af ljóðabókum“
Glettingur, 16. árg., 1. tbl. 2006, s. 49-50
Vetraráform um sumarferðalag
Kristján B. Jónasson: „Vetraráform um sumarferðalag“
Tímarit Máls og menningar, 53. árg., 1. tbl. 1992, s. 109-110
Brot úr greinum
Úr „Brotgjörn augu“
Hrollvekjan er grunntónn í þeim heimi sem ljóðin í Bak við maríuglerið mynda. Ég á ekki einungis við þær hrollvekjandi svipmyndir sem brugðið er upp í einstökum ljóðum, heldur er heildarsvið ljóðabókarinnar markað hrollvekjunni sem sérstakri „fagurfræðigrein“, nánar tiltekið hinni rómantísku hrollvekju sem á erlendum málum er kennd við gotneskan stíl (sbr. hugtakið „the Gothic“ á ensku). Í Bakvið maríuglerið birtast okkur klassísk tákn þessarar hrollvekju, svosem leðurblakan og kastalar (eitt vistarveruafbrigði skáldsins), en ekki þó í þeim tilgangi að skapa sögusvið fyrri alda, heldur eru þessi tákn hluti af nútímaveruleika og heimsmynd ljóðanna.
Það er því á sinn hátt rökrétt að í Blindfugl/svartflug leitist Gyrðir við að skapa úr þessu sambýli nútímalífs og gotneskrar hrollvekju heild sem fær staðist sem eins konar goðsagnaheimur. Í næturhúmi vistarverunnar brestur á „[...] tími strásópa og uglurnar / þenja flikróttan væng samhliða / leðurblökum“, auk þess sem „Kopargræn turnþök lýsa í fölnandi / skini frá gasluktinni stóru“ (l. 22-26).
Heildstæðni jafnt sem margbreytileiki þessa heims grundvallast á samspili hins hversdagslega skálds sem þreyjir inniveru sína og blindfuglsins sem ferðast um ýmis svið tíma og rúms. Þetta goðsögulega samspil setur Gyrði ekki eins þröngar skorður og ætla mætti, því litlar sem engar hömlur eru á þeim hamskiptum sem sjónarsviðið getur tekið. Hinsvegar getur maður gert ákveðnar kröfur um persónusköpun í svona ljóðbálki sem vart verða gerðar til venjulegs ljóðakvers. Ljóðmælandi Gyrðis er nú „persóna“ í alllöngu skáldverki og verður að standast sem slíkur – og það gerir hann. Þegar ljóðbálkur sem þessi er gefinn út sem sjálfstætt verk beinist athygli lesandans sérstaklega að innra samhengi hans og heildstæðni. Þegar svo vel tekst til sem hér er raunin, skapar samfella hinna ýmsu ljóðkafla fyllri ljóðheim en við eigum að venjast; til verður gleggri heimsmynd sem þó er miðlað með persónulegum tjáningarmáta og þannig sett fram lífsskoðun sem er skarpari og meira ákallandi en safn sundurlausari ljóða í bók. (s. 305-306)
– Sjá Ástráður Eysteinsson: „Brotgjörn augu.“
Úr „Myndbrot frá barnæsku“
Sögur Gyrðis eru „smábókmenntir“, jaðarskáldskapur, í ýmsum skilningi, hvort heldur er litið til tungumáls, sögusviðs, persónusköpunar eða þess sagnaforms sem hann vinnur með. Hann hefur virt að vettugi ríkjandi væntingar um þær skáldsagnaformgerðir sem auðveldast hafa átt uppdráttar. Eftir að borgin hefur (loksins) „slegið í gegn“ sem sögusvið íslenskrar sagnalistar, fer Gyrðir aftur með okkur út á land, ekki til að upplifa gömlu sveitamenninguna enn á ný, heldur til að við getum kannað hvort enn megi finna mannveru sem ekki er orðin óforbetranleg félagsvera, dösuð af skarkala fjölmiðla, stofnana og þéttbýlis. En þessi mannvera stendur ekki þarna fullmótuð; við leitum hennar á jaðri menningarinnar, í bernskunni, í dýrinu. Og við reynum að festa hendur á henni í glímunni við þá einkennilegu söguvitund sem býr í þessum textum. Við hlustum á þessa rödd, þetta einkennilega skrjáf. Hver er þar fyrir? Kónguló eða dádýr? (s. 206-207)
– Sjá Ástráður Eysteinsson: „Myndbrot frá barnæsku.“
Úr „Af draugum og sérlunduðum drengjum“
Gyrðir Elíasson er rithöfundur tveggja heima, og það einkennir hann kannski frekar en nokkuð annað. Hann er höfundur þeirra andans grunsemda sem naglfesta ekki tilveruna innan einhverra ákveðinna vitundarmarka, tilvist hans – eða sögupersóna hans – er tveggja heima. Strax í fyrstu ljóðabókinni, Svarthvítum axlaböndum frá 1983, er ljóðmælandinn orðinn „skiptinemi í undralandi“, og Gyrðir þroskar þá sýn eftir því sem ljóðum og bókum fjölgar; oft eru einhverskonar skil milli þess sem talar og umhverfisins.
Tveir heimar – í þeirri merkingu að eitthvert eða einhver svið lífs liggi utan við það sem við höfum stimplað okkur inn í með rökbundinni hugsun – birtast fyrst að ráði í Bréfbátarigningunni. Í Gangandi íkorna er rétt ýjað að myrkfælni og sögum af draugum og verum annars heims; meira er ekki gert með það: „Rökkrið gerir flíkurnar uggvænlegar. Peysur blakta ermum hvolfhengdar, höfuðleysið vekur upp sögur af draugum“ (bls. 43). Í Bréfbátarigningunni opnast tilverusviðin hinsvegar allt í kringum mannheiminn: Hafið er gríðarstór og dimm veröld hvasstenntra skrímsla, fullt af ógn, og draugar og afturgöngur eru mættar til leiks. Þær eru raunverulegar og líkamnaðar; láta sér ekki nægja að vera sögur innan sagna, heldur taka virkan þátt sem persónur. Drukknaðir fransmenn sveima um í einni sögunni og stela meira að segja dagbókarblöðum, og þá er afturgenginn afi á ferðinni í tveimur öðrum sögum; hann lendir jafnvel í ryskingum við einn sögumanninn.
Þessi þróun heldur áfram í Svefnhjólinu. Sagan sú er krökk af vísunum í undir- og yfirheimalíf, og kemur ekki á óvart, því að sögumaður og aðalpersónan er sjálfur draugur. Ekkert er eðlilegra. Varðandi eðli drauga og þessháttar fyrirbæra sækir Gyrðir mikið í allskyns þjóðsagnir og þjóðtrú, og tengir það síðan við hugmyndir sínar og textann.
– Sjá Einar Falur Ingólfsson: „Af draugum og sérlunduðum drengjum.“
Verðlaun
2024 - Sænsku Tranströmer verðlaunin
2023 - Maístjarnan: Meðan glerið sefur / Dulstirni
2023 - Bókmenntaverðlaun starfsfólks bókaverslana: Meðan glerið sefur / Dulstirni
2015 – Íslensku þýðingarverðlaunin: Listin að vera einn
2012 – Íslensku þýðingarverðlaunin: Tunglið braust inn í húsið
2011 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Milli trjánna
2000 – Bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness: Gula húsið
2000 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Gula húsið
1998 – Bjartsýnisverðlaun Bröste
1997 – Menningarverðlaun DV: Indíánasumar
1995 – Rithöfundasjóður Ríkisútvarpsins
1989 – Stílverðlaun Þórbergs Þórðarsonar
Tilnefningar
2024 - Íslensku þýðingaverðlaunin: Grafreiturinn í Barnes
2022 - Prix Médicis: Sorgarmarsinn - saga (Requiem)
2021 - Maístjarnan: Draumstol
2018 – Íslensku þýðingarverðlaunin: Sorgin í fyrstu persónu
2012 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Suðurglugginn
2009 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Milli trjánna
2003 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Tvífundnaland
2002 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Gula húsið
1997 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Vatnsfólkið
1996 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Indíánasumar
1992 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Mold í Skuggadal
1991 – Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Bréfbátarigningin
1990 – Íslensku bókmenntaverðlaunin: Svefnhjólið
1989 – Evrópsku smásagnarverðlaunin: „Konan með grösin„. Tregahornið, s. 24-27
Bréfbátarigningin
Lesa meiraBréfbátarigningin er með fyrstu prósaverkum Gyrðis Elíassonar, kom út árið 1988 og var tilnefnd til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs tveimur árum síðar. Sögur verksins eru fjórar og mynda sagnasveig þar sem andrúmsloftið er sveipað rómantískri hulu bernskusýnar og nostalgíu; það er hversdagslegt og á tíðum kómískt en um leið draumkennt, undarlegt og stundum ógnvekjandi.Hótelsumar
Lesa meiraSkáldsaga sem var einskonar forsmekkur að hinum rómaða þríleik, Sandárbókinni, Suðurglugganum og Sorgarmarsinum. Í Hótelsumri snýr sögumaður aftur á heimaslóðir eftir erfiðan skilnað og reynir að ná sambandi við sjálfan sig að nýju. Bókin hefur lengi verið ófáanleg en kemur nú út í nýrri ritröð af verkum höfundarins.Sandárbókin - pastoralsónata
Lesa meiraEin vinsælasta saga höfundarins, sterk og áleitin, þar sem ótal kenndir og tilfinningar krauma undir sléttu yfirborðinu. Málari sem hefur sest að í hjólhýsabyggð ætlar að einbeita sér að því að mála tré, en dvölin er þó öðrum þræði hugsuð til að öðlast hugarró eftir ýmis áföll í lífinu. Bókin kom fyrst út árið 2007. Útgáfan er hluti af nýrri ritröð bóka Gyrðis Elíassonar.Ljóðasafn I : 1983-1986
Lesa meiraFimm fyrstu ljóðabækur Gyrðis, sem hafa verið ófáanlegar um áratuga skeið, eru hér saman komnar í einu bindi og marka upphafið að vönduðum endurútgáfum á verkum skáldsins .Dulstirni / Meðan glerið sefur : Ljóðatvenna
Lesa meiraFjörutíu ár eru liðin frá því fyrsta ljóðabók Gyrðis, Svarthvít axlabönd, kom út. Í þessari ljóðatvennu birtast rúmlega 200 ný ljóð.
Í landi sársaukans
Lesa meiraAlphonse Daudet (1840-1897) var einn þekktasti rithöfundur Frakka á ofanverðri nítjándu öld, einkum fyrir smásögur, skáldsögur og leikrit. Nú á tímum eru mörg af verkum hans fallin í gleymsku, en þó ekki hið sígilda Bréf úr myllunni minni sem kom út á íslensku fyrir margt löngu og svo þessi sérstæða bók, Í landi sársaukans, sem birtist fyrst mörgum áratugum eftir lát höfundarins. Um er að ræða einskonar dagbókarskrif þar sem hann lýsir líðan sinni og í raun áralangri baráttu við banvænan sjúkdóm. Þýðing og inngangur eftir Gyrði Elíasson.Grafreiturinn í Barnes
Lesa meiraÞessi stutta skáldsaga gerist á þremur ólíkum sviðum. Gyrðir Elíasson íslenskaði.Sorgin í fyrstu persónu
Lesa meiraBirtan yfir ánni
Lesa meiraLíf á meðal villimanna
Lesa meiraListin að vera einn
Lesa meiraHvernig ég kynntist fiskunum
Lesa meiraTunglið braust inn í húsið
Lesa meira